Fjárhagur

Hvað kostar að taka skammtímalán?

Óvænt útgjöld vegna þess að bíllinn bilar um leið og þvottavélin gefur upp öndina valda því að stundum þarf fólk að taka lán með litlum fyrirvara.

18. september 2018  |  Sigurjón Gunnarsson

 

Sigurjón Gunnarsson, sérfræðingur í Fjárstýringu Landsbankans


Nú bjóða fleiri aðilar en áður upp á skammtímalán og á vefnum Aurbjörg er búið að opna lánareiknivél þar sem hægt er að gera samanburð á þessum lánum. Nánar tiltekið þá tekur samanburðurinn til neytendalána sem hægt er að fá með rafrænu umsóknaferli. Eins og Aurbjörg bendir á geta slík lán „…verið mjög dýr enda oftast tekin til skamms tíma. Oft áttar fólk sig ekki á kostnaði þessara lána, en það eru ýmis gjöld og kostnaður fyrir utan vexti lánsins (t.d. lántökugjöld og greiðslugjald).“

Mikilvægt að skoða ÁHK

Aurbjörg ber saman árlega hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK), eins og vera ber. ÁHK felur í sér allan kostnað lántakandans vegna lántökunnar, þ.e. vexti, lántökugjald, seðilgjöld og annan fastan kostnað. Heildarkostnaðurinn við lánið er síðan umreiknaður í ársávöxtun (eða ársvexti). Samkvæmt reiknivél Aurbjargar er ÁHK skammtímalánanna sem þar eru borin saman á bilinu 16,3%-25,6%. 

Yfirdráttarlán geta verið hagstæðari

Yfirdráttarlán eru ekki inni í þessum samanburði Aurbjargar og á síðunni er bent á að erfitt geti verið að bera yfirdráttarlán saman. Aurbjörg bendir jafnframt á að engin lántöku-, seðil- eða greiðslugjöld eru lögð á yfirdrátt, líkt og gert er á lánin sem fjallað er um hér að ofan.

Skammtímalán eru yfirleitt innheimt með mánaðarlegum greiðsluseðlum. Það er á hinn bóginn undir lántakandanum sjálfum komið hversu hratt hann greiðir yfirdráttinn niður. Í netbanka Landsbankans og í Landsbankaappinu er hægt að sækja um yfirdráttarheimild, hækka, lækka, framlengja og segja upp heimildinni.

Ef ÁHK er reiknuð fyrir yfirdráttarlán Vörðufélaga Landsbankans, miðað við sömu forsendur og skammtímalánin, þ.m.t. að yfirdrátturinn sé greiddur jafnhratt niður og skammtímalán, er ÁHK við að taka yfirdráttarlán frá 10,86% og upp í 12,52%. Ólíkt því sem margir halda geta yfirdráttarlánin því verið hagstæðari en skammtímalánin. Fólk sem þarf á láni að halda í stuttan tíma ætti því að skoða hvort það geti verið hagstæðara að fá yfirdrátt fremur en að taka skammtímalán.

Þarf að gæta að því að greiða reglulega inn á yfirdráttinn

Það er þó vissulega dýrt að vera með yfirdrátt, sérstaklega ef lántakandinn gætir ekki að því að greiða hann reglulega niður, líkt og hann hefði tekið lán með reglulegum afborgunum. Ef fólk greiðir ekki reglulega inn á yfirdráttinn getur verið betra að taka annars konar lán, t.d. skuldabréfalán, þótt heildarkostnaður við þau sé meiri en við yfirdráttinn.

Helstu kostirnir við yfirdráttarlán eru að þau eru sveigjanlegri og án annars kostnaðar en vaxta. Hægt er að greiða inn á yfirdráttinn hvenær sem er. Peningur sem staldrar stutt við á innlánsreikningum fer líka til að lækka yfirdráttinn tímabundið og þar með lækkar vaxtakostnaður yfirdráttarlánsins.

Hvaða kjör eru á skuldabréfalánum?

Ýmis skuldabréfalán eru líka í boði, m.a. hjá Landsbankanum. Tökum dæmi um 500.000 króna jafngreiðslulán hjá Landsbankanum í eitt ár, miðum við kjörvaxtaflokk 3 og að lántakandinn sé annað hvort í Námunni eða Vörðunni, en þá leggst 1,7% lántökugjald ofan á lánið. Við slíkt skuldabréfalán er ÁHK 15,2%. Ef miðað er við 4. kjörvaxtaflokk og að lántakandinn sé hvorki félagi í Vörðunni eða Námunni er lántökugjaldið 2% og ÁHK er 16,7%. Þessi skuldabréfalán eru dýrari en yfirdráttur. Þau eru hins vegar ódýrari en skammtímalánin sem aðrir en bankar bjóða upp á og Aurbjörg hafði í sínum samanburði. Ef fólk þarf  á annað borð að taka lán með stuttum fyrirvara, t.d. fyrir óvæntum útgjöldum, borgar sig að skoða alla möguleika sem í boði eru og bera saman kostnaðinn.

Það er hægt að taka undir það sem Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar í fjármálalæsi, sagði í Neytendablaðinu sem kom út í mars 2018: „Ég ætla að vona að íslenskir neytendur láti ekki glepjast af gylliboðum hvar sem þau birtast. Og krefji nauðsyn, taki þeir lán þar sem skástu kjörin bjóðast, en ekki þar sem auðveldast er að fá lánið. Það er oft þannig að því auðveldara sem það er að fá lán, þeim mun dýrari reynast þau. Þannig er t.d. langur ferill að taka húsnæðislán en nánast hægt að taka smálán með nokkrum smellum.“


Yfirdráttur hjá Landsbankanum að fjárhæð 500.000 krónur, miðað við að hann sé greiddur upp með jöfnum mánaðalegum greiðslum.

ÁHK
Lántökugjöld
Heildarvextir
Mánaðargreiðsla
Lægstu vextir Vörðu
10,86%
0
28.473
44.040
Hæstu vextir Vörðu
12,52%
0
32.672
44.389
Hæstu yfirdráttarvextir
12,68%
0
33.093
44.424

Skuldabréfalán hjá Landsbankanum að fjárhæð 500.000 krónur sem er greitt upp með jöfnum greiðslum, annars vegar miðað við 3. kjörvaxtaflokk og hins vegar 4. kjörvaxtaflokk

ÁHK
Lántökugjöld
Heildarvextir
Mánaðargreiðsla
Vörðufélagi
15,2%
13.440
24.987
43.869
Ekki í vörðu                
16,7%
14.940
27.077
44.043

Við samanburð er réttast að skoða ÁHK og skýringin á því að mánaðagreiðsla er svipuð þegar skuldabréf og yfirdráttur er borin saman en ÁHK hærri í skuldabréfunum er að við útborgun er lántökugjald og útbúið skuldabréf dregið frá útborgaðri fjárhæð.

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

5850a07c-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar