Fjárhagur

Hvað er verðbólgumarkmið og hvaða máli skiptir það fyrir heimilin?

Seðlabanki Íslands hefur það lögbundna hlutverk að halda 12 mánaða verðbólgu sem næst 2,5% sem er um leið verðbólgumarkmið bankans. Verðbólga á Íslandi mælist nú 0,8% og hefur ekki verið lægri frá því verðbólgumarkmið Seðlabankans var tekið upp árið 2001. En hvað er verðbólgumarkmið og hvaða máli skiptir það?

8. janúar 2015  |  Gústaf Steingrímsson
Seðlabankar setja sér flestir verðbólgumarkmið en það gengur misjafnlega vel að ná þeim.

Seðlabanki Íslands hefur það lögbundna hlutverk að halda 12 mánaða verðbólgu sem næst 2,5% sem er um leið verðbólgumarkmið bankans. Langtímamarkmið seðlabanka í hverju landi eru jafnan lág og stöðug verðbólga og er verðbólgumarkmið ein leið að því marki. Þar sem seðlabanki er á verðbólgumarkmiði beitir hann stýrivöxtum ásamt því að hafa áhrif á væntingar til að stuðla að lágri og stöðugri verðbólgu.

Seðlabankinn vill að fyrirtæki og almenningur vænti 2,5% verðbólgu

Leið seðlabanka að langtímamarkmiðinu felst að miklu leyti í því að ná því fram að verðbólguvæntingar fyrirtækja og almennings séu í samræmi við verðbólgumarkmiðið. Þannig eru mestar líkur á því að verðbólga verði sem næst verðbólgumarkmiðinu.

Væntingar um verðbólgu eiga það því til að verða að veruleika. Það virkar þannig að geri t.d. launþegar ráð fyrir því að verðbólgan verði 2,5% en ekki t.d. 10% munu þeir stilla launakröfum sínum í samræmi við það sem mun um leið auka líkurnar á því að verðbólgumarkmiðið náist. Ef við gefum okkur að almenningur geri kröfu um 1% aukningu kaupmáttar á næstu 12 mánuðum mun hann vilja sjá 3,5% hækkun launa sinna ef hann treystir því að verðbólgumarkmiðið verði að veruleika. Ef innistæða væri fyrir þessari launabreytingu vegna aukinnar framleiðni vinnuaflsins (um a.m.k. 1%) þyrftu atvinnurekendur ekki að hækka verð á sinni vöru og þjónustu nema um 2,5% til að mæta hækkun launakostnaðar en vera samt jafn vel settir þar sem þeir framleiða 1% meira og tekjur þeirra því 3,5% meiri. Verðbólgumarkmiðinu væri þar með ekki ógnað. Ef launþegar gera hins vegar ráð fyrir t.d. 5% verðbólgu á næstu 12 mánuðum þyrftu þeir að krefjast 6% hækkunar launa til að ná fram 1% kaupmáttaraukningu ef við gefum okkur sömu framleiðniaukningu og í fyrra dæminu. Það myndi aftur setja þrýsting á atvinnurekendur til að hækka verð á vörum sínum og þjónustu í samræmi við það og verðlag myndi hækka um 5%. Af ofangreindu má ljóst vera að almenningur getur með launakröfum sínum haft áhrif á verðbólguþróun framtíðarinnar.

Verðbólguvæntingar almennings aldrei lægri en 3%

Frá því Seðlabankinn byrjaði að fylgjast skipulega með verðbólguvæntingum heimila eða almennings árið 2003 hafa þær aldrei farið niður fyrir 3%. Með því eru heimilin að segja að þau treysti því ekki að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiðinu og það gerir starf hans erfiðara en ella því þá þarf hann að beita stýritækjum sínum af meiri krafti. Sé litið nánar á verðbólgusögu og verðbólguvæntingar almennings sést að sterkt samband er á milli verðbólgu og verðbólguvæntinga. Þannig eru verðbólguvæntingar til næstu 12 mánaða oft svipaðar verðbólgunni undanfarna 12 mánuði. Sé þetta skoðað nánar má einnig sjá annað samband sem felst í því að sé verðbólgan mikil er mun líklegra að heimilin vænti lægri verðbólgu. Að sama skapi vænta heimilin almennt séð hærri verðbólgu sé verðbólgan lág.

