Fjármál heimilisins

Láttu vinnuveitanda hjálpa til við húsnæðissparnaðinn

Einn þáttur í úrræðum stjórnvalda í tengslum við lækkun húsnæðisskulda er alveg kjörinn fyrir ungt fólk sem á erfitt með að safna fyrir útborgun í íbúð. Hér er átt við þann möguleika að þeir sem ekki búa í eigin húsnæði geta notað viðbótarlífeyrissparnað til að spara fyrir útborgun.

12. desember 2014  |  Gústav Gústavsson

Erfiðara er að fjármagna fyrstu íbúðarkaup nú en það var fyrir um 10 árum síðan. Eins og Ari Skúlason, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, benti á fyrir skömmu er vandamálið hjá stórum hópi ekki að hann geti ekki greitt af íbúðalánum. Vandinn er sá að þessi hópur fær ekki lán sem dugar til að kaupa íbúð. Það er því mikilvægara en oft áður að safna upp í útborgun í íbúð.

Einn þáttur í úrræðum stjórnvalda í tengslum við lækkun húsnæðisskulda er alveg kjörinn fyrir ungt fólk sem er í þessari stöðu. Hér er átt við þann möguleika að þeir sem ekki búa í eigin húsnæði geta notað viðbótarlífeyrissparnað til að spara fyrir útborgun í íbúð.

Vinnuveitandi hjálpar til við húsnæðissparnaðinn

Kosturinn við þetta úrræði er að mun meira safnast inn í séreignarlífeyrissjóðinn en lagt er þar inn. Ástæðan er sú að auk framlag launþega, sem nemur 4% af launum, leggur launagreiðandi 2% af launafjárhæðinni inn í sjóðinn á móti. Þessi 2% frá launagreiðandanum skila sér aðeins til launþegans ef hann er með samning um viðbótarlífeyrissparnað. Með þessu móti tekur launagreiðandinn í raun þátt í húsnæðissparnaðinum. Engin önnur sparnaðarleið býður upp á slíkt. Þar að auki ávaxtast féð á meðan það er geymt í sjóðnum.

Útborguð laun lækka um 612.000 en 1,5 milljón safnast í sjóð

Hér fyrir neðan er búið að reikna út nokkur dæmi sem geta átt við námsfólk sem vinnur með skóla eða ungt fólk í fullri vinnu.

Einstaklingur með 300.000 króna mánaðarlaun greiðir á þremur árum um 268.000 krónur af sínum launum í viðbótarlífeyrissparnað. Ef reiknað er með 7% ávöxtun verður hann búinn að safna 648.000 krónum sem nýta má, skattfrjálst, til íbúðarkaupa. Einstaklingur með 700.000 krónur í mánaðarlaun greiðir 612.000 krónur á þremur árum en sjóðurinn stendur í 1,5 milljón þegar upp er staðið.

Einstaklingur getur nýtt, skattfrjálst, samtals 1.500.000 kr. en hjón og sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði samsköttunar, geta nýtt 2.250.000 kr. greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað. Greiðslur umfram það renna í hefðbundinn viðbótarlífeyrissparnað ásamt ávöxtun.

Viðbótarlífeyrissparnaður lagður í séreignarsjóð í 3 ár - 7% ávöxtun

Framlag launþega er 4% af launum en framlag launagreiðanda er 2%.
Allar upphæðir eru í krónum.

  Laun Framlag / mótframlag Útborguð laun
lækka
Ávöxtun Framlag
launa-
greiðanda
Sparnaður til
húsnæðiskaupa
Einstaklingur
150.000
6.000/3.000
135.360*
34.213
108.000
324.000
Par/hjón
300.000
12.000/6.000
267.768
68.426
216.000
648.000
 
 
 
 
 
 
 
Einstaklingur
300.000
12.000/6.000
267.768
68.426
216.000
648.000
Par/hjón
600.000
24.000/12.000
535.536
136.852
432.000
1.296.000
 
 
 
 
 
 
 
Einstaklingur
700.000
28.000/14.000
612.000
171.660
504.000
1.500.000
Par/hjón
1.042.000
41.680/20.840
877.104
238.385
750.240
2.250.000
 
*6.000 kr. eru dregnar af launum fyrir álagningu skatta. Útborguð mánaðarlaun lækka því um 3.760 kr. í 36 mánuði eða alls um 135.360 kr.

Af þessu sést að það margborgar sig að nýta þetta úrræði til húsnæðissparnaðar.

Alls ekki of seint að sækja um

Úrræðið virkar þannig að sá sem ekki á íbúðarhúsnæði til eigin nota en kaupir það fyrir 30. júní 2019 getur átt rétt á að taka út inneign í séreignarlífeyrissjóði, upp að ákveðnu hámarki, án þess að úttektin teljist til skattskyldra tekna. Heimild til úttektar nær til inneignar sem myndast vegna launa frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2017.

Þótt frestur til að sækja um niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána hafi runnið út 1. september 2014 er enn hægt að sækja um að nýta viðbótarlífeyrissparnað skattfrjálst til að kaupa húsnæði. Það er þó best að sækja um viðbótarlífeyrissparnað sem allra fyrst. Eftir því sem umsókn dregst, því lægri fjárhæð er hægt að safna eða greiða inn á lán með þessum hætti. 

Kaup á íbúðarhúsnæði er ein mikilvægasta ákvörðun sem fólk tekur. Til þess þarf að eiga fyrir útborgun. Sparnaður með viðbótarlífeyrissparnaði samhliða reglubundnum sparnaði getur orðið mikilvægt skref í þá átt að eignast eigið húsnæði.

Upplýsingar á vef Landsbankans um úrræði stjórnvalda og hvernig má nýta þau

Upplýsingar um húsnæðissparnað á vef ríkisskattstjóra um leiðréttinguna

Reiknivél fyrir viðbótarlífeyrissparnað

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

No filter applied

Tengdar greinar