Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar hér á landi hafa á einungis örfáum árum farið úr því að vera tiltölulega lítil yfir í að vera mjög umfangsmikil fyrir hagvöxt, atvinnusköpun, gengisþróun, verðbólgu og þar með á kaupmátt og lífskjör íslenskra heimila.

26. september 2017

Sé skyggnst tæpa hálfa öld aftur í tímann sést að vægi ferðaþjónustu í útflutningi var lengi vel fremur lítið. Árið 1970 nam hlutfall ferðaþjónustu í útflutningi um 5% og breyttist það lítið næstu 15 árin. Upp úr 1985 fór hlutfallið að vaxa og fór það upp fyrir 10% árið 1990. Á næstu 19 árum lá það á tiltölulega þröngu bili, eða 11-13%. Árið 2009 tók það stökk og hefur síðan vaxið hratt eftir að uppsveiflan hófst í ferðaþjónustu 2011. Hlutfallið mældist tæp 40% á síðasta ári sem gerir greinina að stærsta útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar.

Umfang útflutnings hefur mikið um lífskjör að segja

Umfang útflutnings hefur jafnan mikil áhrif á efnahagslega afkomu ríkja. Ástæðan er einföld. Flest ríki, og þá sérstaklega þau smærri, framleiða ekki nema hluta af þeirri vöru og þjónustu sem þau þurfa á að halda innanlands. Það sem þau framleiða ekki sjálf þurfa þau að kaupa frá öðrum ríkjum. Til þess að eiga fyrir öllum þeim innflutningi þurfa þau að skapa sér gjaldeyristekjur með eigin útflutningi. Þeim mun meiri sem slíkur útflutningur er, þeim mun meira geta þau flutt inn og þeim mun betri eru lífskjörin að öðru óbreyttu. Þetta má einnig orða á þann hátt að þeim mun meiri sem útflutningurinn er, þeim mun sterkari er gjaldmiðillinn, þeim mun lægra er verðlagið og kaupmátturinn fyrir vikið meiri, sem alla jafna leiðir til betri lífskjara fyrir íbúana.

 

 

Uppsveiflan í ferðaþjónustu skýrir um helminginn af hagvexti síðustu ára

Eftir verulegan samdrátt í hagkerfinu árin 2009 og 2010 tók hagkerfið við sér að nýju árið 2011 þegar hagvöxtur mældist 2%. Það sama ár hófst uppsveiflan í ferðaþjónustu. Hagvöxtur á tímabilinu 2011-2016 var að meðaltali 3,6% og var hann kröftugri á seinni hluta tímabilsins. Það fer saman við vaxandi vægi ferðaþjónustunnar og mikinn vöxt greinarinnar síðustu ár. Þannig mældist mesti hagvöxturinn á þessu hagvaxtarskeiði á síðasta ári þegar hann nam 7,4%. Hagfræðideild Landsbankans áætlar að milli 40% og 50% af hagvexti síðustu ára megi skýra beint og óbeint með vexti í ferðaþjónustu landsins.

 

 

Einfalt mat

Helstu drifkraftar hagvaxtar hér á landi í gegnum áratugina hafa verið einkaneysla, fjármunamyndun og útflutningur. Stór hluti af bæði einkaneyslu og fjármunamyndun hverju sinni er fluttur inn sem dregur úr nettóáhrifum þessara liða á hagvöxt. Sögulega séð hefur innflutningur legið að baki um 65% af einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingu. Þar sem innflutningur kemur til frádráttar í mælingu á landsframleiðslu koma því einungis 35% aukningar bæði einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingar til aukningar landsframleiðslu.

Milli áranna 2010 og 2016 jókst landsframleiðslan um 462 ma. kr. á núverandi verðlagi. Á sama tímabili jókst útflutningur þjónustu um 246 ma. kr. Við áætlum að þar af hafi útflutningur ferðaþjónustu numið 236 mö. kr., eða ríflega 50% af vexti landsframleiðslunnar. Séu áhrif vaxtar í einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingu dregin frá innflutningi sést að aukning innflutnings (hér eftir nefndur umframinnflutningur til einföldunar) umfram reiknuð áhrif vegna einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingar nemur 47 mö. kr. Ljóst er að hluti þess innflutnings hefur komið til vegna vaxtar ferðaþjónustunnar, enda er hluti aðfanga í greininni innfluttur (matvara, minjagripir, eldsneyti, farartæki, o.s.frv.). Ef gert er ráð fyrir að allur umframinnflutningur hafi komið til vegna ferðaþjónustu nema nettóáhrif ferðaþjónustu á vöxt landsframleiðslunnar um 40%. Af öllu þessu má því ráða að vöxtur ferðaþjónustunnar skýri á bilinu 40-50% af aukningu landsframleiðslunnar á tímabilinu.

 

 

Töluverð áhrif ferðaþjónustu á einkaneyslu

Ljóst er að umframinnflutningur verður einungis að hluta til skýrður með vexti í ferðaþjónustu, enda aukinn innflutningur einnig rekjanlegur til annarra liða landsframleiðslunnar, s.s. vöruútflutnings og íbúðafjárfestingar, þar sem þættir í þeim liðum eru innfluttir. Af því má ljóst vera að vöxtur ferðaþjónustunnar skýri nokkuð meira en 40% af aukningunni. 

Þessu til viðbótar er ljóst að taka þarf einnig tillit til áhrifa ferðaþjónustu á hagvöxt í gegnum einkaneyslu. Vöxt einkaneyslu á tímabilinu má þannig að einhverju leyti rekja beint og óbeint til vaxtar í ferðaþjónustu, m.a. í gegnum aukna atvinnu, auðsáhrif vegna hækkunar eignaverðs (einkum fasteignaverðs) og sterkari krónu sem leitt hefur til aukins kaupmáttar og lægri verðbólgu. Þessir þættir benda til þess að áhrif ferðaþjónustu á hagvöxt á tímabilinu séu nær 50% en 40%.

 

 

Framleiðsluuppgjör segir svipaða sögu

Önnur nálgun sem gerir okkur kleift að meta hlutdeild ferðaþjónustunnar í efnahagsbatanum eru framleiðsluuppgjör, þ.e. ársreikningar fyrirtækja. Um 30% efnahagsbatans má skýra beint með vexti í atvinnugreinum sem teljast til ferðaþjónustu, meðal annars flutninga með flugi, auk reksturs gistiheimila, veitingastaða og ferðaskrifstofa.

Auk þess endurspeglar hluti uppgangs í öðrum atvinnugreinum aukinn fjölda ferðamanna. Til dæmis má ætla að hluti vaxtarins í byggingarstarfsemi milli 2010 og 2016 sé vegna hótelbygginga og að hluti aukningarinnar í verslun sé vegna erlendra ferðamanna. Ef við gerum ráð fyrir að um helmingur af vextinum í byggingarstarfsemi og í verslun og viðgerðum sé tilkomin vegna fjölgunar ferðamanna, þá má rekja um 45% af efnahagsbatanum 2010-2016 til ferðaþjónustu.

Rúmlega 2.000 milljörðum seinna

Afgangur eða halli á vöru- og þjónustuviðskiptum ræður miklu um gengi gjaldmiðla. Ef afgangur er á vöru- og þjónustuviðskiptum rennur gjaldeyrir inn í landið sem eykur eftirspurn eftir innlenda gjaldmiðlinum og styrkir hann. Sé halli á þessum viðskiptum snýst flæðið við og gjaldmiðillinn veikist. Gengisfall íslensku krónunnar árið 2008 jók útflutningsverðmæti landsins í krónum talið á sama tíma og innflutningur dróst verulega saman. Frá árinu 2009 hefur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum verið á bilinu 106 til 167 ma. kr. á ári sem hefur ýtt undir styrkingu krónunnar.

 

 

Árlegar útflutningstekjur ferðaþjónustunnar aukast um 300 ma. kr.

Uppsveiflan í ferðaþjónustu hófst árið 2011. Síðan þá og fram til júní á þessu ári nema uppsafnaðar gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar ríflega 2.000 milljörðum króna, eða tæplega 6 milljónum króna á hvern íbúa landsins. Á þessu tímabili jukust gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar úr 163 mö. kr. árið 2010 upp í 466 ma. kr. árið 2016, eða um ríflega 300 ma. kr. Á síðasta ári námu gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar því 1,2 milljónum króna á hvert mannsbarn á Íslandi.

Útflutningstekjur stóriðju, sjávarútvegs og annarra útflutningsgreina hafa þróast með töluvert öðrum hætti á tímabilinu. Þannig voru útflutningstekjur sjávarafurða 11 mö. kr. meira, útflutningstekjur stóriðju 47 mö. kr. minni og útflutningsverðmæti annars útflutnings 52 mö. kr. meiri. Heildaraukning útflutningsverðmætis frá landinu á þessu tímabili nemur því um 320 mö. kr. og má rekja um 95% af þeirri aukningu til aukins útflutningsverðmætis ferðaþjónustu. Til samanburðar jókst innflutningur um 326 ma. kr. milli þessara ára og því ljóst að ferðaþjónustan hefur ein og sér staðið undir nærri öllum afgangi á vöru- og þjónustuviðskiptum.

 

 

150 ma. kr. halli í stað 150 ma. kr. afgangs án vaxtar í ferðaþjónustu

Ef ekki hefði komið til nein aukning í útflutningsverðmæti ferðaþjónustu á tímabilinu frá 2010 hefði að öðru óbreyttu mælst halli á vöru- og þjónustuviðskiptum undanfarin tvö ár. Hallinn hefði verið tæpir 50 ma. kr. árið 2015 og tæpir 150 ma. kr. árið 2016. 

Mjög líklegt er að slíkur halli hefði grafið töluvert undan gengi krónunnar sem hefði aukið verðbólgu og dregið úr kaupmætti að öðru óbreyttu. Staða efnahagsmála á Íslandi væri því allt önnur og verri ef ekki hefði komið til undraverður vöxtur ferðaþjónustunnar.