Sveinn Þórarinsson, hlutabréfagreinandi hjá Hagfræðideild Landsbankans, stýrði fundinum og flutti erindi um fjarskiptamarkaðinn. Sveinn fjallaði um stöðuna fjarskiptamarkaði og á ólíkum sviðum hans, þ.e. á markaði fyrir farsíma, internet og sjónvarp og á milli þess gaf hann forstjórum fjarskiptafyrirtækjanna orðið.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða Landsbanka, setti fundinn.

Í erindi Sveins kom fram að fjöldi símtala í farsíma á Íslandi hefði verið stöðugur undanfarin ár en gagnaumferð um farsímanetið hefði á hinn bóginn aukist mjög. Viðskiptavinir Nova notuðu áberandi mest af gögnum og greinilegt væri að Nova hefði náð miklu forskoti á 4G-markaðinum. Gagnamagn sem flutt væri um farsímanetið á Íslandi væri þó mun minna en á Norðurlöndunum, miðað við mannfjölda. 

Staðan í öðrum Evrópulöndum væri afar misjöfn og í Bretlandi hefði fjarskiptafyrirtækjum t.a.m. ekki tekist að vinna upp tekjumissi af hefðbundinni farsímaþjónustu. Það sama væri uppi á teningnum hér á landi.

„Gagnabyltingin í gegnum síma er kannski bara rétt að hefjast og gæti jafnvel fimmfaldast á næstu 4-5 árum.“
Sveinn Þórarinsson,

- hlutbréfagreinandi í Hagfræðideild Landsbankans

  • Glærukynning Sveins
  • PDF

 
Farsíminn - sífellt meira gagnamagn

Sveinn Þórarinsson sagði ljóst að gagnaflutningar í gegnum farsíma myndi áfram aukast. „Gagnabyltingin í gegnum síma er kannski bara rétt að hefjast og gæti jafnvel fimmfaldast á næstu 4-5 árum," sagði hann. Vöxtur í gagnaflutningi væri fyrst og fremst vegna myndefnis.

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, sagði ljóst að gagnaflutningar um farsíma myndu aukast mikið og að Nova ætti mikið inni. „Það er allt að fara á netið, öll þjónusta er að fara á netið. Við störfum í geira þar sem er gríðarleg eftirspurn eftir okkar þjónustu. Við höfum varla undan að stækka kerfið og setja fleiri senda í loftið. Og þessi sérstaða okkar er ekki síst vegna þess að við höfum byggt upp langöflugasta 4G-net á Íslandi, sagði hún. Um leið og viðskiptavinir hefðu aðgang að meiri gagnaflutningum í gegnum farsíma notuðu þeir netið meira. „Við trúum algjörlega á þráðlausa framtíð. Framlegðin er í þessum hluta og við ætlum að fókusera á þennan hluta. Þarna er vöxturinn.

„Við trúum algjörlega á þráðlausa framtíð. Framlegðin er í þessum hluta og við ætlum að fókusera á þennan hluta. Þarna er vöxturinn.“
Liv Bergþórsdóttir

- forstjóri NovaOrri Hauksson, forstjóri Símans, benti á að farsímanet í heiminum flyttu um 2-3% af heildargagnamagninu. Fjarskiptafyrirtækin væru ólík og áhersla Símans væri ekki síður á að flytja gögn með öðrum hætti, þ.e. með fastlínu. Hafa yrði í huga að langstærstur hluti af gögnum sem sótt eru með farsímum færi um fastlínunet í gegnum þráðlaust net o.s.frv. Sú þróun myndi halda áfram og í lok þessa áratugar mætti áætla að um 85% af gagnamagni sem fer um snjallsíma yrði sótt í gegnum fastlínukerfið. „Þannig að þegar við horfum á gagnamagn um farsímakerfið, þá erum við að horfa á mjög lítinn hluta markaðarins, sagði Orri. Síminn horfði til þess að bjóða upp á margar þjónustuleiðir og marga þjónustuþætti.

365 og Tal sameinuðust í desember 2014 og í kjölfarið fór 365 að bjóða upp á farsímaþjónustu. Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, sagði að þessari þjónustu hefði verið vel tekið.  „Við erum mjög ánægð með árangur okkar. Á sama tíma erum við reyndar með gamaldags viðskiptamódel sem var í Tali og það hefur verið brottfall úr þeim stofni. En við erum mjög ánægð með nýliðunina sem er að koma út úr okkar starfsemi.

Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, sagði mjög áhugavert að skoða muninn á farsímamarkaðinum í Evrópu annars vegar og í Bandaríkjunum hins vegar. Í Evrópu hefðu tekjur vegna farsíma dregist saman um 8,5% en í Bandaríkjunum hefðu þær aukist um 3,5%. Munurinn fælist m.a. í því að í Evrópu, þ.m.t. á Íslandi, væri mun meira um opinber inngrip sem gerði fyrirtækjum erfiðara fyrir.

„Þegar við horfum á gagnamagn um farsímakerfið, þá erum við að horfa á mjög lítinn hluta markaðarins.“
Orri Hauksson

- forstjóri Símans

 
Internetið – hversu mikið er nóg?

Ljósleiðaratengingum hefur fjölgað undanfarin ár og eru nú um 25% af öllum nettengingum á Íslandi. Sveinn Þórarinsson sagði að frekari fjölgun í ljósleiðaratengingum myndi væntanlega stýrast af fjárfestingum enda væri dýrt að leggja ljósleiðara. Í erlendum samanburði væri Ísland framarlega í ljósleiðaratengingum og hraði tenginga hefði aukist.

Sveinn spurði hversu mikinn gagnahraða venjulegt heimili þyrfti á að halda og sagði að miðað við venjulegt heimili mætti e.t.v. segja að 50 Mbps (megabit á sekúndu) væri nóg.


Orri Hauksson sagði Ísland í óvenju góðri stöðu miðað við önnur lönd, hvað varðar hraða á nettengingnum inn á heimilin. Hann benti á að Míla, dótturfélag Símans, hefði tilkynnt að næsta skref í uppfærslu á tengingum myndi snúast um að fjölga ljósleiðaraheimtaugum. Fyrir lok næsta árs verði um 30.000 heimili tengd með þessum hætti. Orri sagði að viðskiptavini varðaði mestu að tengingin væri góð og hröð, fremur en nákvæmlega með hvaða tegund af heimtaug gögnin væru flutt. Neyslan væri að breytast, úr niðurhali í streymi og um leið skipti ekki eins miklu máli að geta flutt mikið af gögnum hratt heldur væri mikilvægara að hafa stöðuga og góða tengingu. „Þetta setur allt öðruvísi og þægilegra álag á kerfin," sagði Orri.

Vodafone er í samstarfi við Gagnaveituna sem hefur tilkynnt að heimili geti fengið allt að 1.000 Mbs með tengingu við ljósleiðara. Stefán Sigurðsson sagði að ótímabært að tala um að gagnamagn sé of mikið. Á sínum tíma hefðu sumir rætt um að 3G væri alveg nóg en annað hefði komið á daginn. „Fólk finnur sér yfirleitt leiðir til að nota aukinn hraða, sagði Stefán. Þeir sem hefðu reynt ljósleiðaratengingar finndu muninn.

Liv Bergþórsdóttir benti á að 3G hefði dugað ágætlega fyrir farsíma en þegar boðið var upp á 4G hefði notkunin breyst og m.a. hefði meira af myndefni verið streymt í farsímana í kjölfarið. Í framtíðinni yrðu fleiri heimilistæki tengd við netið, ísskápar, þvottavélar, brauðristar og fleira og það kallaði á meiri gagnaflutning.

Sævar Freyr Þórarinsson sagði að slagurinn milli Mílu og Gagnaveitunnnar kæmi fyrirtæki eins og 365 vel. Kröfur viðskiptavina um gæði myndflutninga um netið væru sífellt að aukast og því mikilvægt að innviðirnir væru góðir.

