Fjárhagur

Raunveruleikurinn: Gagnvirk fjármálafræðsla í grunnskólum

Raunveruleikurinn hófst í byrjun vikunnar og er þetta í ellefta skiptið sem hann fer í loftið. Að þessu sinni eru það nemendur í 10. bekk sem fá að spreyta sig og eiga allir 10. bekkingar á landinu kost á að taka þátt. Leikurinn stendur yfir í fjórar vikur og lýkur honum 15. nóvember. Raunveruleikurinn er gagnvirkur hermileikur, hannaður sem fjármála- og neytendafræðsla fyrir efstu bekki grunnskóla. Um er að ræða vefleik þar sem nemendur fá innsýn í þær ákvarðanir sem venjulegur þjóðfélagsþegn þarf að taka á lífshlaupi sínu og hvernig bregðast skuli við ólíkum tækifærum og hindrunum sem verða á vegi hans. Á þennan hátt setja nemendur sig í ákveðin spor og móta lífshlaup sitt í sem raunverulegustum aðstæðum, óháð raunverulegri stöðu sinni.

18. október 2012  |  Ritstjórn

Raunveruleikurinn hófst í byrjun vikunnar og er þetta í ellefta skiptið sem hann fer í loftið. Að þessu sinni eru það nemendur í 10. bekk sem fá að spreyta sig og eiga allir 10. bekkingar á landinu kost á að taka þátt. Leikurinn stendur yfir í fjórar vikur og lýkur honum 15. nóvember. Raunveruleikurinn er gagnvirkur hermileikur, hannaður sem fjármála- og neytendafræðsla fyrir efstu bekki grunnskóla. Um er að ræða vefleik þar sem nemendur fá innsýn í þær ákvarðanir sem venjulegur þjóðfélagsþegn þarf að taka á lífshlaupi sínu og hvernig bregðast skuli við ólíkum tækifærum og hindrunum sem verða á vegi hans. Á þennan hátt setja nemendur sig í ákveðin spor og móta lífshlaup sitt í sem raunverulegustum aðstæðum, óháð raunverulegri stöðu sinni.

Raunveruleikurinn er keppni þar sem þátttakendur keppast fyrst og fremst við að komast af í hörðum heimi, ná endum saman, taka réttar ákvarðanir, þroskast og komast til metorða. Þeir fá stig samkvæmt ákveðnum leikreglum og sá sem flest stig fær stendur uppi sem sigurvegari að lokum.

Í upphafi leiks eru þátttakendur í sporum ungs fólks á leið út í lífið í sambúð með barn. Leikmaður fær ákveðna byrjunarupphæð á bankareikning en líf hans er að öðru leyti óskrifað blað. Eftir að hafa mótað persónu sína, útlit, nafn og ákveðin persónueinkenni þarf leikmaðurinn að taka ýmsar ákvarðanir, t.d. í hvað skal eyða peningunum, hvað hann eigi að borða og kanna atvinnumarkaðinn. Allt þetta val er opið meðan á leiknum stendur. Þannig getur leikmaður breytt mataræði sínu eða ákveðið hvenær sem er að mennta sig svo fremi sem aðstæður hans leyfa.

Raunveruleikurinn er í raun samfélag þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar gilda. Í leiknum er líkt eftir raunaðstæðum þannig að ákveðið hlutfall þátttakenda kemst í vel launuð störf á meðan aðrir þurfa að sætta sig við lakari laun. Á sama hátt fær ákveðið hlutfall happdrættisvinning – að sjálfsögðu aðeins þeir sem spila með, ákveðið hlutfall gleymir að skrúfa fyrir baðvatnið, ákveðið hlutfall eignast börn á ákveðnum tíma o.s.frv. Gunna á Grundarfirði getur þannig haft áhrif á Binna í Breiðholti en leikurinn, eins og lífið sjálft er samspil gæfu og gjörvileika.

Á meðan leiknum stendur verða þátttakendur að skrá sig inn alla virka daga og vinna verkefni. Þeir þurfa að taka fjölda ákvarðana, fylgjast með fréttum, leita sér að vinnu og bregðast við öllu því sem á daga þeirra drífur.

Hvernig endurspeglar Raunveruleikurinn raunveruleikann?

Raunveruleikurinn er einskonar eftirlíking af samfélagi og því er áhugavert að fylgjast með hvort tölfræði leiksins endurspegli raunverulegar aðstæður. Úr tölfræði leiksins sem spilaður var í 9. bekk vorið 2012 kom fram að hvað framhaldsskólanám varðar sóttu margir þátttakendur í tölvunám, snyrtigreinar og nám sem veitti stúdentspróf þetta árið. Vinsælasta háskólanám hjá strákum voru sjávarútvegsfræði og geislafræði en hjá stúlkunum voru það lögfræði og viðskiptafræði.

Meðallaun þátttakenda voru 279.125 kr. sem er um 12.000 kr. lægra en í fyrra. Strákar voru tekjuhærri en stelpur við lok leiks. Atvinnuleysi sveiflaðist nokkuð á meðan keppnin stóð yfir en var 7,7% við lok leiks eða 1,5% hærra en í fyrra. Þess má geta að atvinnuleysi á Íslandi í febrúar 2012 var 7,3% og aðstæður í Raunveruleiknum því ekki svo ólíkar raunverulegum aðstæðum á Íslandi. Á meðan á leiknum stóð hækkaði verð á vöru og þjónustu nokkuð og verðbólga var á bilinu 0-4%. Í Raunveruleiknum „fæddust“ 858 börn á spilunartímabilinu.

Kormákur Andri Þórsson úr Myllubakkaskóla, sigurvegari í Raunveruleiknum vorið 2012
Kormákur Andri Þórsson úr Myllubakkaskóla bar sigur úr býtum í keppni einstaklinga í 9. bekk vorið 2012. Hér afhendir Einar Hannesson, útibússtjóri í Keflavík, Kormáki verðlaunin.

Um Raunveruleikinn

Höfundur leiksins er Ómar Örn Magnússon en að baki Raunveruleiknum liggur margra ára rannsókna-, hönnunar- og forritunarvinna sem unnin hefur verið af höfundi og vefdeild Landsbankans. Raunveruleiknum er ætlað að svara þörf fyrir nútímalegt og vandað námsefni fyrir unglinga í lífsleikni með áherslu á fjármála- og neytendafræðslu. Leikurinn hefur hlotið verðlaun Norrænu ráðherranefndarinnar sem besta námsefnið á þessu sviði.

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að efla fjármálalæsi og er meginmarkmiðið með Raunveruleiknum að nemendur fái innsýn í fjármálaumhverfi einstaklinga í sinni víðustu mynd þar sem rúm er fyrir umræður og virka þátttöku yfir lengri tíma.

Leikurinn er spilaður í 10. bekk á haustönn en í 9. bekk á vörönn.

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

b10d8a7a-1934-11e2-b78b-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar