Í samkomulaginu er í fyrsta sinn kveðið á um að öll ríki skuli bregðast við til þess að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og tryggja umtalsvert fjármagn til grænna lausna og aðstoð við ríki sem verða verst úti vegna breytinganna. Upptökur af fyrirlestrunum og glærukynningar má finna hér að neðan.

Fyrirlesarar

 • Ingvar Freyr Ingvarsson, orkuhagfræðingur hjá Landsbankanum.
 • Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs- og loftslagsbreytinga hjá Veðurstofu Íslands.
 • Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
 • Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.
 • Asbjørn Torvanger, sérfræðingur um loftslagsfjármál hjá Miðstöð alþjóðlegra loftslsags- og umhverfisrannsókna (CICEIRO) í Ósló.
 • Annie Bersagelhjá norska trygginga- og lífeyrissjóðnum Kommunal Landspensjonkskasse Gjendsidig Forsikringsselskap (KLP).
 • FundarstjóriKetill Berg Magnússon framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð.
 
Hlutverk fjármálageirans í loftslagsmálum

Ingvar Freyr Ingvarsson, orkuhagfræðingur hjá Landsbankanum, fjallaði um hlutverk fjármálageirans í loftslagsmálum og áskoranir og tækifæri því tengdu.

Hann benti á að 21. öldin hefði haft í för með sér nýja hugsun í fjárfestingamálum. Umhverfismál hefðu verið í þjóðfélagsumræðunni í þó nokkurn tíma en það væri nýtt að taka þau inn í fjárfestingaákvarðanir. Hagkerfi þjóða séu sífellt að þróast í átt að sjálfbærni. Margir í fjármálageiranum kunni að líta á það sem hindrun í fjárfestingum en spennandi tækifæri hafi í raun skapast með aðlögun alþjóðahagkerfisins að loftslagsbreytingum.

Ingvar fjallaði um hvað einkenndi góðan loftslagssáttmála. Slíkur samningur þurfi að vera víðtækur en jafnframt strangur. Eftirfylgni þurfi að vera góð og enginn mætti „svindla“ eða segja sig úr samkomulaginu. Enginn verulegur árangur hefði náðst síðustu ár því margt hafi farið úrskeiðis í Kyoto-bókuninni. Bandaríkin og Kanada hefðu til að mynda sagt sig úr samkomulaginu. Í Parísarsamkomulaginu hafi hinsvegar náðst aukin samstaða ríkja og því líklegra að árangur náist. Hvert ríki þarf að endurmeta áætlanir sínar á fimm ára fresti og upplýsingagjöf og eftirlit er mun gagnsærra.

Ingvar sagði að fjárfestar og fjármálastofnanir muni halda áfram að verða fyrir áhrifum af völdum loftslagsbreytinga. Vegna öfga í veðurfari hafi til að mynda árlegt fjárhagstjón af völdum náttúruhamfara tífaldast. Stjórnvöld eigi eftir að beina aðgerðum sínum að námurekstri, olíuvinnslu og orkufrekum iðnaði í auknum mæli sem eigi eftir að hafa mikinn kostnað í för með sér. Eignir verða ónýtanlegar, m.a vegna þess að ný tækni taki við eða nýir grænir valkostir.

„Vísbendingar eru um að fyrirtæki sem standa fyrir metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum standi sig vel á markaði.“
Ingvar Freyr Ingvarsson,

orkuhagfræðingur hjá Landsbankanum

 • Glærukynning Ingvars
 • PDF

Búist er við að stjórnvöld leiti í auknum mæli til einkageirans til að fjármagna aðgerðir til að draga úr gróðurhúsalofttegundum. Vilji fjárfesta og fjármálastofnana til að veita fé veltur á áhættu sem hugsanlegar fjárfestingar hafa í för með sér, þ.m.t. áhættu vegna nýrra reglna og þeirra hvata sem stjórnvöld skapa til aukinna fjárfestinga.

Ingvar benti á að fyrirtæki sem stæðu fyrir metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum stæðu sig vel á markaði. Margir norrænir bankar eins DNB, Danske Bank og Swedbank, hafi brugðist hratt við í ábyrgum fjárfestingum og taki tillit til umhverfis-og samfélagssjónarmiða við fjárfestingar. Margir hafi einnig átt í viðskiptum með græn skuldabréf. Landsbankinn hefur sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar og fylgi viðmiðun PRI.

 
Satt og logið um loftslagsbreytingar

Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslagsbreytinga hjá Veðurstofu Íslands, ræddi ýmsar mýtur, rangfærslur og samsæriskenningar sem reglulega koma upp í umræðunni um loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Halldór benti á að ótrúlega margt hafi verið sagt um loftslagsbreytingar og mikið af því rangfærslur og algjör „steypa.“. Til dæmis að umræðan um loftslagsbreytingar væri eitt stórt samsæri, hlýnun jarðar væri ekki af mannavöldum heldur náttúruleg eða að hlýnunin hafi einfaldlega hætt árið 1998.

