Fjölgun ferðamanna síðustu ár hefur ítrekað farið fram úr bjartsýnustu spám, enda hefur reynst ómögulegt að skýra vöxtinn fyllilega með hefðbundnum tölfræði- og haglíkanatækjum. Því er ljóst að allar frekari framtíðarspár eru háðar afar mikilli óvissu.

 26. september 2017

Á alþjóðavísu hefur ferðamönnum fjölgað ár frá ári nánast óslitið undanfarna sex áratugi. Alþjóða ferðamálastofnunin (UNWTO) spáir áframhaldandi vexti sem verði árlega að jafnaði um 3,3% fram til ársins 2030. Reiknað er með meiri fjölgun ferðamanna í nýmarkaðsríkjum eða 4,4% og heldur minni á þróaðri markaðssvæðum svo sem Evrópu, eða 2,2%.

Merki um að heldur hafi dregið úr áhuga á Íslandi

Gögn úr leitarvélum á netinu um tíðni leita að upplýsingum um Ísland og íslenska ferðaþjónustu gefa áhugaverðar vísbendingar um væntanlega þróun í ferðaþjónustu hér á landi. Gögn frá Google sýna að í þeim tólf löndum sem eru mikilvægustu markaðir íslenskrar ferðaþjónustu, sé miðað við fjölda gesta, er nú töluvert sjaldnar flett upp Reykjavík en áður.

Samdráttur í slíkum uppflettingum mældist fyrst í maí og var hann þá 5,3% miðað við sama mánuð í fyrra. Hann varð snöggtum meiri í júní og júlí, eða á bilinu 9,5-16,3%, og mældist síðan 3,7% í ágúst. Ekki hefur áður mælst samdráttur á 12 mánaða tímabili svo langt aftur sem gögnin ná, þ.e. undanfarin fimm ár eða svo. Þessi þróun rímar nokkuð vel við þróunina hér á landi á síðustu mánuðum.

 

 

Færri uppflettingar benda til minni vaxtar á næstu mánuðum

Sé leiðrétt fyrir árstíðarsveiflu, sem er óhjákvæmileg í slíkum uppflettingum, til samræmis við árstíðarsveiflu í fjölda ferðamanna, kemur í ljós fylgni í breytingum á fjölda uppflettinga og breytinga í fjölda ferðamanna, þó með misjafnlega mikilli töf eftir einstaka þjóðum. Töfin gefur til kynna að gögn um uppflettingar hafi ákveðið forspárgildi um fjölda ferðamanna hingað til lands á næstu mánuðum. Fjölgun uppflettinga umfram árstíðarsveiflu samræmist auknum ferðamannafjölda umfram árstíðarsveiflu.

Fækkun uppflettinga gefur því til kynna að áhuginn á Íslandi sem áfangastað kunni að vera að minnka. Möguleg skýring á því kann að vera sú að komið sé að ákveðnum sársaukamörkum hvað varðar kostnað við ferðalög til Íslands. Kostnaður í erlendri mynt hefur hækkað mikið á síðustu misserum, m.a. vegna styrkingar krónunnar en einnig vegna verðhækkana innanlands. Ýmsar vísbendingar styðja þetta, m.a. í Ferðamannapúlsi Gallup þar sem safnað er upplýsingum um álit ferðamanna á Íslandi sem áfangastað. Í Ferðamannapúlsinum eru ferðamenn m.a. spurðir hvort Íslandsferðin sé peninganna virði og hefur sú einkunn farið lækkandi á síðustu misserum samfara styrkingu krónunnar.

Í júní 2017 gerði Íslandsstofa könnun meðal erlendra fyrirtækja sem selja ferðir til Íslands. Niðurstöður hennar gefa til kynna að sumir erlendir söluaðilar hafi minni væntingar til næsta sölutímabils miðað við fyrri könnun en meirihluti söluaðila segist þó enn upplifa svipaða eða aukna sölu á ferðum til Íslands.

 

 

Vöxturinn undir sögulegum vexti á þarnæsta ári?

Spá okkar í maí gerði ráð fyrir að ferðamönnum myndi fjölga um 25% á þessu ári, vöxturinn yrði 10% á næsta ári og 8% árið 2019. Við höfum endurskoðað þessa spá okkar og gerum nú ráð fyrir minni vexti. Við gerum nú ráð fyrir að áfram muni hægja á vextinum það sem eftir lifir árs og að fjölgun ferðamanna muni mælast 22% á þessu ári. Við teljum fullsnemmt að spá engri fjölgun eða samdrætti á næstu árum. Til þess þyrftu að koma sterkar vísbendingar um að ferðamönnum sé raunverulega að fækka en þær eru ekki til staðar. Við teljum hins vegar vera komin fram mjög skýr merki þess að eftirspurnin eftir Íslandi sem áfangastað sé að vaxa hægar en áður og að líkurnar á engri fjölgun eða jafnvel fækkun ferðamanna hafi aukist verulega á síðustu mánuðum.

Við gerum ráð fyrir að fjölgun ferðamanna á árinu 2018 verði nálægt sögulegum vexti eða um 8% og styðjumst þar m.a. við áætlun Isavia um sætaframboð á fyrsta fjórðungi næsta árs. Árið 2019 gerum við hins vegar ráð fyrir að vöxturinn verði undir sögulegum meðalvexti og hann verði 5%. Hafa ber í huga að eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað þýðir hvert prósentustig í aukningu fleiri ferðamenn en sama hlutfallslega aukning árið áður. Þannig ef spáin rætist munu 2,5 milljónir ferðamanna koma hingað árið 2019, u.þ.b. 117 þúsund fleiri en árið 2018.

 

 

 

Lykilóvissuþáttur er flugframboð til og frá landinu

Þrátt fyrir að við spáum áframhaldandi fjölgun ferðamanna á árunum 2018 og 2019 teljum við að mikil óvissa sé fyrir hendi. Það er ljóst að flugframboð til og frá landinu mun skipta lykilmáli, enda ræðst fjöldi ferðamanna að mjög miklu leyti af framboðinu. Ef verri nýting verður á flugsætum og eftirspurn dalar gætu flugfélög fækkað flugferðum hingað sem myndi um leið draga úr fjölgun ferðamanna hér á landi. Flugfélögin gætu einnig komist að þeirri niðurstöðu að verð á íslenskri ferðaþjónustu sé orðið það hátt að það muni leiða til minni eftirspurnir og ákveðið að bregðast við áður en eftirspurnin dalar í raun og veru.

Helstu þættir sem styðja við áframhaldandi vöxt:

  • Áætlað framboð á flugsætum til landsins er enn að aukast og stefnir í að fjöldi flugsæta til og frá Bandaríkjunum muni aukast nokkuð á næsta ári
  • Batnandi efnahagsleg skilyrði í viðskiptalöndunum
  • Krónan hefur eilítið gefið eftir á síðustu mánuðum og er um þessar mundir álíka sterk og hún var í kringum síðustu áramót
  • Ímynd landsins er enn í nokkuð góðu horfi
  • Áframhaldandi vexti er spáð í ferðaþjónustu á heimsvísu

Þættir sem gætu leitt til stöðnunar eða fækkunar ferðamanna:

  • Flugframboð gæti dregist saman
  • Hugsanlega er komið að sársaukamörkum hvað varðar verð á íslenskri ferðaþjónustu í erlendri mynt
  • Afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum er enn myndarlegur sem ætti að styðja við styrkingu krónunnar