„Fólk finnur sér yfirleitt leiðir til að nota aukinn hraða.“
Stefán Sigurðsson

forstjóri Vodafone

 
Sjónvarp – miklar breytingar á framleiðslu og dreifingu

Miklar breytingar hafa orðið á framleiðslu og dreifingu sjónvarpsefnis undanfarin ár. „Gamla virðiskeðjan um framleiðslu og dreifingu á sjónvarpsefni er að rofna. Það eru allir er með öllum í öllu, sagði Sveinn Þórarinsson og vísaði til þess að skilin milli þeirra sem framleiða efnið og dreifa því væru sífellt að verða óskýrari. Fjölmiðlafyrirtæki væru orðin fjarskiptafyrirtæki og öfugt. Um leið hefði áskrifendum að sjónvarpsstöðvum fækkað á heimsvísu og sjónvarpsefni væri streymt með ýmsum hætti.Liv Bergþórsdóttir sagði að fólk sem væri komið yfir fertugt væri enn tilbúið til að borga fyrir áskrift að sjónvarpsstöðvum. Kynslóðin sem nú væri að alast upp yrði ekki til í það.

Stefán Sigurðsson sagði að fjölbreytni á sjónvarpsmarkaði væri klárlega að aukast. Línulegt sjónvarp myndi þó halda áfram og hið sama mætti segja um VOD eða frelsisþjónustu. Vissulega væri hægt að ná í ódýrt eða ókeypis sjónvarpsefni eftir ýmsum krókaleiðum, búa til falskt DNS-fang til að tengjast Netflix o.s.frv. Það væru á hinn bóginn mjög margir sem hefðu engan áhuga á slíku heldur vildi geta nálgast efnið með þægilegum hætti, líkt og hægt væri að gera hjá Vodafone.

Orri Hauksson benti á að þegar kvikmyndin kom til sögunnar hafi bókinni verið spáð dauða og þegar sjónvarpið náði fótfestu hefði endalokum kvikmyndahúsanna verið spáð. „En yfirleitt þróast hlutirnir ekki svona, sagði hann. „Við teljum að þessi línulega neysla [á sjónvarpefni] eigi undir högg að sækja en hún er ekkert búin, það verða áfram til sjónvarpsstöðvar, sagði hann.

Sævar Freyr Þráinsson benti á að framlegð fyrirtækja sem framleiddu sjónvarpsefni væri víða góð. Fjölmiðlar á Íslandi hefðu ekki skilað ásættanlegri framlegð en framlegð fjarskiptafyrirtækjanna væri mun betri. „Þetta er ástæðan fyrir því að við förum inn á markaðinn. Við erum í raun að elta fyrirtæki eins og Virgin og Sky, sagði hann.

Sævar sagði að viðskiptamódel fjarskiptafyrirtækjanna snerust um að þau væru með lokuð net og að fyrirtækin vildu tryggja að tekjurnar yrðu þar. „Og ég er sannfærður um að sá aðili sem mun opna á netin sín mun ná mestum árangri.“ Það ætti líka við um 365. „Ég mun fyrst fara að hagnast almennilega á þessum markaði þegar ég fer að opna á efnið okkar þannig að það sé í boði í heildsölu. Sé í boði þannig að fólk geti pantað sér leik þegar því hentar, einn leik í einu. Að Síminn og Vodafone geti selt okkar stöðvar sem hluta af sínu framboði. Þetta er það sem þessi heimur fari út í, sagði hann.

„Þetta er ástæðan fyrir því að við förum inn á markaðinn. Við erum í raun að elta fyrirtæki eins og Virgin og Sky.“
Sævar Freyr Þórarinsson

- forstjóri 365

 
Umræður – dýrir innviðir í stóru landi

Í umræðum forstjóranna fjögurra var m.a. rætt um samrekstrarfélag Nova og Vodafone fyrir 2G, 3G og 4G. Liv Bergþórsdóttir og Stefán Sigurðsson bentu bæði á að fjárfestingaþörfin væri mikil og vaxandi. Í litlu landi væri rökrétt að vinna saman að uppbyggingu innviða. Sævar Freyr Þórarinsson benti á að uppbygging innviða kæmi 365 vel og samrekstur á þessu sviði gæti verið af hinu góða.

Orri Hauksson ræddi m.a. um regluverk sem þrengdi að uppbyggingu og um að erlendis hefðu mörg fjarskiptafyrirtæki verið að kaupa sig inn í fastlínu. Skráning Símans á markað var töluvert rædd, þ.m.t. staða Mílu, dótturfélags Símans og þær reglur sem gilda um samvinnu félaganna. Sömuleiðis var rætt um slag um farsímaþjónustu á fyrirtækjamarkaði, fjárfestingarþörf á næstu árum og aðhaldsaðgerðir hjá fjarskiptafélögunum og ýmislegt fleira.