Landsbankinn stóð fyrir morgunfundi í tilefni af útgáfu Þjóðhags, ársrits Hagfræðideildar Landsbankans miðvikudaginn 23. nóvember í Hörpu.


23. nóvember 2016

Á fundinum var ný þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans til næstu þriggja ára kynnt. Einnig var fjallað um hvað staða efnahagsmála í dag getur þýtt fyrir þróun verðbréfamarkaðarins á næstu misserum. Fundinum lauk með pallborðsumræðum. Fundarstjóri var Sveinn Þórarinsson, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans.

Í Þjóðhag, ársriti Hagfræðideildar Landsbankans er m.a. að finna þjóðhagsspá deildarinnar fyrir árin 2016 - 2019, spá um verðbólgu og vaxtastig, umfjöllun um húsnæðismarkaðinn, horfur í helstu útflutningsgreinum og fleira. Þjóðhagur er eitt ítarlegasta rit um íslensk efnahagsmál sem gefið er út.

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans stýrði fundinum.Fyrirlesarar

 • Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans
 • Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans
 • Halldór Kristinsson, deildarstjóri Eignastýringar Landsbankans
 • Ólafur Jóhannsson, forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá Landsbréfum

Pallborðsumræður

 • Jón Björnsson, forstjóri Festi.
 • Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stafa.
 • Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir.
Vandi fylgir vegsemd hverri

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans flutti inngangsorð á fundinum. Hann sagði óhætt að fullyrða að mikil umskipti hafi orðið í efnahagslífinu á Íslandi á undanförnum árum. Ef litið væri aðeins fimm til sex ár aftur í tímann eru breytingarnar næstum því ótrúlegar. Undanfarin ár hafi einkennst af stöðugum vexti og efnahagslegri velgengni. Verðbólgan hafi verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans í um tvö og hálft ár. Þetta hafi gerst á sama tíma og hér mældist stöðugur hagvöxtur, kaupmáttur hækkað og atvinnuleysi verið lítið.

Steinþór sagði það frábrugðið frá síðasta góðæri að hagvöxturinn og einkaneyslan undanfarið hafi ekki verið drifinn áfram af skuldsetningu heldur þvert á móti. Skuldir heimila og fyrirtækja hafi lækkað verulega á þessu tímabili. Á sama tíma væri staða ríkissjóðs sterk og hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins hafi sjaldan verið hagstæðari.

Steinþór sagði þó ýmsar blikur á lofti. Heimshagkerfið hafi ekki rétt almennilega úr kútnum eftir þrengingarnar 2008. Áfram væri útlit fyrir veikan hagvöxt í flestum öðrum þróuðum ríkjum og þá hafi úrslit í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og fyrirhuguð útganga Bretlands úr ESB aukið á efnahagslega og pólitíska óvissa.

Hann sagði afar mikilvægt að hafa í huga að þótt vel gangi nú væri ekki hægt að reikna með að við munum áfram njóta þess að hafa lága verðbólgu, lítið atvinnuleysi og mikinn hagvöxt. Það er brýnt að öll þau sem koma að stjórn efnahagsmála vandi vel til verka á næstu árum og gæti þess að varðveita þann árangur sem þjóðin hefur í sameiningu náð á undanförnum árum.

„Undanfarin ár hafa einkennst af stöðugum vexti og efnahagslegri velgengni.“
Steinþór Pálsson

bankastjóri Landsbankans

 

Kröftugur hagvöxtur til ársins 2019

Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans kynnti nýja þjóðhags- og verðbólguspá bankans. Daníel sagði stöðu efnahagsmála með hagstæðasta móti um þessar mundir og búast mætti við að hagvöxtur ársins verði ríflega 6% á þessu ári. Hann segir að í þjóðhagsspá bankans væri búist við áframhaldandi kröftugum hagvexti út spátímabilið, 5,5% árið 2017, 4% árið 2018 og ríflega 3% árið 2019.

Daníel sagði einkaneyslu hafa aukist kröftuglega á árinu og yrði ríflega 8% á árinu í heild. Yrði það mesti vöxtur einkaneyslu frá árinu 2005. Hann sagði að á næsta ári væri útlit fyrir að aðeins hægðist á vextinum en yrði engu að síður kröftugur, eða um 6,5%. Búast mætti síðan við áframhaldandi vexti á seinni hluta spátímans, 4,5% árið 2018 og 3,7% árið 2019. Á sama tíma hafi skuldir heimila lækkað og væru nú næstlægstar á Norðurlöndunum á eftir finnskum heimilum. Einnig hafi yfirdráttarlán og greiðslukortaskuldir lækkað sem beri merki um aukna ráðdeild.

Að sögn Daníels verður ekkert lát á hækkun fasteignaverðs á næstu árum. Það hækkaði um 9,4% árið 2015 og í október nam tólf mánaða hækkun húsnæðisverðs 13,6% sem væri mesta árshækkun frá 2007. Margir þættir styðji spár um áframhaldandi hækkun, eftirspurn væri meiri en framboð, laun og kaupmáttur hafi hækkað og skuldir heimila lækkað. Því væri spáð 10% hækkun árið 2017 og 8% hvort ár 2018 og 2019.

Daníel sagði krónuna hafa styrkst verulega og mun meira og hraðar en gert var ráð fyrir. Flest benti til þess að krónan muni halda áfram að styrkjast út spátímabilið en geri megi ráð fyrir hóflegri styrkingu og að verð á evru verði nálægt 115 kr. í lok árs 2019.

„Heilt yfir er staða efnahagsmála hér á landi með hagstæðasta móti um þessar mundir.“
Daníel Svavarsson

forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans

 • Glærukynning
 • PDF

 

Daníel sagði verðbólgu hafa verið undir verðbólgumarkmiði samfellt frá febrúar 2014. Hann sagði að samkvæmt núverandi spá fer hún hæst í 3,2% um mitt næsta ár. Daníel segir að geri megi ráð fyrir að peningastefnunefnd ákveði að lækka vexti Seðlabankans um 0,25 prósentustig á síðasta fundi ársins í desember. Gangi spáin eftir í aðalatriðum sagðist hann telja ólíklegt að Peningastefnunefndin bregðist við með vaxtahækkunum þótt verðbólgan fari tímabundið yfir verðbólgumarkmiðið.

Daníel sagði þjóðhagspána háða nokkrum óvissuþáttum. Innanlands væri það þróun ferðaþjónustu á komandi árum, hagstjórn og stefna næstu ríkisstjórnar í ríkisfjármálum og loks hvernig ný hagstjórnartæki Seðlabankans reynist í kjölfar slökunar á fjármagnshöftum. Erlendir óvissuþættir væru stefnumörkun nýs forseta Bandaríkjanna, áhrifin af Brexit, þróunina í Kína, stöðugleika banka í Evrópu og hrávöruverð, sem getur haft veruleg áhrif á bæði verðbólgu- og efnahagshorfur hér á landi.

Ávöxtun skuldabréfa áfram góð að óbreyttu

Halldór Kristinsson, deildarstjóri Eignastýringar Landsbankans fjallaði um stöðu og horfur á skuldabréfamarkaði. Halldór sagði að ávöxtun skuldabréfa ætti að öllu óbreyttu að verða góð á næstu misserum. Raunvextir væru háir en vextir væru líklegir til að lækka.

Í fyrirlestri sínum sýndi hann áhugavert dæmi um verðþróun á 10 ára óverðtryggðum ríkisskuldabréfum sem hefðu tekið talsverðum verðbreytingum á síðustu tveimur árum vegna ýmissa áhrifavalda innanlands sem utan. Einnig setti hann fram þrjár sviðsmyndir um stöðu og horfur á skuldabréfamarkaði, í fyrsta lagi miðað við að krónan hætti að styrkjast, í öðru lagi héldi áfram að styrkja og loks miðað við að jafnvægisvextir myndu lækka.

„Ávöxtun skuldabréfa ætti að öllu óbreyttu að verða góð á næstu misserum.“
Halldór Kristinsson

deildarstjóri Eignastýringar Landsbankans

 • Glærukynning
 • PDF

 

Horfur góðar fyrir hlutabréfamarkaðinn á næsta ári

Ólafur Jóhannsson, forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá Landsbréfum, fjallaði um stöðu og horfur á hlutabréfamarkaði. Ólafur sagði að hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi hafi gefið býsna góða ávöxtun síðustu ár, sérstaklega á síðasta ári en árið í ár hafi þó verið rússibani með hækkunum og lækkunum. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hafi þó almennt staðið sig vel í samanburði við erlenda markaði en spurningar vakni þó hvort bólumyndun væri á íslenska markaðinum og að hann væri ofverðlagður.

Ólafur sagði þróun á íslenskum hlutabréfamarkaði hafa einkennst af öfgakenndum hreyfingum á yfirstandandi ári. Verð hafi sveiflast upp og niður í takt við ýmsa atburði og frétti. Hann nefndi meðal annars niðurstöður úr Brexit-kosningum, uppgjör Icelandair og Marel, kosningar á Íslandi og í Bandaríkjunum og loks ýmsar fréttir, t.a.m. af kjarasamningum, nýjum verslunum og jafnvel jarðhræringum.

Ólafur sagði horfur góðar fyrir hlutabréfamarkaðinn árið 2017 og að ytri aðstæður skráðra félaga væru að mestu hagfelldar. Helstu áhrifaþættir fyrir markaðinn væri áframhaldandi mikill hagvöxtur væri, aukin einkaneysla og styrking krónunnar sem væri þó áhyggjuefni fyrir félög sem starfa á erlendum mörkuðum. Óvissa á vinnumarkaði og um stefnu nýrrar ríkisstjórnar myndu einnig hafa töluverð áhrif.

„Íslenski hlutabréfa-markaðurinn hefur almennt staðið sig vel í samanburði við erlenda markaði.“
Ólafur Jóhannsson

forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá Landsbréfum

 • Glærukynning
 • PDF

 

Pallborðsumræður

Að fyrirlestri loknum voru haldnar pallborðsumræður með þátttöku Jóns Björnssonar, forstjórar Festi, Ólafs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Stafa og Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, fjárfestis.

No filter applied