Fjármál heimilisins

Rífleg kauphækkun fyrir þá sem hjóla

Það er ekki nóg með að þeir sem hjóla í vinnuna, fremur en að keyra, verði heilsuhraustari, fallegri, snjallari og hamingjusamari heldur verða þeir líka ríkari. „Kauphækkunin“ sem hægt er að næla sér í með því að leggja bílnum og hjóla er meiri en kauphækkunin sem samið var um á almennum vinnumarkaði í ár. Og ef hægt er að selja bílinn og hjóla í staðinn getur kauphækkunin hæglega numið tugum prósenta.

23. apríl 2014  |  Rúnar Pálmason

Það er ekki nóg með að þeir sem hjóla í vinnuna, fremur en að keyra, verði heilsuhraustari, fallegri, snjallari og hamingjusamari* heldur verða þeir líka ríkari. „Kauphækkunin“ sem fylgir því að leggja bílnum og hjóla til og frá vinnu er meiri en samið var um á almennum vinnumarkaði í vor. Og ef bíllinn er seldur og hjólað í staðinn getur kauphækkunin numið tugum prósenta.

Vorið er komið, átakið Hjólað í vinnuna er um það bil að rúlla af stað og því er upplagt að fara aðeins yfir hjólreiðahagfræðina. 

Allir þurfa að borða, greiða leigu eða af fasteignalánum, borga fyrir símann, tómstundir og svo framvegis. Svigrúmið til að skera niður föst útgjöld svo um munar er oft lítið. Einkabíllinn liggur á hinn bóginn vel við höggi enda eru bílar afar dýrir í rekstri.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur reiknað út að kostnaður við rekstur á bíl sé um 100.000 krónur á mánuði. Þetta er lægsta upphæðin sem FÍB gefur upp og miðar við nýjan bíl sem kostar 2,8 milljónir. Reiknað er með að bíllinn hafi verið staðgreiddur en gert er ráð fyrir kostnaði við að hafa fjármagn bundið í bílnum. Kostnaðurinn eykst síðan eftir því sem bíllinn er dýrari, þyngri og eyðslufrekari.

Sparnaður við að hjóla - á mánuði**
(500.000 kr. í heildarlaun)
  Ráðstöfunar-tekjur eftir skatta Sparnaður við að hjóla í vinnu Ráðstöfunar-tekjur með sparnaði Heildarlaun þyrftu að hækka í Kaup-
hækkun
Miðað við greiðslur fjárm.ráðun.
- bíll hvíldur

346.822

21.566 368.388 537.000 7,4%
Miðað við útreikninga FÍB
- nýr bíll hvíldur
346.822 11.008 357.830 519.000 3,8%
Miðað við útreikninga FÍB
- gamall bíll hvíldur
346.822 8.808 355.630 515.000 3,0%
Miðað við útreikninga FÍB
- nýr bíll seldur
346.822 96.258 443.080 667.000 33,4%
Miðað við útreikninga FÍB
- gamall bíll seldur
346.822 68.183 415.005 618.000 23,6%

Margir bíleigendur malda í móinn þegar þeir sjá þessar tölur og segja að reksturinn á bílnum þeirra kosti nú ekki svona mikið. FÍB miðar við að bíllinn rýrni í verði um 13% á ári (364.000 krónur fyrsta árið) og sjálfsagt má deila um hver rýrnunin er í raun og veru. En jafnvel þótt bíllinn sé gamall, afskriftirnar ekki miklar og fjármagnskostnaðurinn enginn er kostnaðurinn verulegur. Þeir sem efast geta kíkt á útreikninga FÍB.

Meiri kauphækkun en flestir geta samið um í launaviðtali

Í töflunni er sparnaðurinn reiknaður út frá nokkrum mismunandi forsendum. Meðal annars er stuðst við forsendur sem eru notaðar í ársgamalli B.Sc ritgerð Jónatans Atla Sveinssonar í viðskiptafræði við HÍ sem fjallar um ráðstöfunartíma vegna ferða til og frá vinnu. Morgunblaðið skrifaði frétt um ritgerðina í fyrra. Ég skrifaði reyndar fréttina, á meðan ég var blaðamaður á Mogganum.

Í töflunni koma fram útreikningar mínir á því hver sparnaðurinn er við að hjóla til og frá vinnu. Þar er miðað við greiðslur sem opinberir starfsmenn fá frá fjármálaráðuneytinu fyrir akstur vegna starfs síns. Ég reiknaði líka út hvað hægt er að spara með því að hvíla bílinn og hjóla í vinnuna. Einnig með því að selja bílinn (hvort sem hann er gamall eða nýr) og hjóla í staðinn. Í öllum tilvikum er um verulegan sparnað að ræða. Sá sem selur nýlegan bíl getur aukið ráðstöfunartekjur sínar um rúmlega 96.000 krónur á mánuði. Fyrir launþega sem er með 500.000 krónur í mánaðarlaun jafngildir það 33,4% launahækkun og að heildarlaunin hafi hækkað í 667.000 krónur. Fæstir geta kríað út slíka launahækkun, alveg sama hversu vel gengur í launaviðtalinu. 

Miðað við þessa útreikninga er lílega óhætt að fullyrða að ég hafi sparað 4-5 milljónir frá því ég byrjaði að hjóla í vinnuna. Ég er ekki alveg viss um í hvað þessir peningar fóru. En það er önnur saga. 

Fólk hjólar þótt það eigi börn sem stunda tómstundir (í alvöru)

Auðvitað geta ekki allir hjólað til vinnu. Sumir þurfa að sækja vinnu um langan veg eða geta vegna annarra aðstæðna ekki sleppt takinu af bílnum. Það er hins vegar ljóst að margir sem keyra í vinnuna geta allt eins hjólað þangað. 

Ég tala af reynslu. Ég hafði lengi haft hug á að selja annan fjölskyldubílinn og hjóla í vinnuna og tækifæri til þess gafst snemma árs 2009, eftir að ég hafði flutt aðeins nær þáverandi vinnustað. Ég hef hjólað til og frá vinnu síðan, allan ársins hring, og ég mæli með hjólreiðum við hvern sem er (eins og vinnufélagar mínir, fyrrverandi og núverandi, gestir og gangandi geta vitnað um). Vegalengdin sem ég hjóla í vinnuna er tæplega 7 km.

 Það virðist vera algengur misskilningur að þeir sem hjóla séu einhvers konar ofurmenni og það sé ekkert að marka þótt þeir geti hjólað – þeir hafi alltaf verið „í formi“. Þetta er auðvitað algjör vitleysa. Þeir sem hjóla í vinnuna eru ósköp venjulegt fólk; sumir eru einhleypir, aðrir eiga maka og börn sem ganga í skóla og leikskóla og stunda tómstundir - en samt geta foreldrarnir hjólað. 

Rúnar Pálmason er vefritstjóri hjá Landsbankanum.


*Áhrif reglulegra líkamsæfinga á hamingju hafa ítrekað verið staðfest. Þeim sem stunda líkamsæfingar líður betur. Þeir eiga líka auðveldara með að einbeita sér og eru því snjallari. Í New York Times var nýlega fjallað um að reglulegar líkamsæfingar halda húðinni unglegri. 

**Um útreikningana mína (Hagfræðideild Landsbankans kom ekki nálægt þeim):

Fjármálaráðuneytið greiðir 104,5 krónur fyrir hvern kílómetra sem opinber starfsmaður ekur einkabíl sínum vegna starfs síns. Ég reikna með 226 vinnudögum á ári. Að ekið sé 6,4 km í vinnu sem er meðalvegalengd í vinnu á höfuðborgarsvæðinu, líkt og gert er í ritgerð Jónatans Atla Stefánssonar en sú forsenda byggir á könnun Land-ráða á ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar bílar eru hvíldir tek ég kostnað vegna trygginga, skatta og skoðana ekki með í reikninginn en reikna með að hvíldin dragi úr verðrýrnun um 10%. Miðað er við að hvíldin spari 3.000 km akstur, 20% af heildarakstri ársins. Kostnaður við eldsneyti, viðhald og slíkt lækki því um 20%. Miðað er við að gamli bíllinn kosti 1 milljón og rýrni um 10% ári. Reiknað er með að kostnaður við reiðhjól sé 43.500 ári (nýtt reiðhjól keypt á 150.000 kr.) Upplýsingar um ráðstöfunartekjur eftir skatta eru fengnar í reiknivél ríkisskattstjóra. Í útreikningum fyrir nýjan bíl sem er seldur var miðað við bíl sem kostaði 2,8 milljónir. Gamli bíllinn sem var seldur kostaði 1 milljón.

Við útreikningana var þess gætt að sýna bílnum fulla sanngirni. Til dæmis er reiknað með kostnaði við kaup á reiðhjóli en víst er að margir eiga lítið notað reiðhjól inni í geymslu sem hægt er að grípa til. Þá er ekki tekið tillit til samgöngusamninga sem mörg fyrirtæki bjóða starfsmönnum sem ganga, hjóla eða taka strætó í vinnuna.

 
Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

No filter applied

Tengdar greinar