Margt bendir til þess að um helmingur ferðamanna sem dvelur á höfuðborgarsvæðinu bóki sér gistingu í gegnum Airbnb, fremur en að dvelja á hótelum. Airbnb-gisting kemur ekki fram í hagtölum nema í litlum mæli og skekkir alla tölfræði um gistinætur og kortaveltu ferðamanna.

 26. september 2017

UUppgangur ferðaþjónustunnar, sem hófst fyrir alvöru árið 2011, var einmitt sú endurvakning sem íslenska þjóðarbúið þurfti eftir bankahrunið. Landsframleiðslan hafði dregist saman, fjárfesting hrunið og einkaneysla minnkað sem aldrei fyrr. Tekjustofnar hins opinbera rýrnuðu en útgjöld jukust, m.a. vegna kostnaðar við endurreisn bankakerfisins.

Ísland er fámennt land en lífskjör eru með því besta sem finnst í heiminum. Kaupmáttarleiðrétt landsframleiðsla á hvern íbúa hér á landi mælist t.a.m. svipuð og í Svíþjóð og hærri en í Þýskalandi og Danmörku. Fámennið veldur því hins vegar að kostnaður á hvern íbúa við flesta innviði (t.d. samgöngumannvirki, heilbrigðiskerfi, fjarskiptainnviði) er mun hærri hér á landi en í öðrum löndum með sambærileg lífskjör. Fjölgun erlendra ferðamanna gerði það að verkum að nýting innviðanna jókst um leið og kostnaðurinn dreifðist á fleiri, beint og óbeint. Vannýttir innviðir og slaki á vinnumarkaði gerði það að verkum að við gátum tekið á móti stórauknum straumi erlendra ferðamanna með tiltölulega lítilli fyrirhöfn, a.m.k. til að byrja með.

Fjárfesting í nýjum innviðum í greininni var frekar sein að taka við sér t.a.m. í uppbyggingu hótela. Aðrir vannýttir húsnæðisinnviðir, svo sem fjöldi íbúða sem voru á lausu eftir gríðarlega íbúðafjárfestingu góðærisáranna, voru hins vegar víða nýttir til að stórauka framboð af heimagistingu gegnum erlendar bókunarsíður eins og Airbnb. Jafnframt eru dæmi um að vannýttu skrifstofuhúsnæði hafi verið breytt í gistirými.

 

 

Sjálfsprottinn vöxtur

Sprengivöxturinn í ferðaþjónustunni var að miklu leyti sjálfsprottinn og var mun kraftmeiri en nokkurn óraði fyrir. Stjórnvöld höfðu ekki sérstaklega forgangsraðað í þágu ferðaþjónustu eða stutt við greinina. Erlendir sérfræðingar McKinsey, eins stærsta ráðgjafafyrirtækis heims, komu færandi hendi árið 2012 með skýrslu sem var einskonar vegvísir fyrir Ísland út úr kreppunni.

Skýrslunni var tekið fagnandi hendi af íslenskum stjórnvöldum og ýmsum hagsmunaaðilum og hafist var handa við framkvæmd ýmissa gagnlegra umbóta sem lagðar voru til í skýrslunni. Í skýrslunni var gert ráð fyrir að vaxtarmöguleikar ferðaþjónustunnar væru tiltölulega takmarkaðir. Reiknað var með að greinin gæti vaxið um allt að 6% árlega fram til ársins 2020 en eftir það tæki stöðnun við. Skýrsluhöfundar töldu greininni til trafala að þetta væri lágframleiðnigrein sem byggðist að stórum hluta á ómenntuðu vinnuafli sem betur gæti nýst í aðra, meira virðisaukandi starfsemi.

Þegar skýrslan leit dagsins ljós stóð ferðaþjónusta undir um 24% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Um 10% af vinnuafli starfaði við greina. Raunin varð sú að tekjur af ferðaþjónustu jukust árlega um 15% að raunvirði að jafnaði frá árinu 2012, greinin skapar nú um 39% af útflutningstekjunum og veitir um 13% af vinnuafli atvinnu. Á sama tíma hefur vægi ferðaþjónustu í heildarlandsframleiðslu aukist úr 4,8% í 8,2%.

