Fjárhagur

Jákvæður framboðsskellur kemur heimilum til góða

Haldist heimsmarkaðsverð á olíu á svipuðum slóðum og það er nú gæti lækkunin sparað bíleigendum á Íslandi um 100 þúsund krónur á ári. Þessi sparnaður eykur ráðstöfunartekjur bíleigenda um upphæð sem jafngildir 2-3% launahækkun meðallauna. Lægra olíuverð veldur því að verðbólga er lægri og stuðlar jafnframt að styrkingu krónunnar.

10. mars 2015  |  Dr. Daníel Svavarsson

Lækkun heimsmarkaðsverðs olíu hefur þegar komið sér vel fyrir heimilin í landinu. Helstu beinu mælanlegu áhrifin eru að ráðstöfunartekjur hafa aukist vegna lægra eldsneytisverðs innanlands sem samsvar allt að 3% launahækkun meðallauna miðað við að verðið haldist tiltölulega stöðugt. Óbein áhrif koma m.a. fram í lægri verðbólgu og þar með lægri vaxtakostnaði.

Fyrst aðeins um þróun olíuverðs og ástæður verðfallsins

Olíuverð hefur lækkað verulega á heimsmarkaði frá því um mitt síðasta ár. Í júní 2014, þegar verðið stóð hæst á árinu, kostaði olíufatið um 115 bandaríkjadali en um miðjan janúar á 2015 var verðið komið niður í 47 dali. Þetta er um 60% verðlækkun á tiltölulega stuttu tímabili. Verðið hefur hækkað töluvert frá því að það náði lágmarki og stendur nú í um 60 dölum á fatið. Ítarlega var fjallað um þessa þróun á morgunfundi Landsbankans 5. mars.

Þótt snöggt verðfall af þessu tagi sé sjaldgæft er það alls ekki fordæmalaust. Síðast gerðist þetta árið 2008 en þá féll olíuverð um 69%. Verðfallið þá var afleiðing af minnkandi umsvifum í heimshagkerfinu (svokallaður neikvæður eftirspurnarskellur) í kjölfar fjármálakreppunnar sem reið yfir heimsbyggðina.

Framleiðsla jókst hraðar en eftirspurn - jákvæður framboðsskellur

Olíuverðslækkunin á síðasta ári er hins vegar knúin af allt öðrum þáttum sem rekja má til þess að heimsframleiðslan á olíu á síðasta ári jókst töluvert hraðar en eftirspurnin (svokallaður jákvæður framboðskellur). Þessi framleiðsluaukning var að stórum hluta drifin áfram af aukinni olíuvinnslu Bandaríkjanna á setlagaoliíu (shale-oil).

Verð á olíu á heimsmarkaði ræðst hins vegar ekki einungis af frjálsum markaðsöflum því hluti olíuútflutningsríkja eru meðlimir í samtökum sem nefnast OPEC. Þessi samtök hafa að markmiði að halda olíuverði háu og stöðugu til lengri tíma, eins og kostur er. Til að ná þessu fram reyna þau að stýra framleiðslunni þannig að þegar offramboð myndast á markaðnum frá ríkjum utan samtakanna þá draga þau úr framleiðslunni hjá sér í þeim tilgangi að halda verðinu uppi.

Markaðsöflin tóku völdin

Þetta virkaði ágætlega þar til í nóvember í fyrra þegar samstaðan innan OPEC brast og Sádi-Arabía (langstærsti olíuframleiðandinn innan samtakana) neitaði að grípa til framleiðsluskerðingar til að mæta auknu framboði. Strax í kjölfar þessa fundar tóku markaðsöfl framboðs og eftirspurnar völdin og olía féll hratt í verði.

Þetta hefur gerst áður. Árið 1986 brást samstaðan innan OPEC um hvernig ríkin ættu að skipta með sér framleiðsluskerðingum vegna aukinnar olíuframleiðslu ríkja utan samtakanna og í kjölfarið lækkaði verðið um næstum helming. Það sem er athyglisvert við þá verðlækkun er að það tók olíuverðið um 15 ár að ná fyrri hæðum á ný, ef frá er talin umtalsverð verðsveifla í byrjun 10. áratugarins vegna innrásar Íraka í Kúveit. Hvort verðlækkunin nú verður jafn langvinn er erfitt að spá fyrir um.

Nú að fjárhag heimilanna

Haldist olíuverð á þessum slóðum á næstu mánuðum og misserum er ljóst að það mun hafa umtalsverð áhrif á efnahag flestra landa í heiminum. Almennt má segja að áhrifin séu yfirgnæfandi neikvæð í olíuútflutningsríkjum en jákvæð í olíuinnflutningsríkjum. Hvað varðar áhrifin hér á Íslandi eru þau mestmegnis jákvæð. Þessi áhrif koma fram í jákvæðum áhrifum á hagvöxt með aukinni fjárfestingu og einkaneyslu, lægri verðbólgu sem hefur m.a. jákvæð áhrif á heimili og fyrirtæki í landinu með lægri vöxtum og verðbótum vegna verðtryggðra lána. Einnig með sterkara gengi þar sem innflutningsverðmæti olíu og bensíns sem flutt er til landsins lækkar.

Neikvæðu áhrifin eru einkum fólgin í því að sum viðskiptalanda Íslands hafa orðið fyrir mjög neikvæðum áhrifum vegna olíuverðslækkunarinnar, einkum Rússland og Nígera. Þessi lönd kaupa samanlagt um 5,5% af heildarvöruútflutningi okkar. Langflest viðskiptalanda Íslands eru hins vegar nettó olíuinnflytjendur sem hagnast á lægra olíuverði, t.d. evrusvæðið sem kaupir um 63% af vöruútflutningi okkar. Nettó eftirspurnaráhrif eftir útflutningi Íslands kunna því að vera jákvæð.

Hvað varðar bein áhrif olíuverðs á útgjöld heimilanna þá hefur lækkun heimsmarkaðsverðs um helming á undanförnum mánuðum skilað sér í u.þ.b. 20% verðlækkun á bensínverði við dælurnar hér innanlands. Einföld tölfræðigreining (aðhvarfsgreining) sýnir að bensínverð hér innanlands fylgir nokkuð vel einfaldri formúlu.

Bensínverð (kr/lítri) = 1,13 * heimsmarkaðsverð á einum lítra af hráolíu í krónum talið + 158 kr.

Þessi jafna skýrir um 92% af verðbreytileikanum í bensínverði undanfarin 2 ár. Það að bensínverðið við dæluna breytist ekki hlutfallslega jafn mikið og heimsmarkaðsverðið skýrist af því að stór hluti lítraverðsins er fastur, eða um 158 kr. Þessi fasti kostnaður endurspeglar m.a. flutnings- og rekstrarkostnað bensínstöðva, en stærstur hluti þess eru fastar krónutöluálögur hins opinbera á hvern seldan bensínlítra sem eru óháðar verðinu sjálfu.

Auknar ráðstöfunartekjur á við 2-3% launahækkun

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) áætlar að meðaleyðsla fjölskyldubíls á Íslandi sé um 2.000 lítrar á ári. Haldist heimsmarkaðsverð á olíu á svipuðum slóðum og það er nú gæti lækkunin sparað bíleigendum um 100 þúsund krónur á ári í bensínkostnað miðað við meðalverðið á síðasta ári. Þessi sparnaður eykur ráðstöfunartekjur bíleigenda um sem nemur 2-3% launahækkun meðallauna á síðasta ári.

Bein jákvæð áhrif bensínverðslækkunarinnar á verðbólguna eru einnig veruleg. Alls vegur bensín- og díselverð um 4% í neysluútgjöldum heimilanna (skv. neyslukörfu Hagstofunnar) og því hafa breytingar á bensínverði bein áhrif á vísitölu neysluverðs. Á myndinni hér að neðan sjáum við þróun verðbólgunnar frá ársbyrjun 2013. Línan á myndinni sýnir þróun ársverðbólgunnar meðan að stöplarnir sína framlag breytinga á einstökum undirþáttum til breytinga á verðbólgunni.

Verðbólgan væri töluvert hærri ef olían hefði ekki lækkað

Samkvæmt mælingu Hagstofunnar er bensínverð nú 16,4% lægra en það var fyrir 12 mánuðum síðan og vegur sú lækkun 0,9 prósentustig til lækkunar ársverðbólgunnar. Með öðrum orðum, ef bensínverð hefði haldist óbreytt undanfarið ár (í stað þess að lækka) væri verðbólgan í dag 1,7% en ekki 0,8% eins og raun ber vitni.

Bensínverðslækkunin spilar einnig aukahlutverk í lækkun á verði annarra innfluttra vara sem hafa lækkað um 3,3% undanfarna 12 mánuði sem veldur því að verðbólgan er 1,1 prósentustigi lægri en ef verðið hefði haldist óbreytt. Þetta aukahlutverk er fólgið í því að hluta þessarar lækkunar innfluttra vara má rekja til styrkingar krónunnar en lægra heimsmarkaðsverð á olíu hefur ýtt undir styrkingu krónunnar þar sem nettógjaldeyrisflæðið inn í landið verður meira en ella. Erfitt er þó að meta nákvæmlega hversu veigamikið þetta hlutverk hefur verið í styrkingu krónunnar.

Höfundur er forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans.

Fjallað var um áhrif lægra olíuverðs á morgunfundi Markaða Landsbankans 5. mars 2015

Reiknaðu bíladæmið til enda - fjárhagspistill um kostnað við rekstur einkabíls

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

abcc7376-c669-11e4-8c62-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar