Helstu áskoranirnar okkar í bílaleigubransanum eru ansi margar, segir framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar, stærstu bílaleigu landsins. Erlendir ferðamenn leigja nú ódýrari bíla í styttri tíma í senn. Þeir sækjast ekki eftir rafbílunum því þeir vita að innviðir landsins bjóða ekki upp á það.

26. september 2017

„Ferðaþjónustan er mjög ung grein á Íslandi. Það er ekki lengra síðan en um aldamótin síðustu sem barist var fyrir því að fá þessa atvinnugrein viðurkennda sem einhvers virði fyrir samfélagið,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar.

Fjárfestingarfyrirtæki hafi á þeim tíma lítið sinnt fyrirtækjum í greininni og þetta hafi mikið til verið einyrkjar, fyrir utan þessa alstærstu eins og Icelandair og fleiri. „Við líðum svolítið fyrir það núna hversu ung atvinnugreinin er í raun og veru. Bæði inn á við og út á við, gagnvart almenningi og stjórnvöldum. 

Það er búið að vera gríðarlegur vöxtur undanfarin ár. Að mörgu leyti of hraður, vegna þess að við höfum ekki náð að byggja upp innviðina eins og við þyrftum. Fyrir vikið verða brestir hér og þar,“ segir Steingrímur.

Rætt við Steingrím Birgisson forstjóra Bílaleigu Akureyrar.

Hver í sínu horni

Til þess að hægt sé að taka vel á móti ferðamönnunum er brýnt að byggja upp innviðina, ekki síst gagnvart náttúrunni sjálfri, að sögn Steingríms. Einnig þurfi að bæta aðkomuna í Keflavík. Yfirvöld hafa verið á fullu að stækka flugstöðina og ekki haft undan og það er auðvitað ákveðinn Akkilesarhæll. „En fyrst og fremst eru það þessir helstu ferðamannastaðir sem þarf að byggja upp. Þar vantar stíga, salerni, bílastæði, o.s.frv. Grunnþjónustuna,“ segir Steingrímur.

Menn séu flestir að reyna og allir af vilja gerðir. Á tímabili vantaði fjármagn og nú undanfarið hafi sumir bent á að það vanti verktaka til framkvæmda. Víða sé mjög erfitt fyrir smærri sveitarfélög að byggja upp. Þau hafi oft ekki efni á að fara í skipulagsvinnuna þótt þau fái jafnvel styrk fyrir framkvæmdunum. „Það hefur vissulega margt breyst og ég held og vona, að við séum að færast í rétta átt gagnvart þessari uppbyggingu, en það vantar betri heildarstefnumótun. Hvernig viljum við gera þetta? Hvaða staði eigum við að ráðast í fyrst? Það er svolítið hver í sínu horni að bardúsa eitthvað,“ segir Steingrímur.

Til þess að hægt sé að taka vel á móti ferðamönnunum er brýnt að byggja upp innviðina, ekki síst gagnvart náttúrunni sjálfri.

Rafbílavæðingin ein af mörgum áskorunum

Steingrímur segir að bílaleigugeirinn standi frammi fyrir fjölmörgum áskorunum. „Við getum nefnt rafbílana til að byrja með. Þar hefur þróunin verið mjög hröð og rafbílum fjölgað mikið. Þetta er góð þróun sem við höfum tekið þátt í með ánægju. Vandamálið er hinsvegar að innviðirnir okkar eru ekki tilbúnir í þetta. Okkar viðskiptavinir þurfa að geta hlaðið bílana út um allt land. Þeir eru að keyra oft 200-500 kílómetra á sólarhring, og meðal drægni rafbíls í dag er innan við 200 kílómetrar. Þannig að þeir geta ekki komist sinn dag á einni hleðslu eins og maður segir. Það eru komnar rafhleðslustöðvar á nokkrum stöðum, en þær duga engan veginn,“ segir Steingrímur.

Erlendir ferðamenn hafa því ekkert verið að sækjast eftir rafbílunum, einfaldlega vegna þess að þeir vita að þeir draga ekki það sem þarf. Bílaleiga Akureyrar hefur boðið upp á rafbíla frá árinu 2008 og hefur haft þá inn á verðlistum til erlendra ferðaskrifstofa. „En það hefur ekki komið ein einasta bókun erlendis frá. Við höfum boðið þessa bíla hérna á Íslandi líka og það er svona heldur að aukast þar. Stofnanir, eins og t.d. háskólinn á Akureyri, eru að leigja rafbíla þegar hægt er en aðalmálið er að þessir bílar eru ekki hæfir til notkunar í bílaleigu ennþá vegna þess að drægnin er ekki næg fyrir erlenda ferðamenn.“

Leigja ódýrari bíla í styttri tíma

Steingrímur segir að meðalleigutími bíla hafi styst. Áður hafi ferðamenn tekið bíla í 8-10 daga í senn en það hafi styst niður í 6-8 daga. Fyrir fimm til tíu árum hafi bílar oft verið leigðir í tvær vikur í senn en það sé afar sjaldgæft um þessar mundir. Meðalkúnninn leigir bíl í viku og keyrir hringinn á þeim tíma. Ferðamenn leigja líka minni og ódýrari bíla en áður. Steingrímur vill meina að þessi þróun sé ekki tilkomin vegna þess að hér sé verið að yfirverðleggja hlutina. Bílaleiga Akureyrar hafi til að mynda ekki hækkað eða breytt evruverðunum hjá sér síðustu fimm árin. Þær breytingar sem orðið hafa séu einfaldlega gengisbreytingar.

„Við finnum vel fyrir því hvað kúnnanum er farið finnast allt orðið dýrt. Styrking krónunnar er náttúrulega búin að fara gríðarlega illa með okkur, og geirann, og taka í raun alla afkomu burt. Núna erum við til dæmis farin að gefa verð inn á 2019 og hvernig í ósköpunum á maður að vita hvernig gengið verður þá, þessi gríðarlegi óstöðugleiki í genginu er algjörlega óþolandi.“

Sumar innheimtuaðgerðir ganga ekki upp fyrir bílaleigur

Steingrímur bendir á að nú sé byrjað að innheimta gjald á ákveðnum ferðamannastöðum sem lið í að byggja upp innviði. Sumar af aðgerðunum gangi hinsvegar ekki upp í framkvæmd, t.a.m. gjaldtakan á bílastæðum við Skaftafell. „Þar eru teknar myndir af bílunum og eiganda bifreiðarinnar sendur reikningur. Það þýðir, fyrir okkur bílaleigurnar, að við eigum allt í einu að fara að borga reikning fyrir Herra Müller frá Þýskalandi sem lagði við Skaftafell. Hvernig eigum við að innheimta það? Þetta er bara ekki framkvæmanlegt fyrir okkur. Og okkur var tilkynnt um þetta með engum fyrirvara. Það sama á við um bíla sem eru á erlendum númerum. Hvernig á að rukka þá?“

Auðvitað eigi þetta að vera eins og erlendis þar sem er einfaldlega hlið og gjaldmælir, og menn borga þegar þeir mæta á staðinn. „Það sem mér finnst kannski hvað verst er að stjórnvöld í rauninni hafa ekkert samráð við okkur, í alltof mörgum málum að mínu mati. Þannig hefur það verið í alltof mörg ár,“ segir Steingrímur.

Blóðugt verðstríð á veturna

Ferðamönnum hefur verið að fjölga mikið yfir vetrartímann og Steingrímur segir að Bílaleiga Akureyrar finni vel fyrir því. Stærstu breytingarnar urðu fyrir um þremur árum og í dag séu sveiflurnar í fjölgun bókanna orðnar mun minni en áður. En verðið yfir veturinn er náttúrulega mun lægra. „Það má eiginlega segja að núna ríki blóðugt verðstríð yfir veturinn. Bílaleigubílarnir eru orðnir of margir og menn farnir að fara ansi lágt niður í verðum, sem kallar náttúrulega á að viðskiptavinirnir eru ánægðir og taka bílana, en það er spurning hvað menn hafa upp úr því.“

Enn er þó mikill munur á viðskiptum milli vetrar og sumars. Hjá Bílaleigu Akureyrar starfa til að mynda 45 manns  á  Keflavíkurflugvelli á sumrin  en sextán yfir vetratímann. Það eru þó ekki svo mörg ár síðan 4-5 starfsmenn voru þar að störfum á veturna svo þetta er sannarlega gríðarlega breyting, að sögn Steingríms.

Húsbílamarkaðurinn mettaður og offjárfesting á bílum

Steingrímur bendir á að húsbílamarkaðurinn hafi stækkað gríðarlega í fyrra og árið þar áður. Helsta breytingin hafi orðið fyrir um þremur eða fjórum árum, þegar svokallaðir mini camperar, eða litlir húsbílar, komu inn á markaðinn. Steingrímur telur að þessi markaður hafi greinilega verið mettaður í ár. Flestar leigur hafi átt húsbíla í sumar þrátt fyrir að gisting væri víða ansi þétt bókuð.

„Ég tel að í sumar hafi bílaleigubílar á Íslandi verið of margir og menn hafi offjárfest. Styrking krónunnar á náttúrlega sinn þátt í því sem þýddi að það dró úr þessum mikla vexti. Það var vöxtur framan af ári en svo dró úr honum. Fyrir vikið áttu flestallar, ef ekki allar bílaleigur, bíla lausa í sumar svona heilt yfir. Nema kannski síðari hluta ágúst, sem var háönn hjá öllum þegar verðin lækkuðu. Þannig að já, ég tel að það hafi verið offjárfesting á bílum í ár og menn þurfi að hægja á þar. 

Líka vegna þess að við þurfum að horfa til þess að innlendi markaðurinn tekur ekki endalaust við notuðum bílum. Það er ekki orðið vandamál ennþá og meðalaldur bíla á Íslandi er ennþá frekar hár, en það eru takmörk fyrir því, að mínu mati, hvað bílaleigubílarnir geta verið margir. Við erum enn ekki komin þangað en við erum komin nálægt því eins og staðan er í dag,“ segir Steingrímur.