 

 

Heildarframleiðni vinnuafls hér á landi hefur vaxið afar hægt mörg undanfarin ár. Lítill framleiðnivöxtur hefur reyndar verið einkennandi í mörgum þróuðum ríkjum síðustu ár, einkum í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Það var því nokkuð óvænt þegar lesa mátti úr opinberum hagtölum mikið stökk í framleiðni vinnuafls hér á landi á síðasta ári.

Samkvæmt opinberum hagtölum jókst framleiðni vinnuafls um ríflega 4% í fyrra. Seðlabankinn telur þó líklegt að vöxturinn kunni að vera ofmetinn að einhverju leyti vegna mögulegs vanmats á fjölda erlendra starfsmanna sem hafa komið til landsins undanfarin misseri. Engu að síður er ljóst að framleiðni er farin að aukast hraðar eftir lágan framleiðnivöxt mörg undanfarin ár. Spá Seðlabankans gerir jafnframt ráð fyrir að framleiðnivöxtur næstu árin verði áfram talsvert yfir meðalvexti áranna 2010 til 2015. Þar sem ferðaþjónustan hefur verið lykildrifkraftur hagvaxtar síðustu ár má að miklu leyti rekja þennan aukna framleiðnivöxt til greinarinnar. Fullyrðingar um að ferðaþjónusta sé lágframleiðnigrein virðast því ekki eiga við um íslenska ferðaþjónustu, a.m.k. þegar horft er til þróunarinnar síðustu ár.

 

 

 

Fjölgun gistinátta líklega verulega vanmetin síðustu ár

Samkvæmt opinberum upplýsingum hefur hægt verulega á fjölgun gistinátta og gistinóttum á hvern ferðamann á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað. Við þetta verður að gera þann fyrirvara að skekkja í talningu erlendra ferðamanna gæti hafa leitt til skekkju í öllum mælikvörðum á gistingu og annarri neyslu ferðamanna hér á landi. Það er bagalegt að umtalsverð óvissa sé um opinberar upplýsingar um fjölda ferðamanna, sérstaklega í ljósi mikilvægis ferðaþjónustu fyrir efnahag landsins.

Ein helsta ástæða þess að erfitt er að nálgast nákvæmar upplýsingar um heildarfjölda gistinátta ferðamanna er sú að hluti framboðsins er óskráður. Hér er m.a. átt við vaxandi markaðshlutdeild Airbnb og annarrar heimagistingar annars vegar og hins vegar, í minna mæli, útleigu á litlum ferðabílum (e. campers). Þessir ferðabílar eru í flestum tilfellum sendibifreiðar af ýmsum stærðum og gerðum sem hafa verið innréttaðir sérstaklega m.t.t. þess að hægt sé að gista í þeim með góðu móti. Bílunum hefur fjölgað mikið síðustu misseri en opinberri tölfræði um þennan þátt ferðaþjónustunnar, eins og marga aðra, er verulega ábatavant. 

Gistinætur í litlu ferðabílunum eru aðeins mældar ef þeim er lagt á skipulögðum tjaldsvæðum en algengt er að ferðamenn gisti í þessum bílum utan skipulegra tjaldsvæða. Því er líklegt að stærstur hluti gistinátta í litlu ferðabílunum sé vantalin í opinberum gistináttatölum Hagstofunnar og gæti sú vantalning hlaupið á tugum þúsunda gistinátta í það minnsta.

 

 

Hagfræðideild Landsbankans hefur aflað gagna um starfsemi Airbnb í Reykjavík í gegnum greiningarfyrirtækið Airdna sem safnar samtímagögnum af vefsíðu Airbnb. Helstu niðurstöður greiningar okkar á þessum gögnum eru eftirfarandi:

  • Heimagisting í gegnum Airbnb í Reykjavík velti um 46 milljónum evra árið 2016, eða um 6,1 ma.kr.
  • Ætla má að allt að 15% af gistikostnaðinum fari beint til Airbnb í formi þóknana, eða um 900 milljónir króna, en óvíst er hvort að fyrirtæki af þessum toga greiði nokkurn skatt af starfsemi sinni hér á landi.
  • Airbnb greiðir gestgjöfunum inn á bankareikning hérlendis eða erlendis, eða inn á Paypal-reikning. Mikil óvissa ríkir um hversu hátt hlutfall af þeim tekjum er gefið upp til skatts hér á landi.
  • Lausleg athugun á bókunarsíðum Airbnb bendir til þess að til viðbótar við heimagistinguna sem í boði er í Reykjavík séu í kringum 25% viðbótargistinætur í heimagistingu í gegnum síðuna í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
  • Þessi tegund gistingar kemur aðeins að mjög litlu leyti fram í opinberum hagtölum um útgjöld ferðamanna hérlendis þar sem greiðsla fer fram í gegnum erlent bókunarfyrirtæki. Hagstofan hefur lagt fram mat á hversu algengt er að ferðamenn notist við Airbnb-íbúðir eða aðra óskráða gististaði en athugun Hagfræðideildar Landsbankans bendir til þess að gistingin sé mun umfangsmeiri en mat Hagstofunnar gefur til kynna. Hagstofan áætlar að rétt undir 670 þúsund gistinætur á höfuðborgarsvæðinu öllu hafi verið óskráðar árið 2016 en okkar útreikningar benda til þess að þær hafi verið ríflega 1,1 milljón aðeins í Reykjavík og því mögulega allt að 1,4 milljónir á öllu höfuðborgarsvæðinu. Því kann hlutfallsleg aukning í þessari tegund gistingar að skekkja verulega mælingar á útgjöldum ferðamanna, sem og fjölda gistinátta.

 

 

Airbnb með um 40% markaðshlutdeild í hótelgeiranum í Reykjavík

Aðgengileg gögn um útleigu Airbnb í Reykjavík ná aðeins yfir tímabilið frá ágúst 2015 til og með ágúst 2017. Miðað við sambærileg tímabil (ágúst til des.) nam aukning útleigu árið 2016 152% milli ára. Það sem af er þessu ári hefur vöxturinn haldið áfram en 43% aukning mældist fyrstu átta mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

Þegar hlutfallsleg breyting gistinátta á heilsárshótelum á höfuðborgarsvæðinu og Airbnb-gistingar í Reykjavík er skoðuð nánar kemur athyglisverð þróun í ljós. Verulega hefur hægt á fjölgun gistinátta hjá hótelum og raunar mældist fækkun gistinátta hjá hótelum á milli ára bæði í maí og júlí. Enn mælist hins vegar kröftug aukning í Airbnb-gistingu en þó ekkert í líkingu við aukninguna sem varð seinni hluta árs 2016. Minni aukning Airbnb-gistingar kemur ekki á óvart því í vissum hverfum miðsvæðis í Reykjavík er töluvert stór hluti íbúða nú í útleigu til ferðamanna og frekari vaxtarmöguleikar því víða takmarkaðir.

Það er á hinn bóginn athyglisvert að samanlagður fjöldi gistinátta á hótelum á höfuðborgarsvæðinu og óskráðra gistinátta í gegnum Airbnb framan af árinu ríma mun betur við talningar á fjölda erlendra ferðamanna á árinu en ef einungis er miðað við skráðar gistinætur Hagstofunnar. Ef til vill eru vísbendingar um að meðaldvalartími erlendra ferðamanna hafi dregist saman í kjölfar styrkingar krónunnar því ekki að fullu áreiðanlegar.

 

 

Af ofangreindum upplýsingum má ráða að markaðshlutdeild Airbnb-gistingar af hótelmarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu fer sífellt vaxandi. Þannig var markaðshlutdeild Airbnb yfir 40% síðastliðið sumar. Þessi þróun vekur vissulega upp ýmsar spurningar. 

Hver er t.d. ábyrgð stjórnvalda á að skapa sanngjarna samkeppnisstöðu á milli Airbnb-gistingar og hótela, að tryggja að eftirlit sé sanngjarnt og íþyngi ekki einni tegund gistingar (hótelum og gistiheimilum) umfram aðra (s.s. Airbnb). Það telst líka tæpast sanngjarnt að hótel og gistiheimili þurfi að greiða fyrir leyfi, greiði skatta og þurfi að taka tillit til ýmissa samfélagslegra þátt í þéttri íbúabyggð o.s.frv. á meðan Airbnb-gisting fær nánast frjálsar hendur. 

Rétt er að ítreka að inn í ofangreinda samantekt vantar alla Airbnb-gistingu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, sem ætla má að sé umtalsverð. Því er markaðshlutdeild heimagistingar á hótelmarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu vanmetin sem því nemur og ekki er ólíklegt að hún sé í raun nálægt 50%.

Nýtingarhlutfall hótela á höfuðborgarsvæðinu er mjög hátt, eða um og yfir 90%. Nánast full nýting hótelrýma er vísbending um að hótel í höfuðborginni séu ekki nægilega mörg eða stór til að anna eftirspurn. Það er athyglisvert að nýtingarhlutfall hótelrýmisins hefur verið heldur lakara á tímabilinu maí til júní á þessu ári miðað við fyrra ár. Á sama tíma hefur verið mikill vöxtur í útleigu heimagistingar sem bendir til þess að hótelin séu að dala í samkeppnishæfni gagnvart heimagistingunni.

Það liggur í augum uppi að nánast ómögulegt hefði verið að mæta gríðarlegri fjölgun ferðamanna undanfarin tvö ár nema með auknu framboði gistirýmis í gegnum Airbnb eða aðra heimagistingu. Miðað við spennuna sem nú ríkir á fasteignamarkaði og verulega hækkun íbúðaverðs undanfarið ár eða svo, er ólíklegt að heimagisting geti vaxið á svipuðum hraða til að mæta áframhaldandi fjölgun ferðamanna umfram aukið framboð á hótelherbergjum. Slík aukningin væri tæpast æskileg, m.a. vegna þess skorts sem er á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

 

 

Vegna skorts á gögnum er erfiðara að segja til um umfang Airbnb-gistingar og annarrar heimagistingar utan höfuðborgarsvæðisins. Þó eru sterkar vísbendingar um að á suðvesturhorninu í heild og á Suðurlandi sé staðan svipuð og á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfall gistirýma á heilsárshótelum er langmest á suðvesturhorninu og á Suðurlandi, eða um 80% hótelrýma á landinu. Önnur tegund gistingar, s.s. gistiheimili, gististaðir sem bjóða upp á svefnpokapláss, tjaldstæði og hótel sem starfa hluta árs hafa meiri markaðshlutdeild. Nýtingarhlutfall hótela utan fjölförnustu svæðanna er talsvert lægra en á suðvesturhorninu og á Suðurlandi og þar er því talsvert svigrúm til að fjölga ferðamönnum.

Byggja þarf gistirými og koma reglu á óskráða gistingu

Þjóðhagslegur ábati af ferðaþjónustu er ekki eingöngu fólginn í auknum útflutningstekjum þjóðarbúsins. Bætt nýting framleiðsluþátta og innviða, bæði einkageirans og hins opinbera, er ekki síður mikilvæg og jafnframt grundvöllur þess að arðbært sé að ráðast í frekari uppbyggingu innviða og almannaþjónustu. Aukinn fjöldi notenda innviða landsins skilar þjóðhagslegum ábata þar til fullri afkastagetu er náð. Eftir það fer frekari fjölgun að reyna á innviðina og kemur niður á afkastagetu þeirra.

Þegar horft er til helstu innviða ferðaþjónustunnar eru sterkar vísbendingar um að komið sé að tímamótum, t.a.m. er útlit fyrir að formlegi gistimarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu starfi nú við fulla afkastagetu og jafnvel gott betur. Að öllum líkindum hefði ekki verið hægt að ráða við aukningu síðustu missera ef ekki hefði komið til mikil aukning í útleigu á heimagistingu í gegnum erlendar bókunarsíður á borð við Airbnb. Sú þróun hefur hins vegar talsverð hliðaráhrif í för með sér og á t.a.m. líklega stóran þátt aukinni þenslu á fasteignamarkaði sem leitt hefur til ört hækkandi húsnæðisverðs. Til að búa í haginn fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna er því nauðsynlegt að fjárfesta frekar í gistirými og koma skipulagi, regluverki og eftirliti með heimagistingu í ásættanlegt horf.