Í Þjóðhag, ársriti Hagfræðideildar Landsbankans er m.a. að finna þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans 2015 - 2018, spá um verðbólgu og vaxtastig, umfjöllun um húsnæðismarkaðinn, horfur í helstu útflutningsgreinum og fleira. Þjóðhagur er eitt ítarlegasta rit um íslensk efnahagsmál sem gefið er út.

19. nóvember 2015

Fimm fyrirlesarar voru á fundi Landsbankans sem haldinn var í tilefni af útkomu Þjóðhags, ársrits Hagfræðideildar Landsbankans og má finna upptökur af þeim ásamt glærukynningum þeirra hér á síðunni.

Fyrirlesarar

 • Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans.
 • Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum. 
 • Sveinn Þórarinsson, hlutabréfagreinandi í Hagfræðideild Landsbankans.
 • Rósa Björgvinsdóttir, forstöðumaður skuldabréfa hjá Landsbréfum.
 • Harpa Jónsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands.
 • Fundarstjóri var Ragna Sara Jónsdóttir, ráðgjafi.Spáum 4,5% hagvexti næstu árin

Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, kynnti þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar.

Í þjóðhagsspánni, sem nær til áranna 2015 til 2018, er gert ráð fyrir að hagvöxtur í ár og á næstu tveimur árum verði 4,5% en muni síðan lækka í 3,7% árið 2018. Þetta er meiri hagvöxtur en Hagfræðideildin hefur áður spáð að verði á þessu tímabili og nokkuð meiri hagvöxtur en gert er ráð fyrir í nýlegum spám Seðlabankans og Hagstofunnar.

Í spánni er reiknað með að auknar fjárfestingar og einkaneysla verði megindrifkraftar hagvaxtar á næstu árum. Verðbólguhorfur næstu mánuði séu nokkuð góðar en verðbólga muni aukast á næstu misserum. Samkvæmt verðbólguspá Hagfræðideildar mun verðbólgukúfurinn koma töluvert seinna en deildin gerði áður ráð fyrir og kúfurinn verður töluvert lægri. Á spátímabilinu, sem nær til ársloka 2018, fari verðbólga hæst í tæplega 5% á fyrri helmingi ársins 2017. Meðalverðbólga á tímabilinu verði um 3,3%.

Hagfræðideild gerir ráð fyrir að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti þegar líður á árið 2016 með versnandi verðbólguhorfum og að þeir verði komnir í 8,5% árið 2017 en lækki að nýju árið 2018.

Í Þjóðhag er einnig að finna spá Hagfræðideildar um þróun fasteignaverðs, vöxt einkaneyslu, framlag útflutningsgreina til þjóðarbúsins og fleira sem lítur að þróun efnahagsmála á Íslandi.

„Við reiknum með að hagvöxtur verði mun öflugri hér en í nágrannalönd-unum.“
Daníel Svavarsson

- forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans

 • Glærukynning
 • PDF
Fasteignaverð er helsta verðbólgufóðrið

Ari Skúlason, hagfræðingur í Hagfræðideild, kynnti spá bankans um íbúðafjárfestingu og fasteignaverð en samkvæmt spá deildarinnar mun fasteignaverð hækka um 9,5% í ár og 8% ári næstu þrjú árin.

Hann benti á að húsnæðisverð væri á fleygiferð upp á við en sl. 12 mánuði hefur húsnæðisverð hækkað um 9,3%. Ef ekki væri fyrir hækkandi fasteignaverð hefði engin verðbólga mælst hér sl. 2 ár.

Fasteignaverð í stærri bæjum utan höfuðborgarsvæðisins hefði að jafnaði þróast með svipuðum hætti, nema í Vestmannaeyjum þar sem það hefði hækkað mun meira.

