Eftir áföllin sem ferðaþjónustan hefur orðið fyrir í tengslum við fall WOW air og vandamál Icelandair vegna Boeing 737-MAX flugvélanna liggur nokkuð beint við að þörf er fyrir aukna hagræðingu í ferðaþjónustu. Ein birtingarmynd slíkrar hagræðingar verður vafalaust fækkun fyrirtækja og þar með starfsfólks í greininni, allavega í einhvern tíma í kjölfar hagræðingar.
Laun í ferðaþjónustu
Hagstofan fór að birta launavísitölu fyrir rekstur gististaða og veitingarekstur í upphafi ársins 2019. Nothæfar upplýsingar fyrir launaþróun í greininni fram að þeim tíma eru litlar. Upplýsingar Hagstofunnar um launaþróun í þessum undirgreinum ferðaþjónustunnar ná frá janúar til maí 2019. Þótt hér sé um skamman tíma að ræða er hægt að meta áhrif kjarasamninganna frá því vorið 2019 á greinina.
Launavísitalan fyrir allan vinnumarkaðinn hækkaði um 2,9% frá desember 2018 fram í júní 2019. Á sama tíma hækkaði launavísitalan fyrir rekstur gististaða og veitingarekstur um 6,1%. Þetta var mesta hækkun vísitölunnar sem mældist á þessum tíma, næst hæsta gildið var fyrir starfsstéttina þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk, sem hækkaði um 5,7%, og skrifstofufólk, sem hækkaði um 4,4%.