Matarkarfan, eins og hún mælist í vísitölu neysluverðs, hefur hækkað um 6,3% það sem af er ári. Meðal annars komu þrír mánuðir í röð (apríl, maí og júní) þar sem hún hækkaði um eða yfir 1% milli mánaða.

 21. september 2020

V ísitala neysluverðs mælir verðbreytingar á tilteknu safni af vörum og þjónustu. Vægi einstakra liða er ákvarðað út frá rannsókn sem Hagstofan framkvæmir á útgjöldum heimilanna og á vísitalan því að endurspegla útgjöld dæmigerðs íslensks heimilis.

Heimilin verja tæplega 15% af útgjöldum sínum í mat og drykkjarvörur

Síðasta uppfærsla er frá mars á þessu ári og byggir á rannsóknum á útgjöldum heimilanna fyrir þriggja ára tímabilið 2016-2018. Samkvæmt henni vörðu heimilin að meðaltali 14,8% af útgjöldum sínum í mat og drykkjarvörur. Inni í þessu er ekki matur sem neytt er utan veggja heimila, en um 4% af útgjöldum heimilanna voru á veitinga- og kaffihúsum og 0,8% í mötuneytum.

Stærstu útgjaldaliðirnir í matarkörfunni eru kjöt (19%), mjólk, ostar og egg (18%), brauð og kornvörur (15%) og sykur, súkkulaði, sælgæti o.fl. (9%).

Matur og drykkjarvörur hafa hækkað meira en almennt verðlag í ár

Matarkarfan, eins og hún mælist í vísitölu neysluverðs, hefur hækkað um 6,3% síðan í desember í fyrra. Meðal annars komu þrír mánuðir í röð vor (apríl, maí og júní) þar sem hún hækkaði um eða yfir 1% milli mánaða.

Þetta er nokkur breyting frá 2019, en matarkarfan hækkaði einungis um 1,1% það ár. Krónan var nokkuð stöðug 2019, en hefur veikst í ár, sem væntanlega skýrir að miklu leyti mun á þróuninni í ár og í fyrra.

Hækkun á mat og drykkjarvörum í ár er mun meiri en á almennu verðlagi, en vísitala neysluverðs hefur hækkað um 2,5% síðan um áramót. Það þarf hins vegar að hafa í huga varðandi samanburð verðþróunar á matvælum og öðrum vörum að veltan er mun meiri á matvælum. Einnig er innkaupaverð yfirleitt hærra hlutfall af verði matvæla en annarra vara almennt. Þannig er ekkert óeðlilegt að þegar krónan veikist, eins og það sem af er ári, komi það fyrr og með meira þunga fram í verði á matvörum en í öðrum vörum.

Mjög misjöfn þróun

Séu mismundi undirliðir skoðaðir sést að verðþróun hefur verið mjög misjöfn í ár.

Grænmeti, kartöflur og fleira hefur hækkað um 11,2% síðan um áramót sem skýrist að miklu leyti af því að kartöflur hafa hækkað um 23,4%. Olíur og feitmeti hafa hækkað um 9,9% meðal annars vegna þess að smjör hefur hækkað um 12,4%. Ávextir hafa hækkað um 9,3%, en epli hafa hækkað um 30,3%, appelsínur 19,5% og bananar um 8,8%.Á hinum endanum hefur fiskur einungis hækkað um 3,1% síðan um áramót. Gosdrykkir, safar og vatn hafa hækkað um 3,6% síðan um áramót, en vatn hefur bara hækkað um 0,2%, gosdrykkir um 2,3% og ávaxtasafar um 7,9%.

Vísitalan segir ekki alla söguna

Eins og kom fram að ofan þá er vægi einstakra liða í vísitölu neysluverðs ákvarðað út frá rannsókn á útgjöldum heimilanna og er hún stillt af í mars á hverju ári. Milli þess breytist vægi einstakra liða eftir verðbreytingum miðað við að heimilin kaupa jafn mikið magn. Þannig eykst vægi þeirra vara sem hækka í verði umfram aðrar vörur.

Útreikningar á vísitölunni taka hins vegar ekki inn staðkvæmdarvörur. Þannig má ætla að ef að epli eða kartöflur hækka um tugi prósenta munu fólk kaupa í staðinn aðra ávexti og grænmeti. Þannig er líklegt að þó að matarkarfan eins og hún er í vísitölu neysluverðs hafi hækkað um 6,3% síðan um áramót sé líklegt að matarútgjöld dæmigerðs heimilis hafi ekki hækkað alveg jafn mikið.