Fjárhagur

Viðbótarlífeyrissparnaður eykur enn gildi sitt

Ráðstöfun skattfrjáls viðbótarsparnaðar inn á húsnæðislán eða til húsnæðiskaupa er hagstæður kostur fyrir þá sem vilja hámarka tekjur sínar og byggja upp eigið fé á sama tíma. Aðgerðir stjórnvalda eru til þess fallnar að hraða eignamyndun en á sama tíma munu þær treysta í sessi það mikilvæga sparnaðarform sem viðbótarlífeyrissparnaðurinn er.

3. apríl 2014  |  Ólafur Páll Gunnarsson
Ólafur Páll Gunnarsson

Stjórnvöld hafa nú kynnt aðgerðir í skuldamálum heimilanna. Þær eru tvíþættar, þ.e. annars vegar er um að ræða niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattfrjálsa ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar til lækkunar höfuðstóls húsnæðislána eða til kaupa á íbúðarhúsnæði.

Viðbótarlífeyrissparnaður er afar hagkvæmt sparnaðarform, m.a. vegna mótframlags launagreiðanda og undanþágu inneignar frá fjármagnstekjuskatti. Tekjur sem ráðstafað er til viðbótarlífeyrissparnaðar eru skattfrjálsar en tekjuskattur er greiddur við úttekt. Sú ráðstöfun sem stjórnvöld hafa nú kynnt um skattfrjálsa úttekt viðbótarlífeyrissparnaðar, að hámarki 1,5 milljónir króna á þremur árum, og nýta má til greiðslu inn á húsnæðislán eða til húsnæðiskaupa, gerir sparnaðinn enn fýsilegri.

Greiddur inn á lán

Að greiða niður skuldir er árangursrík leið til eignamyndunar. Með því að greiða inn á íbúðalánið með viðbótarlífeyrissparnaði nýtur viðkomandi skattaafsláttar og mótframlags launagreiðanda auk þess sem innborgunin lækkar heildarvaxtagreiðslu og -verðbætur. Aðili sem greiðir eina milljón króna í viðbótarlífeyrissparnað og fær hálfa milljón króna í mótframlag atvinnurekanda getur vænst þess að fá 2,1 milljón króna eftir skatt að 25 árum liðnum á föstu verðlagi.

Ef sami aðili greiðir sömu fjárhæð inn á fasteignalán og heldur sömu greiðslubyrði á lánunum myndi skuld hans lækka um fjórar og hálfa milljón króna að 25 árum liðnum, jafnframt á föstu verðlagi. (Forsendur útreiknings miðast við 3,5% raunávöxtun lífeyrissparnaðar, 4,5% raunvexti af fasteignalánum og 40% tekjuskatt.) Eins og framangreind dæmi sýna getur einnar milljónar króna skattfrjálst framlag launþega lækkað lán um margfalda þá upphæð. Fáir fjárfestingarkostir í dag fela í sér jafn háa ávöxtun, auk þess sem niðurgreiðsla skulda er í raun ígildi áhættulausrar fjárfestingar.

Húsnæðiskaup

Samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, verður fólki heimil skattfrjáls úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði sem myndast á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017, og nýta má hana til húsnæðiskaupa. Skilyrði er að inneign verði nýtt til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og að rétthafi hafi ekki verið eigandi íbúðarhúsnæðis frá 1. júlí 2014 þar til heimildin er nýtt.

Heimildin takmarkast við 1,5 milljóna króna ráðstöfun á hverja fasteign, þ.e. hvert heimili. Heimildin gildir í 5 ár. Þá er miðað við að heimildina megi nýta vegna nýbyggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota og að sama gildi um kaup á búseturétti. Hægt verður að nýta báða þætti úrræðisins, safna t.d. fyrir útborgun í tvö ár og greiða svo inn á húsnæðislán í eitt ár. Skattfrjáls ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar til húsnæðiskaupa mun því án efa flýta fyrir nauðsynlegri eignamyndun húskaupenda og hækka eiginfjárframlag, ekki síst þeirra sem hyggja á fyrstu kaup.

Mikilvægt að kynna sér kostina

Ráðstöfun skattfrjáls viðbótarsparnaðar inn á húsnæðislán eða til húsnæðiskaupa er hagstæður kostur fyrir þá sem vilja hámarka tekjur sínar og byggja upp eigið fé á sama tíma. Aðgerðir stjórnvalda eru til þess fallnar að hraða eignamyndun en á sama tíma munu þær treysta í sessi það mikilvæga sparnaðarform sem viðbótarlífeyrissparnaðurinn er.

Ólafur Páll Gunnarsson er verkefnastjóri lífeyrissparnaðar hjá Landsbankanum og framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins.

Greinin birtist einnig í Fréttablaðinu 3. apríl 2014.

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

e52f67ec-bb41-11e3-bb08-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar