Fjármál heimilisins

Afgang vegna leiðréttingar má nota til að spara enn meira

Með skuldalækkuninni sem ríkisstjórnin stendur fyrir lækkar ekki einungis höfuðstóll verðtryggðra lána heldur verða mánaðarlegar afborganir einnig lægri. Þeir sem hafa svigrúm til ættu að íhuga vandlega að halda áfram að greiða af lánum sínum líkt og engin lækkun hefði orðið og spara þannig verulegan vaxtakostnað.

5. desember 2014  |  Sigurjón Gunnarsson og Gústav Gústavsson
Stundum er sparnaði líkt við snjóbolta sem stækkar þegar vextirnir bætast við.

Mánaðarlegar afborganir geta lækkað umtalsvert

Með skuldalækkuninni sem ríkisstjórnin stendur fyrir lækkar höfuðstóll verðtryggðra lána og um leið verða mánaðarlegar afborganir lægri. Þeir sem hafa svigrúm til ættu að íhuga vandlega að halda áfram að greiða af lánum sínum líkt og engin lækkun hefði orðið.

Þannig er hægt að spara verulegan vaxtakostnað. Í þeim dæmum sem verða rakin hér á eftir geta hjón sparað um 8 milljónir og einstaklingar sparað 5,6 milljónir. 

Lækkun á höfuðstól lána verður að fullu komin til skila eftir um þrjú ár. Í sumum tilvikum munu mánaðarlegar afborganir lækka umtalsvert. En hvað skal gera við þessar krónur sem verða „afgangs“ um hver mánaðarmót?

Ef fólk hefur ráðið við að greiða af lánum, hvað sem leiðréttingu líður, er hægt að nota þennan afgang til að spara. Eins og staðan er núna er óhætt að segja að hraðari niðurgreiðsla lána telst vera mjög góð sparnaðarleið. Í þessum pistli er miðað við að afgangurinn sé notaður til að greiða inn á húsnæðislán en það getur verið hagstæðara að greiða niður skammtímalán sem oftast bera hærri vexti. 

Hjón sem skulda um 26 milljónir gætu sparað 5,8 milljónir

Skuldalækkun ríkisstjórnarinnar er tvíþætt. Annars vegar greiðir ríkissjóður niður hluta af verðtryggðum lánum og hins vegar er hægt að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði inn á höfuðstól lána.

Lækkun höfuðstóls láns með greiðslu frá ríkinu fer þannig fram að hluti af láninu er skilinn frá og ríkissjóður greiðir niður þann hluta að fullu. Meðalupphæð þessa hluta leiðréttingarinnar svokölluðu er um 1.350.000 krónur. Með því að nota viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á lán geta hjón lækkað lánið til viðbótar um 2.250.000 krónur og einstaklingar um 1.500.000 krónur að hámarki.

Nánari upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda

Í dæmi 1 er reiknað út hver áhrifin eru ef hjón þiggja „leiðréttinguna“ en notfæra sér ekki heimild til að ráðstafa greiðslum, sem ella hefðu runnið í viðbótarlífeyrissparnað, til að greiða inn á höfuðstól láns.

Dæmi 1: Aukagreiðsla án viðbótarlífeyrissparnaðar - hjón

Hjón skulduðu 27,5 milljónir en „leiðréttur höfuðstóll er 26.150.000 kr. Vextir af láninu eru 4,15% og 30 ár eru eftir af lánstímanum.

Mánaðarleg afborgun var
133.678 kr.
Leiðrétt afborgun
127.116 kr.
Mismunur greiddur áfram inn á lán
6.562 kr.
Vaxtasparnaður á lánstímanum vegna aukagreiðslunnar
2.061.280 kr.
Stytting á lánstíma
33 mánuðir

Í næsta dæmi - dæmi 2 - er búið að reikna með áhrifum þess ef hjónin nýta sér heimild til að ráðstafa greiðslum í viðbótarlífeyrissparnað inn á höfuðstól láns og halda áfram að greiða sömu upphæð inn á lánið mánaðarlega. Munurinn er verulegur.

