Ríflega sjö milljónir ferðamanna hafa heimsótt Ísland frá ársbyrjun 2011. En hvað segja ferðamennirnir um Ísland? Við ræddum við nokkra þeirra á förnum vegi. Allir virðast vera sammála um fegurð íslenskrar náttúru en sumir kvörtuðu undan háu verðlagi, fjölda ferðamanna og ómalbikuðum vegum.

26. september 2017

Vinkonurnar Claire og Caley frá San Fransisco í Bandaríkjunum komu hingað til lands því flugið var ódýrt og þær höfðu séð margar fallegar myndir frá Íslandi. „Við erum búin að vera hér í 10 daga og keyrðum hringinn. Ég myndi segja að upplifunin hafi verið framar vonum. Við leigðum bíl með innbyggðu tjaldi á þakinu þannig að við gátum sofið í bílnum. Þetta gerðum við til að spara pening. Og þar sem það er venjulega lítið eldhús og klósett í bílnum höfðum við aðgang að öllu því sem við þurftum á leiðinni.“

Megan frá Kanada líkti Íslandsheimsókninni við að koma til tunglsins. „Ég hef aldrei áður kynnst viðlíka landslagi þannig að það var mjög gaman. Það eina sem olli mér vonbrigðum var fjöldi ferðamanna á svæðinu. Ég vaknaði kl 4 á morgnanna til að fara að skoða helstu áfangastaðina og það var alltaf allt fullt af ferðamönnum. Hitt er að það er ótrúlegt að maður þurfi að ferðast um 50 km holóttan malarveg til að komast til þessara staða. Ég var ekki á 4x4 bíl, þannig að ég var pínu hrædd við að keyra. Gæti verið sniðugt að malbika eitthvað af þessum götum,“ sagði Megan.

Nokkrir töluðu um hversu öruggt það væri að ferðast hér og aðrir bentu á hátt verðlag.  Að mati Alans frá Kanada er Ísland einn af bestu áfangastöðunum sem bjóðast. „Airbnb kom á óvart. Það var ótrúlegt. Við fengum mat eldaðan á býlinu, morgunmat með mjólk úr kúnnum sem voru bara rétt fyrir utan,“ sagði Alan.