Kenningin um að loftslagsbreytingar séu samsæri er mjög lífseig og er meðal annars rökstudd með tilvísan í tölvupósta sem var stolið 2008/9. Margar athuganir benda til breytinga frá því um miðbik síðustu aldar sem eru fordæmalausar þegar litið er til síðustu áratuga eða árþúsunda.

„Gróðurhúsaloft-tegundir eru að vaxa af mannavöldum. Óvíst er hversu umfangsmikil áhrifin verða, það fer eftir losun gróðuhúsalofttegunda næstu áratuga“
Halldór Björnsson,

hópstjóri hjá Veðurstofu Íslands

 • Glærukynning Halldórs
 • PDF

Halldór segir að umræðan um hvort hlýnunin sé slæm sé annars eðlis. Sumir leggja mikla áherslu á hið jákvæða og tækifærin, s.s að gróður aukist og íshafið opnist fyrir siglingar. Aðrir sjái það sem miður fer, hungursneyðir, stríð, o.s.frv. Umræðan geri oft ekki greinarmun á því neikvæða og jákvæða og verður því ruglingsleg og mótsagnakennd.

Halldór segir að staðreyndin sé einfaldlega sú að gróðurhúsalofttegundir eru að vaxa af mannavöldum. Það veldur merkjanlegri hlýnun sem hefur þegar áhrif á náttúru og samfélög.Hversu umfangsmikil áhrifin verða fari eftir losun gróðurhúsalofttegunda næstu áratuga.


Hvernig má draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda?

Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands fjallaði um mögulegar aðgerðir sem stærstu atvinnugreinar landsins geta beitt til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Hún sagði að í Parísarsamkomulaginu fælust bæði tækifæri og áskoranir. Með samkomulaginu hafi 195 ríki samþykkt að halda hlýnun vel innan við 2 gráður á öldinni, bæta getu til aðlögunar og tryggja flæði fjármagns til þróunar sem er loftslagsvæn. Það er nokkuð mismunandi milli ríkja hversu mikið þau ætla að draga úr losun. En það sem ríkin hafa skuldbundið sig til að gera dugi ekki til að ná takmarkinu.

Hún segir að með Parísarsamkomulaginu hafi kveðið við nýjan tón , þar megi finna meiri hvatningu en áður um að atvinnulífið taki virkan þátt og nýti markaðinn betur til árangurs. Kallað hafi verið eftir því að ríki fari að verðleggja gróðurhúsalofttegundir rétt með skilvirkum mörkuðum fyrir gróðurhúsalofttegundir (carbon markets) og þannig hvatt markaðinn í átt til loftslagsvænni lausna. Það hafi greinilega mátt merkja breytingu á viðhorfum og að fjármálafyrirtæki hefðu áttað sig á alvarleika málsins. IKEA, Coca-Cola og Wal-mart voru meðal 100 stórfyrirtækja sem sem undirrituðu samkomulag um samdrátt.

„Fyrirtæki geta dregið úr beinni losun í sinni eigin starfsemi, með samstarfi við birgja, með loftslagsvænum fjárfestingum og fleira.“
Brynhildur Davíðsdóttir,

prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands

 • Glærukynning Brynhildar
 • PDF


Spá um aukningu í útblæstri um 91% til 2030, miðað við 1990, er helst vegna áætlana um stóriðju. Brynhildur benti á ýmsar mótvægisaðgerðir sem fyrirtæki geta gert til að draga úr losun. Svo sem dregið úr beinni losun vegna eigin starfsemi í samgöngum og framleiðslu (orkunotkun-hiti/rafmagn/eldsneyti, efni og úrgangur). Einnig er hægt að draga úr losun vegna birgja, starfsmanna og viðskiptavina og hægt sé að draga úr nettólosun með bindingu s.s landgræðslu, skógrækt og endurheimtingu votlendis. Auk þess sem hægt sé að stuðla að samdrætti með lofslagsvænum fjárfestingum.

Svo eru það einfaldari leiðir eins og að ganga og hjóla meira. Leggja bílnum nokkrum sinnum í viku og taka strætó. Nota sparneytnari bíla, rafmagnsbíla, vetnisbíla og metanbíla. Ein helsta áskorunin hér á landi sé að ódýrir kostir eru ekki til staðar. Brynhildur bendir á að sótspor flutnings vöru á markað geti skipt máli. Rannsókn á sótspori flutnings á ferskum fiski til Sviss og Bretlands sýndi að flug leiðir til yfir tífalt meiri losunar á hvert kíló af þorski borið saman við sjóflutninga.

Brynhildur segir að eftir Parísarsamkomulagið sé áhersla á loftslagsmálin alls staðar og fyrirtæki þurfi að vera viðbúin. Til að ná ætlunarverkefninu þurfi allir að leggjast á eitt, notkun margþættra aðgerða sé mikilvæg allt frá breyttri hegðan yfir í flóknar tæknislausnir. Stjórnvöld þurfi að setja metnaðarfull markmið, setja regluverk og fjárhagslega hvata sem hvetja til góðra verka t.d reglur um orkuskilvirkni nýrra bifreiða og kolefnisskatta. Auk þess þurfa þau að tryggja að innviðir séu til staðar, t.d fyrir rafbílavæðingu.