Dæmi 2: Aukagreiðsla með áhrifum af viðbótarlífeyrissparnaði - hjón

Sömu hjón og í dæmi 1. Þau skulduðu  27,5 milljónir en leiðréttur höfuðstóll er 26.150.000 kr. Vextir af láninu eru 4,15% og 30 ár eru eftir af lánstímanum.

Mánaðarleg afborgun fyrir inngreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar
127.116 kr.
Mánaðarleg afborgun eftir inngreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar
108.026 kr.
Mismunur greiddur áfram inn á lán
19.090 kr
Samtals mismunur greiddur áfram inn á lán
(leiðrétting og viðbótarlífeyrissparnaður=6.562+19.090)
25.652 kr.
Samtals vaxtasparnaður á lánstímanum vegna aukagreiðslunnar
5.854.759 kr.
Samtals stytting á lánstíma
78 mánuðir

 Ef lánið ber hærri vexti er sparnaðurinn auðvitað meiri. Sé miðað við 5,1% vexti í stað 4,15% nemur sparnaðurinn í dæmi 1 rúmlega 3 milljónum og í dæmi 2 um 8 milljónum. Ef reiknað væri með 5,1% vöxtum í dæmi 2 myndi lánstíminn samtals styttast um 84 mánuði

Einstaklingur sem skuldar rúmlega 16 milljónir getur sparað 4,1 milljón

Í dæmum 3 og 4 er reiknað út hvað einstaklingur sparar með því að halda afborgunum óbreyttum. Í dæmi 3 er miðað við að hann noti ekki viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á lánið en heldur áfram að greiða sömu fjárhæð í afborganir og fyrir leiðréttingu.

Dæmi 3: Aukagreiðsla án viðbótarlífeyrissparnaðar- einstaklingur

Einstaklingur skuldaði 16.350.000 kr. en leiðréttur höfuðstóll er 15 milljónir. Vextir af láninu eru 4,15% og 30 ár eru eftir af lánstímanum.

Mánaðarleg afborgun var
79.478 kr.
Leiðrétt afborgun
72.915 kr.
Mismunur greiddur áfram inn á lán
6.562 kr.
Vaxtasparnaður á lánstímanum vegna aukagreiðslunnar
1.903.120 kr.
Stytting á lánstíma
53 mánuðir

Í dæmi 4 er reiknað út hvaða áhrif það hefur ef einstaklingurinn nýtir sér heimild til að ráðstafa greiðslum í viðbótarlífeyrissparnað inn á höfuðstól láns og heldur jafnframt afborgunum óbreyttum. 

Dæmi 4: Aukagreiðsla með áhrifum af viðbótarlífeyrissparnaði - einst.

Sami einstaklingur og í dæmi 3. Hann skuldaði  16.150.000 kr. en leiðréttur höfuðstóll er 15 milljónir. Vextir af láninu eru 4,15% og 30 ár eru eftir af lánstímanum.

Mánaðarleg afborgun fyrir inngreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar
72.915 kr.
Mánaðarleg afborgun eftir inngreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar
60.030 kr.
Mismunur greiddur áfram inn á lán
12.885 kr
Samtals mismunur greiddur áfram inn á lán
(leiðrétting og viðbótarlífeyrissparnaður=6.562+12.885)
19.447 kr.
Samtals vaxtasparnaður á lánstímanum vegna aukagreiðslunnar
4.143.545 kr.
Samtals stytting á lánstíma
100 mánuðir

Líkt og í dæmi hjónanna skipta vextir verulegu máli. Ef lánið hefði borið 5,1% vexti væri sparnaðurinn í dæmi 3 tæplega 3,2 milljónir og um 5,6 milljónir í dæmi 4. Lánstími í dæmi 4 myndi styttast um 107 mánuði.  

Í dæmunum hér fyrir ofan er reiknað út hvað fólk getur sparað mikið með því að halda áfram að greiða af húsnæðislánum líkt og engin leiðrétting hefði komið til. Sparnaðurinn er reiknaður út miðað við verðlag í dag. Rétt er að ítreka að reikningarnir lúta eingöngu að þeim sparnaði sem hlýst af því að halda afborgunum óbreyttum. Vaxtasparnaður vegna leiðréttingarinnar og greiðslna úr viðbótarlífeyrissparnaði er ekki tekinn með.

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

No filter applied

Tengdar greinar