Fjárhagur

Verðbætur fyrir hluta úr mánuði

Sérstakar reglur gilda um hvernig verðbætur eru reiknaðar út fyrir hluta úr mánuði. Það gildir bæði um útlán og innlán.

27. apríl 2020  |  Sigurjón Gunnarsson

Í dag eru verðbætur fyrir hluta úr mánuði reiknaðar hlutfallslega og er breyting fyrir hvern dag reiknuð sem 1/30 af verðbótum mánaðarins. Dæmi: Vísitala í janúar 2020 var 472,8 en hækkar um 0,5 milli mánaða og var 473,3 í febrúar. Hækkunin er reiknuð svona: 473,3/472,8 = 1,001058 – 1 = 0,1058% og fyrir einn dag er það 0,0035%.
Verðbætur vegna útlána eru reiknaðar á svipaðan hátt. Dagvísitala er reiknuð út á eftirfarandi hátt. Vísitalan milli janúar og febrúar hækkar um 0,5 stig og fyrir hvern dag sem frávik eru miðað við reglulegan gjalddaga reiknast 1/30 af breytingu. Ef verið er að greiða upp lán sem var með gjalddaga 1. janúar en greiðsla á sér stað 10. janúar væri dagvísitalan sem er notuð reiknuð á eftirfarandi hátt: 0,5/30 = 0,016667 og er þetta breytingin fyrir hvern dag sem frávikið er. Í þessu tilfelli er það 9 dagar og því er margfaldað með níu, 0,016667 * 9 = 0,15. Hækkun á vísitölunni á þessum níu dögum er því 0,15 sem bætist við janúarvísitöluna. Þannig er 472,8 + 0,15 = 472,95 sem er dagvísitalan sem er notuð við uppgreiðsluna.

Hér er annað dæmi um lán sem verið er að greiða út en þá er líka notuð dagvísitala. Lán með grunnvísitölu febrúar 2020 er 473,3 og fyrsti gjalddagi er 1. apríl 2020. Lánið er greitt úr 10. febrúar en vísitalan lækkaði á milli febrúar og mars. Marsvísitalan var 469,8 og lækkaði um 3,5 stig sem nemur 0,11667 stigi fyrir hvern dag. Frávikið frá 1. til 10. eru 9 dagar þannig að við margföldum 0,11667 með 9 og drögum frá 473,3 til að finna dagvísitöluna. Lækkunin er því 0,11667 * 9 = 1,05 sem er dregið frá 473,3. Því er það 472,25 sem er dagvísitala þessa láns. Ef höfuðstóllinn er t.d. 1.000.000 króna hefur höfuðstóllinn lækkað frá grunnvísitölunni.

1.000.000 * 472,5/473,3 = 997.782 kr. eða lækkun upp á 2.218 kr.

Oftast hækkar vísitalan milli mánaða en það kemur fyrir að hún lækkar, sérstaklega þegar áhrif útsalna kemur inn í útreikning vísitölunnar. Á kvittunum kemur fram dagvísitalan sem er notuð þegar það á við.

Í vaxtatilkynningu Landsbankans um sérstakar verðbætur útlána er eftirfarandi texti: Greiða skal sérstakar verðbætur við útborgun láns. Sérstakar verðbætur eru reiknaðar þannig að ef tímabil frá lánveitingu og að fyrsta gjalddaga er ekki í heilum mánuðum reiknast 1/30 af breytingu verðbóta á milli mánaða fyrir hvern dag sem munar til hækkunar eða lækkunar á útborgaða fjárhæð láns. Greiða skal sérstakar verðbætur við innborgun á lán eða uppgreiðslu láns. Sérstakar verðbætur skulu greiddar ef tímabil frá síðasta gjalddaga að greiðsludegi er ekki í heilum mánuðum og reiknast 1/30 af breytingu verðbóta á milli mánaða fyrir hvern dag sem munar til hækkunar eða lækkunar á innborgun eða uppgreiðslu láns. Ef greitt er aukalaga á gjalddaga eða lán greitt upp eru ekki reiknaðar sérstakar verðbætur.

 

Sigurjón Gunnarsson, sérfræðingur í Fjárstýringu Landsbankans

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

f3c4b2d1-8634-11ea-9115-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar