Nú starfar fólk allan ársins hring við ferðaþjónustu við Vatnajökul. Ný fyrirtæki spretta upp og þau gömlu halda áfram að vaxa. Náttúran togar í ferðamenn og þrátt fyrir að styrking gengis bíti í er framtíð greinarinnar björt.

26. september 2017

Hjónin Jóna Ingólfsdóttir og Bjarni Skarphéðinn Bjarnason stofnuðu afþreyingarfyrirtækið Glacier Jeeps árið 1994. Reksturinn var smár í sniðum til að byrja með. „Við seldum heimilisbílinn, keyptum breyttan jeppa og maðurinn minn fór að keyra með ferðafólk upp á Vatnajökul,“ segir Jóna. 

Reksturinn vatt fljótlega upp á sig og ári síðar keyptu þau jörðina Vagnsstaði í Suðursveit, ættaróðal Bjarna, og breyttu íbúðarhúsinu í farfuglaheimili með sjö herbergjum, gestaeldhúsi og setustofu. Í sumar stækkuðu þau húsið til muna og bættu m.a. við fimmtán herbergjum með baði.

Bjarni Skarphéðinn hafði áður unnið hjá fyrirtæki sem rak snjósleðaferðir og skálann Jöklasel uppi við Vatnajökul. Árið 2001 varð umrætt fyrirtæki gjaldþrota og hjónunum var boðið að kaupa skálann og tilheyrandi búnað ásamt hluta af snjósleðunum. Þau stukku á tækifærið og úr varð nýtt fjölskyldufyrirtæki; Ís og ævintýri ehf. sem býður upp á fjölbreyttar ferðir um Vatnajökul.

Sjaldan lognmolla hjá þeim hjónum

Um tíu til tólf manns eru á launaskrá hjá Ís og ævintýrum ehf. yfir háannatímann en fjórir til fimm yfir veturinn. „Við gerum út um fimmtíu vélsleða, þrjá 14 manna Econline-bíla, þrjá 6 manna breytta Patrol-jeppa, tvo 17 manna Haaglund-snjóbíla og  snjótroðara. Við kaupum einnig þjónustu hjá einstaklingum og fyrirtækjum á Höfn og í Suðursveit sem eiga breytta jeppa og fólksflutningabíla,“ segir Jóna. Það er því sjaldan lognmolla hjá þeim hjónum og nóg að gera.

„Mjög lítill partur af okkar viðskiptavinum eru Íslendingar. En við eigum hins vegar mikil og góð viðskipti við íslenskar ferðaskrifstofur,“ segir Jóna. Fyrst um sinn hafi Norður-Evrópubúar og Bandaríkjamenn verið fjölmennastir í viðskiptavinahópnum. Síðan hafi spænskum og ísraelskum ferðamönnum fjölgað og nú sé töluvert um Asíubúa. „Þeir eru meira á ferðinni hér á haustin, um veturinn og fram á vor. Jökulinn og norðurljósin trekkja að.“

„Mjög lítill partur af okkar viðskiptavinum eru Íslendingar. En við eigum hins vegar mikil og góð viðskipti við íslenskar ferðaskrifstofur.“
Jóna Ingólfsdóttir og eiginmaður hennar stofnuðu afþreyingarfyrirtækið Glacier Jeeps árið 1994.

Margt styrkir ferðaþjónustu við Vatnajökul

Jóna bendir á að margt hafi styrkt ferðaþjónustu við Vatnajökul. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hafi hjálpað til og fyrir nokkrum árum hafi íshellaferðir  komið eins og sprengja inn í ferðaþjónustuna og stuðlað að aukinni vetrarferðamennsku á svæðinu. Ungt fólk hafi stofnað ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu og ýmsir afþreyingarmöguleikar hafi bæst við s.s. jöklagöngur, ísklifur, myndatökuferðir, ásamt báta- og kajaksiglingum á jökullónum. Jóna minnir um leið á að fara verði varlega fjárfestingar og hafa vaðið fyrir neðan sig. Á eldfjallaeyju þurfi ekki mikið að bera út af til að þessi gósentíð líði undir lok.

Nóg að gera allt árið þrátt fyrir vetrarlokun

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum frá árinu 1994. Jóna segir að ein helsta breytingin sé að ferðamannatímabilið sé nú mun lengra. Áður hafi umferð ferðafólks dottið niður eftir verslunarmannahelgina og ekki hafist aftur fyrr en í júní. „En nú er ferðamennska allt árið hér á þessu svæði og undanfarin þrjú til fjögur ár hefur greinin skapað heilsársstörf fyrir fjölda fólks.“

Viðhorf til umhverfisins hafi sömuleiðis breyst mikið. „Mér finnst hafa orðið mikil vakning fyrir umhverfinu og fólk og fyrirtæki farin að hugsa meira um að hægt sé að stunda þessa atvinnu án þess að ganga á náttúruna,“ segir hún. Glacier Jeeps hafi m.a. tekið þátt í þessari þróun með því að taka í notkun vistæna vélsleða og þá er farfuglaheimilið að Vagnsstöðum með umhverfisvottunina Grænt farfuglaheimili.

Komið að ákveðnum þolmörkum í verðlagi

Styrking gengisins hefur haft áhrif á reksturinn hjá Jónu og Bjarna Skarphéðni. Minna er um hópabókanir og færri eru í hópunum. Jóna telur að komið sé að ákveðnum þolmörkum í verðlaginu. Þegar 11% virðisaukaskattur var lagður á afþreyingu hafi þau ákveðið að fyrirtækið myndi taka á sig hækkunina. „Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig þetta verður ef virðisaukinn hækkar upp í 24% eins og verið er að tala um,“ segir hún. Hún sé þó ekki hrædd um að þeirra rótgróna fyrirtæki lifi ekki af. Hækkun á virðisaukaskatti gæti á hinn bóginn orðið erfiðari fyrir nýrri fyrirtæki sem hafa fjárfest mikið undanfarið og séu jafnvel mikið skuldsett.

Bitnar á afþreyingu og veitingum

Jóna gerir ráð fyrir að hægja muni á vexti ferðaþjónustunnar. Hún er bjartsýn að eðlisfari og efast ekki um að ferðamennirnir haldi áfram að koma, þótt hún hafi ákveðnar áhyggjur af tilteknum breytingum í háttum ferðamanna. Þeir borði nú síður á veitingastöðum og kaupi frekar í matinn í stórmörkuðunum. Samdráttar verði einnig vart í sölu á afþreyingu og nokkuð hafi borið á því í upphafi sumars að ferðamenn hafi sofið í bílunum sínum til að spara við sig í gistingu. 

Framtíðin sé engu að síður björt. „Ég sé fyrir mér að ferðaþjónustan eigi eftir að blómstra hér í svæðinu við Vatnajökul um ókomna tíð og veita ungu fólki atvinnu og tækifæri til atvinnuuppbyggingar. Vatnajökullinn okkar sem er stærsti jökull í Evrópu laðar að, ásamt mörgum öðrum náttúruperlum á svæðinu öllu,“ segir hún.