29. september 2016

Fyrirtæki sem stunda ábyrgar fjárfestingar og hafa skýra og vel innleidda stefnu um samfélagsábyrgð eru að jafnaði arðbærari og ná mun betri árangri í rekstri en önnur fyrirtæki. Þetta var samhljóða álit fyrirlesara á morgunfundi Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar sem haldinn var í dag á Icelandair Hotel Natura. Á fundinum var fjallað um eðli, innleiðingu og aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga hér á landi og erlendis og var fundurinn vel sóttur af fólki úr öllum áttum.

Ábyrgar fjárfestingar fela meðal annars í sér að við mat á fjárfestingarkostum væri fjallað um fjárhagslegan ávinning en jafnframt tekið tillit til stefnu viðkomandi fyrirtækis í umhverfismálum, jafnréttismálum, stjórnarháttum og fleiri félagslegum þáttum.

Fundarstjóri var Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Reykjavíkurborg. Upptökur af fyrirlestrunum og glærukynningar má finna hér að neðan.

 

Fyrirlesarar

 
Samfélagsábyrgð hluti af greiningu og verðmati fyrirtækja

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða Landsbankans, flutti inngangsorð og ræddi um mikilvægi grundvallarsjónarmiða um ábyrgar fjárfestingar. Hún sagði reynslu og rannsóknir staðfesta að fyrirtæki með skýra og vel innleidda stefnu um samfélagsábyrgð næðu að jafnaði betri árangri en þau sem væru skemmra á veg komin í þeim efnum.

Hrefna fjallaði um hugtakið ábyrgar fjárfestingar en það felur meðal annars í sér að við mat á fjárfestingarkostum væri fjallað um fjárhagslegan ávinning en jafnframt tekið tillit til stefnu viðkomandi fyrirtækis í umhverfismálum, jafnréttismálum, stjórnarháttum og fleiri félagslegum þáttum.

Landsbankinn hefur frá árinu 2013 verið aðili að PRI (Principle for Responsible Investment), alþjóðlegum samtökum fjárfesta sem vinna saman að því að innleiða grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar.

„Hagfræðideild Landsbankans mun framvegis taka tillit taka til þess hvernig staðið sé að samfélagsábyrgð við greiningar sínar á fyrirtækjum.“
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir,

framkvæmdastjóri Markaða Landsbankans

Hrefna sagði afar mikilvægt að áhrifaaðilar á markaði, lífeyrissjóðir, kauphallir og eftirlitsaðilar, styðji við og efli innleiðingu grundvallarviðmiða af þessu tagi. Hún sagði að mikil pressa væri á félög að sýna fram á skammtímaárangur með því að birta uppgjör fjórum sinnum á ári. Því væri mikilvægt að fylgjast enn betur með langtímasjónarmiðum og greina stefnu þeirra og aðgerðir á sviði samfélagsábyrgðar.

Hrefna sagði frá því að hagfræðideild Landsbankans muni framvegis taka tillit taka til þess hvernig staðið sé að samfélagsábyrgð við greiningar sínar á fyrirtækjum. Með tíð og tíma verði slík greining einnig nýtt við verðmat fyrirtækja. Í fyrstu verður kastljósinu beint að skráðum félögum í Kauphöll Íslands og að greindir verði félagslegir þættir og umhverfisþættir.


Samfélagslega ábyrgur markaður

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, fjallaði í erindi sínu um samfélagslega ábyrgð á markaði. Hann sagði atvinnulífið á Íslandi í auknum mæli láta sig samfélagsábyrgð varða. Hann benti á að tveir bankar og þrír lífeyrissjóðir hafi þegar undirritað yfirlýsingu SÞ um ábyrgar fjárfestingar, tíu skráð fyrirtæki væru virkir þátttakendur í Festu og að yfir 100 fyrirtæki hafi undirritað alþjóðlega loftslagsyfirlýsingu á síðasta ári.

Páll sagði ljóst að fyrirtæki geti skapað sér samkeppnisforskot með skýrri stefnu um samfélagsábyrgð og aðgerðum í samræmi við hana. Hann sagði á hinn bóginn að aukin áhersla á samfélagsábyrgð kalli á aukna upplýsingagjöf og samræmda mælikvarða. Hann sagði frá því að alþjóðleg samtök kauphalla (WFE) hafi tekið saman sameiginlega staðla (ESC) til að mæla samfélagsábyrgð skráðra félaga. Á ESC-mælaborðinu væru 33 mælistikur sem skipt væri í þrennt, en þeir eru umhverfisþættir (Environmental), samfélagsþættir (Social) og stjórnarhættir (Corporate Governance).

„Fyrirtæki geta skapað sér samkeppnisforskot með skýrri stefnu um samfélagsábyrgð og aðgerðum í samræmi við hana.“
Páll Harðarson

forstjóri Kauphallar Íslands

  • Glærukynning Páls
  • PDF

Páll sagði að staðlar og leiðbeiningar af því tagi ættu að henta flestum fyrirtækjum og að gera yrði raunhæfar væntingar. Viðmið væru til að mynda ólík eftir stærð fyrirtækja. Hann sagði að upplýsingagjöf um samfélagsábyrgð styrkti stöðu fyrirtækja á markaði og tölfræði staðfesti að þau næðu betri árangri. Í tölum sem hann birti um afkastamestu ESG-félög á NASDAQ kom m.a. í ljós að níu af hverjum tíu þeirra bera lægri rekstrarkostnað, 88% standa betur að vígi í rekstri og 80% þeirra gengur betur á hlutabréfamarkaði.

Heildin > summa liðanna

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar Icelandair Group, sagði fyrirtækið leggja höfuðáherslu á að starfa í sátt við samfélagið og styðjast við langtímasjónarmið í fjárfestingum. Félagið hafi þó viljað ganga lengra og fellt sjónarmið um ábyrgar fjárfestingar beint inn í framtíðarsýn sína. Kjarninn í framtíðarsýn félagsins væri að byggja Ísland upp sem heilsársáfangastað og að allar langtímaákvarðanir miðuðust við það. Markmið Icelandair væri að leiða saman aðila í langtímasamstarf sem tryggi að heildin verði stærri en summa liðanna.

Halldór sagði Icelandair lengi hafa hugað að samfélagsábyrgð. Félagið hafi verið fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að fá viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti. Þá væri Icelandair að ljúka alþjóðlegri umhverfisvottun á allri starfsemi sinni en ferlið hafi tekið um þrjú ár. Icelandair hafi einnig lagt drjúgan skref í fagfjárfestingarsjóð um uppbyggingu í íslenskri ferðaþjónustu í samvinnu við Landsbréf. Þar væri lögð áhersla á nýsköpun, heilsársverkefni og nýtingu á innviðum ferðaþjónustunnar yfir vetrartímann. Loks væri fyrirtækið í langtímasamstarfi við háskólastofnanir á Íslandi. Fyrirtækið ætti til að mynda í margþættu samstarfi við Háskólann í Reykjavík sem fæli meðal annars í sér að nemendur fái tækifæri á starfsnámi hjá Icelandair.

„Það er ógjörningur að slíta samfélagsábyrgð frá stefnu fyrirtækja. Allar rekstrarákvarð-anir eru teknar á þeim grunni með langtíma-hagsmuni í huga.“
Halldór Benjamín Þorbergsson

framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar Icelandair

  • Glærukynning Halldórs Benjamíns
  • PDF

Í lokaorðum sínum sagði Halldór ógjörning að slíta samfélagsábyrgð frá stefnu fyrirtækja. Allar rekstrarákvarðanir yrðu teknar á þeim grunni með langtímahagsmuni í huga. Þetta væri ábyrg afstaða og á þeim grunni starfaði Icelandair.


Risk, Fiduciary Duty and the Laws of Nature

Gil Friend, stofnandi og stjórnarformaður Natural Logic Inc, er einn af fremstu sérfræðingum heims í innleiðingu samfélagsábyrgðar í rekstri fyrirtækja og sjálfbærnistjóri Palo Alto borgar í Kaliforníu.

Í upphafi erindis síns fjallaði Gil um margþættan ávinning þess fyrir fyrirtæki að setja sér skýra stefnu samfélagsábyrgð og sjálfbæran rekstur. Það geti til að mynda haft áhrif til lækkunar á rekstrarkostnað og aukið nýsköpun. Mikilvægust væru þó áhrif aðgerða eða aðgerðaleysis á ímynd og orðspor fyrirtækja. Hann segir nauðsynlegt fyrir fyrirtæki og starfsfólk að taka virkan þátt í ferlinu, greina áhættu í rekstrinum, móta stefnu og aðgerðir, kynna markmið sín og árangur og hafa áhrif á önnur fyrirtæki með fordæmi sínu og fyrirmynd.

Friend sagði að stórfyrirtæki gætu haft jákvæð og keðjuverkandi áhrif með ákvörðunum sínum. Þannig hafi hið risavaxna verslunarfyrirtæki Walmart sett sér metnaðarfulla stefnu og markmið fyrir nokkrum árum. Forstjórinn hafi talið mikilvægt að setja fyrirtækinu háleit markmið jafnvel þótt óljóst væri hvernig mætti ná sumum þeirra. Stefna fyrirtækisins hafi haft gríðarleg áhrif á alla birgja fyrirtækisins sem þurftu að uppfylla kröfur Walmart, m.a. um að framleiða vörur á sjálfbæran hátt.

„Það getur haft gríðarleg áhrif á ímynd og orðspor þeirra hvernig fyrirtæki standa að samfélagsábyrgð.“
Gil Friend

stofnandi og stjórnarformaður Natural Logic Inc.

  • Glærukynning Gil Friend
  • PDF

Friend benti á að rannsóknir staðfestu mikilvægi sjálfbærni og samfélagsábyrgðar í rekstri. Þannig vitnaði hann í rannsókn fræðimanna í Harvard-háskóla sem komust að því að þau fyrirtæki sem væru sjálfbærust næðu áberandi betri árangri á hlutabréfamarkaði en önnur fyrirtæki.

Hann sagði afskaplega mikilvægt að fyrirtæki legðu góðan grunn að stefnu sinni og aðgerðum á sviði samfélagsábyrgðar, að stjórnendur skildu vel kjarnann í starfsemi sinni, horfðust í augu við staðreyndir og leituðu nýrra lausna ef ekki væru til færar leiðir við fyrstu sýn. Hann sagði reynslu margra fyrirtækja, t.d. IKEA, sýna að fyrirtæki ná bestum árangri ef þau virkja starfsfólk og viðskiptavini að finna nýjar hugmyndir og leiðir.

Friend sagði marga spyrja sig hvernig hægt væri að horfa inn í framtíðina og vitnaði þá í fleyg orð Roberts Kennedy heitins öldungardeildarþingmanns í Bandaríkjunum: „There are those that look at things the way they are, and ask why? I dream of things that never were, and ask why not?“