Framtíðargreiningar eru hjúpaðar dulúð. Við þekkjum sögnina af véfréttinni í Delfí, þar sem Forngrikkir gátu fengið fregnir úr framtíðinni frá hofgyðju Apollons, og frásögn völvunnar í Völuspá af því sem koma skyldi. Margt í kristinni trú er einnig byggt á sýnum spámanna á framtíðina.

2. desember 2016  |  Bergur Ebbi Benediktsson

Það er margt við þá sögu sem hefur komið í veg fyrir að framtíðargreining sé afmörkuð sem viðurkenndur hluti vísindanna. Þrátt fyrir þetta er samfélag okkar mjög háð greiningum á framtíðinni. Sé málið skoðað fara þó flestar slíkar greiningar fram innan mismunandi kerfa án samtals þar á milli um heildstæða framtíðarsýn.

Greiningar innan kerfa

Flest kerfi hafa innra eftirlit sem greinir sjálft sig. Tökum sem dæmi bankakerfið. Starfsemi banka er í eðli sínu byggð á því að greina framtíðina. Uppgreiðsla sérhvers láns sem er veitt, er háð breytiþáttum sem þarf að kanna. Ekki er óalgengt að gefin séu lán sem eru ekki greidd upp að fullu fyrr en að áratugum liðnum. Það getur margt gerst á þeim tíma. Hús geta hrunið. Stríð geta geysað. Innviðir samfélaga geta molnað niður. Þetta þurfa lánastofnanir sífellt að greina. 

Bankar byggja greiningar sínar að mestu á lögmálum hagfræðinnar, sem er sú fræðigrein sem oftast kemur upp í hugann þegar framtíðarspár ber á góma. Hagfræðilegar greiningar eru margvíslegar en þær eru að mestu byggðar á hagtölum þó að einnig sé tekið tillit til utanaðkomandi þátta eins og hættu á auknum stríðsátökum, tíðni náttúruhamfara og fleira. 

Bergur Ebbi Benediktsson

Bergur Ebbi er lögfræðingur, cand. jur. frá Háskóla Íslands og MDes í Strategic Foresight and Innovation frá OCAD University í Toronto í Kanada. Undanfarið hefur Bergur Ebbi tekið þátt í framtíðargreiningum fyrir fyrirtæki og félagasamtök í Bandaríkjunum og Kanada, auk samfélagsgreininga í fjölmiðlum á Íslandi.

Ef horft er á framtíðina með linsum aðeins einnar fræðigreinar er öruggt að greiningarnar bregðast.

En hagfræði er ekki stærri en efnahagurinn sem hún greinir. Hagtölur eiga það til að bólgna eða rýrna óháð andlagi sínu. Sagan hefur sýnt að þegar heil hagkerfi hrynja kemur það ekki alltaf fram í greiningum bankastofnana. Það sama getur átt við um greiningar frá háskólum sem eiga að vera óháðari. 

Ástæðan liggur ekki bara í hagsmunaárekstrum heldur þeirri staðreynd að framtíðargreiningar þurfa í eðli sínu að vera þverfaglegar ef þær eiga að sjá fyrir upphaf eða hrun heils kerfis.

Sérfræði dugar ekki

Ein af ástæðum þess hversu langt vísindin hafa náð er sú að fólki gefst kostur á að velja sér sérsvið og kafa djúpt ofan í þau. Grasafræðingar geta einbeitt sér að grösum en hjúkrunarfræðingar að því að hjúkra fólki. Jafnvel almennar fræðigreinar eins og heimspeki lúta sérhæfingu og stundum er miður hversu fáar fræðigreinar einbeita sér að því að byggja brýr milli þeirra þekkingarheima sem finna má á víð og dreif í fræðasamfélaginu. Það kemur ekki síst niður á möguleikum vísindanna til að gera framtíðarspár. 

Ef horft er á framtíðina með linsum aðeins einnar fræðigreinar er öruggt að greiningarnar bregðast. Breytiþættirnir eru svo margir. Greining á framtíðinni þarf að vera þverfræðileg. Kannski er ekki einu sinni rétt að hugsa þær sem fræðilegar, því þær eru í eðli sínu samtal þar sem hleypa þarf að ólíkum röddum sem myndu alla jafna ekki samræmast í hefðbundinni fræðilegri kenningu. Fræðihlutinn af framtíðargreiningum hefur fremur að gera með samræmingu á orðræðu og aðferðafræði við gerð slíkra greininga.

