HandPicked kortin eru ekki eins og hver annar ferðamannabæklingur. Þau eru handteiknuð og hver staður sem merktur er inn á þau er sérvalinn út frá ákveðinni upplifun, staðbundinni menningu og grænni hugsun.

26. september 2017

„Við heimsækjum flesta staðina sjálf á Runólfi rauða, bílnum okkar, eða fáum meðmæli sem við treystum,“ segir Guðbjörg Gissurardóttir, ritstýra og eigandi útgáfufyrirtækisins Í boði náttúrunnar sem gefur út samnefnt tímarit. 

Markmiðið með HandPicked kortunum er að ferðamenn geti fundið staði sem hafa eitthvað einstakt upp á að bjóða og mat og menningu úr nærumhverfinu, gullmola sem annars hefðu farið fram hjá þeim á ferð þeirra um landið. „Svolítið eins og ferðamennirnir hefðu fengið ráð frá heimamönnum eða traustum vini á Íslandi sem þekkir „lókal“ staðina,“segir Guðbjörg.

Grunnhugmyndin að kortunum kviknaði á sama tíma og Guðbjörg var að byrja með tímaritið sitt fyrir átta árum. Hún var nýflutt heim til Íslands eftir að hafa búið í New York í 7 ár og heillaðist af fegurð íslenskrar náttúru. Hún fór að ferðast um landið og fara með fjölskylduna í útilegur en það hafði hún ekki gert árum saman.

 Rætt við Guðbjörgu Gissurardóttur ritstýru Handpicked Iceland kortanna. 

Þá fékk hún þá hugmynd að gera tímarit þar sem efnistökin voru náttúra, heilsa og sjálfbærni. Guðbjörg velti því fyrir sér hvað hún gæti gert til þess að fólki fyndist það verða að eignast blaðið. „Þá rifjaðist upp fyrir mér þegar við vorum að ferðast sumarið áður um landið og vorum í Búðardal. 

Við ætluðum að fara fínt út að borða en svo keyrðum við og leituðum um allan bæinn en fundum ekki neitt, og enduðum bara í vegasjoppunni heldur fúl. Svo hitti ég manneskju tveimur dögum síðar sem sagði mér að það hefði verið frábær veitingastaður við höfnina. Svo ég hugsaði þetta ætla ég að gera! Ég ætla að kortleggja þessa góðu veitingastaði út á landi,“ segir Guðbjörg.

Elskar að finna sérstaka staði

Eftir að hafa fundið um 25 góða staði sem höfðu upp á eitthvað sérstakt að bjóða að mati Guðbjargar, merkti hún þá inn á fallegt handteiknað Íslandskort sem síðan var fest inn í tímaritið á þykkari pappír. Þetta vakti lukku og einn leiðsögumaður hafði það á orði að þetta væri einmitt það sem ferðamenn kvörtuðu mest yfir, að finna ekki bestu veitingastaðina út á landi: „Þá hugsaði ég að ef þetta er eitthvað sem ferðamenn vantar, gæti ég gert sérstakt „concept“ úr þessu.“ 

Og það varð úr. Hún bjó til fleiri kort, einungis á ensku, og kallaði HandPicked Iceland. Síðan þá hefur bæst við hugmyndina á hverju ári og nú eru til bæklingarnir: „eat,“ „sleap,“ „shop,“ „play“ „kids“ og „culture.“ „Við höfum í rauninni alltaf bara farið af stað á sumrin, gefið út nýja bæklinga og þeir duga fyrir árið. Við elskum að leita að þessum stöðum og við elskum að fara á þessa staði,“ segir Guðbjörg.

Þetta vakti lukku og einn leiðsögumaður hafði það á orði að þetta væri einmitt það sem ferðamenn kvörtuðu mest yfir, að finna ekki bestu veitingastaðina út á landi.

Ferðamennirnir vilja upplifa nærumhverfið

Guðbjörg segist finna vel fyrir því að ferðamenn sækist eftir mat úr héraði og „lókal“ menningu. Fyrir átta árum þegar hún byrjaði hafi ekki margir hér á landi verið uppteknir af þessu en það hafi heldur betur breyst, sem er góð þróun. Mjög margir ferðamenn eru að leita að stöðum sem eru ekki fullir af öðrum túristum, þeir vilja tala við heimamenn og æ fleiri sækja einfaldlega í einveruna, eitthvað sem Ísland var kannski þekktara fyrir hér áður fyrr. 

„Aðalmálið í mínum huga er að vekja athygli á þessum góðu og skemmtilegu stöðum og að ferðamennirnir viti af þeim því fyrir vikið verður upplifunin að koma til Íslands miklu betri,“ segir Guðbjörg. Á Akureyri hitti hún einu sinni fólk frá Boston sem þekkti HandPicked bílinn og stoppuðu hana þegar hún hoppaði út til að lýsa ánægju sinni. Þetta væri þriðja árið í röð sem þau komu til Íslands og þau höfðu alltaf stuðst við HandPicked kortin.


„Miklu stærra en ég hefði getað ímyndað mér“

„Í mínu tilviki gerðist þetta næstum því bara óvart. Ég var ekki búin að hugsa mér að fara í ferðamannabransann fyrir átta árum þegar þetta kort varð til. Núna erum við einnig komin með mjög vinsælt app. Það er einfalt en fallegt og bæði erlendir ferðamenn og íslenskir eru að nota það. Við höfum einnig verið að gera náttúrukort þar sem við setjum inn náttúruperlur um landið og gerðum við ferðabókina HandPicked Reykjavík. Þannig að við höfum verið að prófa ýmislegt og þróa okkur áfram. Það er skemmtilegt að sjá hvernig þessi litla hugmynd - eitt lítið kort - stækkar og er að verða eitthvað miklu meira en ég hefði getað ímyndað mér í upphafi,“ segir Guðbjörg.