Í tilefni af ferðaþjónusturáðstefnu Landsbankans fékk Hagfræðideild Gallup til þess að framkvæma könnun meðal aðildarfélaga Samtaka ferðaþjónustunnar. Í þessum kafla er fjallað um niðurstöður könnunarinnar sem leiddi m.a. í ljós að þrátt fyrir að árið hafi verið erfitt er víða vöxtur og bjartsýni hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.

26. september 2019

Úrtakið var 350 aðildarfélög samtakanna. Fjöldi svarenda voru 115 og var svarhlutfallið 33%, sem er með því betra sem gerist hjá þessum hópi. Alls voru spurningarnar 26 en þar af voru 5 bakgrunnsspurningar þar sem spurt var um fjölda stöðugilda, veltu, staðsetningu o.s.frv. Margar spurninganna voru nýjar í þessu samhengi og niðurstöðurnar því athyglisverðar. Neðst í kaflanum er tengill í PDF-skjal sem sýnir niðurstöðurnar myndrænt.

Bjartsýnni á tekjuvöxt næsta árs en þessa árs

Fyrirtæki í greininni eru mun svartsýnni á tekjuvöxt á þessu ári en því næsta en 41% fyrirtækja búast við tekjusamdrætti á þessu ári á meðan 21% búast við að tekjur dragist saman á árinu 2020. Um þriðjungur fyrirtækja býst við tekjuaukningu á þessu ári sem þarf ekki að koma svo mjög á óvart í ljósi þess hve mikið veiking krónunnar og aukin neysla erlendra ferðamanna í erlendri mynt eftir brotthvarf WOW air hefur vegið upp á móti áhrifum brotthvarfsins. Fyrirtækin eru almennt fremur bjartsýn en svartsýn á vaxtarmöguleika sína til næstu 2-3 ára. Ríflega þriðjungur telur möguleikana mikla en stærsti hópurinn, eða 43%, telur þá í meðallagi.

 

Gjaldþrot WOW air kom verst niður á Suðurnesjum

Um það bil 3 af hverjum 4 fyrirtækjum hafa ekki þurft að fækka stöðugildum vegna gjaldþrots WOW air. Í þeim tilvikum sem fækka þurfti stöðugildum var hlutfallsleg fækkun í langflestum tilfellum undir 20%. Um 40% fyrirtækja telja sig ekki hafa orðið fyrir neinu tekjutapi vegna gjaldþrots flugfélagsins. Ljóst er af könnuninni að gjaldþrot WOW air kom harðast niður á Suðurnesjum en 90% fyrirtækja starfandi þar sögðust hafa orðið fyrir tekjusamdrætti vegna gjaldþrotsins og einungis þriðjungur telur sig hafa komist hjá uppsögnum starfsmanna þess vegna.

Tæplega helmingur greip til uppsagna vegna kjarasamninga

Í könnun sem Samtök ferðaþjónustunnar létu framkvæma stuttu áður en skrifað var undir kjarasamninga í vor var ein megin ógnin að samið yrði um ríflegar launahækkanir. Þrátt fyrir að á endanum hafi verið samið um talsvert hóflegri launhækkanir en margir óttuðust bendir könnunin til þess að áhrifin af kjarasamningunum hafi verið töluverð. Um 46% fyrirtækja sögðust hafa þurft að fækka starfsfólki til að bregðast við samningunum. Til samanburðar töldu 28% fyrirtækja sig þurfa að fækka starfsmönnum vegna brottfalls WOW air og kunna áhrif kjarasamninganna á ferðaþjónustufyrirtæki því að hafa verið meiri en brotthvarf WOW air að þessu leyti. Stór hluti fyrirtækja, eða 40%, þurftu þó ekki að bregðast sérstaklega við samningunum með einhvers konar hagræðingaraðgerðum.

Lánasamsetning endurspeglar ekki tekjusamsetningu

Rúmlega helmingur svarenda fær a.m.k. 90% af tekjum sínum frá erlendum ferðamönnum. Um 86% af fyrirtækjunum fá meira en helming tekna frá erlendum ferðamönnum. Af þeim hópi má áætla að um 88% tekna þeirra komi frá erlendum ferðamönnum. Um 1 af hverjum 4 fyrirtækjum eru með einhvern hluta lána sinna í erlendri mynt. Sú niðurstaða kemur ágætlega heim og saman við útlánatölur en útlán bankakerfisins til ferðaþjónustunnar í erlendri mynt eru um fjórðungur af lánum til greinarinnar í dag. Þetta hlutfall hefur vaxið lítillega á síðustu árum.

