Gistinóttum á heilsárshótelum fjölgar á sumum svæðum
Þrátt fyrir að gistinóttum erlendra ferðamanna á hótelum hafi almennt séð fækkað á árinu fer því fjarri að þróunin sé eins um allt land.
Á fyrstu 7 mánuðum ársins jókst fjöldi gistinátta á Austurlandi um 14,1% borið saman við sama tímabil í fyrra. Gistinóttum hefur fjölgað alla mánuði frá áramótum. Í apríl fjölgaði gistinóttum um rúmlega 57% miðað við fyrra ár en síðan hefur aukningin verið mun minni. Bæði hefur mælst fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna og Íslendinga. Aukningin hefur þó nær einungis verið borin uppi af fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna.
Gistinóttum á Norðurlandi fjölgaði um 9,3% milli sömu tímabila. Aukningin var einungis borin af fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna þar sem gistinóttum Íslendinga fækkaði.
Á Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum um 1,1%. Fjölgunina þar má rekja til gistinátta Íslendinga því gistinóttum erlendra ferðamanna fækkaði.
Mesti samdrátturinn hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu, -5,8%, og hefur gistinóttum bæði útlendinga og Íslendinga fækkað þar.