Í júlí 2017 unnu 15,7% launþega í landinu í ferðaþjónustu og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Síðan hefur dregið nokkuð úr og í júlí 2019 unnu 14,2% launþega í ferðaþjónustu. Í þessum kafla er m.a. fjallað um starfsfólk í ferðaþjónustu, launaþróun og stöðu erlends starfsfólks.

26. september 2019

Í upphafi árs 2008 samsvaraði fjöldi launþega í ferðaþjónustu um 7,1% launþega í öllu hagkerfinu. Þetta hlutfall var komið niður í 6,6% í janúar 2009 en tók að hækka eftir það. Uppgangur ferðaþjónustunnar var mikill á næstu árum og má segja að hún hafi tekið við mest allri fjölgun launþega í landinu.

Ferðaþjónustan er nokkuð sveiflukennd grein sem kallar til sín mun fleira starfsfólk yfir sumarmánuðina en á veturna. Á það einkum við um ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Því er betra að nota hlaupandi meðaltöl til þess að sýna þróunina eins og hér er gert.

Sé litið á breytingar á fjölda starfsfólks milli ára sést að ferðaþjónustan fór úr mikilli fækkun á ársgrundvelli yfir í u.þ.b. 8% fjölgun á stuttum tíma milli 2008 og 2010. Eftir það varð aukning í fjölda launþega verulega mikil, allt frá 8% til 21% á ári allt fram til loka ársins 2016. Fjölgun starfsfólks í greininni var mun meiri en í hagkerfinu í heild. Frá árinu 2017 hefur verulega hægt á fjölgun starfa í ferðaþjónustu og á á þessu ári hefur verið um fækkun að ræða, í fyrsta sinn síðan árið 2009. Í júlí sl. voru þannig rúmlega 9% færri launþegar í ferðaþjónustu en í júlí 2018.

Greinar innan ferðaþjónustunnar eru mismunandi mannaflsfrekar. Veitingasala og -þjónusta kalla á mesta mannaflann. Rekstur gististaða og farþegaflutningar með flugi eru næstar í röðinni. Í öllum þessum greinum var um mikla fjölgun starfsfólks að ræða, en þó var töluverður munur á. Sé fjöldi launafólks settur sem 100 á árinu 2018 sést að fjöldi starfsfólks hafði meira en fjórfaldast hjá ferðaskrifstofum, ferðaskipuleggjendum og bókunarþjónustu á árunum eftir 2017. Næst mesta hlutfallslega fjölgunin var í rekstri gististaða.


 

Samsetning starfa innan greinarinnar hefur því breyst dálítið á síðustu árum. Mesta breytingin hefur verið í veitingasölu og -þjónustu, en um helmingur starfsfólks í ferðaþjónustu vann í veitingarekstri á árunum 2008 og 2009. Starfsfólki í veitingarekstri fjölgaði ekki eins mikið og í öðrum greinum ferðaþjónustu fram til 2017 og því minnkaði hlutfall greinarinnar innan ferðaþjónustu niður í 36% á árinu 2018. Að sama skapi hefur verið mikil hlutfallsleg fjölgun á starfsfólki gististaða, úr 17% af ferðaþjónustu allri upp í 23% á árinu 2018. Þá hefur einnig orðið mikil hlutfallsleg fjölgun starfsfólks á ferðaskrifstofum og tengdri starfsemi, úr 7% af mannafla í greininni 2008 upp í 14% á árinu 2018.

Eftir áföllin sem ferðaþjónustan hefur orðið fyrir í tengslum við fall WOW air og vandamál Icelandair vegna Boeing 737-MAX flugvélanna liggur nokkuð beint við að þörf er fyrir aukna hagræðingu í ferðaþjónustu. Ein birtingarmynd slíkrar hagræðingar verður vafalaust fækkun fyrirtækja og þar með starfsfólks í greininni, allavega í einhvern tíma í kjölfar hagræðingar.

Laun í ferðaþjónustu

Hagstofan fór að birta launavísitölu fyrir rekstur gististaða og veitingarekstur í upphafi ársins 2019. Nothæfar upplýsingar fyrir launaþróun í greininni fram að þeim tíma eru litlar. Upplýsingar Hagstofunnar um launaþróun í þessum undirgreinum ferðaþjónustunnar ná frá janúar til maí 2019. Þótt hér sé um skamman tíma að ræða er hægt að meta áhrif kjarasamninganna frá því vorið 2019 á greinina.

Launavísitalan fyrir allan vinnumarkaðinn hækkaði um 2,9% frá desember 2018 fram í júní 2019. Á sama tíma hækkaði launavísitalan fyrir rekstur gististaða og veitingarekstur um 6,1%. Þetta var mesta hækkun vísitölunnar sem mældist á þessum tíma, næst hæsta gildið var fyrir starfsstéttina þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk, sem hækkaði um 5,7%, og skrifstofufólk, sem hækkaði um 4,4%.

Í samningunum hækkuðu laun allra um kr. 17.000 og sé gengið út frá áhrifum þeirrar hækkunar má ætla að meðallaun í greininni séu með því allra lægsta sem þekkist, eða undir kr. 300.000. Ýmsir aðrir þættir kunna líka að hafa áhrif á launavísitöluna, en margt bendir til þess að meðallaun í greininni rekstri gististaða og veitingarekstri séu með því allra lægsta sem gerist.

Staða erlendra starfsmanna í ferðaþjónustu

Hagtölur um stöðu erlendra starfsmanna í ferðaþjónustu eru frekar rýrar. Atvinnuleysi erlendra starfsmanna er flokkað eftir atvinnugreinum og er þar að finna greinina gisting og veitingar. Þar má sjá að atvinnulausir útlendingar í greininni voru 453 í apríl 2019 sem þá var 18% af atvinnulausum útlendingum. Í apríl 2018 voru 274 erlendir starfsmenn atvinnulausir í greininni sem var þá um 20% atvinnulausra útlendinga. Tölur um atvinnulausa erlenda starfsmenn eru ekki kyngreindar eftir atvinnugreinum.

Í febrúar 2019 héldu þær Magnfríður Júlíusdóttir og Íris H. Halldórsdóttir fyrirlestur á vegum Ferðamálastofu. Þar komu fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar um fjölda erlendra starfsmanna í ferðaþjónustunni.

 

 

 

Hlutfall erlendra starfsmanna í ferðaþjónustu hefur aukist mikið á síðustu árum. Þannig voru 49% starfsmanna í gististarfsemi erlendir starfsmenn á árinu 2017 og hafði hlutfall þeirra aukist úr 27% á árinu 2009. Hlutfall erlendra starfsmanna í veitingaþjónustu var 24% á árinu 2017 og 23% í skrifstofustörfum innan ferðaþjónustu.

Um þrír af hverjum fjórum erlendum starfsmönnum í ferðaþjónustu unnu í gisti- og veitingastarfsemi á árinu 2017, þannig að yfirgnæfandi fjöldi útlendinga í greininni starfar í þessum tveimur undirgreinum.

Hlutfall erlendra starfsmanna er nokkuð mismunandi eftir svæðum á landinu. Þannig voru rúmlega 40% starfsmanna í ferðaþjónustu á Suðurlandi á árinu 2017 erlendir og 37% á Austurlandi. Lægst var hlutfall erlendra starfsmanna 15% á Norðurlandi eystra og 18% á Vestfjörðum 2017.

 

 

 Fjöldi erlendra launþega í ferðaþjónustunni er mismunandi eftir svæðum og fjölgun þeirra mismikil. Eðli málsins samkvæmt eru flestir erlendir starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu. Þeir voru rúmlega 4.200 á árinu 2017. Á milli áranna 2009 og 2017 fjölgaði erlendum starfmönnum mest á Suðurnesjum, eða um 769%. Minnsta fjölgunin var á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili, eða 227%. Alls fjölgaði erlendum starfsmönnum í ferðaþjónustu um tæplega 5.800 manns, eða um 333%.