Íslenska lífeyriskerfið er með þeim sterkustu sem til eru meðal lífeyriskerfa sem byggja á sparnaði. Um þarsíðustu áramót námu eignir lífeyrissjóðanna um 144% af landsframleiðslu. Stærð kerfisins er nokkuð einstök og af vestrænum löndum eru það einungis Hollendingar og Danir sem eru á svipuðum stað og við.

6. febrúar 2018 | Ari Skúlason

Þrátt fyrir þessa einstöku stöðu hvað stærð kerfisins varðar finnst mörgum pottur brotinn í stöðu lífeyrismála hér á landi, t.d. hvað varðar samhengið á milli eigin lífeyriseignar og lífeyris frá hinu opinbera. Lífeyriskerfi í hinum vestræna heimi eiga almennt undir högg að sækja um þessar mundir. Fjármálakreppa, lítill hagvöxtur og lítil ávöxtun á mörkuðum hafa torveldað ávöxtun lífeyriseigna. Fyrirtæki sem hafa séð sjálf um lífeyrismál starfsmanna sinna hafa átt erfitt með það og lífeyrisbyrði hins opinbera eykst stöðugt. Óvissa um skerðingar, lífeyrisgreiðslur og lífeyriskjör hefur því aukist mikið á síðustu árum þannig að framtíðarhorfur eru ekki jafn góðar fyrir alla.

Í Evrópu, þar sem hið opinbera greiðir út mest af lífeyrinum, snýst umræðan um lífeyrismál um „baráttu“ á milli kynslóða. Þeir yngri, sem eru á vinnualdri, eru í raun að greiða fyrir þá sem eru eldri og þegar þeim eldri fjölgar hlutfallslega meira þyngist byrði hinna ungu. Með lengingu vinnualdurs mætti minnka byrðina, öllum til góða. Þetta vandamál er sérstaklega stórt í löndum Mið og Suður-Evrópu, t.d. í Þýskalandi, á Spáni og Grikklandi. Því hefur verið haldið fram að með því að fresta lífeyristökualdrinum um tvö til tvö og hálft ár megi jafna áhrifin sem hækkandi aldur hefur á lífeyriskerfin.

Víða í Evrópu er byrði hins opinbera vegna eftirlauna veruleg, allt upp í 10-15% af landsframleiðslu þar sem mest er. Hér á landi var þessi byrði einungis um 2% af VLF á árinu 2011 á meðan hún var um 16% á Ítalíu. Hér er það lífeyriskerfi fólksins sjálfs sem greiðir út mest af lífeyrinum.

 

 

Óvissa um framtíðina verður oft til þess að eldra fólk eyðir minna en það gæti í raun og veru sem dregur úr áhrifum á neyslu og hagvöxt. Margir eru í þeirri stöðu að lífeyriseign þeirra er að miklu leyti bundin í fasteign og tekjur eru ekki sérstaklega miklar. Töluverð umræða hefur verið um að fjármála- og tryggingakerfin gætu staðið sig betur við að bjóða upp á lausnir þar sem eldra fólk gæti notað eignir sínar betur til þess að viðhalda neyslustigi sínu. Þetta mál er flókið að mörgu leyti. T.d. má líta þannig á að fram til þessa hafi margir sparað of lítið á meðan á starfsævinni stendur og fari svo að spara of mikið þegar starfsævinni lýkur. Of lítill sparnaður á starfsævinni þýðir að lífeyrissparnaður er minni en ella, sem aftur skapar þrýsting á opinber útgjöld til lífeyrismála. Of mikill sparnaður á elliárum gæti þýtt að fólk skilur of mikið eftir sig án þess að hafa notið lífsins til fulls. Kúnstin felst í því að ná jafnvægi í þessu öllu til þess að geta notið eigna sinna og tekna sem best.

Sá hugsanagangur að fólk komi fram á bjargbrún við 67 ára aldur og lifi eftir það á eignum sínum á væntanlega síður við nú en áður. Bilið á milli starfsloka og „gamalsaldurs“ hefur aukist og mun halda áfram að aukast. Sífellt fleiri munu vilja eða þurfa að vinna lengur og þar að auki verða þessi skil óskýrari vegna þess að fólk mun vilja meiri sveigjanleika, t.d. að geta notað eitthvað af sparnaði sínum fyrr á lífsleiðinni. Notkun séreignarlífeyris til þess að greiða inn á húsnæðislán hér á landi er vísir að sveigjanleika af þessu tagi. Með þessu hefur hinu hefðbundna hlutverki lífeyrissjóðanna verið breytt, hugsanlega til langframa.

 

 

Það getur falið í sér hættu að vanmeta ævilengd, eins og lífeyriskerfi fyrirtækja og einstakra landa hafa upplifað. Tímarnir voru aðrir og betri þegar loforð um góðan lífeyri voru gefin og sums staðar hefur reynst erfitt að uppfylla þau loforð. Opinber lífeyrir er meginuppistaða tekna eldra fólks í mörgum löndum innan OECD en það er mikill munur á milli landa. Lífeyrir sem hlutfall af fyrri tekjum er líka mjög mismunandi milli landa. Hlutfallið er t.d. undir 30% í Bretlandi og í kringum 40% í Bandaríkjunum, en getur náð um og yfir 80% í öðrum löndum. Samkvæmt tölum frá OECD var hlutfallið um 77% hér á landi árið 2014, sem er með því hærra sem gerist og hæsta hlutfall meðal Norðurlandanna.

Hér á landi hafa ráðstöfunartekjur elstu aldurshópanna hækkað meira en meðalráðstöfunartekjur allra á tímabilinu 1990-2016. Þar af hafa ráðstöfunartekjur 65-69 ára hækkað um 18% umfram meðaltalið og ráðstöfunartekjur 70-74 ára um 12% umfram meðaltal. Þarna skiptir styrking lífeyriskerfisins eflaust miklu máli. Sé litið á ráðstöfunartekjur elstu hópanna miðað við meðaltal allra kemur í ljós að aldurshópurinn 65-69 ára hafði 19% ráðstöfunartekjur umfram meðaltal allra á árinu 2016. Tekjurnar fara síðan nokkuð lækkandi eftir aldri og þeir sem eru 85 ára og eldri eru með ráðstöfunartekjur sem nema 72% af meðaltali allra.

 

 

Lífeyriskerfin hafa líka mjög víða verið að breytast úr kerfum þar sem eldra fólki er lofað að það fái ákveðnar tekjur eftir að vinnualdri lýkur (einstök fyrirtæki eða hið opinbera) yfir í kerfi þar sem fólk sparar og leggur fyrir til þess að tryggja lífeyrinn og ábyrgðin á ávöxtun er í höndum fólksins sjálfs eða sjóða í þeirra eigu. Svona er einmitt kerfið sem við þekkjum hér á landi. Í sumum löndum hefur ábyrgðin á lífeyrisgreiðslum þannig færst frá fyrirtækjum yfir á fólkið sjálft. Það gagnast fyrirtækjunum vel en setur miklar skyldur á fólk sem þarf að skipuleggja sig vel fyrir öll æviárin. Eins og áður segir eru margir á því að fjármálafyrirtæki og tryggingarfélög mættu bjóða upp á mun fleiri og betri lausnir til þess að auðvelda fólki að átta sig á þessari stöðu og vinna sem hagkvæmast úr henni.

Hér á landi höfum við lífeyrissjóði sem taka við lífeyrisgreiðslum fólks alla starfsævina, ávaxta inneignina eftir bestu getu og greiða fólki síðan lífeyri. Kerfið hér á landi hefur verið starfrækt það lengi að það er um það bil að vera sjálfbært, þ.e. þeim fjölgar sem hafa náð að greiða inn í kerfið alla starfsævina. Kerfið hér á landi er nokkuð einstakt, t.d. hvernig það tengist vinnumarkaðnum og kjarasamningum, og svo er það mjög stórt á alþjóðlegan mælikvarða.

Tilvera lífeyriskerfisins hér hefur orðið til þess að létta byrði hins opinbera af lífeyrisgreiðslum og sumir telja reyndar að hið opinbera sleppi allt of létt í þessu sambandi.