Aukinn skilningur á þeim þáttum sem kynda undir eftirspurn ferðamanna eftir áfangastað gagnast stjórnvöldum, hagsmunaðilum og fyrirtækjum í greininni við áætlanagerð og stefnumótun. Rannsóknir benda til þess að almennt sé sterkt samband milli hagvaxtar í heimalandi ferðamanna og breytinga í raungengi á áfangastað annars vegar og fjölda ferðamanna og eyðslu þeirra hins vegar.

 26. september 2017

Samhengið er þannig að efnahagssamdráttur í heimalandi og/eða hækkun raungengis á áfangastað hefur tilhneigingu til að draga úr fjölda ferðamanna eða þeir bregðast við hærra raungengi og minni kaupmætti með því að minnka neyslu eða stytta dvalarlengd. Þetta samband hlutfallslegs verðlags og eftirspurnar er almennt sterkara í OECD-löndunum en það er rakið til þess að hærra hlutfall ferðamennsku tengist viðskiptaferðum í þessum löndum.

Þrátt fyrir að Ísland sé hluti af OECD ríma þessar niðurstöður ekki við þróunina hér á landi og svo virðist reyndar sem fjölgun ferðamanna hér hafi almennt farið saman við hækkun raungengis fremur en á hinn veginn. Að sama skapi fór mikil fjölgun ferðamanna frá helstu ferðaþjónustuviðskiptalöndum Íslands í byrjun áratugarins saman við hjaðnandi hagvöxt í heimalöndum viðkomandi ferðamanna.

Ísland er þó ekki algjört eyríki hvað varðar þróun raungengis og fjölda ferðamanna

Svo virðist sem lönd sem reiða sig hvað mest á ferðamennsku í útflutningi sínum séu flest lítil eyríki. Þau eiga það jafnframt flest sameiginlegt að ferðaþjónusta í viðkomandi ríkjum virðist vera tiltölulega ónæm fyrir raungengisbreytingum. Undantekning frá þessari reglu eru áfangastaðir sem beinlínis gera út á lágt verðlag til að ná samkeppnisforskoti en ferðaþjónusta í slíkum ríkjum er viðkvæm fyrir breytingum á raungengi gjaldmiðla sinna.

 

Samband flugframboðsþátta og komu ferðamanna

Erlendar rannsóknir sýna að aukið framboð á beinu flugi til viðkomandi áfangastaðar skiptir ferðaþjónustu eyríkja afar miklu máli og gerir eyríkin að fýsilegri valkosti í augum ferðamanna. Í nýlegri rannsókn voru áhrif flugframboðsþátta á ferðamannaflæði til eyja Karíbahafsins sérstaklega tekin til skoðunar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða fjóra framboðsþætti sem snúa að flugi og fá úr því skorið hver þeirra hefði mest áhrif á fjölda ferðamanna til eyja í Karíbahafinu. Þeir þættir sem voru skoðaðir voru fjöldi flugferða, fjöldi sæta, fjöldi flugfélaga og frá hversu mörgum flugvöllum var flogið í beinu flugi til viðkomandi áfangastaðar.

Niðurstöður skýrsluhöfunda voru að allir fjórir framboðsþættirnir hafa jákvæð og marktæk áhrif á heimsóknir ferðamanna til landa í Karíbahafinu.

Fjöldi flugferða virðist vera sá þáttur sem hefur mest áhrif og varir lengst. Fjölgun flugferða mældist einnig öruggasta leiðin til að fjölga ferðamönnum, að því gefnu að öflugir innviðir og ferðaþjónusta séu fyrir hendi á viðkomandi áfangastöðum. Fjölgun flugferða er með öðrum orðum áhrifamesti þátturinn og leiðir til fjölgunar ferðamanna, bæði til skamms og meðallangs tíma.

Ljósmynd: Isavia

Aukinn fjöldi ferðamanna ýtir undir enn fleiri flugferðir

Að auki hafa fleiri flugferðir jákvæð áhrif á fjölda sæta í boði, eins og búast mátti við. Í einhverjum tilvikum geta fleiri sæti, þ.e. þegar flugfélög nota stærri flugvélar, þó skipt meira máli. Einnig getur meiri fjöldi ferðamanna haft þau áhrif að flugfélög auka framboð af flugi til viðkomandi áfangastaðar (e. feedback effect). Flugfélög hika við að bjóða nýjar flug- og tengileiðir án vissu um að sætin nýtist. Rannsóknin sýndi að aukinn fjöldi ferðamanna leiddi að jafnaði til aukins flugframboðs fjórum til fimm mánuðum seinna.

Fjöldi flugfélaga hefur minnstu áhrifin

Á eftir fjölda flugferða komu fjöldi sæta og framboð á beinu flugi til landa Karíbahafsins. Því var betra að auka fjölda sæta heldur en fjölda flugvalla með beinu flugi. Fjölgun brottfararflugvalla virðist almennt ekki auka fjölda flugferða - flugfélög breyta þess í stað flugleiðum frá einum stað til annars en heildarfjöldi flugferða helst óbreyttur. Breytingar á fjölda flugfélaga hafa hlutfallslega minnstu áhrifin á fjölda ferðamanna. En það að bæta við fleiri flugfélögum getur leitt til fjölgunar í fjölda flugferða og brottfararflugvalla og þar með óbeint aukið fjölda komufarþega.

Meira flugframboð, fleiri farþegar

Það lítur út fyrir að þróunin hér á landi rími ágætlega við niðurstöður rannsókna á áhrifaþáttum ferðaþjónustu í smáum eyríkjum. Síðustu ár hefur ferðaþjónustan verið sú útflutningsgrein hérlendis sem aflar mestra gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið og landið sker sig verulega úr í þessu tilliti þegar horft er til annarra þjóða með svipaða landsframleiðslu á íbúa.

 

 

Áfangastaðurinn og skiptistöðin Ísland

Raunar er hægt að færa sterk rök fyrir því að þættir sem tengjast framboði á flugferðum ráði enn meiru um þróun ferðaþjónustu en í þeim eyríkjum sem erlendar rannsóknir hafa einblínt á. Það skýrist af sérstöðu flugvallarins í Keflavík sem tengiflugvallar milli Norður-Ameríku og Evrópu. Heildarútflutningstekjur íslenska hagkerfisins af flugsamgöngum eru talsvert meiri en beinar tekjur af flugi ferðamanna til Íslands því stór hluti erlendra flugfarþega íslensku flugfélaganna kemur aldrei formlega inn í landið sem ferðamenn heldur halda ferð sinni áfram yfir Atlantshafið með tengiflugi. Margir þessara farþega nota þó tækifærið á ferð sinni yfir hafið til að heimsækja Ísland, enda bjóða sum flugfélög upp á þann valkost án aukakostnaðar.

Um það bil 99% allra erlendra ferðamanna koma til landsins um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Flugframboð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist stöðugt allt frá árinu 2010. Framboðið hafði hins vegar dregist saman á árunum 2008 og 2009.

Árið 2016 voru alls skráðar 45.771 flughreyfingar í millilandaflugi (áætlunar- og leiguflugi), sem er 178% aukning frá árinu 2009, en að meðaltali fjölgaði lendingum og brottförum árlega um 16% á tímabilinu. Árið 2010 tóku að meðaltali 24 flugvélar í millilandaflugi á loft frá Keflavíkurflugvelli á hverjum degi. Í fyrra voru 63 millilandalandaflug á hverjum degi.

 

 

Mikil gróska í Ameríkuflugi

Ferðamenn með bandarískt ríkisfang eru áberandi hér á landi. Bandaríkjamarkaður hefur verið mesti vaxtarbroddurinn í ferðaþjónustunni undanfarin tvö árin. Bandarískum ferðamönnum hefur fjölgað verulega og hlutdeild þeirra í heildarfjölda ferðamanna hefur aukist úr 11% árið 2010 í 23,5% árið 2016. Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru um 414.000 bandarískir ferðamenn um brottfararhlið Leifsstöðvar á fyrstu átta mánuðum þessa árs og var hlutfall þjóðarinnar í heildarfjölda ferðamanna komið í ríflega 27%.

Tölur frá samgöngumálaráðuneyti Bandaríkjanna sýna að árið 2016 flugu um 808.000 farþegar með fimm flugfélögum frá Keflavík til 14 borga í Bandaríkjunum. Af þessu má ráða að um helmingur flugfarþega frá Bandaríkjunum heimsækja Ísland sem ferðamenn. Athyglisvert er að þrátt fyrir talsverða fjölgun erlendra flugfélaga sem fljúga nú til landsins er markaðshlutdeild íslensku flugfélaganna yfirgnæfandi í flugi til Bandaríkjanna en samanlögð hlutdeild Icelandair og WOW air í Ameríkuflugi var um 93%.

Hraða fjölgun í fjölda ferðamanna og ferðaþjónustu á Íslandi má rekja að stóru leyti til áætlunarkerfis Icelandair sem notar flugvöllinn í Keflavík sem miðlæga höfn til að tengja saman áfangastaði í Norður-Ameríku og Evrópu. WOW air hóf millilandaflug sumarið 2012 og í mars 2015 tók félagið að fljúga til Bandaríkjanna. Vegna örs vaxtar ferðaþjónustu hér á landi hefur erlendum flugfélögum sem fljúga til landsins líka fjölgað mikið undanfarin ár. Fjöldi flugfélaga sem fljúga hingað til lands á þessu ári nemur 30. Til samanburðar var fjöldinn 26 árið 2015. Í dag geta ferðamenn valið um fleiri beinar flugferðir, fleiri tengiflugsmöguleika, fleiri áfangastaði og fleiri flugfélög en nokkru sinni fyrr. Nýlega tilkynnti United Airlines að það ætli að fljúga daglega hingað til lands á næsta ári milli maí og október. Það bætist við annað bandarískt flugfélag sem nú þegar sinnir áætlunarflugi hingað til lands, Delta Airlines.

 

 

Útlit fyrir áframhaldandi aukið framboð flugs

Nýlega tilkynntu Icelandair og WOW air um heilsársflug flugfélaganna til nýrra áfangastaða. Icelandair mun hefja beint flug til Berlínar í haust og til Cleveland í maí á næsta ári. Cleveland verður 19. áfangastaður félagsins í Norður-Ameríku. Nýju áfangastaðirnir ættu að styrkja frekar leiðakerfi Icelandair yfir Atlantshafið, en þeir verða alls 48 þegar áætlunarflug til Cleveland hefst.

WOW air tilkynnti nýverið um fjölgun á áfangastöðum sínum í Bandaríkjunum. Byrjað verður að fljúga til borganna Cincinnati, Cleveland, Dallas, Detroit og St. Louis næsta vor. Á sama tíma mun félagið einnig bjóða daglegt flug til Stansted-flugvallar í London og flýgur þá til tveggja flugvalla í Lundúnum. Vöxtur félagsins hefur verið afar ör síðustu ár og hefur farþegafjöldinn aukist frá um hálfri milljón farþega árið 2014 í 1,7 milljón farþega árið 2016. Áform félagsins gera ráð fyrir áframhaldandi örum vexti á næstu árum en á þessu ári áætlar félagið að flytja um 3 milljónir farþega og að farþegum fjölgi um 1,5 milljón farþega árlega næstu tvö árin.

Aðrir mjúkir þættir hafa einnig áhrif

Í nýlegri úttekt á ferðaþjónustu hérlendis bendir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) á að ekki sé hægt að skýra þann mikla uppgang sem hefur átt sér stað í ferðamennsku hérlendis með hefðbundnum mælitækjum hagrannsóknalíkana einum saman. AGS nefnir í úttektinni að líklega skýri aðrir þættir en hinar hefðbundnu efnahagsbreytur, svo sem raungengi og kaupmáttur ferðamanna, sprenginguna í ferðaþjónustu á Íslandi síðustu ár. Auk aukins flugframboðs komi þar til fleiri, meira huglægir þættir. Til dæmis gerir fjarlægðin og staðsetningin það að verkum að litið er á Ísland sem ævintýralegan en á sama tíma öruggan áfangastað, sérstaklega í ljósi hryðjuverkaárása í Evrópu síðustu misseri, en einnig vegna óvenjulágrar morðtíðni hér á landi.

