Fjárhagur

Eignadreifing mikilvæg til að draga úr áhættu í fjárfestingum

Flestir vilja auðvitað hámarka ávöxtun af sparnaði sínum, en því miður huga ekki allir að því að það þarf líka að lágmarka áhættu.

7. júní 2017  |  Kristín Erla Jóhannsdóttir

Fáir, áhættusamir sparnaðarkostir geta skapað óþarfa hættu og jafnvel leitt til taps þegar illa gengur. Þá er eðlilegt að spyrja hvaða sparnaðarleiðir henti best til að ná góðri ávöxtun en takmarka um leið áhættuna. Eignadreifing er ein slík leið, en dugar hún til að draga úr áhættu og er hún líkleg til að skila nægilegri ávöxtun?

Ólíkar fjárfestingar - minni áhætta

Áhætta er skilgreind sem líkur á að óvæntar breytingar eigi sér stað í umhverfinu. Lífið allt er auðvitað fullt af áhættu. Það fylgir því áhætta að fara í fallhlífarstökk, keyra bíl eða fjárfesta í verðbréfum. Í raun fela flestar ákvarðanir sem við tökum í sér einhverjar líkur á að niðurstaðan verði ekki sú sem við ætlumst til. Áhætta er í raun aðeins mælikvarði á óvæntar breytingar, og á við hvort sem breytingarnar eru neikvæðar eða jákvæðar. Almennt gildir um fjárfesta að þeir vilja fá sem hæsta ávöxtun en taka eins litla áhættu og mögulegt er.

 

Kristín Erla Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eignastýringar - þjónustu hjá Mörkuðum Landsbankans.


Staðalfrávik er tölfræðihugtak sem notað er til að mæla flökt eða sveiflur í ávöxtun eignasafns. Arðsemi er gjarnan mæld sem breyting á verði fjárfestinga, t.d. hlutabréfa. Fylgni mælir hversu mikið arðsemi tveggja bréfa helst í hendur. Ef fylgnin er mikil sveiflast arðsemi bréfanna saman, að jafnaði hækkar annað um leið og hitt og lækkar sömuleiðis ef verð hins fellur.

Mælikvarðinn er staðlaður á milli -1 og 1. Fræðilega væri safn með tveimur eignum með fylgnina -1 alveg áhættulaust en slíkt safn er vitaskuld ekki til í raunveruleikanum.

Í fræðunum eru eignir gjarnan flokkaðar í áhættulausar og áhættusamar eignir. Samkvæmt fræðunum þá er skilgreiningin á áhættulausri eign að staðalfrávik sé núll eða að eignin búi yfir engri áhættu. Alveg áhættulausar eignir væru sem dæmi ríkisvíxlar og laus innlán á skilvirkum markaði (e. efficient market). Við vitum þó betur en svo því að í verðbólgu eru ríkisvíxlar sem óverðtryggður pappír ekki alveg áhættulaus og innlán búa yfir einhverri vaxtaáhættu og mótaðilaáhættu. Þess vegna væri réttara að kalla þetta áhættulitlar eða áhættuminni eignir í raunheimum. Áhættusamar eignir eru flokkar á borð við skuldabréf, hlutabréf, fasteignir og fleira.

Fjárfestar þola áhættu misvel. Áhættufælni þýðir að ef að fjárfestir getur valið á milli tveggja kosta með sömu væntu ávöxtun þá velur hann kostinn sem felur í sér minni áhættu. Það fer svo eftir áhættuþoli í hvaða hlutföllum fjárfestir á í áhættusömum eignum og áhættulausum eignum.

Heildaráhætta er samsett úr sérstakri áhættu og kerfislægri áhættu. Sérstök áhætta er til staðar vegna tilviljunarkenndra atburða sem eiga sér stað í umhverfi fyrirtækja eins og verkföll, lögsóknir og fleira. Kerfislæg áhætta eða markaðsáhætta stafar af atburðum sem hafa áhrif á flest fyrirtæki, eins og stríð, efnahagsleg lægð, verðbólga, háir vextir og fleira.

Dreifing fjárfestinga dregur úr áhættu

Sérstakri áhættu má eyða í safni verðbréfa með því að fjölga bréfum. Það dregur úr áhættu safns ef arðsemi eigna hefur neikvæða fylgni og sveiflast í öfuga átt.

Einfalt dæmi gæti verið fjárfestir sem velur að fjárfesta í tveimur rótgrónum fyrirtækjum. Fyrirtækin hafa sögulega góða arðsemi en starfa á ólíkum sviðum. Annað fyrirtækið framleiðir sólarvörn en hitt fyrirtækið selur kuldafatnað. Gert er ráð fyrir að vænt arðsemi hlutabréfanna sé sú sama. Þegar heitt er í veðri gengur sólarvarnarframleiðandanum vel en þegar kólnar vænkast hagur framleiðanda vetrarfatnaðarins.

Áhætta þeirra sem eiga eingöngu hlutabréf í öðru fyrirtækinu er talsverð, en áhætta þeirra sem eiga í báðum fyrirtækjunum er minni gagnvart veðurfarsbreytingum. Vænt ávöxtun er sú sama hvort sem fjárfestir kaupir í báðum fyrirtækjunum eða öðru þeirra. Ef fjárfestir kaupir aftur á móti hlutabréf í báðum þeirra getur hann minnkað áhættu sína án þess að það hafi áhrif á vænta ávöxtun. Með því að bæta við enn fleiri bréfum til að taka fleiri þætti inn í myndina þá getur hann eytt út sérstöku áhættunni eins og sést á myndinni.

Heimild: Bruno H. Solnik, "Why Not Diversify Internationally Rather Than Domestically?" Financial Analysts Journal, júlí/ágúst 1974. (Tekið upp úr International Financial Management, Shapiro/Moles 2014).

Fjárfesting í erlendum verðbréfum dregur enn frekar úr áhættu

Í vel dreifðu safni innlendra verðbréfa situr samt alltaf eftir innlend kerfisáhætta. Vel dreift safn er skilgreint sem það safn sem inniheldur 20 eignir eða fleiri. Á myndinni sést að það er hægt að ná áhættunni niður í 19,2%. En er hægt að draga enn frekar úr áhættunni?

Hagkerfi eða hagsveiflur hreyfast ekki eins á milli landa. Þar af leiðandi er hægt að draga úr kerfisáhættu með því að að fjárfesta í erlendum verðbréfum. Sem dæmi þá getur lækkun á olíuverði haft jákvæð áhrif á hlutabréfaverð í löndum sem flytja inn olíu en neikvæð áhrif fyrir þau sem flytja hana út. Með því að bæta erlendum eignum við vel dreift innlent eignasafn getur fjárfestir lækkað áhættuna niður í 11,7%.

Úrvalið af fjárfestingarkostum er mikið og Landsbankinn getur aðstoðað viðskiptavini sína við valið. Hlutabréf eru sá erlendi fjárfestingarkostur sem íslenskir fjárfestar hafa notað hvað mest. Hlutabréf eru í eðli sínu áhættusamur fjárfestingarkostur og því er nauðsynlegt að sýna varúð þegar velja á einstök bréf eða sjóði. Hlutabréfamarkaðir erlendis eru margir og ólíkir en þó er fylgni á milli þeirra töluverð og hefur aukist eftir því sem fyrirtæki verða alþjóðlegri og streymi upplýsinga hefur batnað. Að bæta erlendum fjárfestingum í eignasafn bætir dreifingu innan þess og getur dregið úr áhættu án þess að skerða ávöxtunarmöguleika.

Eignadreifing vænleg leið til árangurs

Það er ekkert öruggt í heimi fjárfestinga frekar en annarsstaðar. En það að dreifa eignum markvisst og með upplýstum hætti er almennt mjög skynsöm leið til að draga úr áhættu. Eignasafn sem er byggt upp af mörgum ólíkum fjárfestingarkostum, innlendum og erlendum, felur í sér mun minni áhættu en fáir skyldir eða eðlislíkir kostir. Eignadreifing getur þvi verið mjög vænleg leið til árangurs.

Greinin hefur verið uppfærð.

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

cb15518b-4205-11e7-be62-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar