Rapp er á góðri leið með að yfirtaka íslenska tónlist. Tónlistin, fötin og menningin eru alls staðar, rapp hefur yfirburði á vinsældalistum og nánast í hverri viku spretta upp nýir, fullmótaðir tónlistarmenn. Hvernig varð þessi sprenging og hvað þýðir hún?

27. október 2017 - Jóhann Kristófer Stefánsson

Það eru einhverjir áratugir síðan rapp fór fyrst að heyrast á Íslandi, en þróunin var hæg. Frá því í byrjun 10. áratugarins fór rapp-senan vaxandi hægt og bítandi á jaðri íslensku tónlistarsenunnar. Það fékk stundum að vera í gestahlutverki hjá vinsælustu popphljómsveitunum en annars vakti það takmarkaða almenna athygli lengi vel. Ákveðnir skemmtistaðir borgarinnar studdu þétt við bakið á stefnunni en þar má helst nefna Prikið, sem er enn þann dag í dag einn helsti bakhjarl íslensks rapp tónlistarfólks. Um og fyrir aldamótin hófst samt að margra mati fyrsta gullöld rapps á íslandi þegar hljómsveitir á borð við XXX Rottweiler-hunda, Subterranean og Quarashi stigu fram á stóra sviðið.

Tónlistarfólkið Góði ÚIfurinn, Dj. Snorri Ástráðs og Cell7 hafa verið mislengi að en þau deila öll brennandi áhuga á því sem þau eru að gera. Hér deila þau með okkur sýn sinni á það hvað gerir rappið jafn vinsælt og það er í dag.


Þessar hljómsveitir voru samt undantekningar, þrátt fyrir miklar vinsældir þá náðu nýir tónlistarmenn takmörkuðum vinsældum og þegar dró úr drifkrafti þeirra fáu stóru hvarf stefnan aftur í grasrótina. Þar lifði hún reyndar góðu lífi í tæpan áratug. Forgotten Lores, Skytturnar, Bæjarins Bestu, Emmsjé Gauti o.fl. héldu menningunni og rappáhangendum við efnið, en það var ekki fyrr en á sjálfan þjóðhátíðardaginn 2011 sem hin eiginlega gullöld hófst.

Gísli Pálmi markaði tímamót

Þann dag gaf lítt þekktur rappari að nafni Gísli Pálmi út lagið ‘Set Mig Í Gang’ á YouTube. Myndbandið og lagið var ólíkt öllu öðru íslensku rappi sem gefið hafði verið út. Í myndbandinu má sjá Gísla Pálma, beran að ofan við Range Rover jeppa. Hann geislaði af egói sem var allt of stórt til að geta sætt sig við að vera í einhverju aukahlutverki. Við þetta virtist eitthvað gerast, áhugi íslenskra ungmenna á rappi kviknaði aftur, og um leið tilfinning um að það gæti verið eitthvað stórt og alvöru.

Cell 7 - Ragna Kjartansdóttir

Ég vona að þessi bylgja fái að þróast áfram, þeir fáu sem voru að fyrir 10 árum síðan og héldu áfram eru bara orðnir drullugóðir núna.


 

Það sem Gísli Pálmi var að gera var alveg nýtt og mjög í takt við það sem var að eiga sér stað í Bandaríkjunum. Síðan þá hefur íslenskt rapp ekki verið undantekning, ekki gert með sér-íslenskum hætti heldur bara það sama og verið er að gera annarsstaðar, framleitt hér. Eftir þennan örlagaríka þjóðhátíðardag árið 2011 hefur hver rapparinn á fætur öðrum stigið fram á sjónarsviðið en þar má til dæmis nefna Aron Can, Herra Hnetusmjör, Reykjavíkurdætur og JóaPé & Króla.

Rapp er popp

Það virðist gerast nánast vikulega að nýr listamaður kemur fram með slagara og ef mark er tekið á tölum sem nálgast má á Spotify er íslenska rappið alltaf að toppa sjálft sig. Efst á listum yfir vinsælustu lögin eru lög með glænýjum röppurum, einum eða saman í gestahlutverki hver hjá öðrum. Rapp lýtur engum öðrum lögmálum en annað popp, þetta er vinsæl tónlist og á Íslandi verður það fyrir áhrifum frá því sem er að gerast erlendis, þar er líka svipaða sögu að segja, vinsældalistarnir eru fullir af rapptónlist.

Góði Úlfurinn - Úlfur Emilio Machado Tinnuson

Það sem skiptir mestu máli í rappi er að syngja vel og finnast þetta skemmtilegt.


Styttri boðleiðir

En aðgengið að tónlistinni er nánast ótakmarkað og því vinsælla sem rapp verður því fleiri vilja taka þátt í leiknum og gera sína eigin tónlist. Það er heldur ekkert sem stendur í vegi fyrir því, það hefur líka orðið miklu aðgengilegra að búa til tónlistina. Tækin sem þarf til eru fá, það er ódýrt að búa hana til og eftirspurnin virðist endalaus. Kannski munar líka um það að einn eða tveir geta gert stóra hluti með einföldum hætti meðan áður þurfti að æfa saman fimm manna hljómsveit. Á sama tíma er minni krafa um að fullvinna heilar plötur. Það er nóg að gera eitt lag, koma því á þann sem þeytir skífum næstu helgi á Prikinu og fylgjast með gestum staðarins tryllast úr gleði. Það sem eitt sinn var draumur allra krakka en erfitt að framkvæma getur skyndilega orðið að veruleika, þau þurfa bara að vera til í að leggja vinnuna á sig.

Plötufyrirtækin keppast enn við að lokka hæfileikafólk til sín en það virðist kannski ekki enn hafa runnið upp fyrir þeim sem hafa spilað leikinn lengi að rapp er ein arðbærasta tónlistarstefna sem komið hefur fram lengi. Vegna linnulausrar eftirspurnar eru tækifærin til að að spila á böllum, árshátíðum og hverslags tónleikum mörg og í þeim felast mikil tækifæri.

Dj. Snorri Ástráðs - Snorri Ástráðsson

Til dæmis ef þú ert að fara á ball, eða að skemmta þér, rappið er „genre-ið“ sem virkar best í dag.

Áhuginn fyrir því að gefa út rapp eftir hefðbundnum leiðum hjá plötufyrirtækjum hefur samt verið takmarkaður. Það er þó ekki alslæmt. Það eru ótal leiðir til að koma tónlist á framfæri. Hver sem vill byrja þarf bara að koma tónlistinni út með einhverjum hætti og gera svo það sem hægt er til að koma sjálfum sér á framfæri. Vinnslutíminn er lítill, milliliðirnir fáir og þannig skapast þessi stöðugi straumur af nýjum listamönnum með nýjar hugmyndir sem einkenna þessa bylgju. Það er enn óskrifað hvað verður um íslenska rappið, hvort það yfirtekur markaðinn endanlega eða stígur aftur út á jaðarinn. Það er alla vega óumdeilanlegt að í dag á rappið sviðið.