Gagnsæ stjórnsýsla. Gagnsæ upplýsingagjöf. Opið og gagnsætt söluferli. Hljómar þetta kunnuglega? Gagnsæi er eitt af tískuorðum nýja Íslands og er mikið notað í viðskiptalífinu, en vitum við í raun hvað það þýðir? Vita þeir sem hvað oftast eru með þetta orð milli tannanna hverju þeir eru að lofa? Og er einhver innistæða fyrir fullyrðingum um gagnsæi? Hvernig getum við athugað það? Og hvað getum við gert ef pottur er brotinn í málinu? Bloggað?

Útúrdúr - gagn vs. gegn: Í umræðunni hefur vafist fyrir mönnum hvort sé réttara, gAgnsæi eða gEgnsæi. Guðrún Kvaran skrifar á Vísindavefnum að orðin gagnsær og gegnsær séu notuð á sama hátt til að lýsa því sem sést í gegnum. Hins vegar er rithátturinn gAgnsæi eldri en gEgnsæi. Það er ekki þar með sagt að gAgnsæi sé réttara, en hér verður sá ritháttur notaður. Forliðurinn „gagn-“ hefur það einnig umfram „gegn-“ að hann vekur merkingartengsl við gagnsemi, gagnkunnugleika og gagnhugsun, allt orð sem víkka skilning okkar á gagnsæi í þessu samhengi. Síðast en ekki síst er gagn að gagnrýni, einu öflugasta umbótatólinu sem völ er á. Við megum ekki vera hrædd við gagnrýni, heldur nota hana til endurbóta, til að efla fagmennsku og traust. Það sem eftir fer er ritað í þeim anda.

4. apríl 2011  |  Agnes Marta Vogler

Gagnsæ stjórnsýsla. Gagnsæ upplýsingagjöf. Opið og gagnsætt söluferli. Hljómar þetta kunnuglega? Gagnsæi er eitt af tískuorðum nýja Íslands og er mikið notað í viðskiptalífinu, en vitum við í raun hvað það þýðir? Vita þeir sem hvað oftast eru með þetta orð milli tannanna hverju þeir eru að lofa? Og er einhver innistæða fyrir fullyrðingum um gagnsæi? Hvernig getum við athugað það? Og hvað getum við gert ef pottur er brotinn í málinu? Bloggað?

Útúrdúr - gagn vs. gegn

Í umræðunni hefur vafist fyrir mönnum hvort sé réttara, gAgnsæi eða gEgnsæi. Guðrún Kvaran skrifar á Vísindavefnum að orðin gagnsær og gegnsær séu notuð á sama hátt til að lýsa því sem sést í gegnum. Hins vegar er rithátturinn gAgnsæi eldri en gEgnsæi. Það er ekki þar með sagt að gAgnsæi sé réttara, en hér verður sá ritháttur notaður. Forliðurinn „gagn-“ hefur það einnig umfram „gegn-“ að hann vekur merkingartengsl við gagnsemi, gagnkunnugleika og gagnhugsun, allt orð sem víkka skilning okkar á gagnsæi í þessu samhengi. Síðast en ekki síst er gagn að gagnrýni, einu öflugasta umbótatólinu sem völ er á. Við megum ekki vera hrædd við gagnrýni, heldur nota hana til endurbóta, til að efla fagmennsku og traust. Það sem eftir fer er ritað í þeim anda.

Hálfgagnsætt

Að því er ég best veit er Fjármálaeftirlitið (FME) eina íslenska stofnunin sem gert hefur tilraun til að setja fram formlega skilgreiningu á gagnsæi í sínu starfi. Gagnsæisstefnu FME má finna á heimasíðu þess. Það vekur athygli að þó 1. gr. stefnunnar sé skilgreining á hugtökum er gagnsæi ekki skilgreint beint heldur er þar lýst þeim þáttum sem gagnsæi samanstendur af í skilningi FME. Stefnan fjallar um opinbera birtingu, efni tilkynninga frá FME og undantekningar frá reglum um þetta tvennt. Stefnan er ágæt, því þó hún setji ekki fram almenna skilgreiningu á gagnsæi útskýrir hún skilning FME á hugtakinu. Þegar FME lofar gagnsæi er því alveg ljóst hvað átt er við. Hér er innistæðan fyrir loforðinu, opinbert skjal sem allur almenningur getur gert kröfu um að FME haldi sig við.

Hitt er annað mál að almenningur kann að meta það svo að gagnsæið sem FME lofar sé frekar gruggugt. Í greinum 1-3 er fjallað um þá opinberu birtingu á niðurstöðum og athugunum sem FME framkvæmir, auk efni tilkynninga frá eftirlitinu, en grein 4 setur fram undantekningar. Þar segir: „Fjármálaeftirlitið metur ávallt áhrif opinberrar birtingar með hliðsjón af hagsmunum markaðarins og hagsmunum viðkomandi aðila“ og „Tilkynning skal ekki birt ef Fjármálaeftirlitið telur að efni hennar stefni hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu“. Gagnsæi hjá FME nær því ekki lengra en sem nemur hagsmunum markaðarins.

Er það ásættanlegt? Má gagnsæi víkja fyrir hagsmunum markaðsaðila? Er ef til vill óhjákvæmilegt að gagnsæi sé alltaf takmörkunum háð í viðskiptaheiminum? Ef svo er, ætti þá ekki að nota eitthvað annað orð? Gagnsæi er afdráttarlaust. Þegar gagnsæi er háð takmörkunum er varla við hæfi að nota hugtakið. Hálfgagnsætt er ekki gagnsætt.

Er skilyrðislaust gagnsæi til í viðskiptalífinu?

Nei. Í núverandi markaðsumhverfi eru alltaf einhverjar upplýsingar undanþegnar. Viðkvæmar viðskiptalegar upplýsingar eru ekki gerðar opinberar. Þetta má ekki skilja svo að illur ásetningur liggi að baki hálfgagnsæi. Það er ekki alltaf verið að reyna að fela eitthvað þó ákveðin atriði séu undanskilin. Við sölu á fyrirtæki, svo dæmi sé tekið, er ekki hægt að veita áhugasömum fjárfestum allar upplýsingar frá upphafi vegna þess að þeir gætu verið samkeppnisaðilar. Þeir gætu notað upplýsingarnar til eigin framdráttar og valdið öðrum tjóni, jafnvel skekkt samkeppnisstöðu á markaði. Í stjórnsýslu, samningaviðræðum og í viðskiptum almennt gilda að auki ýmsar reglur og lög um þagnarskyldu og trúnað sem koma í veg fyrir fullkomið gagnsæi.

Í raun er þá komin niðurstaða í þessar vangaveltur. Gagnsæi er skilgreiningaratriði. Það er eingöngu til að því marki sem markaðsaðilar og stofnanir hafa sett fram ítarlega lýsingu á hvaða skilning þeir leggja í gagnsæi og hvaða takmarkanir gildi í þeirra starfsemi. Í slíkri framsetningu, skriflegri og opinberlega birtri, felst skuldbinding. Án slíkrar skuldbindingar hafa fullyrðingar um gagnsæi því miður lítið vægi, enda er gagnsæi alltaf takmarkað.

Landsbankinn og gagnsæi

Landsbankinn hefur ekki sett sér stefnu um gagnsæi. Sem er miður, þar sem bankinn hefur notað hugtakið til að lýsa ákveðnum þáttum starfsemi sinnar. Ef ég er sjálfri mér samkvæm verð ég að viðurkenna að vinnuveitandi minn hefur gerst sekur um að nýta tískuorð án þess að hafa sett niður fyrir sér, mér eða þér nákvæmlega hvaða skilning hann leggur í hugtakið. Bankanum ber lagaleg skylda til að viðhalda leynd um málefni viðskiptamanna sinna og því er ljóst að gagnsæi í starfseminni er nauðsynlega takmörkunum háð hjá okkur.

Orðið gagnsæi hefur einna helst verið notað af bankanum í sambandi við eignarhald og sölu á fyrirtækjum sem hann hefur tekið yfir. Stjórn fyrirtækjanna hefur verið lýst sem gagnsærri og söluferli, þar sem yfirtekin félög eru seld með útboði, eru sögð opin og gagnsæ. Það sem þetta þýðir er að allir hafa aðgang að upplýsingum um hverjir skipi stjórnir slíkra fyrirtækja, þeim reglum sem unnið er eftir og að öllum fjárfestum er tryggður aðgangur að sömu upplýsingum við sölu fyrirtækjanna. Starfsreglur eru birtar opinberlega og eru aðgengilegar öllum. Allir sem fjárráð hafa geta tekið þátt í söluferlum og jafnræði milli þeirra er tryggt, sem þýðir að öllum er veittur aðgangur að sömu upplýsingum. Þær takmarkanir, sem hefði átt að setja fram á skýran hátt, eru m.a. að bankinn má ákveða að nota lokað söluferli þar sem völdum fjárfestum er boðin þátttaka, þjóni það hagsmunum bankans og eigenda hans. Einnig er ljóst að þó lofað sé að allir hafi aðgang að sömu upplýsingum þýðir það ekki að upplýsingarnar séu tæmandi. Það sem er að þessu er skortur á skilgreiningu. Þó við, starfsmenn Landsbankans, teljum okkur vita hvað við meinum með gagnsæi er af ofangreindu ljóst að það er háð takmörkunum sem ekki eru skýrðar nægilega. Úr því þarf að bæta. Kjósi stjórnendur og starfsmenn Landsbankans að nota hugtakið gagnsæi áfram ætti að skilgreina það betur í þeim tilgangi að skapa okkur sjálfum ramma og koma hreint fram gagnvart eigendum bankans, landsmönnum öllum.

Við sjáum í gegnum holt og hæðir ...

Gagnsæi er tískuorð í íslenskum viðskiptaheimi, hent á loft til að afla trausts en oft án innistæðu. Það skal fullyrt hér að þeir sem lofa gagnsæi vita flestir hverjir mæta vel að það er takmörkunum háð. Slíkar takmarkanir eru e.t.v. nauðsynlegar á frjálsum markaði en engu að síður í ósamræmi við þá merkingu sem eðlilegt má telja að margir hlustendur leggi í orðið. Að nota orð sem almenn sátt ríkir um hvað þýðir en vita vel að það hefur aðra merkingu í samhenginu tel ég einfaldlega rangt. Réttara væri að segja að tryggt sé jafnt aðgengi að upplýsingum, að jafnréttis sé gætt milli aðila og að unnið sé í samræmi við opinberlega birtar starfsreglur.

Góði lesandi, þú heyrir væntanlega að þetta er ekki jafn söluvænt. Ekki jafn sexí. En traust er sexí. Og þess verður ekki aflað með innistæðulausum fullyrðingum og tískuorðum. Stöldrum við. Lesum reglurnar og kynnum okkur takmarkanirnar. Verum raunhæf – gagnsæi er ekki til í hreinni mynd í viðskiptum. Fínt er, þá það. En við getum gert kröfu um að komið sé hreint fram og að gefin loforð séu efnd.

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

74a5caab-6cf4-46c2-af19-80c3886df595

No filter applied

Tengdar greinar