AGS nefnir einnig velheppnaðar markaðssetningarherferðir sem áhrifabreytu í þróuninni síðustu ár. World Economic Forum hefur einnig hælt markaðssetningu ferðaþjónustunnar á Íslandi og metur hana kröftugri en t.a.m. hinna Norðurlandanna og Kanada. Markaðsherferðir Inspired by Iceland eru taldar hafa snúið neikvæðri umfjöllun um eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 í jákvæða landkynningu á Íslandi sem ævintýralegum áfangastað. Samstarf opinberra aðila, fyrirtækja í greininni, jákvætt viðhorf almennings og nýting samfélagsmiðla er talinn lykilþáttur í að auglýsingaherferðir ferðaþjónustunnar á Íslandi síðustu ár eru taldar í sérflokki.

Ljósmynd: Isavia

Tvö flugfélög með ráðandi markaðshlutdeild

Uppgangur ferðaþjónustunnar á Íslandi síðustu ár skýrist af samspili margra þátta. Langmikilvægasti þátturinn er stóraukið framboð af flugferðum til landsins. Þótt fjölmörg flugfélög séu um hituna eru tvö flugfélög með langmestu markaðshlutdeildina en það eru íslensku flugfélögin Icelandair og WOW. Á tímabilinu febrúar til október 2017 voru félögin með tæplega 82% af sætaframboði í flugi til og frá landinu. Hlutdeildin í Ameríkufluginu er enn hærri eða yfir 90%. Það erlenda flugfélag sem kemst næst íslensku félögunum í markaðshlutdeild er Easyjet með tæplega 4% en alls 23 erlend félög skipta með sér um 18% markaðshlutdeild með tilliti til flugframboðs. Í ljósi mikilvægis alþjóðaflugsins fyrir ferðaþjónustuna, og mikilvægis ferðaþjónustunnar fyrir hagkerfið, er ljóst að Ísland á mikið undir traustri stöðu stóru íslensku flugfélaganna tveggja.

Eru íslensku flugfélögin orðin kerfislega mikilvæg?

Þetta vekur upp spurningar um hvort Icelandair og Wow air séu þá ekki orðin kerfislega mikilvæg fyrirtæki fyrir efnahagslegan stöðugleika í svipuðum skilningi og stóru viðskiptabankarnir þrír eru skilgreindir kerfislega mikilvægir fyrir fjármálastöðugleika. Verulegar truflanir á starfsemi flugfélaganna eða brottfall annars, hvað þá beggja flugfélaganna af markaðnum, myndi augljóslega hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Áhrifin yrðu einnig veruleg fyrir íslenskt efnahagskerfi í heild og almenning. Slíkt áfall hefði keðjuverkandi áhrif, m.a. á gengi krónunnar, eignaverð, vexti og verðbólgu. Ef flugfélögin eru talin kerfislega mikilvæg vakna spurningar um viðbúnað stjórnvalda og aðkomu þeirra að ferðaþjónustunni. Þarf t.d. að útbúa viðbragðsáætlanir sem hægt er að grípa til ef flugfélögin lenda í vanda? Erfiðleikar margra erlendra flugfélaga síðustu ár og misseri, samanber nýlegt dæmi um erfiðleika flugfélagsins Airberlin, vekja ugg í brjósti um hvað gæti gerst hér á landi ef annað hvort íslensku flugfélaganna lenti í svipuðum hremmingum.

Ljósmynd: Isavia

Nær lagi að eitt ráðuneyti væri helgað ferðaþjónustu

Raunar má einnig velta þeirri spurningu fyrir sér hvort stjórnvöld fylgist nægilega vel með þróuninni og hlúi nægilega vel að atvinnugreininni almennt, ekki síst í ljósi þess að ferðaþjónusta skilar meiri tekjum í þjóðarbúið en sjávarútvegur og stóriðja samanlagt. Málefni ferðaþjónustunnar heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Ráðuneytinu er skipti í fimm skrifstofur, þ.m.t. skrifstofu ferðamála. Þar starfa sex manns. Þótt málefni ferðaþjónustunnar séu vissulega til umfjöllunar víðar í kerfinu, s.s. í stjórnstöð ferðamála og hjá Ferðamálastofu, má færa gild rök fyrir því að miðað við mikilvægi greinarinnar væri nær lagi að eitt ráðuneyti væri eingöngu helgað ferðaþjónustu.