Fjárhagur

Meðaltekjur aukast í samfélagi Raunveruleiksins

Tölfræði úr Raunveruleiknum býður upp á skemmtilegan samanburð við raunveruleikann. Meðallaun í samfélagi Raunveruleiksins voru 389.086 kr. samanborið við 359.752 kr. árið áður og voru strákar örlítið tekjuhærri með tæp 392.000 kr. í tekjur að meðaltali en stelpur með rúmar 385.000 kr.

26. nóvember 2012  |  Ritstjórn

Nemendur úr Tjarnarskóla voru sigursælir í Raunveruleik Landsbankans fyrir 10. bekk, skólaárið 2012-2013. Smiðjan í Tjarnarskóla náði bestum árangri í bekkjarkeppninni. Í keppni einstaklinga bar Aníta Sif Eiríksdóttir í Tjarnarskóla sigur úr býtum, Daníel Bergmann Sveinbjörnsson einnig í Tjarnarskóla hreppti annað sætið og Helena Hrönn Haraldsdóttir nemandi í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði varð í þriðja sæti. Alls tóku þátt rúmlega 1.000 nemendur úr 42 skólum um land allt. Raunveruleikurinn hófst þann 15. október sl. og stóð yfir í fjórar vikur.

Raunveruleikurinn er gagnvirkur hermileikur og hannaður sem fjármála- og neytendafræðsla fyrir efstu bekki grunnskóla. Í Raunveruleiknum fá nemendur að kynnast þeim ákvörðunum sem einstaklingar þurfa að taka í lífinu, s.s. að stunda nám, leita sér að vinnu, leitast við að ná endum saman á þeim launum sem bjóðast á almennum vinnumarkaði og bregðast við því sem á daga þeirra drífur. Í Raunveruleiknum eru mældar ýmsar hagstærðir í samfélaginu líkt og um alvöru væri að ræða, t.d. verðbólga, atvinnuleysi og sparnaður.

Sigurvegarar í Raunveruleiknum
F.v. Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri Hagaskóla og höfundur Raunveruleiksins, Daníel Bergmann Sveinbjörnsson, nemandi í Tjarnarskóla, sem hafnaði í öðru sæti, Aníta Sif Eiríksdóttir, nemandi í Tjarnarskóla og sigurvegari í Raunveruleiknum að þessu sinni, Helena Hrönn Haraldsdóttir nemandi í Hraunavallaskóla sem lenti í þriðja sæti og Kristín Lúðvíksdóttir, sérfræðingur í Þjónustudeild Landsbankans.

Meðaltekjur hafa aukist milli ára

Tölfræði úr Raunveruleiknum býður upp á skemmtilegan samanburð við raunveruleikann. Meðallaun í samfélagi Raunveruleiksins voru 389.086 kr. samanborið við 359.752 kr. árið áður og voru strákar örlítið tekjuhærri með tæp 392.000 kr. í tekjur að meðaltali en stelpur með rúmar 385.000 kr.

Atvinnuleysi sveiflaðist nokkuð á meðan keppninni stóð en var 5,04% í lok leiks en fór mest í rúm 12%. Þess má geta að atvinnuleysi á Íslandi í október 2012 var 4,5% og aðstæður í lok Raunveruleiksins því ekki svo ólíkar raunverulegum aðstæðum á Íslandi.

Í Raunveruleiknum fæddust 1.913 börn á spilunartímabilinu og hefur barnsfæðingum fækkað eftir að boðið var upp á að kaupa getnaðarvarnir árið 2011.

Vinsælasta varan sem keppendur leiksins gátu keypt var lottómiði en keyptir voru 21.211 miðar á spilunartímabilinu. Getnaðarvörn og kettlingur voru einnig eftirsóknarverðar vörur. Meðaleign á sparireikningi í lok spilunartímans var 359.071 kr. en var 295.473 kr. árið 2011. Heildareign á sparireikningum allra þátttakenda var um 360.000.000 kr. og miðað við íbúafjölda á Íslandi yfir 18 ára væri það um 86.077.936.404 kr. eða rúmlega 86 milljarðar sem er meira en menntamálaráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafa samanlagt til umráða árið 2012.

Tölfræði úr samfélagi Raunveruleiksins hjá tíundu bekkingum
  2007 2008 2009 2010 2011 2012
Þátttakendur 1.627 1.296 1.511 1.287 989 1.042
Fjöldi skóla 54 45 45 50 51 42
Meðaltekjur 176.883 254.812 241.500 232.002 359.752 389.086
Meðaltekjur stráka 182.299 254.109 242.375 228.156 365.471 391.918
Meðaltekjur stelpna 170.569 255.206 240.480 235.964 353.964 385.749
Atvinnuleysi 3,6% 5,1% 7,4% 7,6% 5,5% 5,04%
Vinsælasta háskóla-
menntunin
Lögfræði Arkitektúr Lögfræði Viðskipta-
fræði
Sjávar-
útvegsfr.
Tann-
lækn.
Meðaleign
á sparireikn-
ingum
192.728 188.747 239.961 230.894 295.473 359.071

Nánar um Raunveruleikinn

Í upphafi leiks byrjar leikmaður sem 20 ára ungmenni á leið út í lífið eftir framhaldsskóla. Hann fær ákveðna byrjunarupphæð á bankareikning en líf hans er að öðru leyti óskrifað blað. Eftir að hafa mótað persónu sína, útlit, nafn og einkenni þarf að skapa umhverfi persónunnar og ákveða hvernig hún ver fjármunum sínum, hvaða nám er valið og hvaða vinna.

Höfundur leiksins er Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla, en að baki Raunveruleiknum liggur margra ára rannsókna-, hönnunar- og forritunarvinna sem unnin hefur verið af höfundi og vefdeild Landsbankans. Raunveruleiknum er ætlað að svara þörf fyrir nútímalegt og vandað námsefni fyrir unglinga í lífsleikni með áherslu á fjármála- og neytendafræðslu. Nemendur 9. og 10. bekkjar er boðið að taka þátt í leiknum. Raunveruleikurinn hefur hlotið verðlaun Norrænu ráðherranefndarinnar sem besta námsefnið á þessu sviði.

www.raunveruleikurinn.is

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

1679ae8e-37e9-11e2-b8f2-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar