4. október 2016

Fyrirlesarar


Hvað bíður okkar handan hafta?

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, fjallaði um íslenskan fjármálamarkað við afnám fjármagnshafta.

Hann sagði að afnám hafta muni hafa jákvæð áhrif, litlar líkur væru á neikvæðum hliðaráhrifum og það ætti að vera auðvelt að grípa inn í þá áhættuþætti. Hann benti á að erlend staða þjóðarbúsins væri betri í dag en hún hefði verið síðustu fimmtíu ár. Við yrðum mögulega komin í jákvæða stöðu gagnvart útlöndum innan fárra ára.

Páll benti á að það væri gott að íslenskir lífeyrissjóðir væru ekki bundnir átthagafjötrum. Losun fjármagnshafta myndi mögulega valda straumhvörfum hjá mörgum vaxtarfyrirtækjum og almennir fjárfestar verða virkari. Almenningur á 5% í skráðum hlutabréfum í dag en fyrir höftin átti hann 17%. Erlendir fjárfestar verði vonandi virkari á íslenskum hlutabréfamörkuðum eftir afnám hafta.

„Afnám hafta hefur jákvæð áhrif og litlar líkur eru á neikvæðum hliðaráhrifum.“
Páll Harðarson,

forstjóri Kauphallar Íslands

Lesið í markaðinn

Sigurður B. Stefánsson hagfræðingur og Svandís Rún Ríkarðsdóttir sjóðstjóri, fjölluðu um nýja bók sína, Lesið í markaðinn: Eignastýring og leitin að bestu ávöxtun. Í bókinni er fjárfestingarhugsunin rakin frá 1890 fram á 21. öld. Í ljós kemur að kenningar gömlu meistaranna eru enn í fullu gildi og mikið má læra af sögunni í 125 ár.

Svandís og Sigurður rannsökuðu hvernig aðferðir við fjárfestingu og eignastýringu urðu til og hvernig þær hafa mótast í tímans rás. Þau benda á að gömlu meistararnir á Wall Street spurðu jafnan tveggja spurninga: Hvaða verðbréf er best að kaupa og hvenær er best að kaupa? Þegar líða tók á fimmta áratug 20. aldar fóru fræðimenn og hluti fjárfesta að spyrja aðeins hvað skyldi kaupa en ekki hvenær. Annar hópur lagði meiri áherslu á síðari spurninguna og þannig varð klofningur milli helstu skóla í fjárfestingu og eignastýringu, skóla grunngreiningar og skóla tæknigreiningar.

Saga íslenskra verðbréfa er rakin í stuttu máli í bókinni. Svandís og Sigurður benda á að innlendur verðbréfamarkaður sé í eðli sínu hliðstæður því sem tíðkast í öðrum löndum. Þrátt fyrir smæð íslenska markaðarins sé í megindráttum hægt að beita sömu aðferðafræði og á þróaðri mörkuðum.

Hugmyndin að bókinni kviknaði sumarið 2009 en vinnan við hana fór að mestu fram árin 2013 til 2015. Í bókinni eru um 150 myndrit (hlutabréfakort, markaðsvísitölur, stýrisöfn o.s.frv.) og um 25 töflur. Auk þess prýða bókina fjölmargar ljósmyndir. Landsbankinn stendur að útgáfunni í samvinnu við bókaútgáfuna Crymogeu, bókin verður gefin út 15. apríl 2016.

„Kenningar gömlu meistaranna á Wall Street eru enn í fullu gildi og mikið má læra af sögunni.“
Sigurður B. Stefánsson

hagfræðingur

Svandís Rún Ríkharðsdóttir

sjóðstjóri

  • Glærukynning
  • PDF
Tímasetning markaðarins

Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, fjallaði um tímasetningu markaðarins og hagkvæma nýtingu upplýsinga til viðskipta.

Hann sagði að áhættustýring væri ekki síður mikilvæg en val á aðferðafræði. Aðferðafræðin væri ekki lykillinn að árangri, að minnsta kosti jafn mikilli athygli ætti að beina að áhættustýringu, agaðri útfærslu og sveigjanleika. Farsælustu eignastýrendurnir væru áhættufælnir.

Yngvi benti á að algeng mistök í tölfræðigreiningu væru það að greina eingöngu verðbreytingar. Mikilvægum langtímaupplýsingum er þá eytt. Hann sagði að hlutabréfamarkaður sýndi ekki enn merki um verðhækkun hrávöru og að óverðtryggð íslensk skuldabréf hefðu skilað betri ávöxtun en verðtryggð. Markaðurinn væri ekki fullkominn en veitti gagnlegar upplýsingar.

„Áhættustýring er ekki síður mikilvæg en val á aðferðafræði.“
Yngvi Harðarson

framkvæmdastjóri Analytica

  • Glærukynning Yngva
  • PDF
Horfur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum

Matt King, Global Head of Credit Products Strategy hjá Citigroup, King sagði að kreppan á Íslandi hefði verið dýpri en annars staðar en hér hefðu aðgerðir skilað meiri árangri en aðrir hefðu náð. Margir hafi velt fyrir sér hvaða skýringar séu á því að erlendir markaðir hafa verið að lækka. Tilgáturnar eru margar, meðal annars lækkun á olíuverði, minnkandi hagvöxtur í Kína eða að evrópskum bönkum sé um að kenna. King vill meina að þetta séu ekki einu ástæðurnar heldur komi þetta til vegna áhættufælni fjárfesta. Of mikið fjármagn flæði inn á innlánsmarkaði.

King bendir á að seðlabankar hafi komið mörkuðum til aðstoðar en þegar vextir eru í kringum 0% sé svigrúmið orðið lítið. Seðlabankar einstakra landa hafi minni áhrif en þeir kysu að hafa. Hnattræn vandamál kalli á hnattrænar lausnir. Seðlabankar hafi verið að nota magnbundna íhlutun (quantitative easing) til að auka verðbólgu og verðbólguvæntingar og örva þannig hagkerfið en þessar aðgerðir skili ekki lengur tilætluðum árangri. Hann segist vilja vera bjartsýnn en markaðurinn sé viðkvæmur.

„Kreppan á Íslandi var dýpri en annars staðar en hér hafa aðgerðir skilað meiri árangri en aðrir hafa náð.“
Matt King

Global Head of Credit Products Strategy hjá Citigroup

  • Glærukynning Matt King
  • PDF