„Fyrir hrun var byggt of mikið. Nú er frekar hætta á að byggt verði of lítið.“
Ari Skúlason

hagfræðingur hjá Landsbankanum

 • Glærukynning
 • PDF


Ari sagði flesta þætti vísa á frekari verðhækkanir. Staða heimilanna hefði batnað mikið, kaupmáttur hefði aukist, framboðið væri minna en eftirspurn og aukin samkeppni væri á íbúðalánamarkaði. Þá hefðu vextir lækkað og veðhlutföll hækkað og aðgangur að lánsfé væri tiltölulega auðveldur. Fleira kæmi til, s.s. innflutningur á vinnuafli sem að þessu sinni væri vegna verkefna í þéttbýli en ekki við virkjanir uppi á hálendi og því þyrfti venjulegar íbúðir fyrir fólkið, en ekki vinnubúðir við framkvæmdasvæðið.

Ari sagði að fasteignaverðið væri ekki komið úr samhengi við aðrar stærðir í hagkerfinu, t.d. kaupmátt eða byggingakostnað. Aðrir þættir efnahagslífsins væru líka á fleygiferð. Umræða um bólumyndun á fasteignamarkaði væri því ekki tímabær í augnablikinu.

Ari ræddi töluvert um byggingamarkaðinn. Þrátt fyrir að lengi hafi verið rætt um skort á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu væru ekki merki um að brugðist hefði verið við með því að byggja meira. Þvert á móti ríkti stöðnun á þessum markaði. Fyrir hrun hafi verið byggt of mikið. Nú væri frekar hætta á að of lítið væri byggt. 


Líklegt að hlutabréf muni hækka á næsta ári

Sveinn Þórarinsson, hlutabréfagreinandi í Hagfræðideild Landsbankans, fjallaði um þróun og horfur á íslenska hlutabréfamarkaðnum.

Hann fjallaði um góða ávöxtun á hlutabréfamarkaði frá 2011 en árleg meðalávöxtun á tímabilinu hefði numið 17%. Innistæða hefði verið fyrir þessum hækkunum og benti Sveinn m.a. á að hagnaður skráðra félaga og hlutabréfaverð hefði haldist í hendur. Skuldir fyrirtækja væru að minnka og ýmis tækifæri væru til hagræðingar hjá skráðum félögum, bæði í rekstri og skuldahliðinni.

„Það hefur verið innistæða fyrir hækkunum á hlutabréfamarkaði.“
Sveinn Þórarinsson

- hlutabréfagreinandi í Hagfræðideild Landsbankans

 • Glærukynning
 • PDF


Sveinn sagði að líklegt væri að hlutabréf myndu hækka enn á næsta ári. Hér væri góður hagvöxtur og batnandi lánshæfi. Velta og áhugi á hlutabréfum væri að aukast og ef vel tækist til við afléttingu fjármagnshafta myndi það styðja við markaðinn.

Óvissuþættirnir væru þó margir. Ef illa tækist til við afléttingu haftanna myndi það veikja markaðinn. Vanmat á markaðsvöxtum gæti leitt af sér ofmat á verði og skuldsetning gæti kynnt undir hlutabréfaverði, svo nokkur dæmi séu nefnd. 


Ríkisskuldabréfin duttu úr samhengi við raunhagkerfið

Rósa Björgvinsdóttir, forstöðumaður skuldabréfa hjá Landsbréfum, fjallaði um stöðu skuldabréfamarkaðsins á Íslandi.

Hún fjallaði m.a. um miklar sveiflur á skuldabréfamarkaði á árinu, ekki síst vegna innkomu erlendra aðila á markaðinn. Þeir hefðu áhuga á skuldabréfamarkaðnum á Íslandi þar sem vextir hér væru háir, á sama tíma og vextir á erlendum skuldabréfamörkuðum væru lágir.

Innkoma þessara erlendu aðila hefði valdið því að ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hefði lækkað sem væri úr takti við annað sem væri að gerast í hagkerfinu á Íslandi, m.a. vaxtahækkanir Seðlabankans.

„Í byrjun sumars breyttist takturinn á markaði verulega og má segja að ríkisskuldabréfamarkaðurinn hafi dottið úr samhengi við stöðu raunhagkerfisins.“
Rósa Björgvinsdóttir

forstöðumaður skuldabréfa hjá Landsbréfum

 • Glærukynning
 • PDF


Rósa benti á að raunhagkerfið væri á góðri siglingu, með auknum hagvexti, minna atvinnuleysi o.s.frv. Markaður með ríkisskuldabréf ætti að vera sá markaður sem væri í hvað mestum tengslum við við aðstæður í raunhagkerfinu. Raunin hefði orðið önnur. Vegna áhuga erlendra fjárfesta á ríkisskuldabréfum hefði ávöxtunarkrafan lækkað. Innlendir fjárfestar hefðu hoppað á þennan vagn, hugsanlega vegna einhvers konar hjarðhegðunar. Afleiðingin væri sú að vextir á ríkisbréfum hefðu farið úr tengslum við raunhagkerfið og horfur um þróun þess í nálægri framtíð.

Þetta ástand skapaði vandræði við miðlun peningastefnunnar. Seðlabankinn hefði hækkað vexti tvisvar í sumar til að hægja á innlenda hagkerfinu. Þessar hækkanir hefðu haft þveröfug áhrif á grunnvexti, þ.e. vexti á ríkisskuldabréfum og í raun aukið vandann.

Rósa sagðist þó búast við að jafnvægi myndi nást á nýjan leik, m.a. vegna þess að Seðlabankinn hefur gefið í skyn að hann ætli sér að fjölga stýritækjum til þess geta betur stýrt flæði fjármagns til landsins. Þannig ætti skuldabréfamarkaðurinn að færast aftur nær aðstæðum í raunhagkerfinu og hreyfast í takt við þær. 


Skuldastaðan svipuð og hún var árið 2004

Harpa Jónsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, fjallaði í erindi sínu um fjármálastöðugleika og afnám fjármagnshafta.

Hún benti á að innlent eignaverð hefði hækkað ört, þannig hefði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað að raunverði samfleytt frá árinu 2011. Hlutabréfavísitalan hefði hækkað um 37% það sem af er ári og slakinn í hagkerfinu væri horfinn.

Skuldir heimilanna væru nú 88% af vergri landsframleiðslu og 192% af ráðstöfunartekjum. Hér á landi hefðu skuldir heimila minnkað verulega, sem hlutfall af ráðstöfunartekjum og skuldastaðan væri nú svipuð og hún var árið 2004. Í nágrannalöndum okkar væru heimili hins vegar enn að safna skuldum, s.s. í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

„Hrein skuldastaða þjóðarbúsins mun batna verulega.“
Harpa Jónsdóttir

- starfandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands

 • Glærukynning
 • PDF


Staða fyrirtækja hefði sömuleiðis styrkst. Skuldastaðan hafi lítið breyst það sem af er ári en hafi lækkað mikið frá hruni og sé nú viðráðanleg. Bjartsýni hefði aukist, vanskil minnkað og gjaldþrotum fækkað.

Um leið hefði grunnrekstur bankanna styrkst og hlutur vaxta- og þjónustutekna hefði aukist sem væri batamerki.

Harpa fjallaði allítarlega um undanþágur gömlu bankanna frá lögum um gjaldeyrismál og um afnám fjármagnshafta. Hún benti á að vissulega myndi einhver gjaldeyrir flæða úr landi við uppgjör búanna en það væri vel innan viðráðanlegra marka auk þess sem enn meiri gjaldeyrir kæmi til til landsins, m.a. vegna þess að Eignarhaldsfélag Seðlabanka Íslands ehf. ætti töluverðar kröfur á þrotabú gömlu bankanna. Heildaráhrifin yrðu þau að gjaldeyrisforði Seðlabankans myndi aukast um 41 milljarð króna.

Seðlabankinn hefði gert álagspróf á bankana þar sem athugað var hvort þeir myndu standast álagið ef afnám gjaldeyrishafta myndi ganga verr en gert væri ráð fyrir. Í prófunum væri gert ráð fyrir útflæði fjármagns sem jafngildir um þriðjungi af innlánum þriggja stærstu bankanna. Um leið myndi gengi veikjast, fjárfesting dragast saman og atvinnuleysi aukast. Álagsprófið benti til þess að viðnámsþróttur bankanna væri nokkuð góður.

Harpa benti á að við uppgjör búanna myndi hrein skuldastaða þjóðarbúsins batna verulega og væntanlega verða áþekk því sem hún var árið 1964 í lok árs 2016, eða neikvæð um tæplega 10% af landsframleiðslu. 

No filter applied