Aðferðafræðin

Í stuttu máli þá er framtíðin greind með því að rýna í samtímann. Bandaríski framtíðarfræðingurinn Jake Dunagan hefur orðað þetta þannig að framtíðin sé í raun þegar komin til okkar, en það sé bara ekki búið að dreifa henni jafnt ennþá. 

Tíminn líður ekki á sama hraða allstaðar. Það er stundum talað um að heilu menningarsvæðin hoppi yfir hluta sögunnar. Þau sitja hjá. Það er til dæmis að gerast núna á stórum svæðum í Suðaustur-Asíu þar sem fólk er að fara beint úr landbúnaði yfir í háþróuð þjónustustörf, beint úr opnum eldi í leirkofum yfir í 4G sítengingu.

Iðnbyltingin sem hófst á Bretlandi í byrjun 18. aldar og hafði breiðst um allan hinn vestræna heim innan við 200 árum síðar náði ekki til allra. Það þýðir ekki að þau landsvæði séu úr leik. Það þýðir einfaldlega að þau sitja hjá og þróun þeirra verður í stökkum – framtíðinni er ekki útdeilt jafnt. Sem dæmi þá hafa þróuð samfélög eins og Bandaríkin ekki enn aðlagast að fullu nútímalegum hugmyndum um kvenréttindi. Með því að líta til landa þar sem atvinnuþátttaka kvenna er meiri er hægt að ímynda sér hvernig áhrif samskonar þróun myndi hafa á bandarískt samfélag, því það er bara tímaspursmál hvenær það mun gerast.

Séu þessar hugmyndir speglaðar yfir á Ísland kemur einnig margt áhugavert í ljós. Þrátt fyrir að Ísland telji sig framsækið land eiga ýmsar nútímalegar hugmyndir, sem þegar eru kviknaðar annarsstaðar, eftir að ná fótfestu hér. Það má til dæmis segja að hugmyndir um fjölmenningu og fjöltyngi eigi eftir að hafa mikil áhrif hér á landi á næstu áratugum. Við getum þegar séð hver þau áhrif eru í öðrum samfélögum. Að þessu leyti er framtíðin komin þó hún hafi ekki dreifst jafnt. Við greiningu á framtíðinni er leitað að þáttum í umhverfinu sem gefa til kynna að breytingar séu í vændum. Það má skipta þessum þáttum í þrjá hluta: vísbendingar, mynstur og hreyfiöfl. Á ensku eru samsvarandi þáttum oft gefin nöfnin signals, trends og drivers.

Þrátt fyrir að Ísland telji sig framsækið land eiga ýmsar nútímalegar hugmyndir, sem þegar eru kviknaðar annarsstaðar, eftir að ná fótfestu hér.

Þessi eini litli veitingastaður í Hafnarfirði var ekki eins og hinir veitingastaðirnir sem opnuðu þetta ár. Hann var vísbending um að Ísland væri nægilega tengt umheiminum til að sameiginleg markaðsstefna alþjóðlegrar keðju hefði þar vægi.

Vísbendingar

Tökum dæmi úr sögunni. Fyrsti KFC-staðurinn á Íslandi var opnaður í Hafnarfirði í október 1980. Það var kannski engin stórfrétt í sjálfu sér. En með aðferðafræði framtíðargreiningar má segja að þessi opnun hafi verið vísbending um miklar breytingar. Kentucky Fried Chicken var alþjóðleg skyndibitakeðja. Þessi eini litli veitingastaður í Hafnarfirði var ekki eins og hinir veitingastaðirnir sem opnuðu þetta ár. Hann var vísbending um að Ísland væri nægilega tengt umheiminum til að sameiginleg markaðsstefna alþjóðlegrar keðju hefði þar vægi. Hann var vísbending um að matarvenjur væru að breytast. Hann var vísbending um að búseta væri að breyast, úthverfamenning að ryðja sér til rúms og margt fleira. Litlar fréttir sem þessar eru dæmi um vísbendingar.

