Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?

6. janúar 2020 - Agnes M. Vogler, þýðandi

Þegar ný tækni lítur dagsins ljós þarf að búa til orðræðu utan um hana. Nýyrðasmíð er ekki auðveld og á sér ekki stað á efstu hæð í einangruðum fílabeinsturni. Virðulegustu nefndir sprenglærðra sérfræðinga geta komið með rökstuddar tillögur eftir langa legu undir feldi, en það er til lítils ef samfélagið tekur nýyrðið ekki í notkun. Handraði og tölvubanki voru tillögur að heiti á því sem við nú köllum hraðbanka, sem augljóslega lutu í lægra haldinu. Í New South Wales fylki í Ástralíu var Íslendingasamfélagið frumlegt og þjóðlegt og kallaði hraðbanka á tímabili Raufarhafnir, en það datt líka upp fyrir. Tíminn líður hraðar sérhvern dag, ekki bara í lagatextum, og nýyrði fæðast, ná fótfestu (eða ekki) og falla svo aftur í gleymskunnar dá.

Hjá Landsbankanum viljum við ekki einungis bjóða viðskiptavinum upp á nýstárlegar stafrænar leiðir til að sinna bankaviðskiptum, heldur einnig orðaforða til að tala um þær. Við leggjum mikla áherslu á að útgefið efni sé vel úr garði gert, yfirlesið og á góðri íslensku. Helstu skýrslur bankans eru gefnar út á hinu ástkæra ylhýra og sérfræðingar bankans taka ekki bara þátt í umræðunni, heldur líka í mótun tungumálsins sem hún fer fram á. Nærtækustu dæmin eru úr fjártækni, þar sem þróunin er hvað hröðust.

Mynd: Agnes M. Vogler

Agnes M. Vogler, þýðandi.

Mynd af hátalara

Það sem í dag er skilgreint sem hraðbanki hefur í gegnum tíðina fengið ýmis heiti, s.s. handraði, tölvubanki og Raufarhöfn.

Fjártækni ekki komið í orðabanka

Hugtakið fjártækni er einmitt vel heppnað nýyrði og gaman væri að vita hver stakk upp á því fyrst. Orðið er þýðing á enska hugtakinu fintech sem líka er ansi nýtt af nálinni. Orðið er samsuða af financial technology og vísar í tækni sem hefur þann tilgang að bæta og sjálfvirknivæða fjármálaþjónustu. Á vef Landsbankans skilar leit að orðinu fleiri niðurstöðum en hægt er að kasta tölu á. Fjártæknihugtakið er notað í fréttum á vef bankans, í skýrslum og upplýsingatextum og er útskýrt sérstaklega í greininni „Hvert stefnir bankaheimurinn?“ hér á Umræðunni. Fjártækni hefur haslað sér völl í tungumálinu en er samt slíkur nýgræðingur að Árnastofnun hefur ekki enn tekið orðið upp á sína stafrænu arma. Hvorki Málið, vefgátt Árnastofnunar, sem sameinar aðgang að öllum gagnasöfnum um íslenskt mál og málnotkun sem stofnunin hefur yfir að ráða, né Snara, með yfir tvær milljónir uppflettiorða í tugum orðabóka, hefur skrásett það eða skilgreint.

Í þessu felst engin gagnrýni - það er eðlilegt að notkun móti málið og jafnvel æskilegt að nýyrði myndist með neðansækinni nálgun frekar en ofansækinni. Tillaga þriggja alþingismanna um að hafna vinsæla nýyrðinu „bíll“ og kalla fyrirbærið frekar „sjálfrenning“ var samþykkt af þingheimi en er í dag ekkert nema skemmtileg saga, varnaðarorð til þeirra sem ætla að stýra þróun tungumálsins með gerræðislegum gerningum. Bíll er stytting á franska orðinu automobile. Í fjármálaheiminum eru til nokkur orð með svipaðan uppruna, þ.e. nýyrði sem eru aðlögun á erlendu orði eða hugtaki frekar en þýðing. Posi er myndað út frá skammstöfuninni á point-of-sale instrument og vísar í daglegu tali í kortalesara. Pinnið, sem bankar og kortafyrirtæki hvetja þig til að leggja á minnið, er myndað á svipaða hátt út frá skammstöfuninni á personal identification number, PIN. Önnur orð tökum við óbreytt inn í málið, gjarnan vegna þess að þau falla að beygingarreglum íslensks máls. Nærtækasta dæmið er kannski app, sem virðist í dag hafa unnið fullnaðarsigur á öðrum keppendum um fyrsta sætið, svo sem smáforrit, stefja, smælki og verkforrit.

Nýleg nýyrði í fjármálamáli

Umlykjandi tölvunotkun/tækni

Í ensku er talað um ubiquitous í tengslum við tölvur og tengingar, sbr. ubiquitous computing (ubicomp). Vísar hugtakið til þess að tölvur og tækni eru yfir og allt um kring líkt og þoka. Önnur þýðing á ubiquitous er gegnumsmeyg tölvunotkun/tækni.

Reglutækni

Íslenskun á regtech, regulatory technology, en reglutækni vísar í fyrirtæki eða þjónustu sem hefur þann tilgang að einfalda og samþætta upplýsingatækni og regluverk um fjármálaþjónustu, bönkum og öðrum eftirlitsskyldum aðilum til handa.

Ábyrgar fjárfestingar

Ábyrgar fjárfestingar (responsible investment) eru fjárfestingaraðferðir sem taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS). Markmiðið er að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.

Skýjavinnsluþjónusta

Þjónustur sem nýta skýjavinnslu, þ.e. kerfi sem býður upp á umlykjandi, notendavæna æskitengingu við sameiginlegt safn stillanlegra tölvutækja (svo sem netkerfi, netþjóna, gagnageymslur, forrit og þjónustur).

Félagsský

Ský sem er einungis opið ákveðnu samfélagi stofnana eða greiðslumiðlara, þ.m.t. stofnanir innan sömu samstæðu.

Samsett ský

Vísar í ský sem er samsett úr tveimur eða fleiri mismunandi skýjum.

GDPR

Persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins (General Data Protection Regulation) var innleidd á Íslandi sem ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þann 15. júlí 2018.

Persónuverndarfulltrúi

Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga kveða á um að fyrirtæki sem eru ábyrgðaraðilar eða vinnsluaðilar tilnefni persónuverndarfulltrúa, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Persónuverndarfulltrúi er m.a. ráðgefandi um mat á persónuvernd og skal gæta þess að fyrirtæki og stofnanir hlíti lögunum.

Áhersla á íslensku

Önnur nýyrði krefjast meiri yfirlegu og eru afrakstur meðvitaðrar umræðu. Hér í Landsbankanum erum við sérstaklega stolt af hinum heimaræktuðu hugtökum „fyrirmælafölsun“ og „sæmdarkúgun“. Fyrirmælafölsun vísar í CEO fraud, sem felst í því að netglæpamenn senda starfsmönnum fyrirtækja fölsk fyrirmæli í nafni stjórnenda. Orðið hefur verið í umferð síðan árið 2016 og lögreglan hefur meðal annars notað það til að vara við athæfinu. Sæmdarkúgun er alveg nýtt, þýðing á sextortion, en þar vega óprúttnir aðilar að sæmd og heiðri þolandans með ýmsum hætti, t.d. með hótun um myndbirtingu á netinu. Þó slíkum sæmdarkúgunum hafi verið beitt til að hafa fé af fólki frá árinu 2013 hefur engin íslenskun fest sig í sessi enn.

Hjá Landsbankanum leggjum við okkur fram við að skrifa vandaða íslensku. Tungumálið er í sífelldri þróun. Ert þú með tillögu að skemmtilegri þýðingu á fjármálahugtaki? Nýyrði sem við gætum notað? Sendu línu á þýðanda bankans, agnes.m.vogler@landsbankinn.is.