 
Tækifæri og áskoranir raforkuiðnaðarins

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs-og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, fjallaði um raforkuframleiðslu á Íslandi m.t.t. loftslagsmála, áskoranir og tækifæri til nýsköpunar.

Björgvin lagði áherslu á að aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa feli í sér mikil tækifæri til að draga úr losun gróðuhúsalofttegunda. Hann benti á aukin verðmæti endurnýjanleikans í íslenskum orkuauðlindum og tækifæri til nýsköpunar með fjölnýtingu.

Hann sagði að kolefnislosun frá Fljótsdalsstöð jafngildi 0,3% af losun frá kolaorkuveri og 0,6% frá gasorkuveri. Eitt af stóru verkefnum Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er að nýta jarðvarmann betur. Eitt af vandamálunumer að það vantar upp á tæknina.

„Eitt af stóru verkefnum okkar er að bæta nýtingu á orku úr jarðvarma“
Björgvin Skúli Sigurðsson,

framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar

 • Glærukynning Björgvins Skúla
 • PDF

Björgvin benti einnig á að það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að fá vottun um að vörur þeirra séu framleiddar með endurnýjanlegum hætti. Einnig að með lækkandi olíuverði verði erfiðara að velja græna kosti í samgöngum.

Björgvin segir að enginn vafi leiki á því að framtíð Íslands í nýtingu orkuauðlynda sé björt. En við þyrftum að gera betur til að ná markmiðum okkar.

 
Vöxtur í grænum skuldabréfum

Asbjørn Torvanger sérfræðingur í loftslagsfjármálum hjá Miðstöð alþjóðlegra loftslags- og umhverfisrannsókna (CICERO) í Ósló fjallaði um skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla við útgáfu grænna skuldabréfa.

Torvanger sagði meðal annars að loftslagsmál fái stöðugt meira vægi á fjármálamörkuðum. Á undanförnum árum hafi orðið mikil aukning í grænum skuldabréfum. Græn skuldabréf eru vegna starfsemi sem stuðlar að sjálfbærri þróun, svo sem fjárfestinga í umhverfisvænum verkefnum. Græn skuldabréf höfði meðal annars til nýrra fjárfesta og stórra stofnanafjárfesta.

Hann býst við að græn skuldabréf eigi eftir að færast mjög í vöxt á næstu árum. Í Noregi sé það þegar byrjað og hafa meðal annars lífeyrissjóðir aukið þáttöku sína.

Torvanger segir að markaðir hafi brugðist í tilfelli loftslagsbreytinga enda hafi ekkert verð verið sett á breytingarnar. Hann segir að þörf sé á miklum fjárfestingum til að draga úr útblæstri.og það sé nauðsynlegt að einkageirinn taki þátt í þeim.

„Í tilfelli loftslagsbreytinga hafa markaðir brugðist enda hefur ekkert verð verið sett á breytingarnar“
Asbjørn Torvanger,

sérfræðingur um loftslagsfjármál hjá Miðstöð alþjóðlegra loftslsags- og umhverfisrannsókna (CICEIRO) í Ósló

 • Glærukynning Torvangers
 • PDF

Íslendingar, eins og aðrir, þurfi að byggja upp þekkingu á áhættu vegna lofslagsmála, í einka-og opinbera geiranum. Eftir Parísarráðsstefnuna séu fjárfestingar í olíu, gasi og kolum á undanhaldi. Líta ætti á slíkar fjárfestingar sem áhættufjárfestingar. Endurnýjanleg orka og orkunýtni eigi hinsvegar eftir að vaxa. Fjárfestingar í tækni sem hámarkar það sem fæst með hverri orkueiningu með minni losun verði góðar fjárfestingar.

 
Fjárfestingaákvarðanir með tilliti til loftslagsmála

Annie Bersagel hjá norska trygginga- og lífeyrissjóðnum Kommunal Landspensjonskasse Gjensidig Forsikringsselskap (KLP) fjallaði um fjárfestingaákvarðanir með tilliti til aðgerða í loftslagsmálum.

Hún segir upphafið að stefnu KLP um ábyrgar fjárfestingar megi rekja til ákvörðunar um að hætta að fjárfesta í tóbaksfyrirtækjum.

KLP ákvað að selja hlutabréf í kolavinnslufyrirtækjum og hefur þegar selt í 42 félögum fyrir 157 milljónir evra. Hún segir að viðskiptavinir hafi mikinn áhuga á því hvernig fyrirtækið reyni að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Bersagel segir að það hafi borgað sig að selja hlutina í kolavinnslufyritækjunum. Það hafi þó ekki verið það sem réði úrslitum við ákvörðun þeirra. Eitt það jákvæða við að fjárfesta í endurnýjanlegri orku sé að það auki atvinnu og stuðli að þróun í fátækari ríkjum.

„Upphafið að stefnu KLP um ábyrgar fjárfestingar má rekja til ákvörðunar um að hætta að fjárfesta í tóbaksfyrirtækjum.“
Annie Bersagel, 

hjá norska trygginga- og lífeyrissjóðnum Kommunal Landspensjonskasse Gjendsidig Forsikringsselskap (KLP)

 • Glærukynning Bersagels
 • PDF