„Það er magnað að sjá að kynslóðin á eftir mér er enn opnari, umburðalyndari og víðsýnni. Því það er ekkert sjálfsagt að það sé þróunin,“ segir Álfrún Perla Baldursdóttir. Hún var fjögurra ára gömul þegar pabbi hennar, Baldur Þórhallsson, og Felix Bergsson tóku saman. Álfrún Perla minnist þess ekki að hafa heyrt neikvæða hluti um fjölskyldugerð sína eða pabbana tvo en leggur áherslu á mikilvægi þess að leyfa hugsunarleysi og „málvenjum“ ekki að afsaka niðrandi talsmáta um hinsegin fólk.
„Vinum mínum fannst þetta allt saman mjög eðlilegt enda ekki vanir öðru. Það hjálpaði örugglega til að þegar ég byrja í Vesturbæjarskóla vorum við þrjú í mínum árangi sem áttum samkynhneigða foreldra. Margir héldu hins vegar að Gunni og Felix væru pabbar mínir en ekki Baldur og Felix og voru oft mjög forvitnir. Þegar ég var lítil var mun algengara að krakkar segðu „Helvítis homminn þinn!” þegar þau ætluðu að segja eitthvað ljótt við einhvern. Ég spurði þá oft, hvort sem ég átti hlut í samtalinu eða ekki, „Veistu hvað hommi er?” og í langflestum tilfellum kom sauðasvipur á krakkann og hann sagðist ekki vita hvað það væri. Þá sagði ég honum það og við sammæltumst um að það væri nú bara ekkert slæmt. Svo héldum við áfram að leika.“