Fjárhagur

Mikill munur á séreignarsparnaði og lífeyristryggingum

Eins og kunnugt er geta launþegar valið að verja hluta launa (allt að 4%) og mótframlagi frá vinnuveitanda (2%) til séreignarsparnaðar eða viðbótarlífeyrissparnaðar. Heimilt er að ráðstafa iðgjaldi til séreignarsparnaðar á tvo ólíka vegu. Annars vegar með samningi um lífeyrissparnað og hins vegar með kaupum á lífeyristryggingu. Á þessu tvennu er umtalsverður munur sem vert er að kynna sér vel.

31. október 2014  |  Ólafur Páll Gunnarsson
Ólafur Páll Gunnarsson

Lífeyrissparnaður 

Samningar um lífeyrissparnað, sem gerðir eru við viðskiptabanka, sparisjóð eða lífeyrissjóð, kveða á um að iðgjald skuli varðveitt á bundnum innlánsreikningi, á fjárvörslureikningi eða í sérstakri fjárfestingarleið í tilviki lífeyrissjóða. Slíkir samningar byggja á sjóðssöfnun. Helstu einkenni slíks sparnaðar eru að hægt er að taka inneign út að hluta eða í heild eftir sextugt. Unnt er að flytja inneign á milli vörsluaðila með litlum eða engum tilkostnaði. Þá skerðist inneign ekki þótt greiðslur falli niður í lengri eða skemmri tíma. Fylgjast má með þróun inneignar frá degi til dags í netbanka eða á sjóðfélagavef. Samningi má segja upp með tveggja mánaða fyrirvara.

Lífeyristryggingar

Lífeyristrygging er annars eðlis. Hún er trygging en ekki sparnaður eða sjóðssöfnun. Samningur um kaup á lífeyristryggingu felur í sér langtímaskuldbindingu – oft til margra ára eða áratuga – af hálfu kaupandans. Samningur um kaup á lífeyristryggingu er í eðli sínu tryggingarsamningur, en slíkir samningar eru jafnan yfirgripsmiklir og flóknir. Lífeyristryggingar erlendra aðila sem seldar eru hér á landi lúta þýskri tryggingalöggjöf. Inntak slíkra samninga er annað en samninga um lífeyrissparnað. Heimilt er að flytja réttindi sem byggja á lífeyristryggingu til annarra vörsluaðila og taka réttindi út eftir sextugt. Þó ber að hafa í huga að í mörgum tilvikum tekur kaupandinn á sig afföll vegna ákvæða um endurkaupsvirði sem rýra áunnin réttindi. Kaupendur lífeyristrygginga þurfa jafnframt að huga að upplýsingum um þróun réttinda sinna. Í mörgum tilvikum afhenda tryggingafélög aðeins yfirlit yfir inngreiðslur, en þau sýna að jafnaði ekki samanburð á innborgunum og áunnum réttindum. Þá geta réttindi tapast ef greiðslur falla niður, t.d. vegna atvinnuleysis eða náms.

Mikilvægt að kynna sér málin

Við markaðssetningu og kynningu á séreignarsparnaði eru ólík sparnaðarform (lífeyrissparnaður og lífeyristrygging) oft lögð að jöfnu. Af framangreindum samanburði er hins vegar ljóst að verulegur munur er á þessu tvennu, bæði að efni og uppbyggingu. Á meðan lífeyrissparnaður er bein söfnun fjármuna á reikning eða í sjóð, þar sem upplýsingar um inneign liggja ávallt skýrt fyrir, byggir lífeyristrygging á flóknu regluverki og ítarlegum tryggingaskilmálum. Samningur um kaup á lífeyristryggingu getur falið í sér skuldbindingu til margra ára. Með slíkum samningi er kaupandi í raun að ráðstafa hluta tekna sinna um langa framtíð. Það eitt ætti að vera nægt tilefni til að kynna sér málin vel áður en ákvörðun er tekin um með hvaða hætti best sé að varðveita séreignarsparnað.

Ólafur Páll Gunnarsson er verkefnastjóri lífeyrissparnaðar hjá Landsbankanum og framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins.

Greinin er einnig birt á vef Íslenska lífeyrissjóðsins.
Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

81fbfaa4-60e4-11e4-a834-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar