Íslandshótel hafa notið góðs af fjölgun ferðamanna. Þetta 30 ára gamla fyrirtæki rekur nú 17 hótel víða um land og er enn að stækka. Sumum framkvæmdum hefur þó verið slegið á frest til að bregðast við breyttum aðstæðum.

26. september 2017

Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, hefur áratugareynslu af hótelrekstri og þekkir af eigin raun hvernig er að starfa í sveiflukenndri atvinnugrein. Fyrirtækið hefur staðið af sér ýmsa storma í íslenskri ferðamennsku.

„Við sigldum inn í þetta ár full bjartsýni á að þetta yrði metár,“ segir Ólafur. Enn sé ekki útséð með útkomuna og árið líti sæmilega út. Gengismálin hafi sett ákveðið strik í reikninginn og haft áhrif á ferðaþjónustuna. „Við finnum að það er ekki eins stíft bókað og í fyrra.“ Í fyrra hafði Ólafur ákveðnar áhyggjur af því að ef fjölgun ferðamanna hefði verið jafnmikil í ár eins og 2016 hefði það skapað annars konar vandamál. Ekki hefði verið hægt að veita boðlega þjónustu. Ferðamennskan hafi leitað í ákveðið jafnvægi á árinu með hjálp gengisins sem síðan hefur leitt til hækkandi verðlags fyrir ferðamenn.

Lítil trú á hótelrekstri hér áður fyrr

Ólafur byrjaði í hótelgeiranum árið 1992. Miklar breytingar hafi orðið á þessum tíma. „Þegar við byrjuðum þá vildi ekki nokkur maður koma nálægt hótelrekstri, hvorki banki né aðrir. Einn bankamaður kallaði hótelrekstur „fimmaurahark“ og það var mjög erfitt að reyna að byrja með slíkan rekstur,“ segir hann. Hér voru hótelin fá og lítil. „Við byrjuðum með 30 herbergi fyrsta árið og síðan stækkuðum við árið eftir upp í 60. Svo keyptum við Holiday Inn, sem var með 100 herbergi, árið 1995,“ segir hann.

Tiltrúin á greina hafi aukist eftir hrunið 2008. Fyrstu árin eftir hrun hafi þó reynst erfið. Árið 2011 var heillavænlegra og allar götur síðan hefur Ólafur fundið fyrir vaxandi trausti banka og fleiri lánastofnana.

Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela.

Hægja á framkvæmdum

Íslandshótel hafa verið með fjögur ný verkefni í farvatninu á þessu ári. „Við vorum að opna á Mývatni í sumar og erum að stækka að Núpum. Við tókum Reykholt í gegn og erum að byggja nýjan sal á Grand Hóteli í Reykjavík,“ segir Ólafur. Til stendur að reisa hótel við Lækjargötu og endurskoða starfsmannaaðstöðu á Hnappavöllum. Íslandshótel hafa þó hægt á framkvæmdum. Gert hafði verið ráð fyrir að stækka hótel á fleiri stöðum um land allt en það þarf að bíða. „Við verðum að sjá hvað verður,“ segir hann.

Dvölin að styttast

Fjöldi ferðamanna á Íslandi er orðinn gífurlegur en Ólafur dregur þó í efa að tölur um fjölda ferðamanna á Íslandi séu réttar. „Okkur grunar að þessar talningar sem eiga sér stað suðurfrá séu ekki réttar,“ segir hann og á þá við talningar í Leifsstöð. Verið sé að telja alla farþega sem millilenda og verkamenn sem ferðast milli landa. Ólafur telur þess vegna að tölurnar séu ekki nægilega áreiðanlegar, enda finnist honum að fólksumferðin ætti að vera meiri miðað við tölurnar.

Viðskiptavinahópur Íslandshótela er fjölbreyttur. „Við erum með fleiri hundruð ferðaskrifstofur í viðskiptum og töluverða og vaxandi einstaklingstraffík,“ segir Ólafur. Meðaltalsgisting á Grand Hótel fyrir hvern gest er tvær og hálf nótt. Þegar Ólafur er spurður út í nákvæma tölu, þ.e. hversu margir gisti á Íslandshótelum, segist hann eiga erfitt með að fullyrða um það. Sami gestur geti gist hjá þeim fleiri nætur úti á landi. Kerfið bjóði ekki upp á að fylgst sé með nafni gesta og þess vegna séu tölur ónákvæmar. Hann bætir við að talað sé um að ferðamenn á Íslandi hafi að meðatali fimm til sjö nátta viðdvöl að sumarlagi en dvelji skemur að vetrarlagi. Samanburður mánaða ársins 2017 og 2016 leiði í ljós að dvölin er að styttast, að hans sögn. „Hvort það sé samhengi á milli þess að verðið sé of hátt og ferðamenn séu að spara við sig er erfitt að segja,“ segir hann.

Vill gæta hófsemi

Ólafur segir að fyrirtækið hafi tekið hófstilltar ákvarðanir varðandi fasteignir og hótelrekstur. „Við höfum gætt hófsemi og ég hef kannski ekki alltaf þótt eftirsóknarverður leigutaki. Ég vil borga hóflega leigu og fara aldrei yfir ákveðna prósentu af væntanlegum umsvifum,“ segir hann. Hann hafi alltaf lagt til að menn stundi sín viðskipti hóflega og geri ekki ráð fyrir sífelldum uppgangi.

„Ég hef haft áhyggjur þegar menn hafa skrifað sig fyrir mjög hárri húsaleigu. Svo gerist eitthvað og þá verður erfitt að vinda ofan af því. Eigandi fasteignarinnar hefur væntanlega fjármagnað hana á ákveðnum kjörum og þarf að standa skil á sínu,“ segir Ólafur. Margir geti farið illa út úr viðskiptum ef eitthvað óvænt gerist og ef reksturinn þolir ekki lækkanir á markaði.

Hann bendir á að íslensk ferðaþjónusta hafi gengið í gegnum ýmsar sveiflur. Stríðið við Persaflóa og árásin á Tvíburaturnanna hafi sett strik í reikninginn. Efnahagshrunið 2008 og loks eldgosið í Eyjafjallajökli hafi síðan valdið miklum skaða fyrir atvinnugreinina. Íslandshótel hafi þó sloppið merkilega vel og ekki lent í of miklum áföllum. Það sem meira er, þá hafi ófarir til skamms tíma skapað greininni möguleika til vaxtar, sbr. eldgosið í Eyjafjallajökli. Þá atburði taldi Ólafur sitt síðasta en annað kom á daginn.

Óráð að breyta virðisaukaskattinum núna

Ísland nýtur góðs af ýmsum aðstæðum, að sögn Ólafs. „Landið er talið frekar öruggt og náttúran dregur mikið til sín. Með vaxandi mengun víðsvegar um heim vill fólk upplifa náttúruna og hreinleikann. Þannig höfum við ákveðin tromp á hendi,“ segir hann. Enginn hafi þó reiknað með þeirri miklu fjölgun sem hefur átt sér stað undanfarin ár og hafa þeir, sem lengi hafa verið í geiranum, raunsætt viðhorf til vaxtarins. Á endanum muni hægja á honum. Enn sjái þó ekki fyrir endann á aukningu ferðamennskunnar og bendir Ólafur á að flugfélögin séu enn að vaxa og fjölga flugleiðum. Það viti á gott og styðji við að ferðaþjónustan sé komin til að vera þrátt fyrir að hugsanlega verði samdráttur síðar meir.

Gengismálin hafa komið sér illa fyrir Íslandshótel eins og mörg önnur fyrirtæki á Íslandi undanfarin misseri. „Sem betur fer erum við þó ekki með nema helminginn af gistitekjum í erlendri mynt. Hitt er í íslenskum krónum,“ segir hann. Mikið er um bókanir fram í tímann og er Grand Hótel til að mynda um 60% bókað fyrir næsta ár og öll verð nú útgefin. Ólafur segir óráð að breyta virðisaukaskattinum á þessum tímapunkti, m.a. vegna þessara bókanna og vegna þess að verð á gistingu hér á landi sé hátt vegna gengisþróunar íslensku krónunnar. Auk þess hafi launakostnaður og annar rekstrarkostnaður vaxið mikið undanfarin misseri. Fyrirtækin sjálf þyrftu þá að bera kostnaðinn og væri ekki á það bætandi út af sterkri krónu.

Markhópur Airbnb óplægður akur

Ólafur hefur ekki farið varhluta af auknum umsvifum Airbnb á Íslandi. „Það er mjög hátt hlutfall Airbnb-íbúða miðað við hótelherbergi í Reykjavík og á Akureyri, samanborið við aðra staði í heiminum,“ segir Ólafur. Telur hann að þetta háa hlutfall sé slæmt, t.d. fyrir íbúðarmarkaðinn en ungu fólki gengur erfiðlega að fá leigt á þessum svæðum. Tilfinning Ólafs er þó sú að starfsemi Airbnb hafi náð hámarki. Hann lítur svo á að markhópur Airbnb sé óplægður akur fyrir hótelgeirann til að sækja sér viðskipti í framtíðinni og keppa almennilega við leigufyrirtækið. Þess vegna þurfi skýrar reglur og telur hann nauðsynleg að koma böndum á þessa starfsemi.

Orðspor bæjanna var Tripadvisor þess tíma

Hótelrekstur er mjög skemmtilegur geiri til að starfa í, að sögn Ólafs. Það sé gaman að vera innan um fólk af ólíkum þjóðernum, hvort sem um er að ræða viðskiptavini eða starfsfólk. „Þannig að starfið er mjög fjölbreytt. Ég hef oft sagt að við Íslendingar séum aldir upp í bændasamfélögum þar sem alltaf var verið að taka á móti gestum, ferðamönnum og líka flækingum. Þá var gjarnan boðið upp á gistingu með tilheyrandi veitingum. Tripadvisor þeirra tíma var orðsporið á milli bæja sem varð að vera í lagi. Þannig að það er í genum okkar að vera í einhvers konar túrisma,“ segir hann að lokum.