Kaup í sjóð­um get­ur ver­ið ein­fald­asta leið­in til að dreifa áhætt­unni

26. ágúst 2022 - Elín Dóra Halldórsdóttir

Sjóðir eru í stuttu máli safn margra fjárfestinga og er ætlað að einfalda fólki dreifingu eigna til að draga úr áhættu og sveiflum. Margar tegundir sjóða eru í boði og fylgja þeir ólíkum markmiðum. Sumir sjóðir stefna til dæmis að því að lágmarka áhættu eða sérhæfa sig í tilteknum atvinnugreinum eða hugmyndafræði, s.s. sjálfbærni.

Fjárfesting í sjóðum er góð ávöxtunarleið fyrir sparnað. Auk þess er fjárfesting í sjóðum góð leið til að byggja upp sparnað með því að vera í mánaðarlegri áskrift. Athugaðu að gjald er tekið fyrir kaup í sjóðum en ekki sölu, en ekkert gjald er tekið við kaup í áskriftarsjóðum.  

Elín D. Halldórsdóttir

Fræðslumyndband: Það sem gott er að vita áður en þú kaupir í sjóði

Fjárfestingu í sjóðum fylgir alltaf áhætta þar sem gengi þeirra getur bæði hækkað og lækkað. Ef sjóðirnir fjárfesta í erlendum eignum getur gengisflökt líka haft áhrif. Áhættan er ólík eftir sjóðum. 

  1. Hlutabréfasjóðir fjárfesta fyrst og fremst í hlutabréfum. Hægt er að fjárfesta í vel dreifðum hlutabréfasöfnum, bæði innlendum og erlendum. Hlutabréfasjóðir henta þeim sem vilja fjárfesta til lengri tíma, fimm ára eða lengur, þar sem sveiflur geta verið talsverðar.
  2. Skuldabréfasjóðir leggja áherslu á fjárfestingar í skuldabréfum. Skuldabréf má segja að séu lán sem fyrirtæki eða opinberir aðilar taka hjá fjárfestum gegn loforði um endurgreiðslu höfuðstóls og umsamda vexti. Vextirnir eru hærri eftir því sem áhættan þykir meiri en almennt þykja skuldabréf öruggari fjárfesting en hlutabréf þar sem verðsveiflurnar eru yfirleitt minni auk þess sem kröfuröðin er þannig að skuldabréf eru greidd að öllu leyti í gjaldþroti áður en nokkuð kemur í hlut hluthafa.
  3. Blandaðir sjóðir fjárfesta í dreifðu og blönduðu safni verðbréfa, öðrum sjóðum og innlánum. Með blönduðum sjóði er hægt að ná fram eignadreifingu sem dregur úr áhættu og getur hentað til ávöxtunar til lengri tíma. Dreifð eignasöfn skila almennt hærri ávöxtun fyrir lægri áhættu til lengri tíma litið. Helsti kosturinn er að blandaðir sjóðir gera þér kleift að kaupa í vel dreifðum söfnum verðbréfa sem eru sett saman af sérfræðingum sem hafa atvinnu af því að fylgjast með mörkuðum og stýra sjóðunum fyrir hönd fjárfesta.
  4. Vísitölusjóðir, hvort sem er skuldabréfa- eða hlutabréfasjóðir, eiga verðbréf í sömu hlutföllum og eru í viðmiðunarvísitölunni sem þeir elta. Rekstrarkostnaður þessara sjóða er almennt lágur þar sem engin virk stýring fer fram, heldur endurspegla eignir sjóðanna þverskurð af tilteknum verðbréfum.

Landsbankinn býður fjölda sjóða sem hafa ólík markmið og borgar sig að kynna sér þá vel. Þú getur skoðað sjóðaúrvalið í Landsbankaappinu og í heimabankanum undir verðbréf og sjóðir. Við hvern sjóð má sjá sveiflumæli sem fer frá einum og upp í sjö þar sem 1 þýðir litlar sveiflur og minni áhætta og 7 þýðir að sjóður geti sveiflast mikið og að áhættan er töluverð.

Þekking og ráðgjöf

Það er mikilvægt að afla sér þekkingar áður en byrjað er að fjárfesta. Ég hvet þig til að leita þér ráðgjafar og kynna þér frekari upplýsingar um viðskipti með hlutabréf eða sjóði, svo sem um helstu áhættuþætti, kostnað og þóknanir, áður en ákvörðun um fjárfestingu er tekin. Verðbréfatenglar í útibúum Landsbankans geta líka veitt upplýsingar og einnig er hægt að fá gott yfirlit yfir gengi verðbréfa hér á vefnum. Þar er t.d. hægt að bera saman þróun á gengi skráðra hlutabréfa eða sjóða á einfaldan hátt.

Þú gætir einnig haft áhuga á
26. ágúst 2022
Fyrstu skrefin í verðbréfafjárfestingum
Áður en byrjað er að fjárfesta í verðbréfum er mikilvægt að hafa ákveðin lykilatriði á hreinu og vera meðvituð um áhættuna.
26. ágúst 2022
Hvernig kaupi ég hlutabréf?
Það er mjög einfalt að kaupa hlutabréf. Til dæmis er hægt að fjárfesta í hlutabréfum einstakra félaga og margskonar sjóðum í netbanka Landsbankans og í Landsbankaappinu á einfaldan hátt og fylgjast þar með þróun fjárfestingarinnar.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur