Vextir á íbúðalánum hafa lækkað á undanförnum misserum. Margir gætu því haft hag af því að endurfjármagna lánin en ýmislegt þarf að hafa í huga þegar endurfjármögnun er skoðuð.

20. maí 2020

Vaxtalækkunin getur skipt íbúðareigendur miklu máli, því vextir á íbúðalánum eru að öllum líkindum lægri nú - jafnvel umtalsvert lægri - en þeir voru þegar íbúðin var keypt. Í þessari grein er fjallað um nokkur atriði sem þarf að hafa í huga þegar hugað er að endurfjármögnun.


Hvernig lítur gamla lánið út?

Fyrsta skrefið er að skoða lánið sem þú ert að greiða af núna. Hvaða vexti ber lánið? Ef vextirnir eru svipaðir þeim vöxtum sem bjóðast núna - eða jafnvel lægri - þá er líklegast ekki tímabært að endurfjármagna.

Eru vextirnir bundnir eða breytilegir? Breytilegir vextir hækka og lækka í takt við sveiflur á markaði og efnahagsástand. Ef vextir hækka þá hækka afborganir af láninu. Ef vextir á láninu eru breytilegir hafa þeir lækkað undanfarið og því getur endurfjármögnun verið ónauðsynleg.

Með föstum vöxtum bindur þú vextina í tiltekinn tíma, t.d. í þrjú eða fimm ár, og tryggir þig fyrir vaxtasveiflum, en getur þá staðið frammi fyrir því núna að vextir á íbúðaláninu þínu eru hærri en þeir vextir sem nú bjóðast.


Uppgreiðslu- og lántökugjald?

Þarf að borga uppgreiðslugjald? Í skilmálum sumra lánasamninga er kveðið á um uppgreiðslugjald, sem gerir það dýrara fyrir lántaka að greiða upp lánið og gerir endurfjármögnun því ekki eins hagkvæma. Ef ekki þarf að greiða uppgreiðslugjald er endurfjármögnun álitlegri kostur en ella.

Í flestum tilvikum þarf að greiða fast lántökugjald af íbúðalánum. Hjá Landsbankanum er lántökugjaldið nú 52.500 krónur og er það óháð fjölda lána sem tekin eru vegna íbúðakaupanna. Einnig þarf að hafa í huga kostnað við greiðslumat og þinglýsingu.


Hvenær viltu verða skuldlaus?

Lengi vel voru nær öll íbúðalán til 40 ára, en nú eru valmöguleikarnir miklu fleiri. Með því að stytta lánstímann eða taka lán til styttri tíma greiðir lántaki hraðar upp höfuðstól lánsins, eignamyndun verður hraðari og endanleg endurgreiðslufjárhæð lægri. Mánaðarlegar afborganir eru á hinn bóginn hærri, enda greiðist lánið hraðar upp.

Með því að huga að þessum þáttum við lántökuna er hægt að spara háar fjárhæðir. Þegar fólk lætur af störfum, byrjar að taka út lífeyri og tekjurnar minnka, getur verið gott að hafa greitt upp íbúðalánin og búa í skuldlausu húsnæði.

Það er auðvelt að bera saman mismunandi kosti og sjá kostnað við lántöku í íbúðalánareiknivél Landsbankans.


Verðtryggt eða óverðtryggt?

Miklu máli skiptir hvort valið er verðtryggt eða óverðtryggt lán. Kostir verðtryggðra lána eru lægri vextir sem þýðir að mánaðarlegar afborganir eru lægri. Ókostir verðtryggðra lána eru hins vegar hægari eignamyndun og verðbætur sem falla á lánið vegna verðbólgu. Meginkostur óverðtryggðra lána er hraðari og tryggari niðurgreiðsla höfuðstóls sem leiðir af sér hraðari eignamyndun, sé tekið mið af stöðugum fasteignamarkaði. Á móti kemur að óverðtryggðum lánum fylgja hærri mánaðarlegar afborganir.


Pantaðu ráðgjöf

Lánakjör eru mjög mismunandi eftir lánveitendum og tegundum lána. Mikilvægt er að kynna sér hvaða kjör eru í boði og meta út frá því hvernig best hentar að endurfjármagna lán. Í íbúðalánareiknivél Landsbankans getur þú reiknað út greiðslubyrði, afborganir og kostnað ólíkra tegunda íbúðalána. Auðvelt er að bera saman ólíka lánakosti, meðal annars ólíka blöndun verðtryggðra og óverðtryggðra lána, allt eftir því sem á við.

Þú getur alltaf pantað tíma til að fara yfir stöðuna. Sérfræðingar bankans aðstoða þig við að finna svör við þeim spurningum sem vakna í ferlinu og hjálpa þér að komast að niðurstöðu sem hentar þér og þínum aðstæðum.

Greinin hefur verið uppfærð.