Mynstur

Mynstur eru ítrekaðar vísbendingar sem hafa þegar leitt fram breytingar. Þegar mynstur eru greind er því mikilvægt að kanna hvort þau séu í vexti eða rénun. Tökum nú dæmi úr nútímanum en höldum okkur við veitingahúsabransann. Það má segja að fyrirbæri eins og þjórfé sé að verða að mynstri á Íslandi. Ástæðan er aukinn fjöldi ferðamanna frá svæðum þar sem þjórfé tíðkast. Mynstrið er þegar byrjað að hafa áhrif en þó aðeins í litlum mæli. Ef slíkt mynstur stækkar gæti það haft mikil áhrif á allan veitingahúsa- og ferðamannaiðnaðinn. En þó að þjórfé sé stækkandi mynstur á Íslandi þá segir það ekki alla söguna. Sé málið skoðað í stærra samhengi má sjá vísbendingar í þá átt að þjórfé sem alþjóðlegt mynstur sé frekar í rénun heldur en hitt. Því til stuðnings má til dæmis nefna tilkomu fyrirtækja eins og Uber sem gera ekki ráð fyrir greiðslu þjórfés.

Hreyfiöfl

Ef mynstur haldast í langan tíma og standa af sér breytingar er áætlað sem svo að þau séu ekki lengur háð utanaðkomandi þáttum. Þá eru þau orðin orsök en ekki afleiðing breytinga og eðlilegra að gefa þeim nafn í samræmi við það. Hreyfiöfl eru óumdeildari og víðfeðmari breytiþættir. 

Dæmi um hreyfiafl er til dæmis borgarmyndun. Fólk hefur streymt í borgir og bæi allt frá tímum iðnbyltingarinnar og það eru engar vísbendingar um að sú þróun sé á undanhaldi. Hreyfiöfl hafa sér langan aðdraganda og það þarf mikið til að breyta þeim. 

Annað hreyfiafl eru loftslagsbreytingar, sem fyrr en varir munu hafa áhrif á alla þætti mannlegs lífs og jafnvel þó þeim verði snúið við verða þær breytingar hægfara. Loftslagsbreytingar eru ekki lengur aðeins afleiðing iðnvæðingar heimsins heldur sjálfstæður breytiþáttur sem ólíklegt er að snúa megi við næstu áratugina.

Margir möguleikar

Þegar samtíminn hefur verið kannaður með tilliti til vísbendinga, mynstra og hreyfiafla er ljóst að engin ein framtíðarsýn er trygg. Spilin geta raðast upp á svo marga mismunandi vegu. En þó er hægt að draga fram ákveðnar meginlínur og veita innsýn inn í til dæmis fjórar mismunandi atburðarásir á hverju sviði. 

Kjarni framtíðargreiningar er að útskýra fyrir fólki og fyrirtækjum að framtíðin sé ótrygg. Það verði að gera ráð fyrir mismunandi aðstæðum í framtíðinni. Þrátt fyrir allt tal um varkárni þá eru flest fyrirtæki alltaf að veðja á eina tegund af framtíð. 

Bankar gera ráð fyrir því að fólk vilji áfram kaupa húsin sín og taka lán til 25 ára. Tryggingafyrirtæki gera ráð fyrir því að öll heimili muni eiga bíl og tryggja hann fyrir hundruð þúsundir árlega. Og kannski er það glapræði að ætla að breyta stefnumörkun sinni og gera ráð fyrir því að allt fari á versta veg. 

En þetta snýst ekki um það. Allar breytingar eru möguleikar. Kodak hefði ekki þurft að fara á hausinn með alla sína starfsemi þó að fólk hætti að taka ljósmyndir á filmur. Kodak hefði allt eins getað verið fyrirtæki eins og Amazon eða Apple í dag, tekið þátt í rekstri gagnavera eða verið leiðandi í streymisþjónustum. Sú starfsemi er alveg jafn tengd vilja fólks til að taka og geyma ljósmyndir eins og hún er tengd tölvuiðnaðinum.Kjarni framtíðargreiningar er að útskýra fyrir fólki og fyrirtækjum að framtíðin sé ótrygg. Það verði að gera ráð fyrir mismunandi aðstæðum í framtíðinni.En stór markmið nást yfirleitt ekki nema þau séu að minnsta kosti sett fram, og stór markmið eru alltaf háð því að hugsa mun lengra fram í tímann.

Hver er lokaafurðin?

Framtíðargreining er samtal um framtíðina og möguleika hennar. Stundum er hálf óskiljanlegt hversu lítill vilji er fyrir slíku samtali. En sé málið greint nánar þá eru ástæður fyrir því. Í heimi stjórnmála eru takmörkin augljós. Kjörtímabil eru oftast fjögur ár. Það er tímasóun fyrir stjórnmálamenn að tala um áætlanir sem ná lengra en það. Þeir gætu aldrei verið vissir um að stýra þeim í höfn sjálfir. Það sama á við um fyrirtæki sem gera yfirleitt stefnumótun og afkomumarkmið upp á 3-5 ár í senn. Það er takturinn sem markaðurinn er vanur. En stór markmið nást yfirleitt ekki nema þau séu að minnsta kosti sett fram, og stór markmið eru alltaf háð því að hugsa mun lengra fram í tímann. Það þarf samt ekki að vera hálf öld. Það væri strax mikið framfaraspor að setja fram hugmyndir fyrir næstu 10-20 ár.

Framtíðargreiningar má kynna í formi hefðbundinnar skýrslu. Í henni eru taldir upp allir helstu breytiþættir sem geta haft áhrif á viðkomandi starfsemi og úr þeim smíðaðar nokkrar mögulegar atburðarásir. Þegar kemur að atburðarásum þarf greiningin þó að búa yfir ákveðnum innblæstri. Ef ætlunin er að útskýra að tiltekin atburðarás geti leitt til þess að heimsstyrjöld ríki árið 2040 þarf að útlista það stríð og gera það sem raunverulegast. Kynning á niðurstöðum greininga er því oft í formi margmiðlunar, innsetningar eða samtals.

Til að endanlega fella þær ranghugmyndir sem margir hafa um framtíðarspár er nauðsynlegt að víkja aðeins að hugmyndinni um hinn mikla leiðtoga. Þó að heimurinn hafi séð týpur eins og Steve Jobs, með sína spámannslegu ásýnd, þá er það undantekning. Framtíðargreiningar byggja þvert á móti á samvinnu sem ólíkastra hópa. Þær eru oft gerðar á vinnufundum með starfsfólki fyrirtækja en ekki aðeins af stjórnendum. Þær byggja á því að skapa tungumál og samskiptamynstur um framtíðina, þannig að smáatriði í daglegum rekstri séu framreiknuð og úthugsuð með tilliti til áhrifa þeirra í framtíðinni. Að því leyti er framtíðargreining ákveðið viðhorf. Vísindalegu eiginleikarnir snúast um að halda uppi aga og festu þannig að fólk sé að tala sama tungumálið, en efnislega eru greiningarnar settar saman úr afar hversdagslegum þáttum eins og fréttum, viðburðum og breytingum á hátterni.

Er leiðtogadýrkun mynstur?

Það vita allir að heimurinn er síbreytilegur. Við fáum skilaboð um það úr umhverfi okkar og stórfyrirtæki þreytast ekki heldur á að segja okkur það. Það er mikið rætt um breytingar og leiðtogahæfni, MBA-nám og tækninýjungar. En sumar þessara hugmynda eru rómantískar í eðli sínu. Undir þessum skilaboðum sjáum við myndir af fallandi háhýsum eða svarthvítar ljósmyndir af Einstein og sveppaskýjum og öðrum öfgum 20. aldarinnar. 

En breytingarnar sem við ættum að vera að fylgjast með eru miklu hversdagslegri. Þær eru allt í kringum okkur og þær eru svo sjálfsagðar að við tökum varla eftir þeim. Til að loka hringnum þá myndi ég til dæmis sjálfur álíta það sem dæmi um samfélagslegt mynstur hversu miklar kröfur eru gerðar til fólks um að vera leiðtogar. 

Það er mynstur sem gaman væri að kanna nánar til að athuga hvort það sé enn í vexti eða nú þegar í rénun. Það er mynstur sem hefur áhrif á samfélög og hvernig ákvarðanir eru teknar, en þó er það aðeins eitt mynstur af þúsund öðrum sem þarf að kanna þegar byggja á upp heilstæðar myndir af því hvert samfélagið gæti þróast á næstu áratugum.

En breytingarnar sem við ættum að vera að fylgjast með eru miklu hversdagslegri. Þær eru allt í kringum okkur og þær eru svo sjálfsagðar að við tökum varla eftir þeim.