24. mars 2015

Ítarleg greining í nýju ferðaþjónusturiti Hagfræðideildar

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að erlendum ferðamönnum muni fjölga verulega, a.m.k. á næstu tveimur árum og að vöxturinn verði 20% í ár og 15% á næsta ári. Gangi það eftir verða útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar 430 milljarðar árið 2017. Til samanburðar nam útflutningsverðmæti sjávarútvegs 241 milljörðum í fyrra og stóriðju 233 milljörðum.

Í árlegu ferðaþjónusturiti Hagfræðideildar Landsbankans er ítarleg greiningu á stöðu og horfum í ferðaþjónustu á Íslandi.

Dagskrá

  • Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans kynnti nýja greiningu á stöðu og þjóðhagslegu mikilvægi ferðaþjónustunnar.
  • Doug Lansky fjallaði um ólíkar hliðar á ferðaþjónustu, m.a. það sem gerir ferðamannastaði að vinsælum og farsælum áfangastöðum.
  • Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, sagði frá fyrirhugaðri uppbyggingu og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til næstu 25 ára.
  • Davíð Björnsson, forstöðumaður á Fyrirtækjasviði Landsbankans, fór yfir þörfina fyrir uppbyggingu hótela í Reykjavík á næstu árum.
  • Fundarstjóri var Helga Haraldsdóttir, formaður stjórnar Ísland allt árið.
Stuðlað að vexti ferðaþjónustu með snjöllum hætti

Bandaríski ferðamálafrömuðurinn Doug Lansky ræddi um þær skyldur sem stöðug fjölgun ferðamanna leggur ferðaþjónustunni á herðar og hvernig hægt væri að halda áfangastöðum spennandi um lengri tíma.

Lansky sagði að ef ferðaþjónusta á Íslandi héldi áfram að vaxa um 20% árlega - eða jafnvel um 4% sem er heimsmeðaltal - kæmi að því að of þröngt yrði á þingi, plássið myndi klárast.

Það væri á hinn bóginn hægt að takast á við þessa fjölgun. „Ég tel að þið standið á krossgötum. Ísland er frábær áfangastaður og heimurinn er að átta sig á því. En þið verðið að grípa til aðgerða núna, áður en landið yfirfyllist af ferðamönnum,“ sagði hann. Mun auðveldara væri að grípa til aðgerða áður en vandinn yrði illviðráðanlegur. Lausninni mætti líkja við aðferð sem næturklúbbar beita; að búa til biðröð (eftirspurn) jafnvel þótt staðurinn væri tómur. Það þyrfti að stýra því hvaða ferðamenn koma og hvenær þeir koma.

Lansky ræddi töluvert um hvernig ferðaþjónustufyrirtæki og ferðamálayfirvöld nota samfélagsmiðla til að laða fólk að en það hefði komið í ljós að áhrif þeirra eru ekki eins mikil og margir héldu. Á hinn bóginn benti hann á að upplifun einstaklinga, sem þeir deila á samfélagsmiðlum, skipti miklu máli. Væntingar til ferðalaga hefðu breyst og persónuleg upplifun og ævintýri skiptu meira máli. Hann nefndi sérstaklega myndband sem sett var á youtube og fór á mikið flug; 25 milljónir hefðu horft á þetta myndband en til samanburðar hefðu samtals 8 milljónir horft á öll myndbönd sem Discover America hefði gert.

Þessi breyting ylli því að það skipti meira máli en áður að ferðamenn gætu gert nýja og spennandi hluti í ferðalögum sínum. Ferðaþjónustan yrði því að bjóða upp á nýjungar og vildu yfirvöld ná góðum árangri í ferðaþjónustu væri mikilvægt að fyrirtæki í ferðaþjónustu fengju að koma að ákvörðunum um uppbyggingu samfélagslegra innviða.

Lansky minnti á að þrátt fyrir vöxt ferðamennsku á heimsvísu væru mörg dæmi um að ferðamannastöðum hnigni og fólk hætti að ferðast þangað. Ein helsta ástæðan fyrir hnignuninni væri offjölgun ferðamanna. Þá væri það tvíeggjað sverð að auglýsa að eitthvað væri „ósnortið“ því ef ferðamenn flykkjast þangað verður staðurinn væntanlega ekki lengi ósnortinn.


„En þið verðið að grípa til aðgerða nú, áður en landið yfirfyllist af ferðamönnum“
- Doug Lansky


Myndband

Myndbandsupptaka af kynningu Doug Lansky er ekki lengur í birtingu. Hægt er að horfa á upptökur af fyrirlestrum Doug Lansky víðsvegar um heiminn á vefnum

www.douglansky.com

Ferðamannalandið Ísland

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, kynnti nýja greiningu Hagfræðideildar á stöðu og horfum í ferðaþjónustu á Íslandi.

Gústaf benti m.a. á að Ísland væri ferðamannaland og það væru fá lönd sem tækju á móti fleiri ferðamönnum miðað við fjölda íbúa en Ísland.

Vöxtur í ferðaþjónustu hefði verið mun meiri hér á landi en meðaltalið á heimsvísu segði til um. „Við erum Norðurlandameistarar í þessum höfðatölusamanburði,“ sagði Gústaf. Árið 2014 hefðu komið hingað 304 ferðamenn á hverja 100 íbúa. Danmörk væri næst Íslandi af Norðurlandaþjóðunum en þangað koma 140 ferðamenn á hverja 100 íbúa.

Gústaf Steingrímsson,

- hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans.

  • Glærukynning
  • PDF

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að árið 2017 komi hingað 430 ferðamenn á hverja 100 íbúa.

Gústaf sagði ekkert vera í kortunum sem benti til þess að bakslag í ferðaþjónustu væri í kortunum. Hann benti einnig á að ef lækkun olíuverðs yrði varanleg gæti það stuðlað að enn meiri vexti ferðaþjónustu. „Við gerum ráð fyrir að vöxtur í komum ferðamanna hingað til lands verði 20% á þessu ári, 15% á næsta ári og endi síðan nálægt sögulegum vexti, í 8% árið 2017,“ sagði hann.

Gústaf ræddi efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu og benti m.a. á að út frá þáttatekjum mismunandi atvinnugreina í framleiðsluuppgjöri Hagstofunnar skýra um fjórðung efnahagsbatans hér á landi með vexti í ferðaþjónustu. Án efa væri þetta þó vanáætlun því verulegur hluti af vexti í annarri atvinnustarfsemi væri drifinn áfram af ferðaþjónustu.

Þá hefði störfum í ferðaþjónustu fjölgað um 4.000 frá 2011 en það væru um 40% af nýjum störfum sem orðið hefðu til á þessu tímabili.

Gústaf ræddi einnig um aukið vægi ferðaþjónustunnar í útflutningstekjum sem væri nú orðið mun meira en sjávarútvegs og stóriðju. Arðsemi í ferðaþjónustu væri á uppleið sem ætti að kalla á athygli fjárfesta.


Uppbygging og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, fjallaði um uppbyggingu og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til ársins 2040.

Elín sagði fjölgun farþega, bæði þeirra sem eru að koma hér og millilenda, hafa verið ótrúlega. Miðað við spár stefndi í að rúmlega 4 milljónir farþega færu um Keflavíkurflugvöll á þessu ári en hún yrði ekki hissa þótt fjöldinn yrði um 4,7 milljónir. Því væri spáð að á árið 204 yrði fjöldinn á bilinu 6-8,3 milljónir.

Elín Árnadóttir,

- aðstoðarforstjóri Isavia

  • Glærukynning
  • PDF

Elín kynnti þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar sem nefnt er Masterplan og nær til ársins 2040. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu á flugvellinum en þar er m.a. gert ráð fyrir stækkun flugstöðvarinnar til norðurs, nýjum landgöngum til austurs og vesturs, nýrri norður-suður flugbraut og er þá aðeins það helsta nefnt.

Elín sagði mikilvægt að þróunaráætlunin myndi ekki trufla starfsemi flugstöðvarinnar og hún myndi stækka í samræmi við þörf. Áætlun gerði ráð fyrir góðu flæði fyrir komu- og brottfararfarþega og tæki tillit til mikilvægi komuverslunar Fríhafnarinnar. „Hugsað er fyrir því að nýir tekjumöguleikar opnist í hverjum framkvæmdaáfanga og að tækifæri til tekjuöflunar opnist um leið og afkastagetan eykst,“ sagði hún.

Opnaður hefur verið kynningarvefur um þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar.


„Hugsað er fyrir því að nýir tekjumöguleikar opnist í hverjum framkvæmdaáfanga“
- Elín Árnadóttir
Hótelmarkaðurinn í Reykjavík

Davíð Björnsson, forstöðumaður á Fyrirtækjasviði Landsbankans, fór yfir hótelmarkaðinn í Reykjavík og þá uppbyggingu sem framundan er á því sviði. „Landsbankinn lætur verkin tala og er langumsvifamesti bankinn í fjármögnun nýrra hótelverkefna, hvort sem er í Reykjavík eða úti um land,“ sagði Davíð en á ráðstefnunni kynnti hann nokkur verkefni sem bankinn kemur að.

Davíð benti á að frá 2010 hefðu verið byggð 1.300 hótelherbergi í Reykjavík en í árslok 2015 yrðu hótelherbergi í borginni um 4.000. Frá 2011 til 2015 hefur fjöldi ferðamanna tvöfaldast. Fjölgun hótelherbergja hefði alls ekki haldið í við þessa fjölgun og frá 2011 hefði fjölgun ferðamanna verið 50% meiri en fjölgun hótelherbergja.

Davíð Björnsson,

- forstöðumaður á Fyrirtækjasviði Landsbankans

Árið 2014 hefði nýting hótelherbergja í Reykjavík verið 84% sem væri betri nýting í flestum öðrum borgum. Samhliða hefði orðið mikil fjölgun í útleigu á íbúðum til ferðamanna.

„Þá er næsta spurning - hvernig kemur þetta til með að þróast á næstu árum? Er von á að þessi hraði vöxtur haldi áfram?“ spurði Davíð og sagði ekkert benti til annars en að áfram yrði mikill vöxtur í ferðaþjónustu. Miðað við spár mætti ætla að hingað kæmu 2 milljónir ferðamanna árið 2021 og í árslok 2022 og því þyrftu hótelherbergi í Reykjavík að vera 8.100 talsins.

Davíð minnti á að það tæki töluverðan tíma að byggja þessi herbergi en algengur byggingatími hótels væri 2-3 ár og því ljóst að fjölgun herbergja myndi ekki halda í við fjölgun ferðamanna á næstu árum. „Ég held að við náum ekki að byggja öll þau hótelherbergi sem þarf. Á næstu árum er óraunhæft að ætla að hægt sé að byggja meira en 400-500 hótelherbergi á ári,“ sagði Davíð.

Davíð ræddi jafnframt um staðsetningu nýrra hótela og sagði rökrétt að þau yrðu flest á svonefndum þróunarás Reykjavíkur, þ.e.a.s. frá Mýrargötu í vestri til Grensásvegar í austri.

„Á næstu árum er óraunhæft að ætla að hægt sé að byggja meira en 400-500 hótelherbergi á ári“
- Davíð Björnsson