Komið er að tímamótum í uppgangi ferðaþjónustunnar á Íslandi eftir nánast ævintýralegan vöxt síðustu ár. Í þessum kafla er m.a. fjallað um hvernig fjöldi og samsetning erlendra ferðamanna hefur þróast, veltu fyrirtækja í greininni og breytingar á útgjöldum ferðamanna.

26. september 2019

Árið 2018 voru útflutningstekjur þjóðarbúsins af ferðaþjónustu og flugi um 39% útflutningstekna þjóðarbúsins. Þetta hlutfall fór hæst í 42% árið 2017 en það met verður líklega ekki slegið í náinni framtíð. Útlit er fyrir að hlutfallið lækki töluvert á þessu ári, einkum vegna minni útflutningstekna af flugi eftir brottfall WOW air í lok mars en einnig vegna verulegrar fækkunar erlendra ferðamanna.

Brotthvarf WOW air hafði áhrif á fjölda og samsetningu erlendra ferðamanna

Á fyrstu 8 mánuðum ársins nam fjöldi erlendra ferðamanna 1.383 þúsundum og fækkaði þeim um 214 þúsund, eða um 13,4%, samanborið við sama tímabil í fyrra. Fækkun ferðamanna skýrist fyrst og fremst af gjaldþroti WOW air. Fækkun ferðamanna á fyrsta ársfjórðungi þegar WOW air naut við var 4,7% borið saman við sama tímabil í fyrra en fækkunin á tímabilinu apríl-ágúst var 17,2%.


Ferðamönnum frá Norður-Ameríku fækkar mest

Það sem af er ári hefur bandarískum og kanadískum ferðamönnum fækkað hlutfallslega mest. Það skýrist að mestu leyti af því að hlutdeild WOW air í flugi yfir Atlantshafið var mun meiri en hlutdeild félagsins í flugi til og frá Evrópu. Því kom gjaldþrot þess harðar niður á loftbrúnni til Norður-Ameríku en Evrópu. Bandaríkjamönnum fækkaði um 30% á fyrstu 8 mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra en Kanadabúum um 22,5%. Næstmesta fækkunin var hjá Svíum, 16,3%, en þar á eftir komu Bretar með 12,9%. Ekki hefur þó öllum þjóðum fækkað það sem af er ári. Þannig hefur Rússum fjölgað um 18,9%, Kínverjum um 12% og Ítölum um 7,2%.


Fækkun Bandaríkjamanna skýrir mest af heildarfækkuninni

Fækkun Bandaríkjamanna á fyrstu 8 mánuðum ársins nemur 148 þúsundum og skýra þeir tæplega 70% af heildarfækkun erlendra ferðamanna á árinu. Bandarískum ferðamönnum hér á landi hefur fjölgað hratt á síðustu árum og hefur hlutdeild þeirra farið úr 15,7% árið 2014 upp í 30% á síðasta ári en engin önnur þjóð hefur náð hærra hlutfalli hér á landi. Á fyrstu 8 mánuðum þessa árs var þetta hlutfall komið niður í 24,5%. Næstfjölmennasta þjóðin voru Bretar en þeir eru einungis hálfdrættingar á við Bandaríkjamenn með um 12,3% hlutfall í heildarfjölda erlendra ferðamanna.

Ný leikáætlun Icelandair dró töluvert úr áhrifum hvarfs WOW air

Hlutfall skiptifarþega í gegnum Leifsstöð hefur verið mun lægra á þessu ári en á sama tímabili í fyrra. Það þýðir að hærra hlutfall farþega sem fer í gegnum Leifsstöð koma sem ferðamenn, þ.e. til þess að heimsækja landið. Ástæðan fyrir þessu er m.a. sú stefna Icelandair um að hækka hlutfall erlendra ferðamanna í vélum sínum á kostnað skiptifarþega. Þetta er meginástæðan fyrir því að ferðamönnum hefur fækkað mun minna eftir brotthvarf WOW air en ætla mátti í upphafi. Á fyrstu 7 mánuðum ársins flutti Icelandair 29% fleiri erlenda ferðamenn til landsins en á sama tíma í fyrra. Skiptifarþegum hjá Icelandair fækkaði um 3% milli sömu tímabila. Á fyrstu 7 mánuðum ársins fækkaði erlendum ferðamönnum um 13,4% miðað við sama tímabil í fyrra. Ef ekki hefði komið til nein aukning í komum erlendra ferðamanna hjá Icelandair hefði ferðamönnum fækkað um 31,4%.


Velta fyrirtækja í ferðaþjónustu

Samantekt Hagstofunnar á virðisaukaskattsskýrslum ferðaþjónustufyrirtækja segir sömu sögu um vöxt ferðaþjónustunnar og aðrar hagtölur: á milli áranna 2010 og 2018 varð ævintýralegur vöxtur í greininni. Þannig var veltan í rekstri gististaða 380% meiri árið 2018 en 2010 og velta í veitingasölu og -þjónustu var 80% meiri árið 2018 en 2010, leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum.

Hvað segja VSK-skýrslur um áhrif falls WOW air?

WOW air hætti starfsemi í lok mars í ár. Tímabilið frá maí út júní var því fyrsta heila VSK-tímabilið án WOW air. Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum fyrir þetta tímabil ætti því að gefa einhverja vísbendingu um fyrstu áhrifin.

Það kemur lítið á óvart að velta farþegaflutninga í flugi dróst saman um tæp 30% milli ára í maí-júní og skýrist þetta nánast eingöngu af brotthvarfi WOW air. Erlendum ferðamönnum um Leifsstöð fækkaði um 19,5% á sama tímabili.

Velta í öðrum greinum ferðaþjónustunnar sýnir hins vegar lítil merki um samdrátt. Þannig jókst velta í rekstri gististaða lítillega á milli ára (+0,1%) og hið sama má segja um veltu í leigu á bílaleigubílum (+2,0%) og í umsvifum ferðaskrifstofa sem selja ferðir á Íslandi (+2,0%). Veltan dróst þó lítillega saman hjá fyrirtækjum í veitingasölu og -þjónustu (-0,2%) og í farþegaflutningum á sjó, vötnum og ám (-0,2%). Í raun má segja að engin breyting hafi orðið á milli ára í þessum flokkum og eru sveiflurnar vel innan skekkjumarka. Einungis í farþegaflutningum á landi má tala um raunverulegan samdrátt í veltu (-8%). Samtals jókst veltan um 0,4% milli ára í þessum sex flokkum.

Ef miðað er við upphæðir í evrum sést á hinn bóginn um 10% samdráttur í flestöllum flokkum, nema í farþegaflutningum á landi, þar sem samdrátturinn nam heilum 18%.

Velta gististaða á gistinótt

Velta gististaða á tímabilinu júlí 2018 til júní 2019 nam 98 mö.kr., eða 8,2 mö.kr. á mánuði að meðaltali. Þetta samvarar um 12 þúsund krónum á hverja gistinótt þegar miðað er við gistináttatalningu Hagstofunnar. Árið 2010 var samsvarandi fjárhæð 9 þúsund krónur á gistinótt. Þessi hækkun hefur fylgt vísitölu neysluverðs merkilega vel, en á föstu verðlagi hefur velta á hverja skráða gistinótt verið nær óbreytt frá árinu 2009.

Í evrum talið hefur meðalvelta á hverja gistinótt breyst mun meira. Veltan á gistinótt er núna 90 evrur á nótt, en var einungis 58 evrur á gistinótt 2010. Þess ber þó að geta að hér er miðað við allar skráðar gistinætur, þ.e. bæði innlendra og erlendra ferðamanna.

Meðaltekjur á hvern bílaleigubíl dragast saman

Á tímabilinu júlí 2018 til júní 2019 veltu bílaleigur um 51 mö.kr., eða um 4,3 mö.kr. á mánuði. Að meðaltali voru um 23.600 bílaleigubílar í umferð á þessu tímabili. Þetta þýðir að velta á hvern bíl var um það bil 180 þúsund krónur. Heldur hefur dregið úr veltu á hvern bíl því árið 2016 var meðalvelta á hvern skráðan bíl rétt yfir 200 þúsund krónur á mánuði.

Færri ferðamenn sem dvelja lengur og eyða meiru

Áhrif fækkunar erlendra ferðamanna á árinu eru vel sýnileg í gögnum um kortaveltu útlendinga hér á landi. Samdráttur í kortaveltu er hins vegar mun minni en sem nemur fækkun ferðamanna. Á fyrri helmingi árs dróst kortaveltan í heild saman um 9% miðað við fast gengi en jókst um 2% sé litið til veltu í krónum talið (0,8% miðað við fyrstu 8 mánuði ársins). Skýrist sá munur fyrst og fremst af veikari krónu en einnig af aukinni neyslu á hvern ferðamann sem vegur upp á móti áhrifum af fækkun þeirra.

Tekjur á hvern ferðamann aukast

Ef heildarkortaveltu erlendra greiðslukorta er deilt niður á fjölda ferðamanna má áætla meðaleyðslu hvers ferðamanns. Miðað við þennan mælikvarða eyddi hver ferðamaður að meðaltali um 120.000 kr. í heimsókn sinni á fyrstu 8 mánuðum ársins, samkvæmt tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Það er um 16% meira en hver ferðamaður eyddi á sama tíma í fyrra mælt í krónum. Gengið veiktist yfir tímabilið sem gerir það að verkum að kaupmáttur ferðmanna jókst og því gátu þeir eytt fleiri krónum án þess að vera að eyða meiru í sinni eigin mynt.

Tölurnar sýna einnig að ferðamenn eyddu ekki aðeins meiru í krónum heldur einnig í sinni eigin mynt. Að meðaltali eyddi hver ferðamaður u.þ.b. 5% meira á fyrstu mánuðum ársins í ár samanborið við stöðuna fyrir ári síðan mælt í evrum. Strax eftir brotthvarf WOW air má sjá að meðalkortaveltan á hvern ferðamann jókst verulega. Í krónum talið eyddi hver ferðamaður hátt í 30% meira í maí í ár samanborið við stöðuna í fyrra og um 16% meira í evrum talið.

Strax eftir brotthvarf WOW air má sjá að meðalkortaveltan á hvern ferðamann jókst verulega.

Samsetning ferðamanna hefur breyst talsvert með falli WOW air og minna framboði af ódýrum flugsætum til landsins. Ferðamenn sem koma eftir brotthvarf WOW air virðast dvelja lengur og eyða meiru í sinni eigin mynt.

Gjaldeyristekjur á hverja gistinótt dragast saman

Ef litið er til kortaveltu ferðamanna á hverja gistinótt sést aftur á móti að samdráttur varð á allra síðustu mánuðum, mælt í evrum. Í júní eyddu ferðamenn um 11% minna en í júní fyrir ári síðan fyrir hvern dag sem þeir dvöldu hér á landi. Þetta gefur til kynna að aukningin í kortaveltu skýrist fyrst og fremst af lengri dvalartíma þeirra ferðamanna sem koma hingað til lands.

Farþegar WOW air voru yngri og dvöldu að jafnaði skemur

Ferðamenn sem komu hingað til lands með WOW air í fyrra voru yngri og með lægri tekjur en ferðamenn sem komu hingað með Icelandair, samkvæmt könnun Ferðamálastofu. Þeir eyddu að meðaltali um 19% minna á mann en farþegar Icelandair og dvöldu um 0,4 færri nætur. Einnig nýttu farþegar WOW air sér íbúðagistingu í meira mæli en farþegar annarra flugfélaga og var sá munur tölfræðilega marktækur.


 

Nokkuð áberandi breytingu má sjá á dvalarlengd ferðamanna á skráðum gististöðum eftir gjaldþrot WOW air. Strax í apríl gistu þeir ferðamenn sem hingað komu að meðaltali 22% lengur en í apríl árið áður og hélt sú þróun áfram næstu mánuði. Samanburður á gistinóttum á hvern ferðamann eftir mánuðum gefur til kynna að sumarið í ár hafi verið svipað sumrinu 2016 hvað gistinætur á skráðum gististöðum varðar. Samdráttur varð árin 2017 og 2018 með færri gistinóttum á hvern ferðamann.


Velta samkvæmt VSK-skýrslum segir svipaða sögu

Tölur um veltu í greinum tengdum ferðaþjónustu, sem lesa má úr virðisaukaskattsskýrslum sem Hagstofan tekur saman, segja svipaða sögu og tölur um kortaveltu. Það er að segja, þeir ferðamenn sem koma hingað til lands eftir brotthvarf WOW air virðast almennt eyða meiru en þeir ferðamenn sem komu hingað fyrir um ári síðan.

Maí-júní í ár var fyrsta heila VSK-tímabilið eftir að WOW air hætti starfsemi. Velta fyrir það tímabil ætti því að gefa vissa vísbendingu um áhrifin. Við sjáum að velta á hvern ferðamann í rekstri gististaða, veitingasölu og þjónustu, bílaleigubíla og farþegaflutningum jókst um rúmlega 20% milli ára í krónum talið á VSK-tímabilinu maí-júní, en um 10% í evrum talið. Veltan á ferðamann í farþegaflutningum á landi jókst nokkuð minna (+14% í krónum, +1% í evrum).

Svisslendingar, Bandaríkjamenn og Rússar eyða mestu

Ferðamenn frá Sviss eyddu mest í krónum talið á hvern ferðamann á fyrri helmingi ársins, eða rúmlega 190 þús.kr. Næstmestu eyddu Bandaríkjamenn, eða um 165 þús.kr., og svo Rússar sem eyddu að meðaltali 140 þús.kr. hver.

36% færri Bandaríkjamenn komu til landsins í sumar

Eftir brotthvarf WOW air hefur ferðamönnum frá Norður-Ameríku fækkað verulega, enda voru þeir 44% af öllum farþegum flugfélagsins á síðasta ári samkvæmt könnun Ferðamálastofu. Það hefur þó orðið fjölgun meðal annarra þjóða, til dæmis Kínverja og Rússa.

Rúmlega 2.000 fleiri Rússar komu til landsins í sumar samanborið við fyrra sumar sem jafngildir 34% aukningu. Kínverjum fjölgaði um 11%. Ferðamenn frá Rússlandi eru í þriðja sæti þegar kemur að kortaveltu á ferðamann eftir þjóðerni en Rússar eru lítill hluti þeirra ferðamanna sem koma hingað til lands.

Gistiþjónusta stærsti útgjaldaliður ferðamanna

Gistiþjónusta er stærsti útgjaldaliður ferðamanna. Hlutfall gistiþjónustu í kortaveltu hefur aukist undanfarin ár, fór úr 21% veltunnar árið 2013 upp í 25% í fyrra. Á eftir gistiþjónustu eru útgjöld til ýmissar ferðþjónustu1 fyrirferðamikil, eða um 20% kortaveltunnar. Því næst kemur verslun og veitingaþjónusta. Saman mynda þessir fjórir liðir um 70% neyslunnar. Neysla allra þessara liða jókst í íslenskum krónum á fyrri helmingi árs miðað við árið á undan mælt á hvern ferðamann.

 

1 Ferðaskrifstofur og þjónustur, skipuleggjendur ferða og bátaleigur

Samsetning kortaveltunnar hefur tekið ákveðnum breytingum í gegnum tíðina, úttektir á reiðufé hafa dregist saman og ferðamenn greiða því í auknum mæli fyrir vörur og þjónustu með greiðslukortum. Þetta gerir það að verkum að upplýsingar um samsetningu neyslunnar verða meiri og betri.

Kortavelta í verslunum jókst

Verslun á hvern ferðamann hefur aukist hlutfallslega meira en aðrir stærstu neysluþættir. Hver ferðamaður eyddi að meðaltali 9% meiru á fyrri helmingi árs í verslunum landsins miðað við sama tíma árið áður mælt á föstu gengi. Mestu munaði í maí á þessu ári þegar hver ferðamaður eyddi að meðaltali 52% meiru í krónum talið, og 36% meiru í evrum, í verslunum landsins.

Aukinn áhugi ferðamanna á menningu og tómstundastarfi

Aðrir útgjaldaliðir sem jukust milli ára, en vega þó minna í heildarneyslunni, voru útgjöld tengd menningar- og tómstundastarfi. Hver ferðamaður eyddi að meðaltali 52% meiru í eigin mynt á söfnum, galleríum eða í aðra menningarstarfsemi á öðrum ársfjórðungi ársins í ár samanborið við sama tíma í fyrra.

Fækkun ferðamanna ekki alslæm tíðindi

Þessi yfirferð sýnir að fækkun erlendra ferðamanna hefur ekki verið alsæm þegar kemur að tekjumöguleikum ferðaþjónustufyrirtækja. Vissulega drógust heildargjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar gegnum greiðslukortaveltuna saman um 9% á fyrri helmingi ársins en í krónum talið jókst veltan hins vegar um 2%. Jákvæðu tíðindin eru klárlega þau að meðaltekjur greinarinnar af hverjum ferðamanni eru að aukast miðað við fyrra ár en það skýrist einkum af lengri meðaldvalartíma og auknum kaupmætti ferðamanna vegna veikingar krónunnar. Þessir þættir haldast vitanlega í hendur að einhverju leyti.