Krónan er helsta áhyggjuefnið

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að helsta áhyggjuefni ferðaþjónustufyrirtækja er gengisþróun krónunnar, bæði á þessu ári og til næstu ára. Mun stærri hópur telur að krónan muni veikjast á næstu 12 mánuðum en að hún muni styrkjast en 44% telja að krónan veikist áfram. Þrátt fyrir þessar væntingar gera fyrirtækin ráð fyrir að samkeppnishæfni greinarinnar muni frekar veikjast en styrkjast á næsta ári en fjórðungur telur að samkeppnishæfnin muni ekki breytast milli 2019 og 2020.

 

41% fyrirtækja búast við tekjusamdrætti á árinu

Mun fleiri fyrirtæki í könnuninni telja að þau verði fyrir tekjusamdrætti á þessu ári en sá fjöldi sem býst við auknum tekjum. Þannig segjast 41% fyrirtækja búast við tekjusamdrætti á árinu. Það sem unnið hefur verulega upp á móti fækkun erlendra ferðamanna á þessu ári er bæði umtalsverð gengisveiking krónunnar frá síðasta ári, en einnig aukin neysla erlendra ferðamanna í þeirra eigin gjaldmiðli eftir brotthvarf WOW air. Annars staðar í ritinu er fjallað um þróun veltu í ýmsum undirgreinum ferðaþjónustu. Um þriðjungur fyrirtækja telur að tekjur muni aukast miðað við fyrra ár. Um fjórðungur telur tekjurnar verða óbreyttar. Sé tekjubreytingin skoðuð eftir aldri fyrirtækja gera yngstu fyrirtækin (0-3 ára) ráð fyrir marktækt1 meiri tekjuaukningu en þau sem eldri eru. Almennt gera tekjuminni fyrirtæki ráð fyrir að vaxa meira en þau tekjumeiri. Fyrirtæki á Suðurlandi og Suðurnesjum gera ráð fyrir að vaxa meira en fyrirtæki annars staðar á landinu.


1 Hér er átt við tölfræðilega marktækni. Með því að segja að marktækur munur hafi verið á svörun hópanna eftir aldursbili er verið að segja að það séu litlar líkur á að það að mismunur hafi mælst hafi komið til vegna tilviljunar. Yfirgnæfandi líkur eru því á að raunverulegur munur hafi verið á svörum yngsta aldurshópsins gagnvart hinum aldurshópunum.

Fyrirtækin mun bjartsýnni á tekjuvöxt næsta árs

Fyrirtækin eru mun bjartsýnni á tekjuþróun milli áranna 2019 og 2020 en á milli áranna 2018 og 2019. Þannig gera 44% fyrirtækja ráð fyrir tekjuvexti milli 2019 og 2020 en hér skiptir máli að fyrirtækin gera almennt ráð fyrir veikingu krónunnar milli áranna 2019 og 2020. Um fimmtungur, eða 21% fyrirtækja, gera ráð fyrir tekjusamdrætti. Hér gildir einnig að yngri fyrirtækin eru mun bjartsýnni á tekjuauka en þau sem eldri eru. Einnig gildir almennt að eftir því sem fyrirtækin eru með færri starfsmenn og tekjurnar minni þeim mun meiri tekjuaukningu gera þau ráð fyrir. Aldur, tekjur og fjöldi starfsmanna fylgist því augljóslega að.

Fyrirtækin örlítið bjartsýnni á EBITDA þessa árs

Þróun EBITDA2 á síðasta ári var í samræmi við væntingar í tæplega helmingi tilfella en í litlu lægra hlutfalli var EBITDA undir væntingum. Í einungis 5% tilfella var EBITDA yfir væntingum. Væntingar um EBITDA á þessu ári skiptast ekkert ósvipað og á síðasta ári en heldur má þó greina aukna bjartsýni um rekstrarniðurstöðu þessa árs. Tvöfalt hærra hlutfall telur að EBITDA verði yfir væntingum en á síðasta ári. Einnig er hlutfall þeirra sem telur að EBITDA verði undir væntingum ögn lægra á þessu ári en í fyrra. 

Séu EBITDA-væntingar skoðaðar miðað við aldur fyrirtækja, veltu og starfsmannafjölda má greina að þeim mun yngri, veltuminni og fámennari sem fyrirtækin voru þeim mun ánægðari voru þau með þróun EBITDA síðasta árs. Svipað er uppi á teningnum varðandi væntingar fyrir þetta ár. Þannig eru fámennari og veltuminni fyrirtæki bjartsýnni á EBITDA þessa árs.


2 Stendur fyrir rekstrarhagnað fyrir afskriftir.

Áhrif af brottfalli WOW air minni en búast mátti við – áhrifin greinilega mest á Suðurnesjum

Á síðustu árum myndaði WOW air stóran hluta þeirrar loftbrúar sem flutti ferðamenn til og frá landinu. Því blasti við að gjaldþrot flugfélagsins myndi hafa töluverð áhrif á íslenska ferðaþjónustu, a.m.k. til skemmri tíma litið. Hversu mikið var þó erfitt að segja fyrirfram. Könnunin bendir til þess að áhrifin af brottfalli WOW air hafi líklega verið minni en margir bjuggust við.

Fjórðungur fyrirtækja fækkað starfsfólki vegna brotthvarfs WOW air

Tæplega 72%, eða um 3 af hverjum 4 fyrirtækjum, hafa ekki þurft að fækka stöðugildum vegna falls WOW air. Af þeim fyrirtækjum sem hafa þurft að fækka var fækkunin innan við 10% hjá rúmlega 40% fyrirtækja. Sé litið framhjá áhrifum uppsagna starfsmanna WOW air virðast því áhrifin af falli flugfélagsins hafa einskorðast við tiltölulega lítinn hluta ferðaþjónustunnar. Þar sem fall WOW air leiddi til fækkunar var fækkunin hlutfallslega mest í fjölmennustu fyrirtækjunum (þeim sem telja 31 eða fleiri starfsmenn) og einnig hjá veltumestu fyrirtækjunum (yfir 500 m.kr. ársvelta). Séu áhrifin skoðuð eftir landsvæðum er greinilegt að fyrirtæki á Suðurnesjum hafa orðið fyrir mestum neikvæðum áhrifum. Einungis þriðjungur þeirra hefur komist hjá uppsögnum en af þeim fyrirtækjum sem sögðu upp þurfti rúmlega helmingur þeirra að segja upp 1-20% starfsmanna sinna og 11% fyrirtækjanna hafa þurft að segja upp meira en 60% starfsmanna.

40% fyrirtækja hafa ekki orðið fyrir neinu tekjutapi vegna falls WOW air

Um 61% fyrirtækja svara spurningu um tekjutap játandi en 39% neitandi. Það er athyglisvert að svo hátt hlutfall fyrirtækja hafi ekki orðið fyrir neinu tekjutapi. Hér kann þó að skipta máli að mat á þessu er ekki einfalt og líklegt að fjöldi fyrirtækja hafi ekki tíma, fjármuni eða mannafla til að greina þetta í hörgul. Það sem kann að skekkja matið er að veiking krónunnar og aukin neysla erlendra ferðamanna í þeirra eigin mynt hefur haft tekjuaukandi áhrif á íslenska ferðaþjónustu.

Tekjusamdrátturinn er breytilegur eftir flokkum fyrirtækja. Sem dæmi skera fámennustu fyrirtækin sig frá hinum með marktækum hætti. Þannig finna fyrirtækja með 1-5 starfsmenn minna fyrir tekjusamdrætti en fjölmennari fyrirtæki, en 40% fámennustu fyrirtækjanna segjast hafa fundið fyrir samdrætti. Lægsta hlutfallið hjá fjölmennari fyrirtækjum var rúmlega 60% en þetta voru fyrirtæki með 6-15 starfsmenn. Könnunin sýnir þó á móti að af fámennustu fyrirtækjunum sem fundu fyrir samdrættinum var hann hlutfallslega meiri en hjá fjölmennari fyrirtækjum.

Veltuminnstu fyrirtækin fundu síður fyrir samdrætti

Það að lægra hlutfall fámennari fyrirtækja hafi fundið fyrir samdrættinum rímar einnig við áhrif tekjusamdráttar eftir veltu fyrirtækja. Um 43% veltuminnstu fyrirtækjanna (með 0-100 m.kr.) segjast hafa orðið fyrir samdrætti og er það hlutfall einnig marktækt frábrugðið stærri fyrirtækjum. Hlutfallið var yfir 70% hjá stærri fyrirtækjum. Einnig gildir um þetta að veltuminnstu fyrirtækin sem þó fundu fyrir samdrætti upplifðu hlutfallslega meiri samdrátt en stærri fyrirtæki.

Suðurnesin urðu verst úti

Það er ljóst af könnuninni að Suðurnesin virðast hafa fundið mest fyrir brotthvarfi WOW air. Þannig töldu 90% fyrirtækja þar sig hafa orðið fyrir tekjutapi. Af þeim fyrirtækjum sem fundu fyrir samdrætti á Suðurnesjum bendir könnunin til þess að hlutfallslegur samdráttur hafi einnig verið meiri þar en á öðrum svæðum.

Norður- og Austurland fundu minnst fyrir falli WOW air

Höfuðborgarsvæðið kom næst á eftir Suðurnesjum en 78% fyrirtækja þar segjast hafa fundið fyrir samdrætti vegna gjaldþrots WOW air. Hlutfallslega fæst fyrirtæki á Norðurlandi (42%) og Austurlandi (44%) virðast hafa fundið fyrir tekjusamdrætti. Þetta eru þau svæði landsins sem hafa upplifað langmestu fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna á hótelum það sem af er ári. Fjölgun gistinátta á Norðurlandi á fyrstu 7 mánuðum ársins nam 16,4% en 15,8% á Austurlandi. Sem dæmi um hversu mikið þessi svæði skera sig frá öðrum var næstmesta fjölgun gistinátta á Suðurnesjum en þar var hún 0,9%.


 

Áhrif af gjaldþroti WOW air mest í gistingu

Af einstökum greinum ferðaþjónustunnar voru það fyrirtæki í gistingu sem fundu mest fyrir falli WOW air en 72% þeirra sögðust hafa orðið fyrir áhrifum. Hlutfallið var lægst í afþreyingu (52%) og ferðaskrifstofum (54%). Fyrirtæki í gistingu sem fundu fyrir samdrættinum virtust upplifa hlutfallslega meiri samdrátt en fyrirtæki í annars konar starfsemi. Á sama hátt var það þannig að þau fyrirtæki í afþreyingu og ferðaskrifstofum sem fundu fyrir samdrætti fundu hlutfallslega minna fyrir honum en fyrirtæki í annars konar starfsemi.

Flest fyrirtæki fundu fyrir hlutfallslega litlum samdrætti vegna brotthvarfs WOW air

Könnunin bendir til þess að tekjumissir ferðaþjónustufyrirtækja hafi orðið hlutfallslega minni en farþegafjöldi WOW air gaf tilefni til að ætla.

Af þeim fyrirtækjum sem töldu sig hafa orðið fyrir tekjumissi vegna falls WOW air sögðu flest fyrirtækin, eða rúm 40%, að tekjumissirinn lægi á bilinu 1-10%. Um þriðjungur hafði tapað 11-20% tekna sinna og því 3 af hverjum 4 fyrirtækjum sem urðu fyrir minna en 20% tekjumissi. Um 10% fyrirtækja urðu fyrir 31% samdrætti eða meira. Til samanburðar stóð WOW air á bak við 34% af flugframboð til og frá landinu á síðasta ári.

Áhrif kjarasamninga á störf í ferðaþjónustu meiri en fall WOW air?

Nýir kjarasamningar voru samþykktir í vor. Í þeim var m.a. samið um krónutöluhækkanir í launatöxtum með það að markmiði að lægstu launin hækkuðu hlutfallslega mest. Þar sem meðallaun í vissum ferðaþjónustugeirum eru lægri en meðallaun á vinnumarkaði almennt er líklegt að launakostnaður fyrirtækja í þeim geirum hafi hækkað hlutfallslega meira en meðalhækkun launa. Þannig svöruðu tæplega helmingur, eða 46% fyrirtækja, að þau hafi þurft að bregðast við nýjum kjarasamningi með fækkun starfsfólks. Til samanburðar sögðu 28% svarenda að þeir hafi þurft að grípa til uppsagna vegna falls WOW air. Af þessu má ætla að hækkun launakostnaðar hafi haft víðtækari áhrif á fjölda starfa í ferðaþjónustu en brottfall WOW air. Ekki er þó hægt að fullyrða um fjölda uppsagna í báðum tilfellum þar sem ekki liggur fyrir samanburður á fjölda uppsagna vegna kjarasamninga annars vegar og falls WOW air hins vegar.

Mun lægra hlutfall fyrirtækja virðist hafa gripið til þess ráðs að hækka verð á vöru og þjónustu, eða 17%. Hægt var að velja fleiri en tvo svarmöguleika og því mögulegt að einhver fyrirtæki hafi bæði fækkað fólki og hækkað verð. Um 40% fyrirtækja þurftu ekki að grípa til neinna sérstakra aðgerða. Tæplega 6% svarenda greip til sameininga/samruna við annað fyrirtæki.

Stærð fyrirtækja og aldur höfðu mikið að segja varðandi viðbrögð við falli WOW air. Þannig var hlutfall yngstu, fámennustu og veltuminnstu fyrirtækjanna sem greip til uppsagna almennt séð lægra en hjá eldri, fjölmennari og veltumeiri fyrirtækjum.

Tekjur og lánsfjármögnun í krónum og erlendri mynt

Eins og við var að búast kemur stærsti hluti tekna ferðaþjónustufyrirtækja frá erlendum ferðamönnum. Yfir helmingur fyrirtækjanna fær 90-100% tekna sinna frá erlendum ferðamönnum. Þrjú af hverjum 4 fyrirtækjum fær yfir 70% af tekjum sínum frá erlendum ferðamönnum. Aðeins 1 af hverjum 7 fyrirtækjum í ferðaþjónustu fær meira en helming tekna sinna frá innlendum ferðamönnum. Mismunandi tekjuhlutfall frá erlendum ferðamönnum er líklega einn af þeim þáttum sem skýrir hvers vegna brottfall WOW air hafði jafn mismunandi áhrif innan ferðaþjónustunnar og raun ber vitni.

Um 86% fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni fá meira en helming tekna sinna frá erlendum ferðamönnum. Af þessu má áætla að ferðaþjónustufyrirtæki fái um 86% tekna sinna frá erlendum ferðamönnun.

 

 

Langflest fyrirtæki einungis með lánsfjármögnun í krónum

Einnig var spurt út í lánsfjármögnun fyrirtækjanna. Niðurstaða könnunarinnar er sú að tæplega 3 af hverjum 4 fyrirtækjum eru eingöngu með lánsfjármögnun í krónum en 1 af hverjum 4 fyrirtækjum er með a.m.k. hluta fjármögnunar sinnar í erlendri mynt. Það hlutfall rímar við hagtölur um bankakerfið sem sýna að af útlánum til ferðaþjónustu hjá kerfislega mikilvægum bönkum1 voru um 24% lánanna í erlendri mynt í lok síðasta árs. Þetta hlutfall hefur vaxið hægt og bítandi á síðustu árum en það var í 17% í byrjun árs 2016.

Af þeim fyrirtækjum í könnuninni sem eru með erlenda lánsfjármögnun er fimmtungur með 0-20% fjármögnun í erlendri mynt og ríflega þriðjungur með 20-40% fjármögnun í erlendri mynt. Rúmlega helmingur er því með á bilinu 0-40% í erlendri mynt. Um 4% fyrirtækja í könnuninni eru eingöngu með lánsfjármögnun í erlendri mynt.

3 Þetta eru stóru viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki.

Hærra hlutfall erlendra lána hjá stærri fyrirtækjum

Sé litið til lánsfjármögnunar eftir veltu sést að stærri fyrirtæki eru almennt séð með hærra hlutfall af sínum lánum í erlendri mynt. Um 84% fyrirtækja með minna en 100 m.kr. í ársveltu eru eingöngu með lán í krónum en þetta á við um 58% fyrirtækja sem eru með yfir 500 m.kr. í ársveltu. Af þeim fyrirtækjum sem eru með mesta starfsmannafjöldann (31 eða fleiri) voru 47% eingöngu með fjármögnun í krónum.

Bjartsýn á áframhaldandi veikingu krónunnar

Fyrirtækin eru almennt á því að á næstu 12 mánuðum muni krónan frekar veikjast en styrkjast. Þannig eru rúmlega 44% fyrirtækja á því að krónan muni veikjast á næstu 12 mánuðum. Um 53% telja að hún haldist óbreytt. Einungis 2,8% eru á því að krónan muni styrkjast. Þessar niðurstöður benda til ákveðinnar bjartsýni meðal aðila í ferðaþjónustu enda ljóst að samkeppnishæfni þeirra batnar með veikari krónu. Af þeim sem telja að hún muni veikjast telur einungis lítill hluti að hún muni veikjast mikið.

Gengismálin skipta mestu máli

Gengi krónunnar hefur mikil áhrif á rekstur ferðaþjónustu rétt eins og annan útflutning. Það þarf því ekki að koma á óvart að af öllum þeim þáttum sem fyrirtækin segi að skipti mestu máli á þessu ári séu gengismál efst á blaði. Ríflega helmingur telur að gengismál skipti mestu máli en 45% segir hagræðingu í rekstri skipta mestu máli. Þar á eftir koma markaðsmál (41%) og kjaramál/launaþróun (37%). Um fimmtungur fyrirtækja segir vaxtakostnað skipta mestu máli.

Telja að samkeppnishæfnin versni þrátt fyrir veikari krónu

Í ljósi þess að fyrirtækin eru almennt á því að krónan muni fremur veikjast en styrkjast skýtur kannski dálítið skökku við að töluvert fleiri telja að samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar muni versna á árinu 2020 en sá fjöldi sem telur að hún muni batna. Þannig telja 47% aðspurðra að samkeppnishæfnin muni versna á næsta ári, ríflega fjórðungur telur að hún muni batna en fjórðungur telur að hún verði óbreytt.

Krónan er mesta rekstrarógnin á næstu árum

Þegar kemur að ógnunum til næstu 3-5 ára í rekstrarumhverfinu eru það einnig gengismálin sem skipta mestu máli en ríflega helmingur, eða 53,8%, segja að gengismálin verði mesta ógnin í rekstrinum til næstu ára. Næstu ógnir þar á eftir eru með nánast sama hlutfallið (35,3-36,5% ) en það eru ólögleg starfsemi, kjaramál og verðlag. Hin tvö síðastnefndu eru þó augljóslega háð gengisþróuninni og því að einhverju leyti um að ræða hina hliðina á sama peningnum.

Óstöðugleiki það sem fyrirtækin hræðast mest í samgöngum

Það hefur sýnt sig á síðustu árum að mikilvægasti þátturinn í vexti ferðaþjónustunnar er flugframboð til landsins. Aðspurð um helstu ógnanir í samgöngum á næstu árum segja 4 af hverjum 5 fyrirtækjum óstöðugleika vera helstu ógnina. Hér var hægt að velja fleiri en einn svarmöguleika og nefndi ríflega helmingur framtíð Icelandair. Um fjórðungur taldi stækkun flugstöðvarinnar í Keflavík vera helstu ógnina og 6% sögðu annað.

Vaxtarmöguleikar til næstu ára

Aðspurð um vaxtarmöguleika til næstu ára töldu rúmlega þriðjungur fyrirtækja að þeir væru miklir. Til samanburðar taldi ríflega fimmtungur að þeir væru litlir en 43% að þeir væru í meðallagi. Það þarf ekki að koma á óvart að væntingar um vaxtarmöguleika væru bundnar aldri, fjölda stöðugilda og veltu. Þannig voru yngstu fyrirtækin bjartsýnni á vaxtarmöguleika en eldri fyrirtæki. Fámennari fyrirtæki voru bjartsýnni en fjölmennari og veltuminnstu fyrirtækin bjartsýnni en þau veltumeiri.


 

Flestir sögðu mikla samkeppni vera í sinni grein

Ríflega 3 af hverjum 4 fyrirtækjum sögðu mikla samkeppni vera til staðar í sinni atvinnugrein. Einungis 4,5% sögðu litla samkeppni vera og 17% sögðu samkeppnina í meðallagi. Það var nokkuð greinileg þróun eftir aldri fyrirtækjanna. Þannig var þróunin sú að samkeppnin var metin minni eftir því sem fyrirtækin voru yngri. Það kann að skýrast af því að ný fyrirtæki hafi komið inn á markaðinn á allra síðustu árum með sérhæfða þjónustu sem var ekki til áður. Einnig var samkeppnin meiri eftir því sem tekjur þeirra voru meiri. Samkeppnin var metin meiri hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu en utan þess.

Um könnunina

Um var að ræða netkönnun sem var gerð dagana 27. ágúst til 3. september. Í kaflanum var fjallað um niðurstöður einstakra spurninga en einnig um mismun á svörum eftir bakgrunnsbreytum sem eru t.d. fjöldi stöðugilda, starfsvæði og undirgrein. Stundum mátti sjá mun í svörun eftir bakgrunnsbreytum. Hann var þó í fæstum tilfellum tölfræðilega marktækur og var tekið sérstaklega fram í kaflanum ef svo var. Engu að síður gaf hann góða vísbendingu um mun í svörun eftir bakgrunnsbreytum.

Könnunin í heild sinni