Sú staðreynd að langstærstur hluti ferðamanna kemur til landsins um Keflavíkurflugvöll, stærð landsins og tiltölulega langur ferðavegur til margra spennandi áfangastaða, leiðir til þess að stærstur hluti erlendra ferðamanna dvelur einungis á suðvesturhorninu. Þetta á enn frekar við að vetrarlagi þegar færð á vegum spillist.

 26. september 2017

Um tveir þriðju hlutar ferðamanna koma einungis á suðurhluta landsins og höfuðborgarsvæðið. Þá liggur líka fyrir að meirihluti ferðamanna velur að ferðast um landið á eigin vegum fremur en að taka þátt í skipulögðum pakkaferðum. Þetta veldur því að erfitt hefur reynst að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið.

Mikil fjölgun erlendra ferðamanna á tiltölulega stuttu tímabili hefur leitt til stóraukins álags á ýmsa innviði landsins. Um leið hefur fjárfesting hins opinbera í uppbyggingu og viðhaldi innviðanna, t.a.m. samgöngumannvirkja, verið með minna móti. Samgöngukerfin hafa veruleg áhrif á hreyfanleika og umferð ferðamanna og skipta þannig miklu máli varðandi tilurð og vinsældir áfangastaða. Almenningssamgöngur frá Keflavíkurflugvelli eru nær eingöngu til Reykjavíkur og allir ferðamenn verða því að fara um Reykjavík á leið sinni til annarra áfangastaða, nema þeir leigi bíl á flugstöðinni eða séu þátttakendur í hópferðum.

Er raunhæft að fjölga alþjóðlegum flugleiðum frá landinu?

Ef ætlunin er að bæta dreifingu ferðamanna um landið og létta þrýstingnum af suðvesturhorninu og renna þannig traustari stoðum undir þessa nýju undirstöðuatvinnugrein þjóðarbúsins er norðausturhorn landsins augljós valkostur. Einna helst hefur verið bent á möguleika Akureyrar og nærsveita til þess að taka við mun fleiri ferðamönnum, en einnig hefur verið rætt um Egilsstaði. Á móti hefur verið sagt að upptökusvæði farþega á Norður- og Austurlandi fyrir millilandaflug sé takmarkað vegna fámennis sem dragi úr áhuga flugfélaga á beinu flugi þangað. Í því sambandi má þó horfa til þess að á svæðinu frá Hvammstanga að Djúpavogi búa um 50 þúsund manns sem er álíka mannfjöldi og í Færeyjum og á Grænlandi.

Á þessu svæði eru miklar náttúruperlur eins og Mývatn og Dettifoss. Þó er tæplega hægt að segja að Norðurland sé eins vel þekkt erlendis og suðvesturhornið. Það á m.a. við í Bretlandi en áhugi hefur verið á beinu flugi þaðan til Akureyrar. Á Norðurlandi er enn sem komið er ekki að finna neinn heimsþekktan áfangastað sem ýtir undir áhuga Breta eða annarra þjóða. Hugsanlega felast möguleikar í að markaðssetja bæði gamla og nýja áhugaverða staði, eins og t.d. Holuhraun.

Samgöngur og ferðamálastefna spila ekki saman

Í nýlegri umfjöllun frá OECD um íslenska ferðaþjónustu er fjallað töluvert um hve lítið samræmi er á milli ferðamálastefnu og samgöngustefnu á Íslandi. Þannig er lítið vikið að samgöngum í vegvísi í ferðaþjónustu þrátt fyrir að innanríkisráðuneytið, sem er ábyrgt fyrir samgöngustefnu, eigi fulltrúa í Stjórnstöð ferðamála. Að mati OECD er brýn nauðsyn á mun meiri samræmingu á milli þessara tveggja málaflokka til að tryggja meiri tekjur og sjálfbærni í ferðaþjónustu.

Augljóst er að víða þarf að huga að uppbyggingu og viðhaldi ferðamannastaða. Víðast hvar eru þarfirnar þekktar og oft er ekki um háar upphæðir að ræða. Engu að síður hefur gengið illa að bæta úr málum. Fjármagn er fyrir hendi í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en erfiðlega hefur stundum gengið að miðla fjármagni þaðan, m.a. vegna kröfu um að umsækjendur tryggi 20% af fjármögnun fyrirfram.

Opinbera hlutafélagið Isavia markar leiðina

Stóraukin umferð um Keflavíkurflugvöll hefur verið meginforsenda verulegrar fjölgunar ferðamanna á síðustu árum. Fjölgun farþega hefur orðið án mikilla tengsla við stefnumörkun í málefnum ferðaþjónustu og án þess að hugað hafi verið sérstaklega að samgöngum milli Keflavíkurflugvallar og annarra áfangastaða. Svo virðist sem ákvarðanir um mikinn vöxt á Keflavíkurflugvelli hafi að mestu leyti verið teknar af ríkisfyrirtækinu Isavia, sem rekur flugvöllinn.

Bíldudalsflugvöllur

Ljósmynd: Isavia

Samspil margra þátta býr til áfangastað

Ferðamennirnir sjálfir og áfangastaðir þeirra eru væntanlega þær stærðir sem skipta einna mestu máli í ferðaþjónustu. Miklu púðri er eytt í að skoða og greina ferðamennina sjálfa, fyrirtæki og valkosti í ferðaþjónustu, áfangastaði og aðkomu að þeim. Allir þessir þættir tengjast með einhverjum hætti í gegnum framboð og eftirspurn. Þau tengsl og aðstæður geta svo breyst yfir tíma og því til viðbótar hafa ýmsir utanaðkomandi þættir, t.d. markaðsstarf, erlendar kvikmyndir og sjónvarpsþættir, og ekki síst ákvarðanir flugfélaga áhrif á þessi samhengi. 

Markaðssetning á áfangastað er því jafnan afrakstur og afleiðing mikils undirbúningsstarfs þar sem samtök, fyrirtæki og einstaklingar hafa unnið að því að pakka ótal þáttum saman í eitthvert samrýmanlegt ástand sem nefnist áfangastaður. Skipulag samgangna til og frá áfangastað skiptir verulegu máli og má segja að þar sé að finna undirstöðu innviða ferðamennsku og viðskiptaumhverfis sem henni tengist. Velgengi áfangastaða er að verulegu leyti háð því að fólk geti komist til og frá þeim með tiltölulega einföldum og þægilegum hætti.

Illa hefur gengið að koma á beinu flugi til fleiri áfangastaða

Illa hefur gengið að koma á beinu flugi milli Akureyrar og Egilsstaða annars vegar og meginlands Evrópu hins vegar. Sumarið 2014 birtust fréttir um að þýsk, bresk og norræn lággjaldaflugfélög væru að kanna möguleika á millilandaflugi frá Akureyri og stóðu þá vonir til að millilandaflug gæti hafist strax sumarið 2015. Á sama tíma bárust fregnir af áformum breskrar ferðaskrifstofu um beint flug á milli Egilsstaða og Gatwick sem átti að hefjast sumarið 2016. Þessi áform náðu þó ekki fram að ganga.

Á þessum tíma kom líka fram að íslensku flugfélögin Icelandair og WOW væru ekki með áform um að hefja beint millilandaflug, hvorki frá Akureyri né Egilsstöðum. Icelandair hefur lagt mesta áherslu á að ná sem bestum árangri í rekstri leiðakerfisins um Keflavíkurflugvöll.

Í þessu sambandi skiptir auðvitað máli að 92% af þeim sem notuðu beint áætlunarflug milli Kaupmannahafnar og Akureyrar á vegum Iceland Express á árunum 2009-2011 völdu að dvelja á Norðurlandi á meðan aðeins 6% af þeim sem lenda í Keflavík dvelja mestan hluta af dvalartímanum á Norðurlandi. Það jafngildir að meðaltali 7,3 gistinóttum á Norðurlandi hjá þeim sem flugu beint til Akureyrar á móti 1,8 gistinóttum hjá þeim sem flugu til Keflavíkur.1

Reyndar hefur verið boðið upp á millilandaflug til og frá Akureyrarflugvelli í nokkur ár. Flugfélagið Norlandair flýgur reglulega til Nerlerit Inaat (Constable Point) á austurströnd Grænlands og hefur gert í nokkur ár. Mestallt árið er flogið tvisvar í viku og meira eftir þörfum. Reglulegt alþjóðaflug frá Akureyrarflugvelli er því nú þegar fyrir hendi þótt sé í aðra átt en yfirleitt er rætt um.

Ákveðin svæði og stjórnendur flugvalla reyna oft að laða að flugrekstraraðila, m.a. til að efla atvinnu og velsæld á svæðum þeirra. Samningar af þessu tagi geta leitt til sterkrar stöðu flugfélaga, jafnvel einokunarstöðu, sem getur skapað auknar kröfur um allskyns afslætti og bætt kjör þegar fram í sækir.

Einhverjir fjármunir hafa verið notaðir til þess að styrkja og auglýsa flugvelli annarsstaðar á landinu, m.a. til að reyna að létta þrýstingi af svæðunum næst suðvesturhorninu. Sérstakur sjóður var settur á laggirnar í þessum tilgangi og var honum ætlað að hvetja flugfélög til þess að nota aðra flugvelli. Flugfélög hafa hins vegar ekki sýnt þessum sjóði mikinn áhuga sem bendir til þess að rekstrarlegur áhugi á svona lausnum sé ekki mikill. Erlendar rannsóknir sýna að reynsla annarra þjóða, t.d. Mexíkó, sem hafa reynt að styrkja rekstur fleiri alþjóðaflugvalla með þessum hætti sé frekar neikvæð.2 Stuðningur í markaðsmálum er líklega vænlegri til árangur í þessu sambandi.

Iceland Express bauð upp á beint áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar að sumri til frá sumrinu 2006 fram til 2012. Framan af var boðið upp á tvö flug á viku á tímabilinu júní-ágúst en sumarið 2010 fækkaði þeim niður í eitt á viku. Haustið 2012 tilkynnti Iceland Express að þessu flugi yrði ekki haldið áfram og skömmu síðar keypti WOW air félagið.

Dugir einn alþjóðaflugvöllur?

Sumarið 2012 hóf Icelandair tengiflug til og frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll á ýmsa áfangastaði sína í Evrópu og Bandaríkjunum. Spurningin um eftirspurn og leiðina að áfangastaðnum skipti þannig verulegu máli í yfirlýsingum Icelandair þegar félagið kynnti nýja flugleið félagsins milli Keflavíkur og Akureyrar sumarið 2012. Félagið sagði að með þessum hætti væri verið að opna nýja leið fyrir ferðamenn til Akureyrar frá fjölmörgum erlendum borgum í leiðakerfi félagsins. Þannig opnist Akureyri í bókunarkerfum um allan heim sem áfangastaður Icelandair og taldi félagið sig vera að færa Akureyri og perlur Norðurlands nær erlendum ferðamönnum og styrkja þannig undirstöður ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Félagið taldi sem sagt að það væri að opna leið frá markaðssvæði sínu til Akureyrar og Norðurlands.

Flugfélag Íslands hóf síðan beint innanlandsflug allan ársins hring milli Keflavíkur og Akureyrar í febrúar 2017 í tengslum við millilandaflug í Keflavík. Þetta ætti að auðvelda ferðamönnum enn frekar að ferðast áfram innanlands. Flogið er sex sinnum í viku milli Akureyrar og Keflavíkur yfir vetrartímann og þrisvar sinnum í viku yfir sumartímann og er markmiðið að þetta flug tengi við sem flest millilandaflug til og frá Keflavík. Sumarið 2017 var nafni Flugfélags Íslands breytt í Air Iceland Connect og með því er þýðing tengiflugs innanlands til erlendra flugvalla ítrekað.

 

 

Akureyrarflugvöllur 

Ljósmynd: Isavia

Flutningur innanlandsflugs

Spyrja mætti hvort flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur myndi bæta stöðu landsbyggðarinnar hvað varðar beinar tengingar við umheiminn. Með því móti myndi ferðamaðurinn spara tíma og þyrfti ekki að ferðast til Reykjavíkur til þess að komast í innanlandsflugið. Svarið við þessari spurningu er ekki einfalt og breyting af þessu tagi myndi kalla á nokkuð breytta umgjörð innanlandsflugs.

Það ætti að liggja nokkuð í augum uppi að það er eftirspurn eftir ferðum á viðkomandi svæði sem liggur til grundvallar samkeppnisstöðu einstakra flugvalla. Þannig er t.d. nauðsynlegt að skilgreina stærð þess markaðar sem ætlunin er að þjóna og hvað ræður eftirspurn, þ.e. hvaða þættir það eru sem verða til þess að ferðafólk sæki þann stað heim sem flugvöllurinn veitir aðgengi að umfram aðra.

1. Eyrún Jenný Bjarnadóttir og Edward H. Huijbens: Millilandaflug um Akureyrarflugvöll, Könnun meðal brottfararfarþega sumarið 2012. Rannsóknarmiðstöð ferðamála, desember 2012.

2. OECD: Economic Surveys: Iceland 2017