Gengi krónunnar hefur einnig veruleg áhrif á verðbólgu

Myndin hér að ofan sýnir 12 mánaða verðbólgu og 12 mánaða breytingu gengis á sama tíma. Eftir því sem gengisvísitalan er hærri, því veikari er krónan.

Verðbólguvæntingar almennings umfram verðbólgumarkmið er ein af ástæðum þess að Seðlabankanum hefur gengið jafn illa og raun ber vitni að ná markmiðinu. Önnur ástæða fyrir slökum árangri Seðlabankans hefur verið óstöðugleiki í þjóðarbúskapnum á síðustu árum og áratugum hér á landi sem hefur birst einna greinilegast í sveiflum í gengi krónunnar. Þessar sveiflur hafa leitt til þess að verð á innfluttum vörum og þjónustu hefur einnig sveiflast sem hefur aftur haft áhrif á innlenda verðlagsþróun. Krónan var einstaklega stöðug á síðasta ári þrátt fyrir mikil uppkaup Seðlabankans á gjaldeyri og átti sá stöðugleiki krónunnar ásamt styrkingu hennar milli 2013 og 2014 stóran þátt í því að 12 mánaða verðbólga hjaðnaði úr 3,1% í janúar á síðasta ári niður í 0,8% í desember. Það er lægsta verðbólga sem hér hefur mælst síðan í september árið 1998.

Af hverju er verðbólgumarkmiðið ekki hærra?

Einhverjir kynnu að spyrja sig hvers vegna verðbólgumarkmiðið sé 2,5% en ekki t.d. 10%. Fyrir þessu er einföld ástæða og hún felst í því að eftir því sem verðbólga er hærri þeim mun ófyrirsjáanlegri er hún og sveiflukenndari. Það að reyna að stuðla að 10% stöðugri verðbólgu er því allt annað og stærra verkefni en að reyna að halda 2,5% verðbólgu. Meiri og ófyrirsjáanlegri verðbólga eykur óstöðugleika í hagkerfinu m.a. vegna meiri óvissu í áætlanagerð og tíðari kjarasamningum og í því felst þjóðhagslegur kostnaður. Óstöðugleiki verðbólgunnar kemur einnig verulega niður á heimilum landsins vegna meiri sveiflna í kaupmætti. Eins eykur verðbólgumarkmið með hárri verðbólgu líkurnar á því að Seðlabankinn missi tökin á verðbólgunni. Það getur þýtt verulegan kostnað fyrir samfélagið að ná verðbólgunni niður á ásættanlegt stig á ný. Sá kostnaður felst meðal annars í því að vaxtastig getur þurft að vera verulega hátt og íþyngjandi í langan tíma. Eins er almennt viðurkennt að það markmið að vera án verðbólgu sé einnig hættulegt vegna þess að það geti heft hagkerfið of mikið og stuðlað að lægri hagvexti en ella. Slíkt markmið eykur einnig líkur á verðhjöðnun sem getur verið jafnvel enn erfiðara að vinda ofan af en mikilli verðbólgu. Í þessu sambandi hefur verið álitið að lág en stöðug verðbólga „smyrji hjól efnahagslífsins" og styðji þannig við áframhaldandi vöxt.

Nýsjálendingar tóku fyrstir upp verðbólgumarkmið árið 1990

Peningastefna með formlegu verðbólgumarkmiði var fyrst tekin upp á Nýja-Sjálandi árið 1990 og var markmiðið sett á 2% verðbólgu. Þetta reyndist vel og í kjölfarið tóku seðlabankar fjölda ríkja upp sams konar stefnu. Í flestum tilfellum var miðað við 2% eins og á Nýja-Sjálandi.

Í nýlegri grein í The Upshot (NY Times) er fjallað um aðdraganda þess að Nýsjálendingar tóku upp verðbólgumarkmið og hvers vegna þeir miðuðu við 2% en ekki hærri eða lægri tölu. Í greininni er einnig fjallað um álit sumra hagfræðinga að 2% sé of lágt markmið þar sem það gefi Seðlabönkum of lítið svigrúm til að hvetja hagkerfið áfram með vaxtalækkunum þegar samdráttur eða áföll skella á hagkerfum. Í því ljósi kann að vera heppilegra að hafa hærra markmið t.d. 4%.

Grein í The Upshot um verðbólgumarkmið

Umfjöllun Seðlabanka Íslands um 2,5% verðbólgumarkmiðið

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

02ebdc86-9722-11e4-878c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar