Fjölgun erlendra ferðamanna hefur valdið miklu álagi á áfangastaðinn Ísland; á náttúru, samfélag og innviði. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, segir brýnt að ná stjórn á greininni svo hún geti notið sín enn betur.

26. september 2017

Fá svæði í heiminum hafa tekist á við jafn mikla fjölgun ferðamanna á jafn stuttum tíma og Ísland. „Það er allt í lagi ef ferðamönnum fjölgar um 40% á milli ára en ef slíkt endurtekur sig í mörg ár þá koma upp vandamál,“ segir Anna Dóra. Ýmis vandamál hafi nú þegar sagt til sín og innviðir samfélagsins hafa ekki haldið í við fjölgun ferðamanna. Vegirnir bera ekki tvöfalda aukningu umferðar og salernisaðstaða víða um land er í ólestri. „Þetta mál verður að leysa. Það er grundvallaratriði, til að gæði haldist, að salerni séu nægjanlega mörg og aðgengileg. Bæði svo að fólki líði vel og til að halda hreinlætinu í lagi,“ segir hún. Fjölgun ferðamanna, sem nú eru sjöfalt fleiri á ársgrundvelli en Íslendingar, hafi líka valdið miklu álagi á aðþrengt heilbrigðiskerfið.

Varast að fara ekki yfir þolmörk heimamanna

Anna Dóra bendir á að þegar fjölgun ferðamanna sé jafn ör og raun beri vitni sé erfitt að mennta nógu mikið af fólki til að sinna ferðaþjónustu og viðhalda gæðum þjónustunnar. „Við eigum ekki nógu mikið af fólki sem talar réttu tungumálin til að geta veitt ferðamannahópum góða leiðsögn. Það leiðir til þess að fararstjórar fylgja erlendu hópunum að utan og íbúar hér fá hvorki vinnu né tekjur af farstjórninni. Erlendir fararstjórar þekkja líka síður til aðstæðna og þeirrar hættu sem getur verið í íslenskri náttúru. Þannig að við missum af alls konar tækifærum vegna þess að þetta gerist of hratt.“

Í ferðamálafræðum er fjallað um breytingar sem geta orðið á viðhorfi heimamanna til ferðaþjónustu. Þegar ferðamenn byrja að venja komur sínar til nýs áfangastaðar er tilhlökkun og gleði meðal íbúa. Þegar fjölgunin heldur áfram getur áhuginn vikið fyrir áhugaleysi, nema hvað tekjur af ferðaþjónustu varðar. Ef farið er yfir ákveðin þolmörk heimamanna getur komið fram pirringur og neikvæðni. „Það má ekki gerast að við förum yfir þessi mörk vegna þess að þetta er svo dýrmæt auðlind fyrir áfangastaði. Ein af auðlindum ferðaþjónustunnar er að heimamenn séu jákvæðir gagnvart komu ferðamanna. Ef ferðamenn finna að þeir eru óvelkomnir er mikilvægur hluti af aðdráttaraflinu farinn,“ segir Anna Dóra.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Mikill fjöldi gengur á náttúrunnar gæði

Náttúruauðlindin er þó aðalatriðið í þessari umræðu, að mati Önnu Dóru. „Þessi mikli fjöldi ferðamanna gengur á náttúruna og þótt við lagfærum stíga og byggjum tröppur náum við ekki að halda í við þróunina. Margir staðir eru orðnir mjög illa farnir,“ segir hún. Enn segi skortur á hæfu fólki til sín. Iðnaðarmenn vantar til uppbyggingar á þeim stöðum þar sem þörfin er mest. Það taki tíma að skipuleggja og hanna mannvirki en ef ekki fást iðnaðarmenn gerist ekki neitt. Á meðan spillist náttúran og við það rýrist upplifunin af henni.

En jafnvel þótt innviðir séu byggðir upp á ferðamannastöðum séu Íslendingar samt að fórna náttúrunni sem auðlind. „Þegar við byggjum í náttúrunni erum við búin að umbreyta henni. Svæði sem búið er að byggja upp hafa ekki sama sjarma og aðdráttarafl eins og svæði sem ekki er búið að byggja upp.“ Þannig sé ákveðinn fórnarkostnaður vegna ferðaþjónustu eins og öllum öðrum greinum.

Undanfarið hefur mikið verið rætt um sjálfbærni í ferðaþjónustu. Anna Dóra segir mikilvægt að skilgreina hugtakið áður en farið er að nota það. Skilgreina þurfi fleiri grunnhugtök og setja mælanlega staðla. Þá fyrst megi athuga hvort farið sé eftir þessum stöðlum í ferðaþjónustunni. Við núverandi aðstæður sé engan veginn hægt að segja til um það hvort ferðaþjónustan sé sjálfbær eða ekki.

Vantar fjármagn í rannsóknir og skýra stefnu

Þrátt fyrir að vaxandi ferðaþjónustu fylgi ýmis vandamál fær greinin nú mun meiri athygli, sem Anna Dóra segir mjög til bóta. „Menn voru mjög lengi að átta sig á hvað þessi grein skiptir miklu máli. Hún skiptir máli upp á tekjur og gjaldeyri sem flæðir inn í landið. Hún skapar fjölda starfa út um allt land og eflir þannig byggðir í landinu. Sums staðar er hún orðin grunnstoð í samfélögum úti á landi,“ segir hún.

Mikilvægt er að stjórnvöld hafi heildarsýn og móti stefnu í ferðaþjónustu. Til að móta stefnuna þurfi rannsóknir um hvað náttúran þolir, hvað samfélagið vill, hver markhópurinn er og hvers konar markhóp Íslendingar vilji fá. Vegna fjárskorts hafa ekki verið gerðar nægilegar rannsóknir á sviði ferðaþjónustu hér á landi. „Þegar við erum búin að segja út frá hverju við viljum móta stefnu þá ættum við að fara að safna gögnum í kringum hana,“ segir hún. Þetta hefur aldrei verið gert heildstætt. Tillögur um rannsóknarstefnur hafa verið lagðar fram og ítarleg greiningarvinna unnin á vegum Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála en þessari vinnu hafi ekki verið fylgt eftir með markvissum aðgerðum.Ferðaþjónustan má ekki verða stjórnlaus

Anna Dóra er bjartsýn fyrir hönd ferðaþjónustunnar og telur að Íslendingum takist að ná utan um vandann. „Ég vona að það hægi á vextinum vegna þess að hann er ekki heilbrigður. Ég vona að við náum að setja okkur stefnu í greininni þannig að við vitum hvert við viljum fara í staðinn fyrir að láta teyma okkur eitthvað án þess að hafa hugsað um hvert við viljum fara,“ segir hún. Ferðaþjónustan má ekki verða stjórnlaus. Markmiðin þurfi að vera skýr. Ekki sé nóg að taka við gjaldeyri heldur verði að huga að hagsæld samfélagsins í heild sinni. Það sé ekki ásættanlegt að fórna gæðum landsins heldur verði þetta tvennt að haldast í hendur. Það sé draumasýnin.

Varasamt að vera svo háð einni grein

En hvernig má leysa vandann? Anna Dóra veltir fyrir sér hvað myndi gerast ef menn hættu að bregðast við aukningu á flugfarþegum með því að stækka við Leifstöð. Farþegum væri þess í stað beint til annarra landshluta. Íbúar Norður- og Austurlands myndu njóta ágóða ferðaþjónustunnar betur og álagið af komu ferðamanna myndi dreifast betur um landið. Verðlag og skattlagning sé önnur leið til að hafa áhrif á eftirspurnina. Mikilvægt sé að Íslendingar offjárfesti ekki í greininni og að hagkerfi landsins verði ekki allt of háð þessari einu atvinnugrein. „Ferðaþjónustan skapaði meiri gjaldeyristekjur á síðasta ári en sjávarútvegur og stóriðjan samanlagt. Það er gott eitt og sér en það er hins vegar mjög varasamt að vera orðin of háð einhverri einni grein,“ segir hún. Þess vegna sé mikilvægt að stefnan sé skýr og að Íslendingar hafi góða framtíðarsýn svo fyrirtæki og samfélagið lendi ekki í hremmingum síðar meir.