Fjárhagur

Ávöxtun og áhætta – er hægt að sleppa áhættunni en fá ávöxtunina?

Ekki er óalgengt að fólk sem vill fjárfesta fé sitt taki sérstaklega fram að það vilji „enga“ áhættu í fjárfestingum sínum og vilji „bara 100% öryggi“ og „ekkert gambl“. Í mörgum tilfellum segist fólk ekki vilja koma nálægt verðbréfum (hlutabréfum og skuldabréfum) því slíkar fjárfestingar séu svo áhættusamar.

19. desember 2014  |  Marteinn Kristjánsson

Það er fullkomlega eðlilegt að fólk hugsi svona en það er þó vert að staldra við og velta því fyrir sér hvað átt er við þegar rætt er um áhættu og öryggi. Áhætta og ávöxtun haldast mjög í hendur. Það er ekki hægt að reikna með að sú ávöxtunarleið sem er líklegust til að gefa hæstu ávöxtun til langs tíma sé jafnframt sú öruggasta eða stöðugasta.

Fátt er með öllu áhættulaust, hvort sem við erum að horfa til verðbréfamarkaða eða annarra hluta sem snerta okkur frá degi til dags.

Atvinnuvegir á Íslandi eru áhættusamir en skila samt góðum vexti

Ávöxtun á Íslandi tekur mið af innlendum atvinnuvegum og flestum þeirra fylgir töluverð áhætta og sveiflur. Það á a.m.k. við um fiskveiðar, framleiðslu á áli, ferðamannaiðnað og framleiðslu á iðnaðarvörum. Allar þessar greinar hafa skapað mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið en ágóðinn hefur verið mismikill eftir árum. Hið sama gildir um verðbréf og ávöxtun af þeim.

Hafa má í huga að Ísland hefur síðastliðnum 70 árum þróast frá því að vera afar fátækt ríki yfir í það að vera í hópi þróuðustu ríkja heims. Vöxturinn hefur engu að síður verið sveiflukenndur. Hið sama á við um ávöxtun á verðbréfum.

Mesta niðursveiflan var í hruninu 2008 en það er vert að gefa því gaum að þrátt fyrir hrunið skilaði lífeyriskerfi Íslendinga hreinni raunávöxtun upp á 4,6% ef litið er til síðustu 20 ára (1991-2011) sem er afar góður árangur.* Þessi ávöxtun lífeyrirssjóðanna náðist fyrst og fremst á verðbréfamörkuðum, með þeim kostum og göllum sem þeir markaðir hafa, en ekki á innlánsreikningum enda væri ógjörningur að ná slíkri ávöxtun þar. Stór hluti af sparnaði Íslendinga er í bundinn í lífeyrissjóðum en það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir að ávöxtun á þessum sparnaði er mjög háð sveiflum á verðbréfamarkaði.

*Heimild: Landssamband lífeyrissjóða.

Leggi mat á getuna til að standast sveiflur í ávöxtun

Það að verðbréf tapi með öllu verðmæti sínu hefur oftast allnokkurn aðdraganda. Í vel dreifðum eignasöfnum sem samanstanda af skráðum verðbréfum í virkri stýringu, hafa slíkir atburðir að jafnaði lítil áhrif á langtímaávöxtun eignasafnanna. Ástæðan er sú að hækkanir á verðbréfum eru að jafnaði fleiri og meiri en lækkanir.

Mun áþreifanlegri áhætta er vegna sveiflna í ávöxtun verðbréfa. Sú áhætta krefst þess að fólk leggi mat á getu sína og vilja til að standa slíkar sveiflur af sér. Hér skiptir lífaldur og hvort fólk hefur tíma til að bíða eftir að niðursveiflur jafni sig út, miklu máli. Niðursveiflur hafa nefnilega tilhneigingu til að jafnast út.

Mörgum er í fersku minni sá tími þegar kaup á hlutabréfum nutu mikilla vinsælda og umræða um markaði og hækkun hlutabréfa var mikil. Því miður var nokkuð algengt að einstaklingar keyptu hlutabréf fyrst og fremst vegna þess að það var það sem aðrir gerðu og vegna þess að slík bréf voru búin að hækka um langa hríð, frekar en að þeir hefðu lagt persónulegt mat á þennan fjárfestingarkost.

Taka þarf upplýsta ákvörðun

Þegar einstaklingar standa frammi fyrir mismunandi kostum við ávöxtun á fjármunum eru nokkur atriði sem taka þarf afstöðu til hverju sinni, s.s. ávöxtun, hvað þeir vilja binda fé sitt lengi og í hvaða tegund verðbréfa þeir vilja fjárfesta í. Mjög er einstaklingsbundið hvaða atriði hver og einn telur mikilvægast.

Með þessum skrifum er ekki verið að gera lítið úr áhættu eða hvetja til áhættusækinna fjárfestinga, síður en svo. En um leið er mikilvægt að við hræðumst ekki fjárfestingakosti eins og verðbréf að óþörfu vegna eiginleika sem eru eðlilegir og gerum okkur grein fyrir að áhætta verður aldrei með öllu umflúin.

Því ættum við ávallt að leggja mat á í hverju áhættan liggur og taka upplýsta ákvörðun á grundvelli bestu upplýsinga, hvort sem við erum að ávaxta sparifé okkar eða taka aðrar ákvarðanir.

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

aed8ec81-86b9-11e4-878c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar