Það er spennandi að stofna fyrirtæki, fá tækifæri til að móta það og þróa, jafnframt því sem mikil orka er í gangi. Það er álíka spennandi að tapa fyrirtækinu, fara á hausinn og missa það sem búið er að skapa. Sú spenna er þó af allt öðru tagi. Upplifunin getur verið slæm, allt hið góða horfið, allt að hrynja og uppbyggingin til einskis, eða hvað?

1. nóvember 2012  |  laejgi

Það er spennandi að stofna fyrirtæki, fá tækifæri til að móta það og þróa, jafnframt því sem mikil orka er í gangi. Það er álíka spennandi að tapa fyrirtækinu, fara á hausinn og missa það sem búið er að skapa. Sú spenna er þó af allt öðru tagi. Upplifunin getur verið slæm, allt hið góða horfið, allt að hrynja og uppbyggingin til einskis, eða hvað?

Ég átti fyrirtæki í rúmlega 2 ár og bjartsýnin var mikil. Þegar allt virtist ætla að ganga, hrundi spilaborgin. Skyndilega var allt á niðurleið, starfsfólki fækkaði, vörum fækkaði og skuldir hlóðust upp.

Síðustu mánuðina var unnið launalaust og öllu tjaldað til svo bjarga mætti fyrirtækinu. Að lokum var gjaldþrot ekki umflúið og það var eins og heimurinn væri að hrynja. Alls staðar lokuðust dyr, lögfræðingar á hverjum þröskuldi og andarslitur fyrirtækisins ekki umflúin.

Við tók tími þar sem dómsalir og rukkarar urðu daglegt brauð sem og heimsmyndin að umturnast. Í stað þess að setjast niður og horfa á Róm brenna gerði ég allt sem í mínu valdi stóð til að bjarga því sem bjargað varð. Ég reyndi að losa um mál þannig að ég tæki ekki aðra með mér í fallinu. Greiddi eða samdi um skuldir sem stóðu að mér, ýtti frá mér vandamálum sem hægt var að bægja frá en tók á öðrum sem varð að leysa. Upp frá því tók við nýtt tímabil. Ég var atvinnulaus, fyrirtækið horfið og mér leið eins og ég stæði við tvennar dyr. Aðrar lágu niður í myrkur, hinar út í óvissuna. Ég valdi seinni kostinn og ákvað að opna upp á gátt og horfa í allar áttir. Ég sótti um vinnu á eins mörgum stöðum og ég gat, vann sjálfboðaliðastarf víða og fór að fá hugmyndir og framkvæma. Kynnti mér mál atvinnulausra, fór af stað með gönguferðir fyrir atvinnulausa og kynntist fólki út um allan bæ.

Ég tók þátt í hugmyndavinnu við ýmsa hluti, stofnun víkingaþorps, opnun smiðju fyrir atvinnulausa, framleiðslu á handverki, kom að bókaútgáfu, gaf út eigin tónlist, hélt námskeið víða og margt fleira.

Að lokum var svo komið að mér bauðst gott starf sem ég þáði. Enn þann dag í dag, fjórum árum eftir að ég steig þetta skref út í óvissuna er ég að uppskera og hugurinn enn vel opinn.

Fyrir mér var eigin dauði því nýtt brauð.

Það sem skiptir miklu máli er að vera jákvæður, opinn og virkur. Í raun er ekki í boði að setjast niður og gefast upp. Reynslan er súr en spennuna þarf að virkja og nýta til að komast áfram. Tækifærin koma ef við opnum fyrir þeim, þau hringja ekki í þig. Við þurfum að búa til tækifæri og grípa þegar þau gefast.

Miklu skiptir að opna allar dyr, opna augun fyrir öllu sem er í kring og gefa því tækifæri. Það er gefandi að skapa og því er um að gera að koma sér af stað, halda áfram. Í fyrsta lagi skiptir öllu máli að vera í tengslum við fólk, ræða málin og horfa fram á við. Eitt af því sem er þó mest gefandi og skapar tækifæri er að aðstoða aðra, gefa af sér.

Af öllu má draga lærdóm og það er mikill lærdómur að missa eigið fyrirtæki. Þann lærdóm förum við með í ný tækifæri til að byggja upp og opna nýjar dyr. Sitjum ekki með hendur í skauti því svo lengi lærir sem lifir.

Jósep Gíslason

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

4bbd3ea2-2427-11e2-b78b-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar