Eitt af sérkennum uppsveiflunnar í ferðaþjónustu hér á landi síðustu ár er sú þversögn að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega hratt á sama tíma og samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar hefur dalað með styrkingu krónunnar og hækkandi launakostnaði.

 26. september 2017

Þannig hefur ferðamönnum ekki einungis fjölgað hratt á sama tíma og íslenska krónan hefur hækkað í verði, heldur hefur verð á ferðaþjónustutengdum liðum einnig hækkað verulega í krónum talið. Ekki nóg með það, heldur hefur ferðamönnum fjölgað hlutfallslega hraðar með hverju árinu. Þetta hefur eðlilega vakið upp spurningar um hversu næm íslensk ferðaþjónusta er fyrir gengisbreytingum og hversu mikil áhrif gengisbreytingar hafa á erlenda ferðamenn þegar þeir taka ákvarðanir um ferðalög til Íslands.

Flókið samband gengis og fjölda ferðamanna

Það flækir myndina talsvert að orsakasamhengi á milli gengisbreytinga og fjölgunar ferðamanna er gagnvirkt. Þannig þýðir fjölgun ferðamanna alla jafna aukið gjaldeyrisinnstreymi sem, að öðru óbreyttu, leiðir til gengisstyrkingar. Á hinn bóginn þýðir sterkara gengi að áfangastaðurinn verður dýrari, þ.e. ferðalagið verður dýrara, sem hefur tilhneigingu til að draga úr eftirspurn og fækka ferðamönnum. Þetta á við bæði um Ísland sem og önnur lönd en þetta samband er þó mismunandi sterkt eftir löndum.

Þegar breytingar á raungengi krónunnar1 milli ára eru bornar saman við breytingu á fjölda erlendra ferðamanna milli ára á tímabilinu 1980-2016 kemur í ljós jákvæð, tölfræðilega marktæk, fylgni upp á 41% yfir tímabilið í heild.2 Það virðist því sem hér á landi hafi farið saman annars vegar styrking raungengis og fjölgun ferðamanna, og hins vegar veiking raungengis og fækkun ferðamanna.

 

 

Þegar tímabilinu frá 1980 er skipt upp í fjögur skemmri tímabil kemur hins vegar í ljós að fylgnin er ansi mismunandi eftir tímabilum. Þannig var fylgnin neikvæð frá 1990-1998 en mjög jákvæð á síðasta tímabilinu. Tölfræðilega séð var fylgnin þó einungis marktæk á síðasta tímabilinu. Neikvæð fylgni þýðir að saman hafi farið styrking (veiking) raungengis og fækkun (fjölgun) ferðamanna á sama tíma.

Þess má geta að hlutur ferðaþjónustu í útflutningi var margfalt meiri á tímabilinu 2008-2016 en á hinum þremur tímabilunum, en orsakasambandið „fjölgun ferðamanna veldur styrkingu krónunnar“ ætti að vera sterkari eftir því sem tekjur af erlendum ferðamönnum eru stærri hluti af útflutningi landsins.

 

 

 

Ýmislegt kemur í ljós þegar gögnin eru skoðuð nánar

Ef skoðuð eru stök ár á tímabilinu 2008-2016 sést að eitt ár sker sig verulega frá hinum. Það er árið 2010, en það ár var gosið í Eyjafjallajökli. Gosið hafði í för með sér talsverða röskun á flugsamgöngum.

Þróunin hefur vegar verið nokkuð mismunandi eftir löndum og gjaldmiðlum þeirra. Ef við skoðum breytinguna eftir upprunalöndum ferðamanna milli 2012 og 2016, þ.e. þegar fjölgun ferðamanna var sem mest, sést nokkuð mismunandi þróun. Þannig hefur raungengið gagnvart Bandaríkjadal einungis hækkað um 8% en um meira en 40% miðað við norsku og sænsku krónuna. Á þessu tímabili hefur ferðamönnum frá Bandaríkjunum fjölgað um 340%. Á meðan hefur norskum ferðamönnum fækkað en sænskum ferðalöngum fjölgað um 50%. Svo virðist því sem að yfir lengri tímabil að þá sé fjölgunin talsvert háð gengisbreytingum gagnvart upprunalandinu.

 

Hvernig er samband gengis og fjölgunar ferðamanna annars staðar?

Í framhaldi af þessu vaknar spurning um hvaða áhrif raungengisbreytingar hafa á fjölgun ferðamanna í öðrum löndum. Gögn frá Alþjóðabankanum gera okkur kleift að skoða þetta. Þegar búið var að sníða til gögnin m.t.t. skorts á einstökum mælingum, var ákveðið að horfa einungis til landa sem voru með meira en 10 þúsund Bandaríkjadali í landsframleiðslu á mann en sú upphæð er vel að merkja einungis 20% af landsframleiðslu á mann hér á landi. Með þessu móti má einangra úrtakið við lönd sem eru ekki mjög fátæk. Því inniheldur úrtakið að mestu lönd þar sem lífskjör eru svipuð og hér á landi. Eftir stóðu 39 lönd. Í úrtakinu eru m.a. aðrar fámennar eyþjóðir sem eiga töluvert undir ferðaþjónustu, s.s. Kýpur og Malta.

Mesta fjölgunin hér á landi síðustu 20 ár

Séu löndin borin saman á tímabilinu 1995-2016 kemur í ljós að ferðamönnum fjölgaði mest hér á landi, eða um rétt rúmlega 10% á ári að meðaltali. Fjölgunin var næstmest í Japan en þar, líkt og hér á landi, hefur aukningin einkum átt sér stað á allra síðustu árum. Fjölgunin hér á landi nam 164% milli 2010 og 2015 en 129% í Japan. Japan er aftur á móti lítt háð ferðaþjónustu efnahagslega séð. Þannig nam útflutningur ferðaþjónustu í Japan um 3,5% af heildarútflutningstekjum árið 2015 en á Íslandi var hlutfallið 11 sinnum hærra. Þá ber mun minna á erlendum ferðamönnum í Japan en hér á landi. Einungis 16 ferðamenn koma til Japans fyrir hverja 100 íbúa en 389 ferðamenn koma til Íslands fyrir hverja 100 íbúa. Munurinn er 25-faldur. Að meðaltali nam fjölgun ferðamanna um 3,6% hjá löndunum í samanburðarhópnum en heimsvöxtur í ferðalögum nam 4,2% að meðaltali á þessu tímabili.

 

Raungengi gjaldmiðla þessara þjóða styrktist að meðaltali um 0,6% á ári á þessu tímabili. Raungengi hér á landi var nánast óbreytt í upphafi og lok tímabilsins en sveiflaðist hins vegar mikið innan þess.

Gengisbreytingar koma fram með tímatöf

Sökum þeirra áhrifa sem fjölgun ferðamanna getur haft á raungengið er eðlilegast að skoða breytingar á fjölda ferðamanna með eins árs tímatöf. Með því móti má í raun eyða þeim áhrifum sem felast í því að fjölgun (eða fækkun) ferðamanna styrkir (eða veikir) gengi gjaldmiðilsins á sama tíma að öðru óbreyttu og þannig fá betri vísbendingar um hvort raungengið hafi áhrif á fjölgun ferðamanna. Af þessum 39 löndum eru 29 lönd með neikvæða fylgni og því 10 lönd með jákvæða fylgni en eðlilegra er að fylgnin sé neikvæð en jákvæð. Hlutfall þeirra landa sem eru með jákvæða fylgni þarf þó ekki að segja svo mikið, enda er einungis hægt að tala um áhrifasamband á milli hagstærða á grundvelli tölfræðilegrar marktækni.

Ísland eina landið með marktæka jákvæða fylgni

Öll þessi 10 lönd eru með ómarktæka fylgni og því ekki hægt að draga aðra ályktun en að gengisbreytingar hafi hvorki áhrif á fjölgun eða fækkun ferðamanna að ári liðnu í þessum ríkjum. Á þessum 10 löndum er þó ein undantekning, því fylgnin fyrir Ísland er tölfræðilega marktæk. Af því má ráða að þessi óvenjulegu tengsl, þ.e. að fjölgun ferðamanna hafi komið í kjölfar styrkingar raungengis, með eins árs tímatöf, hafi verið til staðar hér á landi. Einnig felur þetta líka í sér að fækkun ferðamanna hafi komið í kjölfar veikingar raungengis með eins árs tímatöf.

Sé tímabilinu skipt í tvennt, þ.e. 1995-2005 og 2005-2015, sést að fylgnin hér á landi er nánast sú sama á fyrra tímabilinu og því seinna. Þannig var hún 65,8% á fyrra tímabilinu en 66,5% á því seinna. Sumir kraftar sem togað hafa ferðamenn hingað til lands á síðustu árum og voru nefndir hér að ofan hafa einungis gert það á síðustu árum og voru þeir ekki til staðar á fyrra tímabilinu. Þarna má nefna Eyjafjallagosið og mjög mikla og jákvæða alþjóðlega umfjöllun um Ísland sem ferðamannastað í kjölfarið.

Aðrir þættir sem hafa togað ferðamenn hingað til lands, eins og náttúra Íslands, breyttust ekkert milli þessara tímabila.

 

 

 

Sjö lönd eru viðkvæm fyrir gengisstyrkingu

Þau sjö lönd sem voru með háa neikvæða fylgni voru öll með marktækt neikvæða fylgni. Það bendir sterklega til þess að áhrif gengisbreytinga á fjölgun ferðamanna séu til staðar og um leið að verðteygni3 eftirspurnar eftir ferðaþjónustu þeirra landa sé hvað mest. Gengisbreytingar hafa þannig töluverð áhrif á hvort að ferðamönnum fjölgi eða fækki milli ára. Þessi lönd eru Lettland, Ísrael, Grikkland, Venesúela, Malasía, Costa Rica og Pólland.

Ísland sker sig frá öðrum þjóðum

Nú sýnir þessi yfirferð ekki fram á nákvæmt samband á milli gengisbreytinga annars vegar og fjölgunar ferðamanna hins vegar eftir mismunandi tímabilum og löndum, heldur einungis að þessar breytur fylgjast að með vissum hætti. Margir fleiri þættir en gengi gjaldmiðla hafa áhrif á fjölda ferðamanna og geta skýrt sögulegt samband á milli gengisbreytinga og fjölgunar ferðamanna. Þrátt fyrir þessa fyrirvara gefur yfirferðin mjög skýrar vísbendingar um að Ísland skeri sig verulega frá öðru löndum og að næmni fjölgunar ferðamanna gagnvart gengisbreytingum sé mun minni en gerist og gengur víðast annars staðar.

Niðurstöðurnar eru vísbending um að styrking krónunnar ein og sér sé ekki líkleg til að valda kollsteypu varðandi fjölda erlendra ferðamanna. Þó er að sjálfsögðu aldrei hægt að útiloka að nú sé komið að sársaukamörkum og að styrkur krónunnar fari að bíta á ferðamenn fyrir alvöru.

1. Raungengi er betri mælikvarði en nafngengi þar sem raungengi mælir hlutfallslega breytingu í verðlagi milli landa og því betri mælikvarði á kaupmáttarþróun erlendra ferðamanna gagnvart landinu sem ferðast er til.

2. Milli hagstærða er ávallt einhver fylgni, jákvæð eða neikvæð. Fylgni ein og sér, hvort heldur er jákvæð eða neikvæð, þarf því ekki að segja neitt um hvort að um raunverulegt samband sé að ræða. Ef fylgnin er hins vegar tölfræðilega marktæk gefur það mjög áreiðanlega vísbendingu um að um samband sé að ræða. Með því að skoða tölfræðilega marktækni er verið að skoða líkur á að gögnin sýni fram á samband sem komi til vegna hreinnar tilviljunar. M.ö.o. er ályktað að um samband sé að ræða ef ekki tekst að afsanna tilvist sambandsins með ákveðnum líkum. Jafnan er miðað við 5% líkur í þessu sambandi. Ef minna en 5% líkur eru taldar á að gögnin sýni fram á samband fyrir hreina tilviljun er ályktað sem svo að um samband sé að ræða.

3. Verðteygni eftirspurnar segir til um hversu mikill hlutfallslegur samdráttur verður í sölu við ákveðna hlutfallslega verðhækkun. Verði mikill sölusamdráttur er sagt að eftirspurnin sé teygin en sé hann lítill er eftirspurnin óteygin.