Hvað eru jól? Eru jólin eitthvað sem kemur á slaginu, tiltekinn matur eða Jesús? Okkur finnst við öll þekkja jólin, en þegar kemur að því að lýsa þeim kemur í ljós að fólk upplifir þau mjög ólíkt. Er eitthvað eitt sem er ómissandi ef jólin eiga að vera jól? Er hægt að einangra það og skilgreina?

20. desember 2017

Sólstöðuhátíðir hafa þekkst lengur en nokkur kann á skil. Í kristni boða jólin komu frelsarans, vonar og ljóss. En þau byggja líka á alls kyns jólahefðum þar sem fólk fer í sitt fínasta púss, gefur gjafir og gerir vel við sig og aðra.

Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur, Eva María Jónsdóttir, miðaldafræðingur og fjölmiðlakona og Magnús Stefánsson hjá Hagfræðideild Landsbankans hafa hvert sína reynslu og sýn á jólin. En þau eru öll sammála um að jólin hafi sín sérkenni.

Eru jólin meinholl seigluþjálfun?

Fullir ísskápar af góðgæti, jólahefðir og fallegar gjafir eru alltaf áberandi og Vigfús, Eva og Magnús eru öll sammála um að munaður virðist órjúfanlegur hluti af jólunum. Vigfús segir gjafmildi vera sjálfsagðan og góðan hluta af jólunum og bendir á að jólin í Betlehem hafi hafist á gjöfum til Jesúbarnsins. „Efnishyggjan fylgir alltaf manninum, en fyrir mér snýst þetta um að við erum að reyna að gleðja hvert annað. Svo þurfum við að finna jafnvægi, en það er að finna hjá einstaklingunum sjálfum“.

Eva segir þó eðli jólagjafanna vera að breytast. „Við höfum það svo gott að það verður alltaf erfiðara að gera sér dagamun og kannski verða jólagjafir barn síns tíma.“ En Eva bendir á að tíminn og metnaðurinn sem fer í jólin sé enn til staðar og e.t.v. leifar af siðum þar sem fólk eyddi löngum tíma í undirbúning; handverk og verkun matar. „Kannski er þetta einhvers konar seigluþjálfun sem við höfum gott af, að setja okkur langtímamarkmið. Það er alla vega meira gefandi að svitna aðeins yfir þessu og finna svo friðinn.“

 

Fólk eyðir að jafnaði meira fé í kring um jólin en aðra hluta ársins. En þegar illa árar erum við fljót að draga úr neyslunni. Kannski bendir það til þess að jólunum þurfi ekki að fylgja mikil eyðsla.

Magnús Stefánsson, sérfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans

 

 

Magnús bendir á staðreynd sem gæti stutt þessa túlkun; hjá sambærilegum hópum, sem annars vegar halda jól og svo ekki, er neyslan mjög svipuð, en hjá þeim sem halda jól dreifist hún hlutfallslega nær jólunum.

Jólin koma alltaf þrátt fyrir niðursveiflur

Á Íslandi er neyslan alltaf meiri á síðasta ársfjórðungi. En þegar illa gengur, t.d. í efnahagsniðursveiflum árin 2001 og 2006, og svo í fjármálakreppunni 2008 og 2009, er almenningur fljótur að minnka neysluna. Samt sem áður minnast þess fæstir að ekki hafi verið haldin jól á þessum árum. Það gæti þýtt að við leyfum okkur munaðinn þegar efni þykja til, en að hann sé alls ekki ómissandi.

Gjafirnar snúast samt um að gleðja aðra, samveran með fjölskyldu og vinum er mjög áberandi í jólahaldinu. Jólin geta verið tvíeggja, full af skarkala og efnishyggju, en líka ró og einlægri samveru. Við upplifum okkar bestu stundir í faðmi fjölskyldu og vina en jólin eru líka erfið þeim sem hafa misst og eiga fáa að.

Mannmörgu fjölskyldujólin eru samt ekki endilega þau einu sönnu. Jól geta verið fámenn með fólki sem eyðir öllum dögum ársins saman, með vinum erlendis fjarri fjölskyldu og reglulega heyrist sagan af þeim sem hafa átt sína heilögustu stund ein á afskekktum stað.

„Efnishyggjan fylgir alltaf manninum, en fyrir mér snýst þetta um að við erum að reyna að gleðja hvert annað“.

Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur


 

Tími tengsla og tilfinninga

En óháð fjöldanum eru jólin mjög mörgum tími tengsla og tilfinninga. Vigfús segist finna að þegar nær dragi jólum hafi fólk þörf fyrir að tala um erfiða atburði. „Við horfumst í augu við okkur sjálf, en þau ná líka að kalla fram ákveðna grunnvellíðan í fólki - okkur líður vel þegar við fáum að gefa af okkur og ástunda kærleika og hlýju.“

Vonin er sterkur þáttur í kristnu jólunum og Vigfús bendir á að samkvæmt trúnni sé það barn sem kemur í heiminn með nýtt upphaf. „Það er barn, ekki miðaldra karl sem flytur okkur sannleikann, og barnið kemur fram meðal smælingja, flóttafólks í Mið-Austurlöndum sem finnur skjól á jólunum.“ Jólin eru líka ein helsta kirkjuhátíðin meðal kristinna. „Langflestir játa trú og finna fyrir trúarlegum þáttum í jólunum, en auðvitað er hægt að halda hátíð fjölskyldu, kærleika og ljóssins án trúarinnar.“

Ljósið og stundin það sem situr eftir

Kristnu jólin eiga það þó sameiginlegt með sólstöðuhátíðum að marka einhverskonar nýtt upphaf á dimmasta tíma ársins. Ljósið sem fylgir hátíðinni er kannski táknrænt fyrir árstímann, að bjóða myrkrinu birginn og fagna nýju upphafi.

Eva María segir að það virðist innbyggt í okkur að fagna þessu nýja upphafi. „Í mínum huga er þetta bara fast í tilfinningaminninu, það er eitthvað frumstætt og fylgir okkur bara í gegnum kynslóðirnar að fagna sólinni og aukinni birtu.“

„Það er meira gefandi að svitna aðeins yfir þessu og finna svo friðinn“

Eva María Jónsdóttir, miðaldafræðingur og fjölmiðlakona


Líklega verða jólin alltaf ólík og breytileg, bæði milli einstaklinga og með árunum. Jólahald nú er öðru vísi en fyrir hálfri öld, öld eða 200 árum, þótt sumt haldist og annað hverfi. Eva er þó ekki í vafa um hvað þurfi að sitja eftir svo jól geti kallast jól.

„Ljósið verður að vera til staðar og þessi hugsun, að ljósið sigri myrkrið. En um leið er ekki hægt að taka úr jólunum þessa heilögu stund, þú getur ekki frestað jólunum fram til 27. desember af því að það er svo mikið að gera. Kannski er ekkert skrítið að við upplifum stöðu okkar og stað í lífinu á þessari stund. Við erum öll að gera það sama á sama tíma og þannig verður til úr þessu einhver sönn stund þar sem allt kemur saman.“