Sagan sýnir að þegar ný æviskeið komast í fókus sem samfélagsleg- og menningarleg fyrirbæri fylgja oft miklar breytingar í kjölfarið. Ný sýn á æskuna á 19. öld ruddi brautina fyrir barnaverndarlög og skólaskyldu og skapaði ýmis konar viðskiptatækifæri og iðnað á borð við leikfangaframleiðslu og útgáfu barnabóka. Þegar táningar urðu til sem hópur á miðri síðustu öld átti sá hópur eftir að skapa gífurlegar tekjur fyrir ýmsa framleiðendur.

6. febrúar 2018 | Ari Skúlason

Nú eru að verða álíka umfangsmiklar breytingar og unglingamenningin leiddi af sér, nema hvað nú eru það ekki unglingarnir sem valda umrótinu heldur eldra fólk. Fólki sem komið er á efri ár fjölgar mikið, það er við mun betri heilsu en áður og mun lifa lengur en áður. Þessi þróun mun hafa mikil áhrif á samfélagið og skapar bæði mikil tækifæri og áskoranir.

Fjölgun eldra fólks er raunar ein stærsta samfélagsbreytingin Íslendingar og flestar aðrar þjóðir munu standa frammi fyrir á næstu árum og áratugum. Íslendingar eru samt enn töluvert yngri þjóð en margar aðrar, þ.e. hlutfallslegur fjöldi eldra fólks er enn lægri hér en í öðrum löndum.

Í dag eru 65 ára og eldri rúmlega 14% Íslendinga. Árið 2039 gerir Hagstofa Íslands ráð fyrir að hlutfallið verði komið yfir 20% og árið 2057 yfir 25%. Fá árinu 2047 má reikna með að þeir sem eru 65 ára og eldri verði fleiri en þeir sem eru 19 ára og yngri sem er öfugt miðað við það sem nú er. Eins og áður segir gengur þessi þróun hægar hér, t.d. verður þriðjungur Evrópubúa eldri en 65 ára en „einungis“ fjórðungur hér í kringum 2060. Þróunin heldur áfram upp á við, aldurslega séð. Þannig telja Sameinuðu þjóðirnar að fjöldi þeirra sem eru eldri en 85 ára muni aukast tvöfalt meira en þeirra sem eru eldri en 65 ára og 16 sinnum meira en mannfjöldinn allur á milli 2010 og 2050. Í kringum 2060 munu Íslendingar sem eru 75 ára og eldri verða jafnt stórt hlutfall þjóðarinnar og 65 ára og eldri eru í dag.

 

 

 

Lýðfræðilega hafa þessar breytingar miklar afleiðingar. Svokallað framfærsluhlutfall sýnir hlutfall fjölda yngra fólks og aldraðra af fólki af vinnualdri. Með öðrum orðum sýnir framfærsluhlutfallið hversu stór hluti þjóðarinnar vinnur fyrir þeim sem ekki vinna, börnum og gamalmennum. Fram til þessa hefur framfærsluhlutfall þeirra yngri verið hærra en þeirra sem eldri eru. Þetta mun snúast við og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar verður það í kringum 2050. Þá verður eldra fólk fleira en yngsti hópurinn í fyrsta skipti í sögu okkar.

Samhliða þessu mun meðalævi Íslendinga lengjast verulega. Meðalævilengd karla við fæðingu hækkar þannig úr 79,6 árum á árinu 2016 upp í 84,3 ár árið 2065. Hjá konum fer meðalævin úr 83,6 árum árið 2016 í 88,6 ár árið 2065.

Um aldamótin töldu karlar um sextugt í Bandaríkjunum að heilsa þeirra væri almennt jafn góð og þeirra sem voru sjötugir upp úr 1970. Með öðrum orðum mætti segja að þeir sem áður voru sjötugir séu nú í kringum sextugt sé tekið mið af almennri heilsu fólks . Fólk lifir lengur og heilsa þess er betri en áður var.

Eins og áður segir þróast málin í þessa átt allsstaðar í heiminum. Í þróuðum löndum eru útgjöld til eftirlauna og heilsugæslu nú í kringum 16% af landsframleiðslu. Samkvæmt Alþjóða gjaldeyrissjóðnum munu þessi útgjöld verða um 25% af landsframleiðslu í lok aldarinnar, verði ekkert að gert.

 

Áhrif öldrunar á samfélag okkar verða miklar og víðtækar. Þar má t.d. nefna áhrif á jafnræði milli fólks og hópa. Sumir eru betur í stakk búnir en aðrir til þess að takast á við þessar breytingar og aðrir síður, t.d. hvað heilsu og fjármálastöðu varðar. Áhrifin á vinnumarkaðinn verða veruleg. Ætla má að áhugi eldra fólks á að vinna lengur aukist með betri heilsu og er umræða um seinkun lífeyristökualdurs víða komin á fullt skrið. Áhrifin á lífeyrissparnað fólks og lífeyrissjóði verða mikil. Víða er staðan sú að ekki er augljóst að sá lífeyrissparnaður sem nú er fyrir hendi dugi til þess að fólk geti lifað góðu lífi til æviloka. Betri heilsa og lengri ævi verður örugglega til þess að fólk geti og muni vilja búa lengur á eigin heimili en verið hefur. Ýmsar tæknibreytingar og bætt upplýsingastreymi hefur sífellt meiri áhrif á líf fólks, auðveldar það og gerir það fjölbreytilegra. Það á ekki síst við um líf eldra fólks.

Það er áleitin spurning hvernig fjármálakerfi heimsins, bankar og tryggingarfélög muni bregðast við þessari óumflýjanlegu þróun. Margar spurningar koma upp í því sambandi. Eldra fólk mun verða sterkur neysluhópur í framtíðinni og gera miklar kröfur. Í þessu sambandi verða til margir möguleikar og nýjar kröfur koma upp.

Landsbankinn telur mikilvægt að fylgjast með þessari þróun og fjalla um hana. Öldrun mun hafa áhrif á starfsemi banka eins og alla aðra starfsemi. Á næstunni mun því verða litið á ýmsar hliðar þessarar þróunar og þau áhrif sem breytingarnar munu hafa á samfélag okkar.