Fjárhagur

Valkröfur í netbankanum – hvaðan koma þær og til hvers eru þær?

Valkröfur eru reikningar sem ekki þarf að greiða. Þær eru gjarnan stofnaðar af félagasamtökum eða stofnunum og oft í þeim tilgangi að afla styrkja til góðra málefna. Í appinu og netbankanum er hægt að fela valkröfur eða eyða þeim (og auðvitað greiða þær, ef vilji er til þess). Um þetta og aðra eiginleika valkrafna fjallar þessi grein.

13. apríl 2018  |  Hermann Þ. Snorrason

En byrjum á byrjuninni: Hvaða fyrirbæri eru valkröfur? Valkröfur eru innheimtukröfur eða reikningar sem greiðandi þarf ekki að greiða og bera hvorki dráttarvexti né annan kostnað. Valkröfurnar birtast undir ógreiddum reikningum í netbankanum en þær berast líka gjarnan á greiðsluseðlum á pappír, yfirleitt í gluggaumslagi. Valkröfur eru t.d. notaðar til að selja happdrættismiða, biðja um styrki, innheimta félagsgjöld eða gjöld vegna ýmiskonar viðburða.

Valkröfur má þekkja á því að í netbönkum er hægt að eyða þeim eða fela. Aðrar kröfur er einungis hægt að fela (og greiða), s.s. kreditkortareikninga, afborganir af íbúðalánum og þessháttar. Þó er hvorki hægt að stilla netbankann þannig að hann hafni öllum valkröfum til frambúðar né hafni öllum valkröfum frá tilteknum útgefanda. Ekki er heldur hægt að stilla netbankann þannig að hann birti aldrei valkröfur. Blæbrigðamunur er á framsetningu valkrafna milli banka. Megináherslurnar eru þó hinar sömu, að feli greiðandi valkröfu, gildir það aðeins um þann netbanka. Ef greiðandi eyðir kröfunni hverfur hún úr sameiginlegu innheimtukerfi bankanna og birtist hvergi sem ógreiddur reikningur.
Valkröfur bera ekki kostnað

Almennt gildir að valkröfur bera ekki kostnað og bera alls ekki dráttarvexti. Verði greiðandi var við kostnaðarliði á valkröfum, þá er það samkvæmt ákvörðun þess sem stofnaði kröfuna enda er honum það frjálst samkvæmt reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar frá 2009 og innheimtulög frá 2008.

Valkröfur bera stundum seðilgjöld og sá misskilningur virðist útbreiddur að bankar ákvarði og innheimti seðilgjöld. Hið rétta er að það eru kröfuhafar sem setja seðilgjöld á kröfur, enda renna þau til þeirra en ekki bankans. Sama gildir um beingreiðslugjöld.

Allir geta gert samning um að stofna valkröfur

Öll fyrirtæki, stofnanir og meira að segja einstaklingar geta stofnað valkröfur á hvern þann sem hefur íslenska kennitölu, hafi þeir gert innheimtusamning við sinn viðskiptabanka. Í slíkum samningum eru ákvæði um skilmála sem viðkomandi þarf að uppfylla, m.a. um að stofna valgreiðslurnar með réttum hætti. Þeir sem gera slíkan samning fá aðgang að netbanka fyrirtækja og sjá sjálfir um að stofna valkröfurnar.

Ef ekki er hægt að eyða eða fela valkröfu er líklegast að hún hafi óvart verið stofnuð sem hefðbundin krafa. Það veldur því að greiðandinn hefur ekki möguleika á að eyða henni. Ef valkrafa hefur verið stofnuð með réttum hætti á að vera hægt að eyða henni í netbanka Landsbankans eða fela.

Komi í ljós að valkrafan hafi vísvitandi verið stofnuð sem hefðbundin krafa, eða að eitthvað annað gefur til kynna að hún hafi verið stofnuð ranglega eða með röngum hætti, má beina kvörtunum til útgefanda kröfunnar eða til viðkomandi banka. Hjá Landsbankanum geta viðskiptavinir sent kvörtun beint í gegnum netbankann (með talblöðrunni í neðra hægra horni) eða með því að smella á „Hafðu samband“ á ytri vef bankans.
Valkröfur voru hugsaðar fyrir almennaheillafélög

Tilgangur valkrafna er fyrst og fremst að gera innheimtu frjálsra fjárframlaga auðveldari. Aðrir hvatar búa ekki að baki og bankar hafa óverulega framlegð af þeim. Þá hefur Landsbankinn sett sér þá reglu að veita almannaheillafélögum fastan 50% afslátt af þóknunum í innheimtukerfinu. Slík félög skiptast í tólf flokka samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu (International Classification of Non-profit Organizations (ICNPO)) og félög sem falla í fimm þessara flokka fá afsláttarkjör hjá Landsbankanum:

Flokkur 1: Menningar-, lista- og tómstundastarfsemi

Dæmi: Íþróttafélög, ungmennafélög, skátafélög, áhugamannakórar, áhugaleikfélög, tóm-stundafélög eldri borgara.

Flokkur 4: Félagsleg þjónusta

Dæmi: Fátækrahjálp, fjölskylduhjálp, velferð ungmenna og forvarnir, mæðrastyrksnefnd, björgunaraðstoð í sjálfboðavinnu.

Flokkur 5: Umhverfismál og dýravernd

Dæmi: Dýraverndunarsamtök, landverndarsamtök, náttúruverndarsamtök, skógræktarfélög, landgræðslufélög.

Flokkur 8: Mannúðar-, styrktar- og sjálfboðaliðastarf

Dæmi: Góðgerðafélög, mannréttindasamtök, minningarsjóðir, líknarfélög.

Flokkur 9: Alþjóðasamtök

Dæmi: Alþjóðleg mannréttinda- og friðarsamtök, alþjóðleg hamfara- og neyðarþjónusta, þróunaraðstoð og menningarstarfsemi. Undir þetta falla m.a. UNICEF, UN Women og Amnesty International.

Nánari upplýsingar um valkröfur og algengar spurningar þar að lútandi eru á vef Landsbankans. Einnig er hægt að hafa samband við Þjónustuver í síma 410 4000 og með því að senda tölvupóst í netfangið info@landsbankinn.is.

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

13732323-3d99-11e8-8924-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar