Íslensk ferðaþjónusta hefur upplifað ævintýralegan vöxt á síðustu árum og hefur fjöldi ferðamanna margfaldast á tiltölulega stuttum tíma. Ljóst er að þeim muni fækka á þessu ári en Hagfræðideild telur líklegt að fækkunin muni einskorðast við þetta ár og ferðamönnum fjölgi að nýju á næstu árum. Í þessum kafla kemur fram spá Hagfræðideildar um þróun ferðaþjónustu á Íslandi á næstu árum.

26. september 2019

Ferðamennska í heiminum hefur haldið áfram að vaxa á síðustu árum og er útlit fyrir að áframhald verði á þeirri þróun. Til lengri tíma erum við bjartsýn á áframhaldandi vöxt í ferðaþjónustu hér á landi og hann verði ívið meiri en í greininni á heimsvísu. Vöxturinn verður þó mun minni en við höfum átt að venjast á síðustu árum og mun hvíla á sjálfbærari grunni.

Það er ljóst að þrot WOW air hefur gjörbreytt umhverfi og umfangi íslenskrar ferðaþjónustu og haft mikil áhrif á vöxt hennar á þessu ári og til framtíðar. Samkvæmt áætlun Isavia nam framboð flugsæta félagsins um 34% í flugi frá landinu á síðasta ári.

Viðhorf til Íslands batna

Kannanir sem gerðar hafa verið meðal ferðamanna og erlendra bókunaraðila hafa þróast í jákvæða átt að undanförnu. Landamærakönnun Ferðamálastofu sýnir að meðmælaskor erlendra ferðamanna fyrir Ísland sem áfangastað hefur verið mun betri á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Þannig hefur Ísland skorað hærra alla fyrstu 8 mánuði ársins borið saman við sömu mánuði í fyrra. Að meðaltali var skorið 81 stig á fyrstu 8 mánuðum ársins borið saman við 68 stig á sama tímabili í fyrra. Hlutfallsleg aukning milli ára nemur 19%.

Könnun sem Íslandsstofa framkvæmdi í júní meðal erlendra söluaðila á ferðaþjónustu hér á landi benti til þess að bókunarstaða væri betri nú en á sama tíma í fyrra. Tæplega 3 af hverjum 4 fyrirtækjum telja að bókanir verði jafnmiklar eða meiri fyrir komandi vetur en á sama tíma í fyrra. Heilt yfir bendir könnunin til þess að gjaldþrot WOW air hafi haft takmörkuð áhrif á þessa erlendu söluaðila. Að meðaltali var meðmælaskor (NPS-skor) söluaðilanna 54 stig í júní borið saman við 48 stig síðasta sumar og 35 stig í júní 2017.

Viðhorfskannanir Gallup á ánægju ferðamanna í júlí sýna að heildaránægja ferðamanna var þá meiri en á sama tíma í fyrra. Spurningar sem snúa að líkum á meðmælum, uppfyllingu væntinga og hvort ferðin hafi verið peninganna virði koma allar betur út nú en í júlí í fyrra.


1 Meðmælaskor eða svokallaður NPS-skor er skali sem liggur á bilinu -100 og upp í +100.

Rúmlega 2 milljónir ferðamanna á þessu ári

Við spáum því að fjöldi erlendra gesta sem sækja muni landið heim með flugi á þessu ári verði rúmlega 2 milljónir og að þeim fækki um tæplega 14% frá fyrra ári. Á næsta ári spáum við 3% fjölgun erlendra ferðamanna. Horfur eru heldur óljósari fyrir árið 2021. Með fyrirvara um fjölda óvissuþátta, sem bæði geta aukið og dregið úr straumi ferðamanna til landsins, gerum ráð fyrir 5% fjölgun ferðamanna.

Óvissan um MAX-þoturnar er töluverð á næsta ári

Við teljum að eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað verði áfram sterk á næstu árum. Þættir svo sem aukin ánægja ferðamanna og ferðaskipuleggjenda í viðhorfskönnunum ásamt lægra gengi krónu og þar með aukinn kaupmáttur ferðamanna í krónum styðja við þetta mat. Á móti vega versnandi efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum okkar ásamt stórum óvissuþáttum á borð við Brexit og viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína.

Við teljum að ráðandi þáttur í þróun fjölda erlendra ferðamanna á næstu árum verði framboð á flugsætum til landsins. Við gerum ráð fyrir að framboð erlendra flugfélaga af flugsætum muni aukast um 6% á næsta ári. Veruleg óvissa ríkir um framboð flugsæta Icelandair, einkum í ljósi óvissu um flota félagsins vegna vandræða með Boeing MAX-þoturnar og hvenær þær komast í gagnið. Með fyrirvara um þessa óvissu gerum við ráð fyrir að sætaframboð Icelandair aukist um 5% á næsta ári.

 

Útflutningstekjurnar dragast saman um 34 ma.kr.

Við gerum ráð fyrir að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar verði 486 ma.kr. á þessu ári en til samanburðar námu þær 519 mö.kr. í fyrra. Samdrátturinn nemur 34 mö.kr., eða 6,5%. Það er töluvert minni samdráttur en nemur hlutfallslegri fækkun ferðamanna á árinu. Minni samdráttur skýrist af því að neysla hvers ferðamanns í erlendri mynt mun vaxa töluvert milli ára vegna breytingar á samsetningu ferðamanna eftir fall WOW air en þessu til viðbótar mun töluverð veiking krónunnar frá í fyrra einnig hafa mikil áhrif. Við gerum ráð fyrir að útflutningur farþegaflugs á þessu ári verði 143 ma.kr. og dragist saman um tæpa 39 ma.kr., eða 21,5%. Útflutningur vegna ferðalaga mun nema 343 mö.kr. samkvæmt spá okkar og aukast um 6 ma.kr. eða 1,6%. Samdrátturinn í útflutningi ferðaþjónustu á þessu ári skýrist því nær eingöngu af samdrætti í farþegaflugi. Árið 2020 teljum við að útflutningstekjurnar verði um 516 ma.kr. og aukist um 30 ma.kr. eða 6,1% milli ára. Sú aukning verður fyrst og fremst borinn af auknum útflutningstekjum vegna ferðalaga. Við gerum ráð fyrir að útflutningur vegna ferðalaga verði 368 ma.kr. á næsta ári og aukist um 25 ma.kr. eða 7,4%. Útflutningstekjur farþegaflugs munu samkvæmt spánni verða 147 ma.kr. og aukast um 4 ma.kr. eða 3%.

 

Óvissuþættir næstu ára

Eins og alltaf áður eru ýmsir óvissuþættir sem gætu haft veruleg áhrif á spárnar, bæði upp á við og niður á við.

Nú eru uppi hugmyndir um stofnun tveggja flugfélaga á grundvelli rústa WOW air. Verði af öðrum eða báðum þessum áformum er ljóst að áhrifin verða til meiri vaxtar. Áhrifin verða þó fremur lítil, a.m.k. til að byrja með, enda munu þau ekki bæta miklu við það framboð sem nú þegar er á flugsætum til og frá landinu. Töluverð óvissa ríkir um hvenær og þá jafnvel hvort að Boeing 737 MAX-þoturnar komist í gagnið. Komi þær fyrr en ella má gera ráð fyrir að aukning í framboði Icelandair á næsta ári verði ívið meiri en spáð er en minni ef frekari seinkanir verða. Annar óvissuþáttur sem bætist hér við er hvort að Icelandair vendi kvæði sínu í kross og semji við Airbus um kaup á nýjum þotum.

Gengi krónunnar verður rétt eins og alltaf mikilvægur þáttur. Eins og sést á þróun þessa árs hefur veiking hennar dregið mjög úr áhrifum þrots WOW air á tekjur íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja. Við gerum ráð fyrir stöðugu gengi en þó örlítilli veikingu krónunnar á spátímabilinu sem mun styðja við áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar.

Töluvert meiri svartsýni ríkir nú í alþjóðlegum efnahagsmálum en oft áður. Seðlabanki Evrópu hefur nýverið lækkað spá sína um hagvöxt á evrusvæðinu fyrir næsta ár úr 1,4% niður í 1,2%. Líkurnar á samdrætti í Bandaríkjunum á næsta ári hafa aukist töluvert á síðustu vikum og mánuðum. Hagvöxtur í heiminum hefur jafnan töluverð áhrif á þróun í heimsferðamennsku og er skemmst að minnast alþjóðafjármálakreppunnar 2009 en þá drógust ferðalög í heiminum saman um 4,2%.